Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 149/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 149/2021

Miðvikudaginn 25. ágúst 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 28. nóvember 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. nóvember 2020 á beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum um nöfn og menntun tiltekinna starfsmanna sem höfðu aðkomu að máli hennar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með tölvubréfi 21. október 2020 óskaði kærandi eftir upplýsingum um nafn og menntun þeirra starfsmanna sem skrifuðu, komu að vinnslu og/eða báru ábyrgð á ritun og innihaldi tiltekinna skjala frá Tryggingastofnun ríkisins. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. nóvember 2020, voru kæranda veittar upplýsingar um nöfn og menntun ákveðinna starfsmanna sem höfðu haft aðkomu að máli hennar.

Kæra var send úrskurðarnefnd velferðarmála þann 30. nóvember 2020 en barst ekki fyrr en 18. mars 2021. Með bréfi, dags. 23. mars 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 19. apríl 2021, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. apríl 2021. Með tölvubréfi, mótteknu 28. maí 2021, bárust athugasemdir kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 31. maí 2021. Með bréfi, dags. 23. júní 2021, barst viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. júní 2021. Með tölvubréfi, mótteknu 7. júlí 2021, bárust athugasemdir kæranda við viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og voru þær sendar stofnuninni til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. júlí 2021. Frekari efnislegar athugasemdir bárust ekki frá Tryggingastofnun. Með tölvubréfi, mótteknu 9. ágúst 2021, bárust viðbótarathugasemdir frá kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dags. 16. ágúst 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. nóvember 2020, um synjun á upplýsingum um nöfn og menntun tiltekinna starfsmanna sem skrifuðu, komu að vinnslu og/eða báru ábyrgð á ritun og innihaldi skjala í máli hennar hjá Tryggingastofnun, sbr. beiðni hennar, dags. 21. október 2020. Kærandi hafi sent beiðni í 44 liðum til Tryggingastofnunar ríkisins um upplýsingar um nöfn og menntun allra starfsmanna sem hafi skrifað, komið að vinnslu og/eða borið ábyrgð á ritun og innihaldi ákveðinna skjala í máli hennar hjá stofnuninni. Tryggingastofnun hafi veitt upplýsingar um hluta umbeðinna skjala.

Kærandi telji að Tryggingastofnun ríkisins beri að upplýsa hana um nöfn og menntun allra þeirra starfsmanna sem hafi skrifað, komið að vinnslu og/eða borið ábyrgð á ritun og innihaldi skjala í liðum 15, 32, 33, 34, 35, 36, 27, 40, 41, 42, 43 og 44.

Í athugasemdum kæranda, dags. 26. maí 2021, gerir kærandi athugasemdir við að starfsmenn Tryggingastofnunar hafi týnt bréfinu sem sent hafi verið 13. mars 2020. Að mati kæranda gefi það augaleið að stofnun sem týni skjölum og bréfum sem séu send, sé ekki með sitt verklag á hreinu.

Þá gerir kærandi athugasemdir við liði 15 og 41 í beiðni sinni til stofnunarinnar. Tryggingastofnun beri því við að þær ákvarðanir sem komi fram í þessum skjölum hafi verið teknar af Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu í umboði Tryggingastofnunar. Þar sem Tryggingastofnun hafi ekki boðvald yfir þeim starfsmönnum sem ákvörðunina hafi tekið hafi stofnunin ekki haft heimild til að afhenda kæranda upplýsingar um nöfn þeirra. Þetta svar Tryggingastofnunar veki upp tvær spurningar hjá kæranda. Annars vegar hvort stofnuninni hafi verið heimilt að fela Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu töku stjórnvaldsákvörðunar og hins vegar hvort stofnuninni hafi verið heimilt að synja kæranda um umbeðnar upplýsingar. Um heimilisuppbót sé fjallað í lögum nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 3. mgr. 1. gr. laganna sé tilgreint að Tryggingastofnun fari með framkvæmd laganna og í 8. gr. sé fjallað sérstaklega um rétt til heimilisuppbótar.

Valdframsal sé þegar stjónvald færi verkefni til innan eða utan stjórnvaldsins og sé þá talað um innra og ytra valdframsal. Innra valdframstal sé þegar ráðherra feli til dæmis starfsmönnum ráðuneytisins ákvöðunarvald í málum. Ytra valdframsal sé þegar stofnun feli öðrum vald utan stofnunarinnar. Til þess að stofnun geti framselt vald sitt til aðila utan stofnunarinnar þurfi stofnunin að hafa fyrir því sterka lagaheimild. Þegar vald hafi verið framselt utan stjórnvaldsins, með lagaheimild, hafi sá sem þá hafi valdið alveg sömu skyldur og valdheimildir gagnvart borgurunum og stjórnvaldið sem framseldi valdið og hafi ákvarðanir þess einnig sama gildi og ef stjórnvaldið hefði tekið ákvörðunina. Stjórnvaldið beri þó enn lagalega ábyrgð og haldist réttarstaða borgaranna óbreytt, þrátt fyrir að vald hafi verið framselt til aðila utan stofnunarinnar.

Tryggingastofnun sé með lögum falið að taka stjórnvaldsákvarðanir um rétt íslenskra borgara til heimilisuppbótar og annast útgreiðslu slíkra bóta til þeirra sem eiga slíkan rétt. Hvergi í lögum nr. 99/2007 um félagslega aðstoð né öðrum lögum sé heimild til handa Tryggingastofnun til að framselja þetta vald. Hafi stofnunin falið Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu töku slíkrar ákvörðunar hafi ákvörðunin ekki verið tekin af til þess bæru stjórnvaldi og sé því þegar af þeirri ástæðu ólögmæt.

Í 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé fjallað um upplýsingarétt aðila máls. Í ákvæðinu komi fram ríkur réttur til aðgangs að skjölum og upplýsingum sem mál varði. Rétturinn verði eingöngu takmarkaður með heimild í 16. og 17. gr. laganna á þeim grundvelli að gögn séu sérstaklega undanskilin upplýsingarétti eða að almanna- eða einkahagsmunir, sem séu mun ríkari hagsmunum gagnabeiðanda, standi í vegi fyrir afhendingu.

Kærandi telji ljóst að ef einhver hafi tekið stjórnvaldsákvörðun í umboði Tryggingastofnunar hljóti stofnunin að búa yfir upplýsingum um hver hafi tekið ákvörðunina. Aðili máls eigi ríkan rétt til að vita deili á hverjum þeim sem komi að töku ákvörðunar í máli hans, meðal annars til að geta fullvissað sig um að kröfur stjórnsýsluréttarins um almennt og sérstakt hæfi séu uppfylltar. Kærandi hafi sótt um heimilisuppbót til Tryggingastofnunar og hafi fengið synjun á þeirri beiðni frá stofnuninni. Tryggingastofnun beri því annaðhvort að upplýsa kæranda um hver hafi tekið ákvörðunina eða fela öðrum til þess bærum aðila málið til nýrrar meðferðar og upplýsa kæranda svo um nafn viðkomandi.

Kærandi gerir einnig athugasemdir við liði 32, 33 og 34. Tryggingastofnun beri því við að umræddir tölvupóstar séu sendir úr opnu og sameiginlegu pósthólfi sem allir félagsráðgjafar stofnunarinnar hafi aðgang að og aðkoma þeirra sé ekki skráð. Í tölvupóstum komi fram mikilvægar upplýsingar og leiðbeiningar vegna hugsanlegra umsókna eða umsókna um ákveðin réttindi hjá Tryggingastofnun. Stofnunin beri skráningarskyldu í slíkum tilvikum samkvæmt stjórnsýslu- og upplýsingalögum og kærandi eigi rétt á að vita nákvæmlega hver hafi veitt upplýsingarnar þar sem um aðkomu að stjórnvaldsákvörðun, undanfara stjórnvaldsákvörðunar eða hugsanlegrar stjórnvaldsákvörðunar sé að ræða. Stjórnvöld verði að geta rakið einstakar ráðleggingar og upplýsingar í slíkum tilvikum til einstakra starfsmanna. Auk þess megi benda á að þegar tölvupóstar séu vistaðir í málaskrá Tryggingastofnunar komi það fram undir nafni þess starfsmanns sem gerði það og þannig sé hæglega hægt að rekja hvaða starfsmaður svari þessum tölvupóstum. Kærandi eigi því rétt á að fá umbeðnar upplýsingarnar.

Kærandi gerir enn fremur athugasemdir við liði 35, 36, 40, 42, 43 og 44. Tryggingastofnun beri því við að þessum liðum hafi verið svarað í bréfi Tryggingastofnunar. Síðan reki stofnunin hvar hverjum lið sé svarað í öðrum lið. Kærandi vilji vekja athygli á því að í bréfi Tryggingastofnunar sé þessum liðum svarað með „sjá svar við sömu spurningu að ofan“. Kæranda finnist þetta ekki fullnægjandi svar. Það sé ekki nokkur leið fyrir kæranda að vita nákvæmlega hvar að ofan hverjum lið hafi verið svarað, enda sé aldrei spurt að sömu spurningunni tvisvar. Auk þess komi fjölmargar spurningar til greina „að ofan“ og ekki nokkur leið að vita hver þeirra eigi við. Mikil krafa sé um skýrleika í svörum þegar starfsmenn stofnana svari borgurum. Hefði stofnunin verið skýr í upphafi hefði verið hægt að komast hjá mikilli vinnu. Kærandi geri athugasemdir við hversu óskýr svör Tryggingastofnunar hafi verið í upphaflegu bréfi.

Hvað varði lokaorð Tryggingastofnunar vísar kærandi til þess að stofnuninni hafi verið mikið í mun að það kæmi skýrt fram að allar ákvarðanir væru teknar fyrir hönd stofnunarinnar og á ábyrgð stofnunarinnar, líkt og hafi komið fram í lokaorðum greinargerðarinnar, og að þetta hafi allt verið gert á grundvelli laga- og reglugerðarheimilda og ítarlegra verklagsreglna. Af þessu finnist kæranda ljóst að Tryggingastofnun taki þessar ákvarðanir ekki á grundvelli laga- og reglugerðarheimilda og ítarlegra verklagsreglna og að starfsmenn stofnunarinnar virðist ekki geta eða vilja breyta verklagi sínu, þrátt fyrir að úrskurðarnefnd velferðarmála hafi margoft bent stofnuninni á að þessi vinnubrögð gangi ekki, sbr. úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í málum nr. 97/2019, 432/2019, 98/2020 og 135/2020. Kærandi hafi ekki enn fengið upplýsingar um aðra en þá sem skráðir séu fyrir bréfum í öllum liðum beiðni sinnar. Tryggingastofnun beri að skrá sérstaklega aðkomu allra starfsmanna sem komi að ákvörðunum í einstökum málum, enda eigi kærandi rétt á að fá að vita hverjir hafi haft aðkomu að málinu, meðal annars til að geta sjálf sannreynt sérstakt hæfi og hver nákvæmlega hafi borið ábyrgð á málinu og komið að því. Ef sá sem hafi átt að skrifa undir bréfið hafi líka borið ábyrgð á því, þurfi það að koma skýrt fram. Kærandi vísar einnig til þess að starfsmenn stofnana skuli skrifa nafn sitt og starfsheiti undir bréf sem send séu frá stofnuninni. Tryggingastofnun sé því ekki að fara að lögum varðandi það.

Í viðbótarathugasemdum kæranda, dags. 5. júlí 2021, tekur kærandi fram að viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar sé eingöngu gerð til að tefja málsmeðferðina fyrir kæranda.

Kærandi taki það fram að hún sé ekki að ruglast á dagsetningum og það sannist meðal annars af því að hún hafi einnig beðið um upplýsingar um bréfið frá 12. mars 2020 í upphaflegu beiðni sinni.

Kærandi vísar til samnings dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og Tryggingastofnunar ríkisins sem Tryggingastofnun lagði fram í málinu. Að mati kæranda komi þessi samningur málinu ekki við. Ef samningurinn hafi verið gerður og sé enn í gildi breyti hann engu um rétt kæranda til að fá upplýsingar um nöfn og starfsheiti starfsmanna eða um ábyrgð Tryggingastofnunar á gögnunum. Stjórnvöld geti ekki útvistað verkefnum nema þau hafi skýra viðhlítandi lagastoð eins og kærandi hafi bent á. Tryggingastofnun hafi verið í lófa lagið að benda á lagastoðina fyrir útvistuninni en hafa kosið að gera það ekki.

Í viðbótarathugasemdum kæranda, dags. 9. ágúst 2021, óskar kærandi eftir því að Tryggingastofnun vísi í lagaheimild fyrir framsali stjórnvaldsákvörðunar til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Kærandi taki fram að hún hafi ítrekað beðið stofnunina um heimildina að baki framsalinu. Þar sem Tryggingastofnun hafi ekki orðið við því, telji hún að um ólögmætt valdframsal sé að ræða.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 19. nóvember 2020, um aðgang að nöfnum starfsmanna sem hafi ritað tiltekin skjöl sem listuð hafi verið upp af kæranda.

Í 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eigi aðili máls rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál varða. Í 17. gr. sömu laga komi fram að þegar sérstaklega standi á sé stjórnvaldi heimilt að takmarka aðgang aðila máls að gögnum ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þyki eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- og einkahagsmunum.

Tryggingastofnun hafi borist beiðni kæranda, dags. 21. október 2020, um upplýsingar um nöfn og menntun allra þeirra starfsmanna sem hafi skrifað, komið að vinnslu og/eða borið ábyrgð á ritun og innihaldi ákveðinna skjala sem hafi verið rituð til kæranda. Í bréfinu hafi verið listuð upp þau skjöl sem óskað hafi verið upplýsinga um og hafi beiðnin verið í 44 liðum.

Með bréfi, dags. 19. nóvember 2020, hafi kæranda verið veittar umbeðnar upplýsingar. Kærandi telji að henni hafi ekki verið veittar upplýsingar um liði nr. 15, 32, 33, 34, 35, 36, 37, 40, 41, 42, 43 og 44.

Tryggingastofnun vísar til liðar 37 og að þeim lið hafi verið svarað með bréfi Tryggingastofnunar. Ekkert bréf hafi fundist hjá Tryggingastofnun, dags. 13. mars 2020, og geti stofnunin því ekki veitt neinar upplýsingar um það. Athygli sé vakin á því að til sé bréf frá Tryggingastofnun til kæranda, dags. 12. mars 2020, og hafi verið veittar upplýsingar um hver hafi ritað það bréf í svari við lið 4.

Hvað varði liði 15 og 41 vísar Tryggingastofnun til þess að ákvarðanirnar, sem kærandi hafi óskað upplýsinga um, hafi verið teknar í umboði Tryggingastofnunar hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Starfsmenn umboða Tryggingastofnunar hjá sýslumannsembættunum séu ekki starfsmenn Tryggingastofnunar heldur sýslumanna. Tryggingastofnun hafi því ekkert boðvald yfir þeim starfsmönnum og telji sig ekki hafa heimild til að veita upplýsingar um nöfn þeirra. Tryggingastofnun bendir kæranda á að vísa beiðni sinni um þessar upplýsingar til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.

Tryggingastofnun vísar í liði 32, 33 og 34 og tekur fram að umræddir tölvupóstar sem kærandi hafi óskað upplýsinga um hafi verið sendir úr pósthólfinu „Endurhæfing TR“ og enginn ákveðinn starfsmaður sé skráður fyrir þeim tölvupóstum. Stundum sé einföldum fyrirspurnum sem berist í pósthólfið svarað beint úr pósthólfinu og því sé ekki haldið sérstaklega utan um það hvaða starfsmaður geri það hverju sinni. Þeir sem hafi aðgang að því pósthólfi séu eingöngu félagsráðgjafar stofnunarinnar, sem starfi við endurhæfingarmál, og þeir skipti með sér verkum við að svara þeim erindum sem berist í hólfið.

Hvað varði liði 35, 36, 40, 42, 43 og 44 vísar Tryggingastofnun til þess að öllum þeim liðum hafi verið fullsvarað í bréfi stofnunarinnar. Í þessum liðum hafi kærandi óskað eftir sömu upplýsingum og hún hafi gert í öðrum liðum fyrirspurnarinnar og því hafi stofnunin vísað til fyrra svars síns við sömu fyrirspurn. Fyrirspurninni í lið 35 hafi verið svarað í lið 23, fyrirspurnininni í lið 36 hafi verið svarað í lið 21, fyrirspurninni í lið 40 hafi verið svarað í lið 4, fyrirspurninni í lið 42 hafi verið svarað í lið 16, fyrirspurninni í lið 43 hafi verið svarað í lið 18 og fyrirspurninni í lið 44 hafi verið svarað í lið 14.

Kæranda hafi verið veittar upplýsingar um nöfn og menntun þeirra starfsmanna sem hafi afgreitt eða skrifað þau skjöl sem tiltekin hafi verið í fyrirspurn kæranda. Hvað varði aðra þá sem hafi komið að vinnslu þeirra mála sé engin sérstök skráning á aðkomu þeirra starfsmanna sem starfi hjá Tryggingastofnun við afgreiðslu mála að öðru leyti en því hver afgreiddi eða skrifaði bréfið. Þá skuli tekið fram að allar ákvarðanir stofnunarinnar séu teknar fyrir hönd stofnunarinnar og séu á ábyrgð stofnunarinnar, enda séu þær teknar á grundvelli laga- og reglugerðaheimilda og ítarlegra verklagsreglna.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar, dags. 31. maí 2021, tekur stofnunin fram að bréf, dags. 12. mars 2020, hafi verið birt á „Mínum síðum“ kæranda þann 13. mars 2020 og geti það hafa valdið misskilningi hjá kæranda varðandi dagsetningu þess.

Tryggingastofnun vísar einnig til þess að árið 1989 hafi dóms- og kirkjumálaráðuneytið og Tryggingastofnun gert með sér samning sem hafi falið embættum sýslumanna og bæjarfógeta að taka að sér umboðsstörf fyrir Tryggingastofnun. Í honum komi fram að starfsmenn, sem ráðnir séu til starfa við tryggingaumboðin, séu ráðnir með sama hætti og aðrir starfsmenn embættanna. Ákvarðanir sem sýslumenn og bæjarfógetar taki sem varði greiðslu bóta lúti stjórnvaldsfyrirmælum Tryggingastofnunar en ákvarðanir sem varði almennan rekstur tryggingaumboðanna lúti stjórnvaldsfyrirmælum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins með sama hætti og rekstur annarra þátta umræddra embætta.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. nóvember 2020 á beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum um nöfn og menntun starfsmanna sem höfðu aðkomu að máli hennar.

Um upplýsingarétt aðila máls er fjallað í 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með síðari breytingum, en þar segir í 1. máls 1. mgr. ákvæðisins að aðili máls eigi rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál hans varði. Í 16. og 17. gr. laganna er fjallað um gögn sem undanþegin eru upplýsingarétti og takmörkun á upplýsingarétti. Kærandi krefst þess að fá upplýsingar um nöfn og menntun starfsmanna sem skrifuðu, komu að vinnslu og/eða báru ábyrgð á ritun og innihaldi tiltekinna skjala í hennar máli.

  1. Nafn og menntun starfsmanns sem ritaði synjunarbréf, dags. 13. mars 2020, og nöfn og menntun starfsmanna sem svöruðu erindum úr tölvupósthólfi „Endurhæfing TR“

    Kærandi krefst þess að fá upplýsingar um nafn og menntun þess starfsmanns sem ritaði synjunarbréf, dags. 13. mars 2020. Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að ekkert bréf hafi fundist hjá stofnuninni með þeirri dagsetningu og því geti stofnunin ekki veitt neinar upplýsingar um það. Tryggingastofnun ríkisins tekur einnig fram að til sé bréf frá stofnuninni til kæranda, dags. 12. mars 2020, og að kæranda hafi verið veittar upplýsingar um hver hafi ritað það bréf.

    Úrskurðarnefndin telur sig ekki hafa forsendur til að rengja þá fullyrðingu Tryggingastofnunar að ekkert bréf hafi fundist hjá stofnuninni með þeirri dagsetningu og því sé ekki hægt að veita neinar upplýsingar um það. Þeim hluta kæru sem varðar beiðni um upplýsingar um nafn og menntun starfsmanns sem ritaði synjunarbréf, dags. 13. mars 2020, er því vísað frá úrskurðarnefndinni.

    Kærandi krefst þess einnig að fá upplýsingar um nöfn og menntun starfsmanna Tryggingastofnunar sem svöruðu tölvubréfi, dags. 21. júní 2019, og tveimur tölvubréfum um beiðni um gögn, dags. 26. júlí 2019. Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að umræddum tölvubréfum hafi verið svarað úr pósthólfinu „Endurhæfing TR“ og enginn ákveðinn starfsmaður sé skráður fyrir þeim tölvubréfum. Þá komi fram að því sé ekki haldið sérstaklega utan um það hvaða starfsmaður svari hverju erindi og að þeir sem hafi aðgang að pósthólfinu séu eingöngu félagsráðgjafar stofnunarinnar sem skipti með sér verkum við að svara erindum sem berist í hólfið.

    Úrskurðarnefndin telur ekki tilefni til að rengja þá fullyrðingu stofnunarinnar að ekki sé haldið sérstaklaga utan um það hvaða starfsmaður svari hverju erindi úr pósthólfinu og engum upplýsingum sé því til að dreifa um það. Tryggingastofnun hafi veitt kæranda upplýsingar um að umræddum erindum hafi verið svarað úr tölvupósthólfinu og að félagsráðgjafar stofnunarinnar hafi eingöngu aðgang að því. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að aðrar upplýsingar um hvaða starfsmenn svari erindum úr pósthólfinu séu ekki til og er þeim hluta kæru því einnig vísað frá úrskurðarnefndinni. Úrskurðarnefndin telur þó tilefni til að benda á að það væri í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti og réttaröryggissjónarmið ef haldið væri utan um hvaða starfsmaður svarar hverju og einu erindi.

  2. Nafn og menntun starfsmanna sem rituðu synjunarbréf um heimilisuppbót, dags. 11. apríl 2019, og afrit af fundargerð, dags. 11. apríl 2019, vegna synjunar heimilisuppbótar

Kærandi krefst þess að fá upplýsingar um nöfn og menntun starfsmanna sem rituðu synjunarbréf um heimilisuppbót, dags. 11. apríl 2019, og afrit af fundargerð, dags. 11. apríl 2019, vegna synjunar heimilisuppbótar ásamt upplýsingum um nöfn og menntun þeirra sem sátu fundinn, þeirra sem báru ábyrgð á ákvörðuninni og þeirra sem komu að vinnslu ákvörðunarinnar. Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að þær ákvarðanir hafi verið teknar í umboði Tryggingastofnunar hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Þá er tekið fram í greinargerð að starfsmenn sýslumannsembætta, sem starfi í umboði Tryggingastofnunar, séu ekki starfsmenn Tryggingastofnunar heldur starfsmenn sýslumanna. Tryggingastofnun telji sig ekki hafa boðvald yfir þeim starfsmönnum og hafi því ekki heimild til að veita upplýsingar um nöfn þeirra. Tryggingastofnun tekur enn fremur fram að kærandi verði að beina beiðni sinni þar um til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.

Ágreiningur málsins lýtur að afgreiðslu á beiðni kæranda um gögn og tekur úrskurðarnefnd velferðarmála þar af leiðandi málsástæður kæranda um óheimilt valdframsal ekki til skoðunar, enda hefur ákvörðun um heimilisuppbót ekki verið kærð til nefndarinnar. Samkvæmt 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð er heimilt að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem býr einn og er einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Kveðið er á um að Tryggingastofnun ríkisins greiði bætur samkvæmt lögunum í 3. mgr. 1. gr. sömu laga. Samkvæmt reglugerð nr. 1200/2018 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, ásamt síðari breytingum, skal sækja um heimilisuppbót hjá Tryggingastofnun. Samkvæmt lögum er Tryggingastofnun því bært stjórnvald til ákvörðunartöku í máli kæranda. Þó að Tryggingastofnun hafi framselt vald sitt til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu ber Tryggingastofnun, sem hið bæra stjórnvald, þó áfram lagalega ábyrgð á meðferð málsins. Úrskurðarnefndin telur því að Tryggingastofnun sé ekki heimilt að synja um veitingu málsgagna eða upplýsinga um nöfn þeirra starfsmanna sem koma að stjórnvaldsákvörðun í umboði stofnunarinnar á þeim grundvelli að stofnunin hafi ekki boðvald yfir viðkomandi starfsmönnum. Ef Tryggingastofnun hefur þær upplýsingar/gögn ekki undir höndum ber stofnuninni að rannsaka málið, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Í ljósi framangreinds er ekki fallist á að Tryggingastofnun hafi verið heimilt að synja kæranda um gögn og upplýsingar um nöfn starfsmanna sem komu að máli hennar hjá sýslumanni á framangreindum grundvelli.

Með vísan til framangreinds er felld úr gildi ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um upplýsingar um nöfn og menntun þeirra starfsmanna er komu að máli hennar og afrit af fundargerð vegna synjunar heimilisuppbótar ásamt upplýsingum um nöfn og menntun þeirra sem sátu fundinn, þeirra sem báru ábyrgð á ákvörðuninni og þeirra sem komu að vinnslu ákvörðunarinnar. Þeim hluta málsins er vísað aftur til Tryggingastofnunar til nýrrar meðferðar.  

C.  Nöfn og menntun starfsmanna sem svöruðu öðrum erindum

Kærandi krefst þess að fá upplýsingar um nöfn og menntun starfsmanna sem svöruðu erindum, dags. 1. október 2019, 18. september 2019, 12. mars 2020, 13. júní 2019, 15. júlí 2019 og 3. apríl 2019. Í greinargerð Tryggingastofnunnar kemur fram að framangreindar upplýsingar hafi verið veittar í hinni kærðu ákvörðun og þar koma jafnframt fram nánari útskýringar.

Af framangreindu má ráða að kærandi hefur þegar fengið upplýsingar um nöfn og menntun starfsmanna sem svöruðu þeim erindum. Í ljósi þess telur úrskurðarnefndin því engan ágreining uppi um framangreint og er þeim hluta kæru því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. nóvember 2020 um að synja A, um upplýsingar um nafn og menntun starfsmanna sem rituðu synjunarbréf um heimilisuppbót og fundargerð hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, er felld úr gildi. Þeim hluta málsins er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar. Þeim hluta kæru sem varðar upplýsingar um nafn og menntun starfsmanns sem ritaði synjunarbréf, nöfn og menntun starfsmanna sem svöruðu erindum úr pósthólfinu „Endurhæfing TR“ og nöfn og menntun starfsmanna sem svöruðu öðrum erindum, er vísað frá.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta