Mál nr. 458/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 458/2024
Miðvikudaginn 27. nóvember 2024
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.
Með rafrænni kæru, móttekinni 23. september 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2023.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2023 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 148.088 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu og innheimtu kröfunnar með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. maí 2024. Með erindi til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, dags. 3. júlí 2024, gerði kærandi athugasemdir við ákvörðun Tryggingastofnunar. Erindið var framsent til Tryggingastofnunar 7. ágúst 2024 og stofnunin rökstuddi ákvörðunina með bréfi, dags. 26. ágúst 2024.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 23. september 2024. Með bréfi, dags. 25. september 2024, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Þann 26. október 2024 bárust frekari athugasemdir frá kæranda sem voru sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dags. 30. október 2024. Með bréfi, dags. 4. nóvember 2024, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. nóvember 2024. Athugasemdir bárust frá kæranda sama dag og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. nóvember 2024. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru segir að öllum megi vera ljóst að á verðbólgutímum verði alltaf munur milli tekjuáætlunar og talna í lok árs. Og að íslenska krónan í upphafi árs verði ekki sú sama í lok árs. Þetta liggi einfaldlega í hlutarins eðli og eigi nánast við um alla lífeyrisþega Tryggingastofnunar ríkisins. Þau frávik sem komi upp séu fyrst og fremst af þessum orsökum og séu tengd afar veikum gjaldmiðli sem hafi alla tíð verið notaður til að „leiðrétta“ kaup og kjör launafólks og lífeyrisþega eftir kjarasamninga. Oftar en ekki með keðjuverkandi tengingu launa, bóta og fleira við verðbólgu með allra handa fráviksmörkum. Eiginlega sé óvinnandi verk fyrir t.d. lífeyris- og bótaþega að halda utan og uppfæra tekjuáætlun mánaðarlega með tölum Hagstofu um 1-2% hækkun verðlags, enda sé engin þörf á því þegar Skatturinn sé með „up to date“ gögn um alla skattgreiðendur. Það sé miklu eðlilegra fyrir Tryggingastofnun að uppfæra rafrænt flestar ef ekki allar tölur í tekjuáætlun heldur en fyrir leikmenn. Sem sé reyndar gert þegar uppgjör fyrir árið sé keyrt. En þegar Tryggingastofnun uppfæri ekki tekjuáætlun reglulega komi skiljanlega upp frávik en alls ekki vegna vanáætlunar því enginn viti hver verðbólgan verði þegar tekjuáætlun sé gerð.
Lögfræðingur Tryggingastofnunar viti að vegna verðbólgunnar hafi ekkert upp á sig að bera saman tölur á mismunandi tímum því þær séu ekki samanburðarhæfar. Það gangi ekki að leggja saman dollara og pund. Til að geta gert slíkan samanburð verði þær að vera á föstu verðlagi. Breytingar í kaupmætti séu alltaf mældar út frá föstu verðlagi. Þannig skipti 50% kauphækkun engu máli ef verðbólgan sé 50%.
Á föstu verðlagi verði munur milli upphæða tekjuáætlunar og Skattsins nánast enginn. Hækkun á lífeyri Tryggingastofnunar sé yfirleitt tengd verðbólgu til að viðhalda kaupmætti nema annað komi til eins og tenging við kjarasamninga. Þegar launafólk fái uppbót á laun vegna verðbólgu sé aldrei talað um ofgreiðslu heldur leiðréttingu vegna verðlagsbreytinga. Þetta viti lögfræðingurinn en rati samt á gildishlaðna orðið ofgreiðsla.
Þetta eigi einnig við um vexti fjármálafyrirtækja. Þeir séu oftast til að bæta upp skerðingu kaupmáttar og nái ekki einu sinni því markmiði eins og í þessa tilfelli. Vextir verði því verðbætur og alls ekki raunvextir. Til að mynda hafi vextir „LÍ“ verið um 1,5% undir verðbólgunni. Höfuðstóll innstæðu hafi því rýrnað á vaxtatímabilinu. Þrátt fyrir það hafi verið greiddur 22% fjármagnstekjuskattur af verðbótunum og allar fjármagnstekjurnar taldar fram sem tekjur til lækkunar á þeim bótum sem kæranda hafi borið að fá. Höfuðstóllinn hafi rýrnað umtalsvert með þessari eignaupptöku eða um 10%. Það sé ekki nýtt að verðbólgan sé notuð sem tekjustofn, t.d. þegar lífeyrir og bætur séu ekki beintengd við verðlagsþróun.
Endurgreiðslukrafa Tryggingastofnunar sé fyrst og fremst tilkomin vegna nefndra fjármagnstekna að fjárhæð 156.695 kr. og hins vegar vegna verðbólgu Tryggingastofnunar (216.000 kr.). Það sem veki spurningar sé nálgun Tryggingastofnunar á sparnaði lífeyrisþega. Vegna breytinga á höfuðstól inneigna 2023 vegna innlagna og á vöxtum sé hér áætlað að meðalhöfuðstóll inneignar hafi að jafnaði verið um 2.000.000 kr. árið 2003 og meðalvextir um 7,5% sem gefi þá nefnda vaxtaupphæð. Við 9% verðbólgu rýrni því þessi upphæð um 1,5%. Vextir verði þannig verðbætur þegar þeir séu lægri en verðbólgan. Af þeim sé hins vegar greitt 22% í fjármagnstekjuskatt. Síðan séu verðbæturnar reiknaðar líkt og atvinnutekjur og dregnar frá lífeyri.
Reiknireglur Tryggingastofnunar leiði til umtalsverðar skerðingar höfuðstólsins og ekki ofsögum sagt að með þessari aðferðafræði sé sumum fyrirmunað að spara. Um hreina eignaupptöku sé að ræða þar sem fórnarlömbin séu notuð sem tekjustofn fyrir Tryggingastofnun.
Í álitum og ársskýrslum umboðsmanns Alþingis hafi hann áréttað oftar en einu sinni að við meðferð deilumála átti menn sig illa á að þeir séu bundnir af þjóðréttarlegum skuldbindingum mannréttinda af ýmsu tagi. Hér leiði nálgun Tryggingastofnunar til eignaupptöku sem skerði m.a. möguleika lífeyrisþegans til framfærslu og jafnvel mannsæmandi lífs, sbr. mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasáttmála Evrópu. Samningsviðauki nr. 1 við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis fjalli m.a. um friðhelgi eignarréttar.
Nálgun Tryggingastofnunar virðist þannig meina lífeyrisþegum að spara. Þeir séu rændir sparnaðinum. Þetta ákvæði sé reyndar skilyrt, þ.e. rétturinn sé gefinn en síðan tekinn til baka. Hugsanlega eigi rétturinn til persónulegs öryggis betur við.
Það sé auðvitað nokkuð ljóst að ef Tryggingastofnun noti verðbólguna til að ganga á eigur lífeyrisþega sem skerði ráðrúm og athafnafrelsi einstaklings og þá eingöngu þeirra sem þiggi lífeyri frá Tryggingastofnun. Þessi mannamunur virðist stangast á við þau „siðferðisnorm“ sem liggi yfirleitt að baki sáttmálum/yfirlýsingum af þessu tagi.
Í athugasemdum kæranda frá 5. nóvember 2024 kemur fram að kærandi vilji leiðrétta þann misskilning að hann „fari um víðan völl“ og beini sjónum að atriðum sem Tryggingastofnun telji málinu óviðkomandi. Kærandi sé hagfræðingur, tölvufræðingur og félagsfræðingur og sé með doktorsgráðu í félagsheimspeki. Kæranda virðist sem lögfræðingar Tryggingastofnunar skilji ekki hvernig verðbólgan sé notuð í þessu tilfelli og mæli eindregið með því að einhver með bakgrunn í hagfræði og réttarheimspeki skoði málið. Það gangi einfaldlega ekki að fara eftir lögum sem brjóti í bága við mannréttindi. Lögfræðingar Tryggingastofnunar telji löglegt og réttmætt að nota verðbólguna til að hafa fé af lífeyrisþegum, þ.e. að gera verðbólguna að tekjustofni. Um það standi deilan.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærður sé endurreikningur tekjutengdra bóta ársins 2023.
Um útreikning ellilífeyris sé fjallað í IV. kafla laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í 33. gr. laganna sé að finna ákvæði um útreikning og endurreikning. Varðandi ofgreiðslu og vangreiðslu séu síðan ákvæði í 34. gr. laganna.
Í 47. gr. laganna sé kveðið á um upplýsingaskyldu umsækjenda og greiðsluþega. Þar segi að umsækjanda eða greiðsluþega sé rétt og skylt að taka þátt í meðferð málsins, m.a. með því að koma til viðtals og veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar séu svo unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Þá sé skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á bætur eða greiðslur.
Kærandi hafi verið ellilífeyrisþegi frá árinu 2016. Við endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2023 hafi heildargreiðslur á árinu 2023 reynst vera hærri en réttindi árið 2023 samkvæmt skattframtali 2024. Mismunurinn sé 216.028 kr. Þegar tekið sé tillit til staðgreiðslu skatta hafi skuld kæranda við Tryggingastofnun reynst vera 148.088 kr., sbr. bréf Tryggingastofnunar til kæranda frá 28. maí 2024.
Krafan hafi orsakast af því að hvoru tveggja lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur hafi reynst vera hærri samkvæmt skattframtali en tekjuáætlun kæranda hafi gert ráð fyrir, sbr. sundurliðun tekna í bréfi Tryggingastofnunar frá 28. maí 2024.
Kærandi fari um víðan völl í kæruskjali og ræði þar um áhrif verðbólgu og fleira. Sérfræðingar Tryggingastofnunar hafi kynnt sér málflutning kæranda, en telji hann ekki hafa eiginlegt gildi í málinu, þó að hann megi teljast gilt framlag til þjóðmálaumræðunnar.
Málstaður Tryggingastofnunar sé tjáður með fullnægjandi hætti í bréfi yfirlögfræðings stofnunarinnar, dags. 26. ágúst 2024:
„Vísað er til erindis þíns til félags- og vinnumarkaðsráðuneytis dags. 3. júlí 2024 sl. þar sem þú gerir athugasemdir við það að Tryggingastofnun hafi talið heildarvaxtatekjur þínar til tekna við útreikning á tekjutengdum greiðslum þínum vegna ársins 2023. Ráðuneytið framsendi erindi þitt til Tryggingastofnunar þann 7. ágúst sl. og óskaði eftir að stofnunin myndi rökstyðja nánar niðurstöðu endurreiknings greiðslna ársins 2023.
Á árinu 2023 fékkst þú greiddan mánaðarlega ellilífeyri og heimilisuppbót frá Tryggingastofnun ásamt orlofs- og desemberuppbótum. Samkvæmt reglugerð nr. 690/2023 var full fjárhæð ellilífeyris 307.829 kr. á mánuði og fjárhæð heimilisuppbótar 77.787 kr. frá 1. janúar til 30. júní það ár. Fjárhæð ellilífeyris var svo 315.525 kr. og fjárhæð heimilisuppbótar 79.732 kr. á mánuði fyrir tímabilið frá 1. júlí til 31. desember. Samkvæmt reglugerð nr. 691/2023 var full fjárhæð orlofs- og desemberuppbóta (eingreiðslu) 117.526 kr. 40% eingreiðslunnar greiðist 1. júlí og 60% 1. desember.
Samkvæmt 21. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 skal fjárhæð ellilífeyris lækka um 45% af eigin tekjum lífeyrisþega, sbr. 22. gr. uns lífeyririnn fellur niður. Samkvæmt 8. gr. laga um félagslega aðstoð skal heimilisuppbót lækka um 11,9% af tekjum lífeyrisþega, sbr. 22. gr. laga um almannatryggingar, uns hún fellur niður og um frítekjumörk vegna tekna fer skv. 22. gr. sömu laga. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1140/2022 skal lækka eingreiðslu um 2% af tekjum lífeyrisþega, sbr. 22. gr. laga um almannatryggingar, uns hún fellur niður.
Samkvæmt 22. gr. almannatryggingalaga teljast til tekna við útreikning á ellilífeyri og heimilisuppbót tekjur skv. II. kafla laga um tekjuskatt nr. 90/2003, að teknu tilliti til ákvæða sömu laga um hvað ekki telst til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Þá segir í 3. mgr. ákvæðisins að við útreikning fulls ellilífeyris skuli lífeyrisþegi hafa almennt frítekjumark sem nemur 300.000 kr. á ári.
Í tekjuáætlun ársins 2023 var gert ráð fyrir lífeyrissjóðsgreiðslum á árinu samtals að fjárhæð 4.740.768 kr. eða mánaðarlega 395.064 kr. Þá var gert ráð fyrir vaxtatekjum samtals að fjárhæð 5.208 kr. eða 434 kr. mánaðarlega. Samkvæmt skattframtali þínu vegna ársins 2023 kom hins vegar í ljós að lífeyrissjóðsgreiðslur þínar hafi verið 4.956.049 kr. samtals eða 413.004 kr. að meðaltali mánaðarlega. Vextir af innistæðum voru samtals 156.695 kr. eða 13.058 kr. jafndreift niður á mánuði.
Heildarréttindi greidd á grundvelli tekjuáætlunar á árinu 2023 voru 2.184.089 kr. Greiðsluréttur þinn við endurreikning á grundvelli tekna samkvæmt skattframtali var hins vegar 1.968.061 kr. Ofgreidd réttindi voru því 216.028 kr. Að frádreginni endurgreiddri staðgreiðslu skatta var ofgreiðsla til innheimtu 148.088 kr. Sjá má útreikninga nánar í meðfylgjandi skjölum.
Ástæðu ofgreiðslu má því rekja til vanáætlaðra lífeyrissjóðsgreiðslna að fjárhæð 215.281 kr. og vaxtatekna að fjárhæð 151.487 kr. eða samtals að fjárhæð 366.768 kr.
Af erindi þínu má ráða að þú teljir það brot á mannréttindum þínum að við útreikning á lífeyrisgreiðslum þínum hafi vaxtatekjur ekki verið lækkaðar um fjárhæð sem nemur fjárhæð verðbóta. Tryggingastofnun ber að telja skattskyldar vaxtatekjur til tekna við útreikning á lífeyrisréttindum, sbr. 22. gr. almannatryggingalaga sem vísar til II. kafla laga um tekjuskatt nr. 90/2003 um það hvað teljist til skattskyldra tekna. Þar kemur fram í 3. tölul. C. liðar 7. gr. að vextir, verðbætur, afföll og gengishagnaður teljist til skattskyldra tekna og vísað nánar í 8. gr. laganna. Í 8. gr. kemur fram í 1. tölul. að til tekna skv. 3. tölul. C-liðar 7. gr. teljist m.a. vextir af innistæðum í innlendum bönkum og sparisjóðum. Þá kemur fram að með vöxtum teljist áfallnar verðbætur á höfuðstól og vexti.
Tryggingastofnun telur því ljóst að telja beri vexti og verðbætur af vöxtum til skattskyldra tekna sem áhrif hafa á útreikning lífeyrisréttinda samkvæmt lögum um almannatryggingar. Þá kemur til skoðunar hvort lagaheimildin stangist á við mannréttindaákvæði stjórnarskrár, einkum jafnræðisreglu 65. gr., eignarréttarákvæðis 72. gr. og réttar til framfærsluaðstoðar skv. 76. gr. Ekki fæst séð að heimildin stangist á við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár enda á hún við um alla í sambærilegri stöðu, þ.e. þá sem njóta verðbóta af vaxtatekjum sínum. Þá fæst ekki séð að heimildin takmarki eignarrétt í andstöðu við 72. gr. stjórnarskrár eða rétt til framfærsluaðstoðar skv. 76. gr. en dómstólar hafa komist að þeirri niðurstöðu í dómum sínum að löggjafinn hafi nokkuð svigrúm til að ákveða hvernig háttað skuli þeirri opinberu aðstoð sem ellilífeyrisþegum er látin í té á grundvelli 76. gr. stjórnarskrár. Varðandi rökstuðning er nánar vísað til dómafordæma, t.d. dóma Hæstaréttar í málum nr. 15/2022, 16/2022 og 17/2022.“
Í ljósi alls framangreinds sé niðurstaða Tryggingastofnunar sú að afgreiðslan á umsókn kæranda sé í senn lögmæt og málefnaleg. Fyrir nefndinni fari Tryggingastofnun þannig fram á staðfestingu á ákvörðun sinni frá 28. maí 2024 um að krefja kæranda um 148.088 kr.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2023.
Kærandi fékk greiddan ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2023. Samkvæmt 47. gr. laga um almannatryggingar er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.
Í 22. gr. og 33. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 1. mgr. 22. gr. segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með tilteknum undantekningum. Á grundvelli 3. mgr. 33. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 34. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.
Samkvæmt gögnum málsins gerði tillaga Tryggingastofnunar að tekjuáætlun ársins, dags. 13. desember 2022, ráð fyrir kærandi væri með lífeyrisjóðstekjur að fjárhæð 4.740.768 kr. og fjármagnstekjur að fjárhæð 5.208 kr. á árinu 2023. Kærandi gerði ekki athugasemdir við áætlunina og voru greiðslur greiddar út frá framangreindum tekjuforsendum.
Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2023 reyndust tekjur kæranda vera 4.956.049 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 156.695 kr. í fjármagnstekjur, þ.e. vexti og verðbætur. Niðurstaða endurreiknings Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins 2023, var sú að sökum tekna hefði kærandi fengið ofgreiddar bætur samtals að fjárhæð 148.088 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta.
Samkvæmt framangreindu reyndust lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur kæranda á árinu 2023 vera hærri en gert hafði verið ráð fyrir í tekjuáætlun og leiddu til ofgreiðslu. Lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur eru tekjustofnar sem hafa áhrif við útreikning Tryggingastofnunar á bótafjárhæð, sbr. 22. gr. laga um almannatryggingar og 1. tölulið A-liðar og C-lið 7. gr. laga um tekjuskatt. Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá ber stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur.
Kærandi byggir á því að Tryggingastofnun noti verðbólguna til að ganga á eigur lífeyrisþega og vísar til þess að slíkt brjóti meðal annars í bága við 1. gr. l. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu um vernd eignarréttinda, sbr. lög nr. 62/1994. Eins og fjallað hefur verið um telur úrskurðarnefnd velferðarmála að Tryggingastofnun beri að líta til fjármagnstekna kæranda, nánar tiltekið vaxta og verðbóta, við endurreikning ársins 2023 samkvæmt lögum um almannatryggingar. Þá verður ekki séð að lögin takmarki eignarrétt kæranda í andstöðu við 1. gr. l. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu.
Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun um endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum kæranda á árinu 2023.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum A, á árinu 2023, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir