Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 550/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 550/2022

Miðvikudaginn 15. febrúar 2023

A

gegn

Sýslumanninum á B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 23. nóvember 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sýslumannsins á B, dags. 23. nóvember 2022, um að hafna kröfu kæranda um sérstakt framlag vegna tannréttinga sonar hennar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með beiðni, dags. 16. nóvember 2022, óskaði kærandi eftir úrskurði Sýslumannsins á B um sérstakt framlag vegna tannréttinga sonar síns samkvæmt 20. gr. a. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Með úrskurði, dags. 22. nóvember 2022, hafnaði Sýslumaðurinn á B beiðni kæranda með þeim rökum að faðir sonar hennar væri enn á lífi og að hún fengi greitt meðlag með syninum.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 23. nóvember 2022. Með bréfi, dags. 23. nóvember 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sýslumannsins á B ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 30. nóvember 2022, bárust gögn málsins frá Sýslumanninum á B en ekki var óskað eftir að koma að athugasemdum vegna kærunnar. Bréfið var sent kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. desember 2022. Athugasemdir bárust ekki.

Með bréfi til Sýslumannsins á B, dags. 10. janúar 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum um hvort Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu hefði borist tilkynning um andlát barnsföður kæranda. Með tölvupósti 11. janúar 2023 tilkynnti Sýslumaðurinn á B úrskurðarnefndinni að ekki hefði verið tilkynnt um andlát barnsföður kæranda og að engin gögn um andlátið væru hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Tölvupósturinn var sendur kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi fái greiddan barnalífeyri með hverju barni. Í úrskurði komi fram að umsókn sé hafnað vegna þess. Kærandi viti ekki hvort það breyti einhverju en barnið hafi misst föður sinn […].

III.  Sjónarmið Sýslumannsins á B

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að Sýslumanninum á B hafi þann 16. nóvember 2022 borist beiðni kæranda um að úrskurðað yrði um framlag á grundvelli 20. gr. a. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. breytingalög nr. 127/2018. Nánar tiltekið hafi verið óskað eftir að úrskurðað yrði um ótilgreinda kröfu vegna tannréttinga sonar kæranda. Til stuðnings kröfunni hafi kærandi lagt fram greiðslukvittanir og upplýsingar frá tannréttingalækni.

Með lögum nr. 127/2018 hafi verið gerð sú breyting á lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar að bætt hafi verið við grein 20. a. um „barnalífeyri vegna sérstakra útgjalda.“ Samkvæmt greininni sé hægt að beina til sýslumanns beiðni um sérstakt framlag vegna barns sem misst hafi annað foreldri sitt og þá beri sýslumanni að úrskurða um kröfuna. Í beiðni hafi komið fram að faðir barns kæranda væri látinn en samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá, dags. 22. nóvember 2022, sé faðir skráður á lífi.

Skilyrði fyrir rétti til framlags sé að barnalífeyrir sé greiddur með barninu og hafi sýslumaður aflað upplýsinga frá Tryggingastofnun ríkisins um að svo sé ekki heldur sé greitt meðlag með barninu.

Á framangreindum forsendum hafi kröfunni verið hafnað.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Sýslumannsins á B frá 22. nóvember 2022 um að hafna umsókn kæranda um sérstakt framlag vegna tannréttinga sonar hennar.

Um sérstakt framlag er fjallað í 20. gr. a. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Ákvæðið hljóðar svo:

„Tryggingastofnun ríkisins getur ákveðið sérstakt framlag vegna útgjalda við skírn barns, fermingu, gleraugnakaup, tannréttingar, vegna sjúkdóms, greftrunar eða af öðru sérstöku tilefni. 

Framlag skv. 1. mgr. er einungis heimilt að greiða vegna barna sem greiddur er barnalífeyrir með skv. 20. gr. og annað hvort foreldra er látið, barn ófeðrað eða móður nýtur ekki við vegna sérstakra eða óvenjulegra aðstæðna.

Framlag skv. 1. mgr. verður aðeins ákveðið ef sýslumaður hefur úrskurðað um slíkt framlag samkvæmt beiðni sem honum skal send innan þriggja mánaða frá því að svara varð til útgjalda nema eðlileg ástæða hafi verið til að bíða með slíka kröfu.

Um viðmiðunarfjárhæðir vegna krafna um sérstök framlög gilda sömu reglur og um úrskurði vegna sérstakra útgjalda skv. 60. gr. barnalaga.“

Í 1. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar segir að barnalífeyrir sé greiddur með börnum yngri en 18 ára, að öðrum ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort kærandi uppfylli skilyrði 2. mgr. 20. gr. a. laga um almannatryggingar um að framlag sé einungis heimilt að greiða vegna barna sem greiddur er barnalífeyrir með samkvæmt 20. gr. laga um almannatryggingar og annað hvort foreldra er látið, barn ófeðrað eða móður nýtur ekki við vegna sérstakra eða óvenjulegra aðstæðna. Sýslumaðurinn á B synjaði umsókn kæranda meðal annars á þeim grundvelli að samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá, dags. 22. nóvember 2022, væri barnsfaðir kæranda á lífi. Undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefnd velferðarmála breyttist skráningin hjá Þjóðskrá og nú er barnsfaðir kæranda skráður látinn. Með hliðsjón af framangreindri breytingu telur úrskurðarnefndin rétt að vísa málinu aftur til Sýslumannsins á B til nýrrar meðferðar.

Ákvörðun Sýslumannsins á B um að hafna beiðni kæranda um sérstakt framlag vegna tannréttinga sonar hennar er því felld úr gildi og málinu vísað aftur til Sýslumannsins á B til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sýslumannsins á B um að hafna beiðni A, um sérstakt framlag vegna tannréttinga sonar hennar, er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til Sýslumannsins til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta