Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 450/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 450/2021

Miðvikudaginn 17. nóvember 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 30. ágúst 2021, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 14. júní 2021 um að samþykkja umsókn barnsmóður hans um milligöngu um sérstakt framlag vegna fermingar dóttur þeirra.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með rafrænni umsókn, móttekinni 11. júní 2021, sótti barnsmóðir kæranda um milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins um sérstakt framlag vegna fermingar dóttur þeirra. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 14. júní 2021, var kæranda tilkynnt um milligöngu stofnunarinnar á sérstöku framlagi til barnsmóður kæranda með dóttur þeirra vegna fermingar hennar að fjárhæð 84.505 kr.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 30. ágúst 2021. Með bréfi, dags. 2. september 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 16. september 2021, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. september 2021. Athugasemdir bárust frá umboðsmanni kæranda með bréfi, dags. 28. september 2021, og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. september 2021. Viðbótargreinargerð barst frá Tryggingastofnun ríkisins með bréfi, dags. 12. október 2021, og var hún send umboðsmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. október 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé sú ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins að gera kæranda að greiða viðbótarframlag vegna fermingar dóttur hans að fjárhæð 84.505 kr.

Kærandi vísar til þess að væntanlega byggist ákvörðunin á úrskurði Sýslumannsins á C, en ekki sé vitað um dagsetningu úrskurðarins þar sem kærandi hafi hvorki fengið úrskurðinn né haft vitneskju um málið fyrr en tilkynning hafi komið með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 14. júní 2021.

Kærandi krefjist aðallega sýknu en til vara að málinu verði vísað til löglegrar málsmeðferðar hjá sýslumanni. 

Í athugasemdum umboðsmanns kæranda, dags. 28. september 2021, kemur fram að kærandi átti sig vel á þeirri meginreglu að hlutverk Tryggingastofnunar sé að hafa milligöngu um greiðslu meðlags og sérstaks framlags þegar ákvörðun hafi verið „tekin um slíkt með lögmætum hætti.“ Því sé harðlega mótmælt að umrædd ákvörðun Sýslumannsins á C hafi verið tekin með lögmætum hætti. Þá beri að gera grein fyrir því að ákvörðunin hafi verið kærð til dómsmálaráðuneytisins.

Samkvæmt 1. mgr. 60. gr. barnalaga nr. 76/2003 sé heimilt að úrskurða þann sem meðlagsskyldur sé til að inna af hendi sérstakt framlag vegna útgjalda við fermingu barns. Framlag samkvæmt framangreindu verði þó aðeins úrskurðað ef krafa um það sé höfð uppi við sýslumann innan þriggja mánaða frá því að svara varð til útgjalda, nema eðlileg ástæða hafi verið til að bíða með slíka kröfu, sbr. 2. mgr. 60. gr. barnalaga.

Í 2. mgr. 70. gr. barnalaga komi fram að ef aðili sinni ekki tilmælum sýslumanns um að mæta við fyrirtöku máls eða senda skriflega greinargerð um viðhorf sín til þess, skuli sýslumaður senda honum gögn málsins með sannanlegum hætti og gefa honum frest til að tjá sig skriflega um málið eða tækifæri til að mæta á fund sýslumanns á tilteknum tíma.

Ekki sé hægt að túlka hugtakið „með sannarlegum hætti“ á annan hátt en þann að það skuli senda viðkomandi aðila tilkynningu, reyndar í þessu tilviki gögn málsins, í ábyrgðarbréfi eða með stefnuvotti. Þetta sjáist klárlega í 3. mgr. 70. gr. barnalaga.

Þrátt fyrir að sýslumaður segi í úrskurði sínum að hann hafi sent kæranda gögn málsins í bréfi þann 12. maí og svo í tölvupósti þann 14. maí, kannist kærandi hvorki við að hafa fengið gamaldags bréf í pósti né tölvupóst frá sýslumanni um framangreint mál, hvað þá gögn málsins. Enn þann dag í dag hafi kærandi ekki fengið gögn málsins. Þá kveðst kærandi hvorki hafa fengið úrskurðinn sendan í ábyrgðarbréfi né með stefnuvotti, eins og sýslumanni beri að gera. Sýslumaður hafi ekki sýnt fram á að hann hafi sent kæranda gögn málsins með sannanlegum hætti en þar með sé úrskurður sýslumanns um skyldu kæranda til að greiða fermingarframlag haldinn þvílíkum galla að hann teljist ekki hafa verið tekinn með lögmætum hætti.

Í greinargerð Tryggingastofnunar komi fram að hlutverk stofnunarinnar sé að hafa milligöngu um greiðslu meðlags og sérstaks framlags þegar ákvörðun hafi verið tekin um slíkt með lögmætum hætti. Eins og greint hafi verið frá hér að framan sé ljóst að úrskurður Sýslumannsins á C hafi ekki verið tekinn með lögmætum hætti. Því sé ekki um að ræða löggilda ákvörðun og því beri Tryggingastofnun að hafna því að hafa milligöngu um innheimtu samkvæmt úrskurðinum eða í öllu falli að bíða með frekari innheimtu þar til niðurstaða fáist í kæru þeirri sem sé til meðferðar hjá dómsmálaráðuneytinu.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé ákvörðun um að samþykkja að verða við beiðni barnsmóður kæranda um að hafa milligöngu um sérstakt framlag vegna fermingar dóttur þeirra að fjárhæð 84.505 kr.

Málavextir séu þeir að Tryggingastofnun hafi tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 14. júní 2021, að stofnunin hefði samþykkt að hafa milligöngu um greiðslu sérstaks framlags vegna fermingar dóttur hans, að fjárhæð 84.505 kr. Tryggingastofnun hafi borist umsókn barnsmóður kæranda þann 11. júní 2021 um greiðslu sérstaks framlags vegna fermingar dóttur þeirra ásamt úrskurði Sýslumannsins á C, dags. 10. júní 2021, þar sem komi fram að kærandi skuli greiða barnsmóður sinni sérstakt framlag vegna fermingar dóttur þeirra að fjárhæð 84.505 kr.

Kveðið sé á um það í 63. gr. laga nr. 100/2007 almannatryggingar að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur samkvæmt. IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skuli gilda þegar lagt sé fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga.

Samkvæmt 67. gr. barnalaga sé Tryggingastofnun skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

Hlutverk Tryggingastofnunar sé að hafa milligöngu um greiðslu meðlags og sérstaks framlags þegar ákvörðun hafi verið tekin um slíkt með lögmætum hætti. Ef foreldri leggi fram löggilda meðlagsákvörðun eða ákvörðun um sérstakt framlag beri Tryggingastofnun samkvæmt 63. gr. laga um almannatryggingar og 67. gr. barnalaga að hafa milligöngu um greiðslu meðlags og sérstaks framlags. Lög veiti Tryggingastofnun ekki heimild til að taka önnur gögn en talin séu upp í framangreindum ákvæðum til greina við milligöngu um greiðslu meðlags og sérstaks framlags.

Hjá Tryggingastofnun liggi fyrir löggild ákvörðun um greiðslu sérstaks framlags vegna fermingar, þ.e. úrskurður Sýslumannsins á C, dags. 10. júní 2021, sem kveði á um að kærandi skuli greiða barnsmóður sinni sérstakt framlag vegna fermingar dóttur þeirra, að fjárhæð 84.505 kr. Þá liggi fyrir umsókn barnsmóður kæranda um greiðslu sérstaks framlags.

Með vísan til framangreinds beri Tryggingastofnun skylda til að hafa milligöngu um meðlag og sérstakt framlag samkvæmt lögformlegri ákvörðun, sé þess farið á leit við stofnunina. Tryggingastofnun hafi engar heimildir til að virða að vettugi lögbundna skyldu sína til að greiða meðlag og sérstakt framlag samkvæmt hinni lögformlegu ákvörðun. Tryggingastofnun hafi því borið að hafa milligöngu á sérstöku framlagi til barnsmóður kæranda, að fjárhæð 84.505 kr.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi margsinnis í úrskurðum sínum staðfest hlutverk Tryggingastofnunar um milligöngu um greiðslu meðlags og meðal úrskurða nefndarinnar þar að lútandi megi nefna úrskurði í málum nr. 312/2017, 333/2018, 17/2019, 215/2019, 407/2019, 408/2019, 59/2020 og 76/2021.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 14. júní 2021 um að samþykkja umsókn barnsmóður kæranda um milligöngu um greiðslu sérstaks framlags vegna fermingar dóttur hans.

Kveðið er á um greiðsluskyldu Tryggingastofnunar ríkisins í 67. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þar segir að Tryggingastofnun ríkisins sé skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar getur hver sá sem fær úrskurð um meðlag með barni, sem hann hefur á framfæri sínu, snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags og annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Hið sama gildir þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga.

Samkvæmt framangreindu ber Tryggingastofnun ríkisins að hafa milligöngu um greiðslu sérstaks framlags, berist beiðni þar um á grundvelli lögformlegrar ákvörðunar. Fyrir liggur að barnsmóðir kæranda sótti um milligöngu Tryggingastofnunar um greiðslu sérstaks framlags með dóttur þeirra með rafrænni umsókn, móttekinni 11. júní 2021. Stofnunin samþykkti umsóknina á grundvelli úrskurðar Sýslumannsins á C, dags. 10. júní 2021. Samkvæmt úrskurðinum ber kæranda að greiða barnsmóður sinni sérstakt framlag vegna fermingar dóttur þeirra, að fjárhæð 84.505 kr.

Hlutverk Tryggingastofnunar í tengslum við greiðslur sérstaks framlags markast af ákvæðum viðeigandi laga. Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar er stofnuninni falið að hafa milligöngu um sérstakt framlag, sé þess farið á leit við stofnunina í þeim tilvikum þar sem lögformleg ákvörðun liggur fyrir.

Í kæru er vísað til þess að ekki liggi fyrir lögmæt ákvörðun þar sem annmarkar hafi verið á málsmeðferð Sýslumannsins á C og búið sé að kæra þá ákvörðun til dómsmálaráðuneytisins. Með vísan til 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar er það mat úrskurðarnefndar að ekki sé heimilt að synja barnsmóður kæranda um milligöngu sérstaks framlags með vísan til framangreindra málsástæðna þar sem fyrir liggur löggild ákvörðun sem kveður á um greiðsluskyldu kæranda. Tryggingastofnun er ekki heimilt að líta fram hjá úrskurði Sýslumannsins á C, enda er ekki kveðið á um frestun réttaráhrifa í úrskurðinum, sbr. 2. mgr. 78. gr. barnalaga. Kæranda er aftur á móti bent á að hann geti síðar óskað eftir endurskoðun hjá Tryggingastofnun, gefi niðurstaða dómsmálaráðuneytisins tilefni til þess.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 14. júní 2021 um að hafa milligöngu um sérstakt framlag vegna fermingar dóttur kæranda.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að hafa milligöngu um sérstakt framlag vegna fermingar dóttur A, til barnsmóður hans, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta