Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 689/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 689/2021

Miðvikudaginn 18. maí 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 21. desember 2022, kærði B lögfræðingur, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 22. september 2021 þar sem kæranda var synjað um endurupptöku á ákvörðun stofnunarinnar, dags. 21. janúar 2015, um að synja kæranda um greiðslu barnalífeyris vegna náms.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Tryggingastofnun ríkisins greiddi kæranda framlag vegna náms frá 1. október 2012 til 16. maí 2014. Með ákvörðun, dags. 21. janúar 2015, var beiðni kæranda um breytingu á greiðslu framlags vegna náms í greiðslu barnalífeyris vegna náms á tímabilinu 1. október 2012 til 16. maí 2014 synjað á þeim forsendum að kærandi hafi ekki verið í fullu námi á umræddu tímabili og skilyrði til greiðslu barnalífeyris vegna náms hafi því ekki verið uppfyllt. Þann 9. júlí 2021 var óskað eftir endurupptöku á ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. janúar 2015 um að synja umsókn kæranda um greiðslu barnalífeyris vegna náms. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 22. september 2021, var erindinu synjað með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á þeim forsendum að veigamiklar ástæður þóttu ekki mæla með endurupptöku.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. desember 2021 og rökstuðningur kæru barst 12. janúar 2022. Með bréfi, dags. 13. janúar 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 4. febrúar 2022, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að beiðni kæranda, dags. 7. október 2014, um breytingu á greiðslu framlags vegna náms í greiðslu barnalífeyris vegna náms hafi verið synjað með bréfi, dags. 21. janúar 2015, á þeim grundvelli að ekki hafi verið talið að kærandi hefði verið í fullu námi sem sé skilyrði greiðslna. Á haustönn 2012 hafi kærandi verið skráður í 19 einingar og hafi lokið 15 einingum.

Með erindi umboðsmanns kæranda, dags. 9. júlí 2021, hafi verið óskað eftir við Tryggingastofnun ríkisins að málið yrði tekið upp. Með bréfi, dags. 22. september 2021, hafi stofnunin synjað beiðni um endurupptöku á þeim grundvelli að veigamiklar ástæður væru ekki fyrir hendi til að málið yrði endurupptekið þar sem kærandi hafi ekki verið í fullu námi á þeim tíma sem hann hafi hugsanlega átt rétt á greiðslum. Jafnframt hafi Tryggingastofnun bent á 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, sbr. 6. gr. sömu laga.

Málavextir séu þeir að móðir og faðir kæranda hafi gert með sér meðlagssamning, dags. 21. desember 2010, sem hafi kveðið á um að lögheimili kæranda yrði hjá föður. Þann 23. ágúst 2012 hafi móðir undirritað samning um menntunarframlag samkvæmt 62. gr. barnalaga nr. 76/2003. Hvorki Tryggingastofnun né sýslumaður hafi leiðbeint móður eða kæranda um að þar sem móðir væri örorkulífeyrisþegi gæti sonur hennar sótt um barnalífeyri vegna náms í stað menntunarframlags.

Á árinu 2012 hafi kærandi verið skráður til náms á vor- og haustönn í C. Á vorönn 2012 hafi kærandi verið skráður í 19 einingar og hafi lokið við 13 einingar. Á haustönn hafi kærandi verið skráður í 19 einingar en hafi lokið við 15 einingar, en kærandi eigi við námsörðugleika að stríða. Hann hafi sem barn verið greindur með taugaþroskaröskun (athyglisbrest ásamt ofvirkni). ADHD geti haft víðtæk áhrif á lífsgæði fólks, svo sem vegna námsörðugleika. Klínísk einkenni ADHD séu til að mynda erfiðleikar við að halda einbeitingu og athygli við lestur og verkefni, erfiðleikar með að skipuleggja verkefni og athafnir, auk þess sem einstaklingar með ADHD forðist viðfangsefni sem krefjist mikillar einbeitingar. Óumdeilt sé að móðir kæranda hafi vakið athygli Tryggingastofnunar á greiningu kæranda og hafi framvísað gögnum sem hafi staðfest hana. Þrátt fyrir það hafi stofnunin synjað beiðni kæranda um að breyta greiðslu framlags vegna náms í greiðslu barnalífeyris vegna náms þar sem að ekki hafi verið talið að kærandi hafi verið í fullu námi sem sé skilyrði greiðslna.

Þann 9. júlí 2021 hafi umboðsmaður kæranda óskað eftir að Tryggingastofnun tæki málið upp. Ákvörðun stofnunarinnar um endurupptöku, dags. 22. september 2021, sé byggð á sama grundvelli og fyrri ákvörðun frá árinu 2015. Tryggingastofnun hafi því tvívegis synjað beiðni kæranda um að breyta greiðslu framlags vegna náms í greiðslu barnalífeyris vegna náms. Það sé því hægt að slá því föstu að stofnunin hafi hvorki lagt fullnægjandi grundvöll að niðurstöðu sinni á árinu 2015 eða á árinu 2021 vegna upphaflegrar umsóknar kæranda né beiðni umboðsmanns um endurupptöku.

Ásamt því að óska eftir að Tryggingastofnun myndi taka mál kæranda upp að nýju hafi einnig verið sent erindi til Innheimtustofnunar sveitarfélaga, dags. 9. júlí 2021, þar sem farið hafi verið fram á að allar kröfur sem séu og hafi verið til innheimtu síðastliðin ár yrðu felldar niður. Það hafi verið gert á þeim grundvelli að Tryggingastofnun hafi ekki gætt að leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu sinni með því að leiðbeina hvorki kæranda né móður hans um réttinn til barnalífeyris vegna náms. Samkvæmt svari Innheimtustofnunar, dags. 20. ágúst 2021, hafi það verið Innheimtustofnun en ekki Tryggingastofnun sem hafi bent móður kæranda á að hann gæti sótt um barnalífeyri vegna náms. Í bréfinu segi: „Við innheimtubyrjun var E leiðbeint með það að sonur hennar gæti sótt um barnalífeyri hjá Tryggingastofnun vegna örorku hennar.“

Það skjóti skökku við að Tryggingastofnun hafi synjað umsókn kæranda, þrátt fyrir að annað stjórnvald hafi sérstaklega leiðbeint um það að kærandi gæti sótt um barnalífeyri í stað menntunarframlags til Tryggingastofnunar vegna örorku móður.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé Tryggingastofnun heimilt að greiða barnalífeyri vegna skólanáms ungmennis á aldrinum 18-20 ára ef annað foreldri eða báðir séu örorkulífeyrisþegar.

Í 1. tölul. 6. gr. reglugerðar nr. 140/2006 um heimild Tryggingastofnunar ríkisins til að greiða barnalífeyri vegna náms eða starfsþjálfunar ungmenna á aldrinum 18-20 ára, segi að jafnaði skuli miða við að umsækjandi sé í fullu námi. Þegar lagt sé mat á umsókn skuli Tryggingastofnun taka tillit til allra aðstæðna umsækjanda, félagslegra sem efnahagslegra sem áhrif geti haft á það hvort samþykkja skuli umsókn eða hafna henni. Heimilt sé að víkja frá þessu skilyrði ef um sé að ræða hægfara nám eða sérstaka erfiðleika nemanda, svo sem efnahagslegan og félagslegan vanda. Þegar Tryggingastofnun hafi tekið ákvörðun um að synja bæði upphaflegri umsókn kæranda og beiðni um endurupptöku hafi Tryggingastofnun hvorki horft til þess né rannsakað sérstaklega hvort kærandi hafi uppfyllt skilyrði þess að víkja mætti frá skilyrði 1. tölul. 6. gr. reglugerðar nr. 140/2006. Ýmiskonar ástæður geti búið að baki því að einstaklingar geti ekki stundað fullt nám og í ljósi fyrri úrskurða úrskurðarnefndar almannatrygginga eigi Tryggingastofnun að vera það ljóst.

Úrskurðarnefnd almannatrygginga hafi áður fjallað um sambærileg álitaefni og það sem reyni á í þessu máli. Í niðurstöðukafla í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 187/2014 komi skýrt fram það sjónarmið að kærandi hafi glímt við sértæka námsörðugleika og með hliðsjón af þeim erfiðleikum hafi úrskurðarnefndin talið að víkja mætti frá skilyrði 1. tölul. 6. gr. reglugerðar nr. 140/2006. Það liggi í augum uppi að framangreindur úrskurður hafi fordæmisgildi og því hafi Tryggingastofnun borið að líta sérstaklega til þeirra sjónarmiða sem komi fram í úrskurðinum. Jafnframt sé vakin athygli á að synjun Tryggingastofnunar vegna umsóknar kæranda sé dagsett 21. janúar 2015 sem sé einungis rúmlega mánuði eftir að úrskurðarnefnd almannatrygginga hafi kveðið upp úrskurð sinn í máli nr. 187/2014.

Varðandi það að Tryggingastofnun bendi á fyrningu kröfuréttinda í bréfi, dags. 22. september 2021, sé til þess að líta að fullt tilefni sé til að víkja frá tímamörkum þegar stofnunin hafi ekki sinnt lagaskyldu sinni gagnvart umsækjendum og greiðsluþegum með þeim afleiðingum að fyrningin girði fyrir greiðslu bóta eða annarra greiðslna sem þeir eigi fullt og rétt tilkall til. Í því samhengi sé rétt að minnast á að ef leiðbeiningarskylda stjórnvalda samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga sé brotin sem og rannsóknarregla sömu laga geti stofnast skaðabótakrafa, þ.e. ef lög girði fyrir að stjórnvald hafi heimild til að greiða lögbundnar greiðslur vegna fyrri tíma, geti einstaklingar stutt skaðabótakröfu sína á því að stjórnvald hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni og upplýsingagjöf.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á beiðni kæranda um endurupptöku á greiðslu barnalífeyris vegna náms.

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé kveðið á um rétt aðila máls til þess að fá mál sitt tekið til meðferðar á ný. Ákvæði 1. mgr. 24. gr. sé svohljóðandi:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.“

Réttur á einstökum mánaðarlegum greiðslum lífeyris almannatrygginga fyrnist á fjórum árum samkvæmt 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, sbr. 6. gr. sömu laga.

Í erindi umboðsmanns kæranda, dags. 9. júlí 2021, hafi verið óskað eftir að Tryggingastofnun endurskoði synjun, dags. 21. janúar 2015, á umsókn kæranda um breytingu á greiðslu framlags vegna náms í greiðslu barnalífeyris vegna náms þar sem því hafi verið haldið fram að umsóknin hafi ekki fengið viðunandi afgreiðslu.

Tryggingastofnun hafi greitt kæranda framlag vegna náms frá 1. október 2012 til 16. maí 2014 og hafi það verið samþykkt með bréfi, dags. 20. nóvember 2012. Tryggingastofnun hafi borist umsókn kæranda, dags. 4. október 2012, ásamt samningi um menntunarmeðlag á milli kæranda og móður hans, dags. 1. október 2012, þar sem hún hafi samþykkt að greiða kæranda framlag vegna menntunar frá 18 ára aldri til 20 ára aldurs.

Þann 7. október 2014 hafi Tryggingastofnun borist beiðni kæranda um að breyta menntunarframlaginu, sem honum hafi verið greitt, í barnalífeyri vegna náms. Með beiðni kæranda hafi fylgt námsyfirlit hans við C en í því komi fram að kærandi hefði verið skráður í 19 einingar á haustönn 2012 en hafi lokið 15 einingum og á vorönn 2013 hafi kærandi ekki lokið við neinar af þeim 16 einingum sem hann hafi verið skráður í. Þá hafi kærandi ekki verið skráður í nám eftir vorönn 2013. Tryggingastofnun hafi því synjað beiðni kæranda um breytingu þar sem ekki hafi verið talið að hann hefði verið í fullu námi, sem sé skilyrði greiðslna, á því tímabili sem hann hefði mögulega átt rétt á greiðslum barnalífeyris vegna náms.

Þann 9. febrúar 2015 hafi Tryggingastofnun borist læknabréf frá Göngudeild BUGL, dags. 6. febrúar 2015, þar sem komi fram að kærandi hefði verið til meðferðar á BUGL á árunum 2003-2007 og hefði hlotið á þeim tíma greininguna Hyperkinetic conduct disorder, F90.1. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 10. febrúar 2015, hafi kæranda verið tilkynnt að innsend gögn gæfu ekki tilefni til breytinga á synjun stofnunarinnar á greiðslu barnalífeyris vegna náms.

Í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 séu mál ekki tekin upp á nýjan leik ef meira en ár sé liðið frá þeirri ákvörðun sem óskað sé endurupptöku á, nema veigamiklar ástæður mæli með því. Tryggingastofnun telji að kærandi hafi fengið greitt framlag vegna náms í samræmi við lög og að synjun á greiðslu barnalífeyris vegna náms hafi einnig verið rétt og í samræmi við lög. Kærandi hafi ekki verið í fullu námi á þeim tíma sem hann hugsanlega hafi átt rétt á greiðslum og innsend gögn hafi ekki borið með sér að falla hefði átt frá þeim skilyrðum vegna erfiðleika kæranda. Stofnunin telji því að ekki sé hægt að sjá að veigamiklar ástæður séu til að endurupptaka málið.

Í þessu sambandi skuli einnig bent á að þó að krafa teldist vera fyrir hendi þá væri hún fyrnd en réttur á einstökum mánaðarlegum greiðslum lífeyris almannatrygginga fyrnist á fjórum árum samkvæmt 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, sbr. 6. gr. sömu laga. Í því sambandi vilji stofnunin benda á að úrskurðarnefndin hafi í nýlegum úrskurðum sínum í málum nr. 313/2020, 314/2020 og 318/2020 staðfest synjanir á endurupptöku mála þar sem hugsanlegar kröfur séu fyrndar og í ljósi þess séu ekki veigamiklar ástæður til að endurupptaka málin.

IV.  Niðurstaða

Kærð er synjun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. september 2021, á beiðni um endurupptöku á ákvörðun stofnunarinnar um að synja beiðni kæranda um greiðslu barnalífeyris vegna náms í stað framlags vegna náms á tímabilinu 1. október 2012 til 16. maí 2014.

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um rétt aðila máls til þess að fá mál sitt tekið til meðferðar á ný. Ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga er svohljóðandi:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

1.ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
2.íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.“

Eins og áður hefur komið fram lýtur endurupptökubeiðni kæranda að synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. janúar 2015 um að breyta greiðslu framlags vegna náms í barnalífeyri vegna náms. Beiðni um endurupptöku barst Tryggingastofnun tæplega sex og hálfu ári síðar, eða 9. júlí 2021. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi gerði enga athugasemd við þá ákvörðun fyrr en 9. júlí 2021 þegar óskað var eftir endurskoðun á framangreindri synjun.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ekki verði ráðið af gögnum málsins að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. janúar 2015 um að synja kæranda um breytingu á greiðslu framlags vegna náms yfir í greiðslu barnalífeyris vegna náms hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða að íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá verður ekki séð að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar. Úrskurðarnefndin lítur til þess að engar læknisfræðilegar upplýsingar liggja fyrir um hugsanlega námsörðugleika kæranda. Þá verður ráðið af gögnum málsins að kærandi hafi ekki lokið neinum einingum eftir haustönn 2012. Auk þess verður ekki ráðið af gögnum málsins að veigamiklar ástæður mæli með endurupptöku, sbr. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefndin telur að ekkert bendi til þess að úrlausn málsins geti haft þýðingarmikið fordæmisgildi. Þá eru hagsmunir kæranda af úrlausn málsins, að mati úrskurðarnefndar, ekki það mikilsverðir að rétt sé að endurupptaka málið einungis á þeim grundvelli. Úrskurðarnefndin horfir til þess að málið varðar greiðslur vegna tímabils sem er löngu liðið, auk þess sem gögn málsins bendi til þess að hugsanleg krafa kæranda um greiðslur barnalífeyris vegna náms sé fyrnd, sbr. 2., 3. og 6. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um endurupptöku staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins um endurupptöku á ákvörðun um synjun greiðslu barnalífeyris vegna náms A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta