Mál nr. 328/2023-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 328/2023
Miðvikudaginn 15. nóvember 2023
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.
Með kæru, móttekinni 3. júlí 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 26. júní 2023 um upphafstíma endurhæfingarlífeyris.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi fékk greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins á tímabilinu 30. apríl 2021 til 30. apríl 2023. Kærandi sótti um áframhaldandi greiðslu endurhæfingarlífeyris frá 1. maí 2023 með rafrænni umsókn 27. apríl 2023. Umsókninni var synjað með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. maí 2023, á þeim grundvelli að endurhæfingaráætlun teldist ekki nógu ítarleg í ljósi heildarvanda kæranda og auk þess að óljóst væri hvernig fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun kæmi til með að stuðla að endurkomu á vinnumarkað, enda virtist virk endurhæfing, þar sem tekið væri á heilsuvanda kæranda, vart vera í gangi. Kærandi sótti að nýju um endurhæfingarlífeyri með rafrænni umsókn 24. maí 2023 og með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 26. júní 2023, var umsóknin samþykkt vegna tímabilsins 1. júlí 2023 til 30. september 2023.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 3. júlí 2023. Með bréfi, dags. 7. júlí 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 27. júlí 2023, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. ágúst 2023. Athugasemdir bárust ekki. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. september 2023, var óskað eftir rökstuðningi Tryggingastofnunar ríkisins fyrir því að ekki voru samþykktar áframhaldandi greiðslur endurhæfingarlífeyris vegna maí og júní 2023. Með bréfi, dags. 5. október 2023, tilkynnti Tryggingastofnun ríkisins að ný ákvörðun hefði verið tekin og að fallist hefði verið á að kærandi uppfyllti skilyrði endurhæfingarlífeyris vegna maí og júní 2023. Með bréfi, dags. 10. október 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu kæranda til bréfs stofnunarinnar, sem var ítrekað með tölvupósti 26. október 2023. Engin svör bárust frá kæranda.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að kærandi hafi verið í krabbameinsmeðferð síðastliðið ár og hafi fengið síðustu greiðslu endurhæfingarlífeyris 1. apríl 2023. Hennar áform hafi verið að reyna að fara út á vinnumarkaðinn en eftir skoðun hjá B krabbameinslækni hafi henni verið ráðlagt alfarið frá því að fara að vinna fyrr en í fyrsta lagi eftir sex mánuði. Í kjölfarið hafi kærandi farið heim til C þar sem hún hafi hitt heimilislækni sem hafi verið á sama máli og hafi hann sótt um áframhaldandi endurhæfingarlífeyri í sex mánuði. Málið hafi verið mjög lengi í vinnslu og hafi kærandi fengið þau svör frá Tryggingastofnun að þó svo að þetta væri lengi í ferli þá myndi hún að öllum líkindum fá afturvirkar greiðslur frá þeim tíma sem umsóknin hafi verið lögð inn.
Við hafi tekið langur og strangur tími, kærandi hafi ekki fengið neinar greiðslur í maí og júní og hafi hún alfarið þurft að reiða sig á lán hjá vinum og ættingjum til að ná endum saman. Kærandi hafi fengið svar frá Tryggingastofnun 26. júní 2023 þess efnis að hún fengi aðeins greitt frá 1. júlí til 30. september 2023.
Ef kæranda hefði aðeins átt að vera úthlutað þremur mánuðum þá hefði verið eðlilegra að tímabilið yrði frá þeim degi sem umsóknin hafi verið lögð inn. Að samþykkja aðeins greiðslur frá 1. júlí sé að mati kæranda mjög undarlegt. Það hafi verið hræðilegt að fara í gegnum tvo mánuði án launa. Ef kærandi sé metin þannig að hún þurfi á þessum bótum að halda fram í september þá að sjálfsögðu hafi hún enn meira þurft á þeim að halda í maí og júní.
Farið sé fram á endurskoðun á þessari ákvörðun. Krafa kæranda sé að fá endurhæfingarlífeyri í sex mánuði frá 1. maí. Það fari jafn illa með líkamlegu sem og andlegu hliðina að vera með sífelldar fjárhagsáhyggjur og að ná ekki endum saman.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins frá 27. júlí 2023 segir að stofnunin fari fram á staðfestingu ákvörðunar frá 20. júní 2023 um endurhæfingarlífeyri frá 1. júlí 2023.
Í bréfi Tryggingastofnunar ríkisins frá 5. október 2023 kemur fram að eftir að stofnunin hafi farið gaumgæfilega yfir kærða ákvörðun að nýju hafi verið ákveðið að snúa ákvörðuninni við og verða við umræddri kröfu kæranda. Í ljósi framangreinds óski Tryggingastofnun eftir að málinu verði vísað frá.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins 26. júní 2023 þar sem umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri var samþykkt frá 1. júlí 2023. Undir rekstri málsins tók Tryggingastofnun nýja ákvörðun, dags. 4. október 2023, þar sem fallist var að greiðslur endurhæfingarlífeyris vegna tímabilsins 1. maí 2023 til 30. júní 2023 og óskaði stofnunin eftir því að kærunni yrði vísað frá. Með bréfi, dags. 10. október 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu kæranda til beiðni stofnunarinnar um frávísun málsins á framangreindum forsendum en án árangurs.
Úrskurðarnefnd velferðarmála kveður upp úrskurði um tiltekin ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. 13. gr. laganna. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að ágreiningur sé til staðar á milli kæranda og Tryggingastofnunar ríkisins. Stofnunin hefur samþykkt endurhæfingarlífeyri á umdeildu tímabili. Þar sem enginn ágreiningur er til staðar í máli þessu er kæru vísað frá úrskurðarnefndinni.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefndinni.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir