Mál nr. 468/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 468/2024
Miðvikudaginn 6. nóvember 2024
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.
Með rafrænni kæru, móttekinni 25. september 2024, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. maí 2024, um endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2023.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2023 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 463.260 kr. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu og innheimtu með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. maí 2024.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. september 2024.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að óskað sé eftir framlengdum kærufresti þar sem kærandi sé vistmaður á dvalarheimili með óvirk rafræn skilríki og hafi ekki haft hugmynd um þann endurreikning sem hafi verið ákvarðaður vegna tekjutengdra greiðslna ársins 2023. Kærandi hafi tekið út úr séreignarsjóði sínum á árinu 2023 samtals 929.871 kr. Samkvæmt svörum frá Almenna lífeyrissjóðnum hafi þeim borið að skila greiðslum kæranda í tveimur hlutum. Annars vegar sem greiðslu úr séreignarsjóði samtals að fjárhæð 212.055 kr. sem hafi verið skráð á reit 140 á skattframtali og hins vegar sem greiðslu úr sérstökum séreignarsjóði samtals að fjárhæð 717.816 kr. sem hafi verið skráð á reit 145 á skattframtali. Umboðsmaður kæranda hafi fengið þau svör bæði frá Almenna lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun ríkisins að áðurnefnd sérstök séreign sé tilgreind séreign og af þeim sökum komi sú upphæð til frádráttar greiðslum frá Tryggingastofnun. Þeirri ákvörðun og niðurstöðu sé hafnað og endurreikningur kærður þar sem kærandi hafi aldrei greitt í tilgreinda séreign, enda hafi hún hætt á vinnumarkaði árið 2002 og fyrirbærið tilgreind séreign hafi þá ekki verið til.
III. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 28. maí 2024 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2023.
Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.
Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun var hin kærða ákvörðun tilkynnt kæranda rafrænt 28. maí 2024 á Mínum síðum og einnig í stafrænu pósthólfi, sbr. lög nr. 105/2021 um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda. Samkvæmt 7. gr. framangreindra laga teljast gögn birt viðtakanda þegar þau eru aðgengileg í pósthólfi. Þá segir að þar sem í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum sé kveðið á um að gögn skuli birt á ákveðinn hátt, svo sem með auglýsingu, símskeyti, ábyrgðarbréfi, stefnuvotti eða öðrum sannanlegum hætti, skuli birting í stafrænu pósthólfi metin fullgild. Samkvæmt gögnum málsins liðu tæplega fjórir mánuðir frá því að hin kærða ákvörðun var gerð aðgengileg í stafrænu pósthólfi hennar þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. september 2024. Þá var hin kærða ákvörðun einnig send kæranda í bréfpósti í byrjun júní 2024 samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar var því liðinn þegar kæran barst nefndinni.
Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.
Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:
„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:
1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“
Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort atvik séu með þeim hætti að afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.
Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 28. maí 2024 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Í kæru kemur fram að ástæður þess að kæra hafi borist seint séu þær að kærandi sé vistmaður á dvalarheimili með óvirk rafræn skilríki og hafi því ekki haft hugmynd um hina kærðu ákvörðun. Úrskurðarnefndin telur að skýringar kæranda á ástæðum þess að kæra hafi borist að liðnum kærufresti séu ekki þess eðlis að unnt sé að líta svo á að afsakanlegt sé að kæran hafi ekki borist fyrr. Hin kærða ákvörðun var gerð aðgengileg í stafrænu pósthólfi kæranda og telst frá þeim tíma birt henni, sbr. 7. gr. laga nr. 105/2021. Þá var hin kærða ákvörðun einnig send kæranda í bréfpósti. Enn fremur verður ekki heldur séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, enda bendir ekkert í gögnum málsins til ágalla á hinni kærðu ákvörðun.
Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir