Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 221/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 221/2021

Miðvikudaginn 8. september 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 27. apríl 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 24. apríl 2021 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn 15. mars 2021. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 24. apríl 2021, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 27. apríl 2021. Með bréfi, dags. 3. maí 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 25. maí 2021, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi, dags. 26. maí 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því í kæru sinni að hún vilji kæra ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á örorkulífeyri. Hún hafi fyrst sótt um örorkulífeyri haustið 2019 en hafi verið hafnað 21. nóvember 2019 og verið bent á að fara í endurhæfingu. Hún hafi ekki komist í endurhæfingu fyrr en haustið 2020 en þá hafi hún komist heim til Íslands eftir illan leik eftir að hafa lokast inni í B vegna Covid-19. Hlutirnir hafi ekki gengið eins hratt fyrir sig og hún hefði kosið þar sem heilsugæsla hennar hafi ekki getað úthlutað henni heimilislækni, þrátt fyrir að hafa sótt um ákveðinn heimilislækni vorið 2016. Það hafi verið læknakandidat sem hafi fengið mál hennar sem hafi endalaust þurft að ráðfæra sig við aðra lækna og yfirmenn og hafi svo haft samband við hana einhverjum dögum síðar. Kærandi hafi loks komist að hjá VIRK 12. október 2020 en það hafi verið sama dag og henni hafi verið tilkynnt að eiginmaður hennar væri látinn en honum hafi verið ráðinn bani [...]. Hún hafi ekki treyst sér til að fara af stað í prógramm hjá VIRK á þeirri stundu og hafi þurft tíma til að átta sig og sinna ýmsum málum í B[...]. Hún hafi komið til baka í byrjun nóvember og hafi strax farið af stað í endurhæfingu, sjúkraþjálfun og fleira. Hún hafi einnig ákveðið að fara í áfengismeðferð [...]. Henni hafi verið synjað um endurhæfingarlífeyri þann 10. desember 2020. Hún hafi beðið um að Tryggingastofnun sýndi henni vægð og tæki tillit til þeirra aðstæðna sem hafi valdið töfum. Það hafi verið eins og að skvetta vatni á gæs. Hún hafi beðið um rökstuðning fyrir ákvörðuninni og fengið bréf til baka þar sem meðal annars hafi verið vísað ítrekað í læknisvottorð frá heilsugæslu sem hún hafi aldrei stigið fæti inn á. Í rökstuðningi Tryggingastofnunar hafi verið notað orðalag eins og „þóttu ekki“ og „litið svo á“. Að mati kæranda sé það illa unnið bréf í flesta staði. Hún hafi beðið um almennilegan rökstuðning og hafi fengið til baka álíka þvælu og fyrra bréf. Hún hafi sótt aftur um endurhæfingarlífeyri og hafi fengið hann samþykktan 11. febrúar 2021. Þá hafi hún verið komin til VIRK sem hafi metið það svo að það myndi henta henni best að vera hjá C í prógrammi. Fátt hafi getað hentað hennar vanda verr en þar hafi ekkert verið unnið með það sem hafi amað að henni. Þann 15. mars 2021 hafi hún sótt aftur um örorkulífeyri. VIRK hafi boðið henni að koma í starfsgetumat hjá lækninum þeirra sem hún hafi fengið 9. apríl 2021. Læknirinn hafi sagt henni að sækja um örorku, hún væri ekki að fara geta unnið næstu árin og það hafi glatt hann að heyra að hún væri þegar búin að sækja um. Þrátt fyrir mat læknis hjá VIRK og heimilislæknis hennar (hún hafi fundið sér annan lækni) hafi hún fengið synjun á umsókn sinni um örorkulífeyri þann 26. apríl síðastliðinn. Með kæru hafi hún lagt fram fylgiskjöl máli sínu til stuðnings.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á umsókn um örorkulífeyri á grundvelli þess að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Tryggingastofnun sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18 til 67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil samkvæmt 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður séu fyrir hendi. Í reglugerð nr. 661/2020 sé nánar fjallað um skilyrði og framkvæmd endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.

Málavextir séu þeir að við afgreiðslu Tryggingastofnunar á umsókn kæranda um örorku hafi legið fyrir umsókn, dags. 15. mars 2021, spurningalisti, dags. 15. mars 2021, önnur fylgigögn, dags. 15. mars 2021, læknisvottorð, dags. 24. mars 2021, starfsgetumat, dags. 14. apríl 2021, og sérhæft mat, dags. 14. apríl 2021.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 24. apríl 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar um örorkulífeyri hafi verið synjað með vísan til þess að samkvæmt framlögðum gögnum hefði ekki verið tímabært að taka afstöðu til örorku hennar þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Beiðni um örorkumat hafi því verið synjað. Kæranda hafi verið bent á reglur sem varði endurhæfingarlífeyri á heimasíðu Tryggingastofnunar. Þá hafi hún verið hvött til að hafa samband við sinn heimilislækni til að leita ráðgjafar um þau endurhæfingarúrræði sem í boði væru.

Samkvæmt gögnum Tryggingastofnunar hafi kærandi sótt áður um örorkulífeyri þann 13. nóvember 2019 en þeirri umsókn hafi verið synjað með bréfi, dags. 21. nóvember 2019, með þeim rökum að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Kærandi hafi sótt um endurhæfingarlífeyri þann 17. ágúst 2020 en þeirri umsókn hafi verið synjað með bréfi, dags. 10. desember 2020. Sú ákvörðun hafi verið rökstudd með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 21. desember 2020, með vísan til þess að virk starfsendurhæfing hafi ekki talist vera í gangi. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 10. febrúar 2021, hafi umsókn um endurhæfingarlífeyri hins vegar verið samþykkt fyrir tímabilið 1. janúar 2021 til 31. maí 2021 á grundvelli endurhæfingaráætlunar frá C.

Kærandi hafi lagt fram nýja umsókn um örorkulífeyri þann 11. maí 2021 sem hafi verið synjað með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 18. maí 2021, með þeim rökum að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Í læknisvottorði, dags. 22. mars 2021, vegna umsóknar um örorkulífeyri komi fram að kærandi hafi verið frá vinnu síðan vorið 2017. Hún glími við mikil verkjavandamál sem hafi áhrif á vinnugetu en ofan á það komi andleg vanlíðan og þreyta. Hún sé með verki í flestum liðum líkamans, verst séu ökklaliðir, hægri mjöðm og báðar axlir. Þá sé hún einnig með verki niður allt bakið. Hún sé stirð í hálshrygg með dofa fram í handleggi. Síðastliðin tvö ár hafi hægri öxl verið að versna og stundum fái hún sára verki og dofa fram í fingur. Kærandi eigi að minnsta kosti tvö slys að baki; mótorhjólaslys við xx aldur og þá hafi hún dottið af hestbaki í kringum [...]. Hún sé með psoriasis á iljum og sé ástandið oft og tíðum mjög slæmt vinstra megin. Hún fái oft blæðandi sár og bólgur og geti í raun ekki gengið þegar þegar svo sé.

Kærandi hafi verið undir miklu álagi undanfarin ár en það taki á að glíma stöðugt við verki, auk þess sem hún sé óvirkur alkóhólisti, hafi farið í meðferð á D í nóvember 2020 og svo E og hafi lokið þeirri meðferð. Hún hafi misst mann sinn [...] sem hafi verið mikið og erfitt áfall. Kærandi sé komin í endurhæfingu hjá VIRK en sú endurhæfing gangi ekki að hennar mati. Henni finnist endurhæfingin ekki skila neinu og sé að draga hana niður andlega. Kærandi sé komin í algjöra uppgjöf. VIRK hafi þó ekki formlega útskrifað hana. Í niðurlagi læknisvottorðs sé kærandi sögð óvinnufær frá 1. maí 2017 og að búast megi við að færni aukist með tímanum.

Kærandi hafi verið samþykkt á endurhæfingarlífeyri frá 1. janúar 2021 til 31. maí 2021 á grundvelli endurhæfingaráætlunar frá C. Í niðurstöðu starfsgetumats VIRK, miðað við skoðunardag 9. apríl 2021, segi að heilsubrestur sé til staðar sem valdi óvinnufærni. Starfsendurhæfing hjá VIRK sé ekki tímabær og ekki sé talið raunhæft að stefna á þátttöku á almennum vinnumarkaði. Ekki séu forsendur fyrir áframhaldandi starfsendurhæfingu á núverandi tímapunkti þar sem kærandi sé of langt frá vinnumarkaði. Heilbrigðiskerfið þurfi að gera betur áður en VIRK geti tekið við keflinu. VIRK mæli með áframhaldandi uppvinnslu, meðferð og endurhæfingu innan heilbrigðiskerfisins. Það liggi beinast við að skoða aðkomu hjá F og/eða G.

Tryggingastofnun bendi á að endurhæfing sé ekki í öllum tilvikum bundin við atvinnutengda starfsendurhæfingu. Endurhæfingaráætlun geti einnig verið unnin af heilbrigðismenntuðum fagaðila, svo sem lækni, sjúkraþjálfara, félagsráðgjafa, sálfræðingi, iðjuþjálfa eða hjúkrunarfræðingi í samvinnu við umsækjanda um endurhæfingarlífeyri hverju sinni. Þegar þannig hátti til felist endurhæfing fyrst og fremst í lyfjameðferð og/eða annarri sjúkdómsmiðaðri meðferð vegna alvarlegra sjúkdóma. Ákvörðun um endurhæfingarlífeyri sé þá metin út frá læknisvottorði og endurhæfingaráætlun.

Eins og áður komi fram hafi kærandi verið á endurhæfingarlífeyri í fimm mánuði. Á grundvelli laga um félagslega aðstoð sé hins vegar heimilt að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18 til 67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys.

Að mati Tryggingastofnunar sé ekki útséð um að finna megi með aðstoð fagðila viðeigandi úrræði að teknu tilliti til heilsufars kæranda sem stuðlað geti að starfshæfni hennar. Það sé ekki hlutverk Tryggingastofnunar að leggja til meðferðar- eða endurhæfingarúrræði heldur sé sú ábyrgð lögð á lækna og aðra fagaðila hverju sinni að koma þeim einstaklingum, sem ekki séu settir í örorkumat samkvæmt ákvörðun Tryggingastofnunar, í viðeigandi endurhæfingarúrræði sem taki mið af vanda einstaklingsins hverju sinni.

Með vísan til framanritaðs sé það niðurstaða Tryggingastofnunar að sú ákvörðun að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og vísa þess í stað á viðeigandi úrræði innan ramma reglna um endurhæfingarlífeyri hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 24. apríl 2021 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing sé ekki fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. og 2. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda var læknisvottorð H, dags. 22. mars 2021. Í vottorðinu koma fram eftirfarandi sjúkdómsgreiningar:

„ÁFENGISVANDAMÁL

SVEFNLEYSI

LUMBAGO CHRONICA

LIÐVERKIR

ANDLEG VANLÍÐAN

TENDINITIS NOS

VERKJAÁSTAND“

Um fyrra heilsufar kæranda segir í vottorðinu:

„Astma, bakflæði, áfengissýki og sjá að neðan.“

Um núverandi heilsuvanda og færniskerðingu kæranda segir:

„Viðkomandi hefur verið frá vinnu síðan vorið 2017 en þangað til farið á hnefanum. Mikið verkjavandamál sem hefur áhrif á vinnugetu en ofan á það andleg vanlíðan og þreyta. Verkjar í flestum liðum líkamans, verst eru ökklaliðir, hæ mjöðm og báðar axlir. Verkir einnig niður allt bakið. Stirð í hálshrygg með dofa fram í handleggi. Sl tvö ár hefur hæ öxl verið að versna og stundum sárir verkir og dofi fram í fingur.

A á amk tvö slys að baki, móturhjólaslys við xx ára aldur og datt af hestbaki [...]. Rekur ýmis einkenni til þessara slysa, svo sem stirðleika í hálsi og verki í mjöðm hæ meginn. Er með psoriasis á iljum, mjög slæmt ástand vi meginn oft á tíðum. Fær oft blæðandi sár og bólgur og getur í raun ekki gengið þegar þannig er.

Slæm andleg líðan, A hefur verið undir miklu álagi undanfarin ár en það tekur á að glíma stöðugt við verki, auk þess er hún óvirkur alkóhólisti, fór í formlega meðferð á D í nóvember 2020 og svo E og hefur lokið þeirri meðferð. Missti mann sinn [...], þetta var mikið áfall og erfitt mál. Árið xx reyndi hún sjálfsvíg, ætlaði að skera sig á púls en hitti á taug en ekki æðina og lýsir því að sé með dofa síðan og í raun alveg óvirkan litla fingur og skert hreyfigeta í 4. fingri. MCP liður stífur við þumall eftir að réttisin fór í slysi á sínum tíma. Notagildi vi hendi því verulega skert. Er komin í endurhæfingu via VIRK en gengur ekkert þar að hennar mati. Finnst endurhæfingin ekki skila neinu og ef eitthvað er er þetta að draga hana niður andlega.

Er komin í algjöra uppgjöf. Virk hefur þó ekki formlega útskrifað viðkomandi.“

Lýsing læknisskoðunar er svohljóðandi:

„Kemur vel fyrir, snyrtileg. Er aðeins í yfirvikt. Dálítið stirð í hreyfingum almennt. Er með ljótt útbrot undir vi il, flagnandi sár og roði í kring. Ekki þó sýkingarlegt, ekki blæðandi eins og staðan er. Vi meginn á hendi er fingur 5 og 4 að mestu máttlausir, 4. fingur er hálf flecteraður og lætur ekki að stjórn. Vöðvarýrnun í hendinni, sér í lagi milli þumals og vísifingurs.“

Í vottorðinu kemur fram að kærandi sé óvinnufær og að búast megi við að færni hennar aukist með tímanum. Í frekari athugasemdum vottorðsins segir:

„Treystir sér ekki í endurhæfingu áfram, er ekki að fá neitt út úr því, er að bugast.“

Þá liggja einnig fyrir læknisvottorð H, dags. 29. desember 2020, 27. apríl 2021 og 19. maí 2021, og ýmis gögn vegna slysa kæranda og eldri umsókna.

Í starfsgetumati VIRK, dags. 9. apríl 2021, kemur fram að líkamlegir og andlegir þættir hafi mikil áhrif á færni kæranda og félagslegir þættir hafi talsverð áhrif á færni hennar. Í samantekt og áliti segir:

„A er xx ára kona sem leitar á Hg. vegna ósk um endurhæfingarvottorð og áætlun. [...] Lenti í mótorhjólaslysi [...]og hlaut þá áverka á hálsi og ökkla. Minni hreyfigeta um hálslið. Datt af hestbaki xx árs og hlaut þá mjóbaksáverka. Ekki legið inni á sjúkrahúsi seinni tíð en lá inni sem barn [...]. Lenti í umferðarslysi [...]. Reyndi [...] að skera sig á púls en hitti á taug en ekki æðina sem lýsir því að sé með dofa síðan. MCP liður stífur vi. þumall eftir að réttisin fór. Saga um slit í ökkla, mjöðmum og hné. Áverki á vi. hné á I. Slasar árið [...] er hún rennur í blautu grasi og slítur liðband í vi. þumli, fer í tvær aðgerðir vegna þessa. Edrú sl. 2-3 vikur þegar tilvísun er skrifuð í september 2020. Hún kemur í þjónustu Virk nú í upphafi þessa árs og hefur hún verið í þverfaglegri endurhæfingu hjá C. Hún var ósátt við að fá ekki sálfræðiþjónustu strax í upphafi hjá C. var þó að fara í viðtalstíma hjá J í gegnum K núna og sömu leiðis er hún hjá L fer þangað 2x í viku þangað. Hefur hitt sjúkraþjálfarann sem er að bæta við æfingar og finnst erfitt að ganga á starfsendurhæfingarstöðina, en segist samt þurfa að hreyfa sig.

A er ekkja og býr í stofunni hjá tæplega xx syni sínum. [...]. Flytur aftur heim [...] og svo til I [...] og svo til B [...]. Eiginmaður er myrtur [...] og fer í meðferð og verið edrú síðan. Fór einnig í meðferðir 2002 og 2003.[...]. Er í góðu sambandi við allt sitt fólk nema yngri bróður sinn. Verið hraust í gegnum tíðina að öðrum leit en fram kemur í sjúkrasögu, en var að slást að við depurð eftir dauða vinkonu sinnar [...]. Grunur er um vefjagigt og hefur hún verið að slást við þau einkenni frá 2015. Það er góð og þétt vinnusaga framan af. Er með BS í M, vann hjá N og O til 2005. Hefur ekki unnið í þeim geira síðan þá og telur það ekki passa sér í dag. [...] Er óviss með hvað hún vill vinna, og einnig hvað hún getur unnið. Prófaði að vinna í P haustið 2019, en það gekk ekki vel vegna verkja. Annars ekki unnið í um 4 ár. A hefur nú verið í 3 mánuði í C en fannst sjálfri að starfsendurhæfingarstöð ekkert endilega henta sér og var stígandi í starfsendurhæfingunni engin. Hún er að slást við samsettan heilsuvanda, stoðkerfisvanda og m.a. grunur um vefjagigt, afleiðingar fjölda slysa, áfengisvandamál og erfið áföll, missti eiginmann tiltölulega nýlega [...]. Ljóst er að starfsgeta hennar er mikið skert og sér undirritaður engin þau úrræði sem Virk hefur úr að spila sem gætu aukið starfsgetu hennar nú.

                                           09.04.2021 22:25 – R

Niðurstaða: Heilsubrestur til staðar sem veldur óvinnufærni. Starfsendurhæfing hjá VIRK er ekki tímabæt. Ekki talið raunhæft að stefna á þátttöku á almennum vinnumarkaði.

Ekki eru forsendur fyrir áframhaldandi starfsendurhæfingu á núverandi tímapunkti þar sem hún er of langt frá vinnumarkaði og hér þarf heilbrigðiskerfið að gera betur áður en Virk getur tekið við keflinu. Mælt er með áframhaldandi uppvinnslu, meðferð og endurhæfingu innan heilbrigðiskerfisins, beinast liggur við að skoða með aðkomu hjá F og/eða G. E.t.v. ný tilvísun til Virk þegar hún er komin lengra í sínu bataferli. Vísa annars á heimilslækni til að finna úrræði við hæfi í heilbrigðiskerfinu og/eða samtryggingarkerfinu.“

Í fyrirliggjandi spurningalista vegna færniskerðingar sem kærandi lagði fram með umsókn um örorkumat, dags. 15. mars 2021, svaraði kærandi spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni. Í lýsingu á heilsuvanda nefnir kærandi almennan stoðskerfisvanda og mikla verki. Þá nefnir kærandi einnig hreyfiskerðingu og doða í vinstri hendi og handlegg. Einnig sé hún með mjóbaksverki eftir slys. Vinstra hné hennar sé veikburða eftir slys og hún sé með mikla verki í ökkla og rist. Hún sé með stirðleika, verki og stundum taugaklemmur í hálsi eftir slys. Einnig með doða í fingrum og stundum öllum hægri handlegg. Verkir séu í mjaðmaliðum og hún sé mun verri hægra megin í mjöðm. Hún sé með verki í hægra hné, ökkla og rist. Hún sé með psoriasis á iljum sem sé stundum það slæmt að það hindri næstum með öllu gang en hún sé núna í ljósameðferð sem slái á einkennin. Hún sé með verki í fingrum, þeir séu ekki stöðugir en komi fram við létt álag. Samkvæmt lækni sé það vefjagigt sem valdi þessum útbreiddu verkjum. Þá sé hún einnig með andlega deyfð eftir margs konar áföll. Af svörum hennar verður ráðið að hún eigi erfitt með ýmsar daglegar athafnir sökum verkja og dofa. Hvað varðar andlega færni greinir kærandi frá því að hún sé þung í geði og sæki núna til K/S eftir aðstoð. Hún hafi lent í ýmsum áföllum en síðasta ár hafi verið sérlega erfitt þar sem eiginmaður hennar hafi verið myrtur í fyrra. Þessi vetur sé einnig búinn að vera mjög erfiður og hún sé nú orðin full af kvíða og áhyggjum eftir harðneskjulegar og ómannúðlegar móttökur, bæði hjá Félagsþjónustu T og Tryggingastofnun ríkisins. Kæranda finnist vont að fá það ofan á allt annað og finni hún núna fyrir algjörri uppgjöf og tilgangsleysi gagnvart tilverunni.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er Tryggingastofnun heimilt að gera það að skilyrði að umsækjandi um örorku gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að meta örorku þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Þá var kæranda leiðbeint að fá ráðgjöf hjá heimilislækni um frekari endurhæfingarúrræði.

Fyrir liggur að kærandi býr við ýmis vandamál af andlegum og líkamlegum toga og að kærandi hefur fengið greiddan endurhæfingarlífeyri í fimm mánuði. Í læknisvottorði H, dags. 22. mars 2021, kemur fram að kærandi sé óvinnufær og að búast megi við að færni aukist með tímanum. Í læknisvottorði hans, dags. 19. maí 2021, kemur fram að endurhæfing hafi verið reynd hjá VIRK og útlit sé fyrir að áframhaldandi endurhæfing á einhverju formi muni ekki vera líkleg til árangurs. Í starfsgetumati VIRK, dags. 9. apríl 2021, kemur fram að starfsendurhæfing sé ekki tímabær en mælt sé með áframhaldandi uppvinnslu, meðferð og endurhæfingu innan heilbrigðiskerfisins. Þá segir að beinast liggi við að skoða með aðkomu hjá F og/eða G og ef til vill gera nýja tilvísun til VIRK þegar hún sé komin lengra í sínu bataferli. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af framangreindu að starfsendurhæfing hjá VIRK sé óraunhæf að svo stöddu en ekki verður dregin sú ályktun af starfsgetumatinu að ekki sé möguleiki á endurhæfingu á öðrum vettvangi. Þá verður ekki ráðið af eðli veikinda kæranda að endurhæfing geti ekki komið að gagni. Einnig liggur fyrir að kærandi hefur fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun í fimm mánuði en heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að láta reyna á endurhæfingu í tilviki kæranda áður en til örorkumats kemur.

Með vísan til þess, sem rakið hefur verið hér að framan, er staðfest ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 24. apríl 2021, um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er staðfest.

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta