Mál nr.148/2023-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 148/2023
Miðvikudaginn 21. júní 2023
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.
Með rafrænni kæru, móttekinni 14. mars 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. nóvember 2022, þar sem umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiddra bóta var samþykkt að hluta.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um niðurfellingu ofgreiðslukröfu sem varð til vegna endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2021. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. nóvember 2022, var samþykkt að fella niður 33% eftirstöðva krafna vegna mistaka í afgreiðslu. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi stofnunarinnar og var hann veittur með bréfi, dags. 12. desember 2022.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 14. mars 2023. Með bréfi, dags. 21. apríl 2023, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hún að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, gætu átt við í málinu. Athugasemdir bárust frá kæranda 8. maí 2023.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru er óskað eftir endurskoðun á niðurstöðu Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. nóvember 2022, sem hafi verið rökstudd með bréfi, dags 12. desember 2022. Kærandi hafi óskað eftir niðurfellingu á ofgreiðslukröfu þann 15. september 2022. Mörg bréf hafi farið á milli hennar og Tryggingastofnunar.
Í athugasemdum kæranda frá 8. maí 2023, segir að henni hafi borist bréf úrskurðarnefndarinnar vegna kæru sem hafi borist tveimur dögum of seint. Kærandi hafi átt við veikindi að stríða í skjaldkirtli sem geri hana ákaflega þreytta, höfuðið sé þokukennt ásamt ýmsu öðru sem hún þjáist af. Eftir jólin hafi kærandi fengið COVID ofan í allt saman, en hún hafi átt við heilsuleysi að stríða í langan tíma. Þetta hafi leitt til þess að hún hafi ekki haft orku í neitt. Auk þess sé kærandi með mann sem þurfi mikla aðstoð heima.
Þegar kæranda hafi borist bréf nefndarinnar hafi hún verið á B og þar hafi vinir og fjölskylda tekið alla þá orku sem hún hafi haft. Enn á ný hafi kærandi sent svar til nefndarinnar örlítið of seint. Kærandi biðji nefndina allra vinsamlegast að sjá aumur á henni og taka kæruna til meðferðar.
III. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 28. nóvember 2022 þar sem umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiddra bóta var samþykkt að hluta.
Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.
Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.
Samkvæmt 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefst kærufrestur ekki fyrr en rökstuðningur hefur verið tilkynntur aðila, fari hann fram á rökstuðning samkvæmt 21. gr. laganna.
Samkvæmt gögnum málsins liðu þrír mánuðir og tveir dagar frá því að kæranda var tilkynnt um rökstuðning fyrir hinni kærðu ákvörðun 12. desember 2022, þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 14. mars 2023. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar var því liðinn þegar kæran barst nefndinni.
Í 28. gr. stjórnsýslulaga segir:
„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:
1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“
Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort atvik séu með þeim hætti að afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.
Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 28. nóvember 2022 og rökstuðningi Tryggingastofnunar frá 12. desember 2022 var leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. apríl 2023, var kæranda veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hún að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, gætu átt við í málinu. Í athugasemdum kæranda segir að ástæða þess að kæra hafi borist seint séu veikindi hennar og í því sambandi er greint frá veikindum í skjaldkirtli og COVID-19. Úrskurðarnefndin telur að skýringar kæranda séu ekki þess eðlis að unnt sé að líta svo á að afsakanlegt sé að kæran hafi ekki borist fyrr. Þá verður ekki heldur séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, enda bendir ekkert í gögnum málsins til ágalla á hinni kærðu ákvörðun og ekkert virðist vera því til fyrirstöðu að kærandi geti sótt um niðurfellingu ofgreiddra bóta á ný.
Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir