Mál nr. 299/2017
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 299/2017
Miðvikudaginn 31. janúar 2018
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með rafrænni kæru, móttekinni 18. ágúst 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. júní 2017, annars vegar um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2016 og hins vegar innheimtu ofgreiddra bóta.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2016 var sú að kærandi hefði fengið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð X kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu og hún krafin um endurgreiðslu vegna hennar með bréfi, dags. 21. júní 2017.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. ágúst 2017. Með bréfi, dags. 22. ágúst 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins. Með bréfi, dags. 12. september 2017, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ætla má út frá gögnum málsins að gerð sé krafa um að ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. júní 2017 verði endurskoðaðar.
Í kæru segir að Tryggingastofnun ríkisins hafi gert kröfu um endurgreiðslu hluta örorkubóta. Samkvæmt meðfylgjandi yfirliti hafi nettótekjur kæranda, þ.e. atvinnutekjur og vextir, lækkað töluvert á árinu 2016 miðað við árið 2015. Út úr viðskiptum kæranda vegna sölu og kaupa á annarri fasteign hafi komið jákvæðar X kr., sem að verulegu leyti hafi farið í kostnað við íbúðaskiptin. Kærandi sé að reyna að safna upp einhverju sparifé þar sem fljótlega þurfi hún að endurnýja rúmlega X ára gamla bifreið sína. Henni sé ekki unnt að átta sig á hvers vegna stofnunin geri þessa kröfu um endurgreiðslu og því sé kæra þessi lögð fram.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, varðandi hvað skuli teljast til tekna. Stofnunin greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni sé svo ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.
Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli stofnunin endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá upplýsingum um tekjur sem komi fram í skattframtölum.
Komi í ljós við endurreikning bóta að þær hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laganna. Í því ákvæði komi fram skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur og sé sú meginregla ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.
Á árinu 2016 hafi kærandi fengið greiddan örorkulífeyri og tengdar greiðslur allt árið. Uppgjör tekjutengdra bóta vegna þess árs hafi leitt til X kr. ofgreiðslu að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu. Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast sé sú að samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2017 vegna tekjuársins 2016 hafi leitt í ljós hærri tekjur en tekjuáætlun hafði gert ráð fyrir. Endurreikningur byggi á upplýsingum úr skattframtölum bótaþega.
Kærandi hafi fengið senda tillögu að tekjuáætlun 11. janúar 2016. Samkvæmt tillögunni hafi verið gert ráð fyrir að á árinu 2016 væri kærandi með X kr. í launatekjur og X kr. í vexti og verðbætur. Engar athugasemdir hafi borist frá kæranda vegna þessarar tekjuáætlunar og því verið greitt eftir henni frá 1. janúar 2016 til 31. október 2016.
Þann 4. október 2016 hafi kærandi skilað inn rafrænni tekjuáætlun sem hafi gert ráð fyrir að á árinu 2016 hefði hún X kr. í lífeyrissjóðstekjur og X kr. í vexti og verðbætur. Á grundvelli þessarar nýju tekjuáætlunar hafi réttur kæranda verið endurreiknaður fyrir árið 2016 og inneign að fjárhæð X kr. myndast. Kærandi hafi svo fengið greitt samkvæmt þessari tekjuáætlun frá 1. nóvember 2016 til 31. desember 2016.
Við bótauppgjör ársins 2016 hafi komið í ljós að kærandi hafi verið með X kr. í lífeyrissjóðstekjur og X kr. í vexti og verðbætur. Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2016 hafi verið sú að kærandi hafi fengið ofgreiddar bætur í bótaflokkunum tekjutryggingu, heimilisuppbót, framfærsluuppbót og orlofs- og desemberuppbót.
Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Stofnuninni sé óheimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega, eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og einnig fyrir dómstólum.
Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2016 hafi verið sú að kærandi hafi fengið greiddar X kr. en hefði átt að fá greiddar X kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð 88.464 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.
Með vísan til framangreinds telji stofnunin ekki forsendur til að breyta hinni kærðu ákvörðun.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2016 og innheimtu ofgreiddra bóta.
Kærandi var örorkulífeyrisþegi á árinu 2016 og fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun á árinu 2016. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.
Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Á grundvelli 7. mgr. þeirrar lagagreinar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.
Í tillögu Tryggingastofnunar að tekjuáætlun, dags. 11. janúar 2016, var gert ráð fyrir launatekjum að fjárhæð X kr. og óverulegum fjármagnstekjum. Kærandi gerði breytingar á þeirri tekjuáætlun 4. október 2016 þar sem gert var ráð fyrir lífeyrissjóðstekjum að fjárhæð X kr. og X kr. í fjármagnstekjur. Bótaréttindi ársins voru endurreiknuð og greidd miðað við framangreindar forsendur. Samkvæmt upplýsingum úr skattframtali kæranda vegna tekjuársins 2016 reyndust lífeyrissjóðstekjur kæranda vera X kr. og jafnframt fjármagnstekjur að fjárhæð X kr. Endurreikningur Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins 2016 leiddi í ljós að tekjutrygging, heimilisuppbót, orlofs- og desemberuppbætur og sérstök uppbót til framfærslu hefðu verið ofgreiddar að fjárhæð X kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kærandi hefur verið krafin um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar.
Samkvæmt framangreindu gerði kærandi ráð fyrir lægri lífeyrissjóðstekjum og fjármagnstekjum á árinu 2016 en skattframtal 2017 vegna tekjuársins 2016 sýndi fram á. Í þágildandi 2. málsl. 2. mgr. 22. gr. laga um almannatryggingar segir að hafi lífeyrisþegi tekjur samkvæmt 2. og 4. mgr. laganna skuli skerða tekjutrygginguna um 38,35% þeirra tekna uns hún fellur niður. Í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með undantekningum. Í II. kafla síðastnefndu laganna er fjallað um skattskyldar tekjur. Þar falla lífeyrissjóðstekjur undir 1. tölulið A-liðar 7. gr. og fjármagnstekjur undir C-lið 7. gr. laganna. Þá segir í þágildandi 1. gr. reglugerðar nr. 1230/2015 um orlofs- og desemberuppbætur til lífeyrisþega árið 2016 að á fjárhæð tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og fjárhæð heimilisuppbótar samkvæmt lögum um félagslega aðstoð skuli greiða uppbætur á árinu 2016.
Af þágildandi ákvæði 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð leiðir að heimilisuppbót lækkar eftir sömu reglum og tekjutrygging samkvæmt 22. gr. laga um almannatryggingar. Að því er varðar sérstaka uppbót til framfærslu þá er kveðið á um það í 2. málsl. 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð að við mat á því hvort lífeyrisþegi, sem fái greidda heimilisuppbót, geti framfleytt sér án sérstakrar uppbótar og skuli miða við að heildartekjur séu undir 246.092 kr., sbr. reglugerð nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, með síðari breytingum. Til tekna samkvæmt ákvæðinu teljast allar skattskyldar tekjur, sbr. 3. mgr. 9. gr. laganna.
Að framangreindu virtu liggur fyrir að lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur hafa áhrif á bótarétt samkvæmt lögum um almannatryggingar sem og lögum um félagslega aðstoð. Ástæðu þess að endurkrafa myndaðist á hendur kæranda er að rekja til þess að umræddir tekjustofnar voru vanáætlaðir í tekjuáætlun hennar. Það er á ábyrgð greiðsluþega sem nýtur tekjutengdra bóta að hafa gætur á því að tekjuáætlun sé rétt og í samræmi við þær tekjur sem kunna að falla til á bótagreiðsluári, sbr. áðurnefnda 39. gr. laga um almanntryggingar. Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá ber stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur. Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur yfirfarið útreikninga Tryggingastofnunar og fellst á að kærandi hafi fengið ofgreiddar bætur að fjárhæð X kr. á árinu 2016.
Með hliðsjón af öllu framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta beri endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2016 og innheimtu ofgreiddra bóta.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör vegna tekjutengdra bótagreiðslna A, á árinu 2016 og innheimtu ofgreiddra bóta eru staðfestar.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir