Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Nr. 413/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 413/2018

Miðvikudaginn 23. janúar 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 15. nóvember 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. ágúst 2018 um upphafstíma greiðslu heimilisuppbótar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslu heimilisuppbótar frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 16. ágúst 2018. Með bréfi, dags. 21. ágúst 2018, samþykkti Tryggingastofnun ríkisins greiðslu heimilisuppbótar frá 1. september 2016.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. nóvember 2018. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 13. desember 2018, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Með bréfi, dags. 28. desember 2018, bárust athugasemdir frá kæranda og voru þær kynntar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. janúar 2019. Athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að fallist verði á að upphafstími greiðslna heimilisuppbótar verði X.

Í kæru er greint frá því að kærandi hafi orðið ekkja X og að hún hafi ekki fengið upplýsingar um rétt sinn til greiðslu heimilisuppbótar. Kærandi hafi sótt um heimilisuppbót og hafi Tryggingastofnun samþykkt greiðslur frá og með 1. september 2016. Kærandi geti ekki sætt sig við ákvörðun stofnunarinnar og þá skilji hún ekki á hvaða rökum hún sé byggð. Kærandi hafi búið ein frá því að hún varð ekkja og þá hafi henni aldrei verið bent á að sækja um heimilisuppbót. Tryggingastofnun hafi ekki gætt að leiðbeiningarskyldu sinni gagnvart kæranda og fari hún fram á leiðréttingu greiðslna aftur til X. 

Í athugasemdum kæranda, dags. 28. desember 2018, við greinargerð Tryggingastofnunar segir að kærandi hafi búið með eiginmanni sínum að B til fjölda ára. Í kjölfar veikinda eiginmanns hennar hafi þau flutt í C þar sem þau hafi leigt íbúð. Kærandi hafi búið ein eftir andlát eiginmanns síns. Hún hafi flutt til D X og hafi fyrst leigt íbúð að E eða þar til hún hafi keypt íbúð að F, en þangað hafi hún flutt þann X.

Kærandi ítreki ósk sína um að fá greidda heimilisuppbót frá andláti eiginmanns síns, eða frá X. Til vara sé farið fram á að kærandi fái greidda heimilisuppbót frá þeim tíma er hún hafi flutt til D, eða frá X.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærður sé upphafstími á greiðslu heimilisuppbótar en stofnunin hafi samþykkt þann 21. ágúst 2018 að greiða kæranda heimilisuppbót tvö ár aftur í tímann frá því að umsókn hafi borist eða frá 1. september 2016. Áður, eða þann X, hafi kæranda verið synjað um heimilisuppbót þar sem annar aðili hafi verið skráður til heimilis á sama stað og hún.

Heimilisuppbót sé heimilt samkvæmt 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð að greiða lífeyrisþega sem sé einhleypingur og sé einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Í 8. gr. reglugerðar nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri kemur fram að heimilisuppbót verði ekki greidd til aðila sem svo er ástatt um sem hér segi:

„1.  Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af sambýli við aðra aðila.

2.    Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að hafa sameiginlega aðstöðu varðandi fæði eða húsnæði, t.d. sambýli á vegum félagasamtaka eða ríkis og bæja.

3.    Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að leigja herbergi eða húsnæði með sameiginlegri eldunaraðstöðu með öðrum.“

Þá komi fram í 1. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð að ákvæði laga nr. 100/2007 um almannatryggingar gildi um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við eigi.

Samkvæmt 39. gr. laga um almannatryggingar sé umsækjanda rétt og skylt að veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar séu svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum. Þá sé skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á bætur og greiðslur.

Í 52. gr. laga um almannatryggingar sé kveðið á um að sækja skuli um allar bætur samkvæmt þeim lögum og að umsóknir skuli vera á þar til gerðum eyðublöðum eða sendar með rafrænum hætti. Í 4. mgr. 53. gr. sömu laga komi fram að bætur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn berist.

Kærandi hafi orðið ekkja X og hafi Tryggingastofnun sent kæranda bréf, dags. X, vegna fráfalls maka hennar varðandi breyttar forsendur lífeyrisgreiðslna og áhrif tekna á þær. Meðfylgjandi hafi verið bréf með almennum upplýsingum til lífeyrisþega vegna andláts maka og þar á meðal hafi verið upplýsingar um hugsanlegan rétt á heimilisuppbót. Kærandi hafi sótt um heimilisuppbót fljótlega eftir það en hafi verið synjað með bréfi, dags. X, þar sem annar aðili hafi verið skráður til heimilis á sama stað og hún. Það sé því ekki rétt sem kærandi haldi fram í kæru sinni að hún hafi ekki fengið upplýsingar um rétt sinn til greiðslu heimilisuppbótar.

Réttindi og skilyrði greiðslna heimilisuppbótar séu bundin í lögum og lagatúlkun. Í 1. mgr. 52. gr. og 4. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar komi fram að sækja þurfi um bætur skriflega og að ekki sé heimilt að greiða lengra aftur í tímann en tvö ár. Þá segi í 39. gr. laganna að umsækjanda sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt. Sú skylda sé því lögð á bótaþega að hann leiti eftir rétti sínum og það hafi kærandi gert að nýju með umsókn, dags. 16. ágúst 2018, og hafi verið samþykkt að greiða heimilisuppbót tvö ár aftur í tímann frá því að umsókn hafi borist, eða frá 1. september 2016.

Samkvæmt skýru og afdráttarlausu orðalagi 4. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar skuli bætur aldrei úrskurðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg séu til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta berist stofnuninni. Með framangreindri afgreiðslu á umsókn kæranda um greiðslu heimilisuppbótar telji Tryggingastofnun að komið sé eins langt til móts við kröfur hennar og leyfilegt sé lögum samkvæmt. Ekki sé til staðar lagaheimild til að verða við þeim kröfum kæranda sem settar séu fram í kæru um greiðslu heimilisuppbótar lengra aftur í tímann en greitt hafi verið.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. ágúst 2018, þar sem umsókn kæranda um heimilisuppbót var samþykkt frá 1. september 2016. Ágreiningur málsins lýtur að upphafstíma greiðslu heimilisuppbótar.

Um heimilisuppbót er fjallað í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingu, þar sem segir í 1. mgr.:

„Heimilt er að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem býr einn og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.“

Í þágildandi reglugerð nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, með síðari breytingum, eru skilyrði ákvæðisins nánar útfærð.

Samkvæmt 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda lög nr. 100/2007 um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Þá segir í 2. málsl. 12. gr. laga um félagslega aðstoð að einnig skuli beita V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laganna. Við úrlausn þessa máls lítur úrskurðarnefnd velferðarmála til þess sem greinir í 1. málsl. 1. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar. Þar segir svo:

„Sækja skal um allar bætur og greiðslur samkvæmt lögum þessum.“

Samkvæmt framangreindu er heimilisuppbót ekki sjálfkrafa greidd af Tryggingastofnun ríkisins heldur verður að sækja sérstaklega um slíkar greiðslur.

Um upphafstíma greiðslna er fjallað í 53. gr. laga um almannatryggingar. Svohljóðandi eru 1. og 4. mgr. ákvæðisins:

„Réttur til bóta stofnast frá og með þeim degi er umsækjandi telst uppfylla skilyrði til bótanna og skulu bætur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi. Bætur falla niður í lok þess mánaðar er bótarétti lýkur.

[…]

Bætur skulu aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berst umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta.“

Af framangreindu ákvæði verður ráðið að ekki sé heimilt að ákvarða bætur lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur nauðsynleg gögn til að leggja mat á bótarétt og fjárhæð bóta berast Tryggingastofnun ríkisins. Þá skulu bætur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi.

Í kæru er því haldið fram að Tryggingastofnun hafi ekki leiðbeint kæranda um mögulegan rétt hennar til heimilisuppbótar í kjölfar andláts maka hennar.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber stjórnvaldi að veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess. Þá segir í 1. mgr. 37. gr. laga um almannatryggingar að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins.

Í gögnum málsins liggur fyrir að Tryggingastofnun ríkisins sendi kæranda, í kjölfar andláts maka hennar, almennt upplýsingabréf um skyldur og hugsanleg frekari réttindi, meðal annars upplýsingar um heimilisuppbót. Einnig liggur fyrir að Tryggingastofnun synjaði umsókn kæranda um greiðslu heimilisuppbótar á árinu X með ákvörðun, dags. X, þar sem hún uppfyllti ekki skilyrði greiðslna. Með vísan til framangreinds fellst úrskurðarnefnd velferðarmála ekki á þá málsástæðu kæranda að Tryggingastofnun hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 1. mgr. 37. gr. laga um almannatryggingar.

Kærandi sótti um heimilisuppbót að nýju með umsókn, dags. 16. ágúst 2018, og samþykkti Tryggingastofnun greiðslu heimilisuppbótar frá 1. september 2016. Kærandi fékk því greiddar bætur tvö ár aftur í tímann frá umsókn í samræmi við 4. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar. Engar heimildir eru í lögum til þess að greiða heimilisuppbót lengra aftur í tímann.

Að framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma greiðslna heimilisuppbótar staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma greiðslna heimilisuppbótar til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta