Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 34/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 34/2016

Miðvikudaginn 9. nóvember 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 12. janúar 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta á árinu 2012 sem tilkynnt var með bréfi, dags. 18. september 2015.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Við endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2012, dags. 22. júlí 2013, reiknaðist Tryggingastofnun ríkisins að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 1.186.254 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kærandi óskaði eftir niðurfellingu skuldar sinnar með umsókn til Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 14. ágúst 2015.

Með bréfi, dags. 18. september 2015, tilkynnti Tryggingastofnun kæranda að umsókn hans um niðurfellingu endurgreiðslukröfu hafi verið synjað á þeim grundvelli að krafan væri réttmæt og skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um alveg sérstakar aðstæður væru ekki talin vera fyrir hendi. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun með tölvubréfi þann 28. september 2015. Rökstuðningur var veittur með bréfi, dags. 13. október 2015.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 19. janúar 2016. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. febrúar 2016, óskaði nefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 26. febrúar 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. febrúar 2016, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Með bréfi úrskurðar-nefndarinnar, dags. 22. september 2016, sem ítrekað var með bréfi, dags. 12. október 2016, var kæranda tilkynnt um að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hann að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í máli hans. Athugasemdir bárust með tölvubréfi þann 14. október 2016.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að hann krefjist þess að Tryggingastofnun felli niður kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra bóta.

Í athugasemdum kæranda gerir hann athugasemdir við að bréf úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 22. september 2016, hafi ekki borist honum fyrr en níu mánuðum eftir að hann hafi skilað inn kæru. Til stuðnings því að afsakanlegt hafi verið að kæra hafi ekki borist fyrr bendir kærandi á að á þessum tíma hafi hann verið á milli heimila og honum hafi ekki borist bréfið frá úrskurðarnefndinni fyrr en seint og um síðir. Hann hafi verið og sé að eiga við mikinn kvíða og hafi átt mjög erfitt með að takast á við þetta. Þegar hann hafi loksins náð að klára þetta hafi hann fengið svæsna pest í um hálfan mánuð en skilað inn gögnum um leið og hann hafi treyst sér til.

Til stuðnings því að veigamiklir hagsmunir mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar nefnir kærandi að það sé einfaldlega veigamikið fyrir hans andlegu heilsu og fjárhag að hann fái lokun á þetta mál. Þetta sé búið að hvíla mjög þungt á honum og hann geti engan veginn sætt sig við það að þessu máli verði lokað án þess að hann fái niðurstöðu í því.

Ríkið eigi að vinna fyrir hann en ekki hann fyrir það. Honum finnist að í öllu þessu máli hafi allt verið gert til þess að hafa betur í því gagnvart honum. Bréfið sem lögfræðingur Tryggingastofnunar hafi sent úrskurðarnefndinni sé með fjölda rangfærslna sem sé lýsandi fyrir þetta mál.

III. Niðurstaða

Kærð er synjun Tryggingastofnunar ríkisins um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta á árinu 2012.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Samkvæmt 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefst kærufrestur ekki fyrr en rökstuðningur hefur verið tilkynntur aðila máls ef hann hefur farið fram á rökstuðning fyrir ákvörðun.

Samkvæmt gögnum málsins liðu þrír mánuðir og sex dagar frá því að kæranda var veittur rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. október 2015, þar til kæra barst úrskurðarnefndinni þann 19. janúar 2016. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar var því liðinn þegar kæra barst nefndinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

  1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

  2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að í rökstuðningi Tryggingastofnunar frá 13. október 2015 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar og um tímalengd kærufrests.

Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 22. september 2016, sem ítrekað var með bréfi, dags. 12. október 2016, var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hann að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga gætu átt við í máli hans. Úrskurðarnefndinni bárust athugasemdir frá kæranda með tölvubréfi þann 14. október 2016 þar sem fram kemur meðal annars að honum hafi ekki borist bréfið frá úrskurðarnefndinni fyrr en seint og um síðir. Þá segir að hann eigi við mikinn kvíða að stríða og þegar hann hafi loksins náð að klára kæruna hafi hann fengið svæsna pest í um hálfan mánuð en skilað inn gögnum um leið og hann hafi treyst sér til. Einnig greinir kærandi frá því að það sé veigamikið fyrir hans andlegu heilsu og fjárhag að hann fái lokun á þetta mál.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála eru ástæður kæranda, er varða veikindi, ekki þess eðlis að afsakanlegt verði talið að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Gögn málsins gefa ekki til kynna að kærandi hafi ekki verið fær um að kæra ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands innan kærufrests. Úrskurðarnefndin horfir meðal annars til þess að hægt er að senda kæru til nefndarinnar í pósti og einnig með rafrænum hætti. Í ljósi framangreinds telur úrskurðarnefndin að ekki hafi verið afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr. Þá verður heldur ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Með hliðsjón af framangreindu er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Úrskurðarnefnd telur tilefni til að benda kæranda á að hann geti sótt um niðurfellingu á endurgreiðslukröfu að nýju hjá Tryggingastofnun ríkisins og verði umsókninni synjað geti kærandi kært þá niðurstöðu til úrskurðarnefndarinnar innan kærufrests.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta