Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 140/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 140/2024

Miðvikudaginn 18. september 2024

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Björn Jóhannesson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 20. mars 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. mars 2024 þar sem umsókn kæranda um heimilisuppbót var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um heimilisuppbót með umsókn, dags. 13. mars 2024. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. mars 2024, var umsókn kæranda synjað á þeim forsendum að hún uppfyllti ekki skilyrði greiðslna heimilisuppbótar þar sem hún væri í hjúskap.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 20. mars 2024. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 10. apríl 2024, óskaði stofnunin eftir því að málinu yrði vísað frá þar sem að stofnunin hefði samþykkt greiðslu heimilisuppbótar frá 1. ágúst 2022 eins og óskað hafði verið eftir. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. apríl 2024, var greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins send kæranda og óskaði eftir afstöðu hennar til greinargerðarinnar. Í tölvupósti til úrskurðarnefndar 23. maí 2024, óskaði kærandi eftir því að farið yrði yfir útreikningana þar sem meðal annars væri ekki að sjá að greiddir hefðu verið dráttarvextir. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. maí 2024, óskaði nefndin eftir greinargerð stofnunarinnar vegna útreikninga greiðslna. Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins barst með bréfi, dags. 14. júní 2024, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. júní 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram sú krafa að kærandi fái greidda heimilisuppbót afturvirkt frá júlí 2022 til þess dags og framvegis á meðan raunverulegar aðstæður hennar séu óbreyttar, þ.e. að kærandi sé einstæð.

Umsóknum kæranda um heimilisuppbót hafi ítrekað verið synjað og síðast þann 19. mars 2024. Kærandi hafi sótt um heimilisuppbót afturvirkt til júlí 2022 eða frá samvistarslitum hennar og barnsföður hennar þegar hann hafi flutt út af heimilinu. Kærandi hafi hins vegar ekki fengið lögskilnað vegna sinnuleysis gagnaðila.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að kærandi sé ekki sátt við þær fjárhæðir sem hún hafi fengið greiddar frá Tryggingastofnun ríkisins. Hún hafi ekki fengið heildrænt yfirlit yfir greiðslurnar og kærandi hafi farið fram á dráttarvexti en sjái þeirra hvergi getið á greiðsluseðlum. Kærandi óski því eftir að nefndin fari yfir útreikninga.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 14. júní 2024, kemur fram að kærð sé ákvörðun um synjun heimilisuppbótar til kæranda. Í fyrri greinargerð stofnunarinnar, dags. 10. apríl 2024, hafi verið óskað eftir frávísun málsins þar sem að eftir endurskoðun hafi umsókn kæranda um heimilisuppbót verið samþykkt frá 1. ágúst 2022, eins og óskað hafði verið eftir. Einnig hafi kæranda verið greiddir vextir.

Úrskurðarnefndin hafi óskað eftir efnislegri greinargerð vegna málsins. Einnig hafi borist afrit af tölvupósti kæranda til úrskurðarnefndarinnar þar sem hún segist hafa óskað eftir að dráttarvextir yrðu reiknaðir í samræmi við lög en þeirra hafi hvergi verið getið á greiðsluseðlum. Þá segist kærandi ekki geta glöggvað sig á útreikningum greiðslna og vaxta.

Í 4. mgr. 34. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segi að ef um vangreiðslu bóta sé að ræða skuli greiðsluþega eða dánarbúi hans greitt það sem upp á vanti. Greiða skuli vexti á þá fjárhæð sem vangreidd hafi verið og skuli þeir reiknast frá þeim degi sem skilyrði til greiðslna séu uppfyllt, sbr. þó 32. gr. Sama eigi við þegar niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 13. gr., leiði til þess að einstaklingur eigi rétt á bótum en viðkomandi hafi fengið synjun eða lægri greiðslur hjá Tryggingastofnun, sbr. þó 32. gr. Ef vangreiðsla stafi af skorti á upplýsingum, sbr. 49. gr., falli vextir niður.

Í 5. mgr. 34. gr. laga um almannatryggingar segi að vextir samkvæmt ákvæði þessu skuli vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveði og birti á hverjum tíma samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Upphafleg kæra í þessu máli hafi varðað ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja kæranda um heimilisuppbót. Undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefnd velferðarmála hafi stofnunin tekið nýja ákvörðun í málinu og hafi samþykkt greiðslu heimilisuppbótar frá 1. ágúst 2022, eins og óskað hafði verið eftir. Einnig hafi verið greiddir vextir samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Ekki sé lengur ágreiningur til staðar er varði rétt kæranda til heimilisuppbótar en aftur á móti virðist enn vera ágreiningur er varði greiðslu vaxta og útreikning þeirra og einnig að ekki hafi verið greiddir dráttarvextir, sbr. tölvupóst kæranda til úrskurðarnefndarinnar.

Í lögum um almannatryggingar séu að finna sérákvæði varðandi vexti, sbr. 4. og 5. mgr. 34. gr. laganna. Um sé að ræða sérákvæði sem gildi framar ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og hafi Tryggingastofnun því einungis heimild til að greiða þá vexti ofan á vangreidda heimilisuppbót til kæranda. Tryggingastofnun líti því svo á að leiðrétt heimilisuppbót til kæranda sé rétt reiknuð og að miða skuli við þá vexti sem Seðlabanki Íslands hafi ákveðið og birt á hverjum tíma samkvæmt 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga.

Vegna mistaka hafi ekki verið reiknaðir vextir á greiðslu heimilisuppbótar fyrir árið 2024, þ.e. tímabilið frá 1. janúar 2024 til og með 1. apríl 2024 og hafi það nú verið leiðrétt. Bent sé á ágalla í greiðsluskjölum þar sem fram komi ákveðið hlutfall sem reiknað hafi verið frá þeim tíma sem réttindi hafi myndast til dagsins í dag. Um sé að ræða hlutfall fyrir yfirstandandi mánuð og því sé textinn ekki réttur, unnið sé að lagfæringu.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er vísað í skjöl sem sýni útreikning greiðslna, réttindabreytingu á milli útreikninga sem myndi stofn til útreiknings vaxta ásamt útreikningi vaxta fyrir hvert ár fyrir sig auk greiðsluskjala vegna réttindabreytinga og vaxta. Rétt þyki að benda á smávægilegt misræmi á milli vaxtaútreiknings í skjölum og þeirra vaxta sem greiddir hafi verið vegna réttindabreytingar ársins 2022. Vaxtaútreikningur sýni 28.911 kr. en greiddir vextir hafi verið aðeins hærri eða 28.921 kr. Að öllum líkindum megi rekja þann mismun til rúnunar/auramismunar.

V.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning á greiðslum heimilisuppbótar og vaxta vegna vangreiddra greiðslna.

Í 32. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er fjallað um upphaf og lok greiðsluréttar og greiðslufyrirkomulag. Svohljóðandi er 1. mgr. ákvæðisins:

„Réttur til greiðslna samkvæmt lögum þessum stofnast frá og með þeim degi er umsækjandi telst uppfylla skilyrði til greiðslna og skulu greiðslur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að greiðsluréttur er fyrir hendi. Greiðslur falla niður í lok þess mánaðar er greiðslurétti lýkur.“

Í 4. mgr. 34. gr. laga nr. um almannatryggingar er fjallað um vangreiðslu bóta, svohljóðandi er 1. og 2. málsl. 4. mgr.:

„Ef um vangreiðslu bóta er að ræða skal greiðsluþega eða dánarbúi hans greitt það sem upp á vantar. Greiða skal vexti á þá fjárhæð sem vangreidd var og skulu þeir reiknast frá þeim degi sem skilyrði til greiðslna eru uppfyllt, sbr. þó 32. gr.“

Í 5. mgr. sömu greinar segir að vextir samkvæmt ákvæðinu skuli vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir á hverjum tíma samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001.

Umsókn kæranda frá 29. desember 2022 um heimilisuppbót og tengdar greiðslur var synjað þar sem að hún uppfyllti ekki skilyrði greiðslna heimilisuppbótar þar sem að hún var í hjúskap. Undir rekstri kærumálsins samþykkti Tryggingastofnun greiðslu heimilisuppbótar frá 1. ágúst 2022.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráðið verði af gögnum málsins að kærandi hafi fengið greidda heimilisuppbót og vexti frá 1. ágúst 2022 í samræmi við lög um almannatryggingar. Úrskurðarnefndin telur ekki tilefni til að gera athugasemdir við útreikninga stofnunarinnar.

Í kæru er gerð athugasemd við að Tryggingastofnun hafi ekki greitt kæranda dráttarvexti á greiðslu heimilisuppbótar frá þeim tímapunkti sem hún átti rétt á þeim greiðslum sem hún hafi gert kröfu um.

Í 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir að rísi ágreiningur vegna ákvarðana sem teknar eru á grundvelli laganna kveði úrskurðarnefnd velferðarmála upp úrskurð í málinu.

Samkvæmt framangreindu ákvæði getur úrskurðarnefnd velferðarmála einungis fjallað um ágreining samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar, svo og þeim reglugerðum sem settar eru með stoð í lögunum. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi óskar eftir að fá greidda dráttarvexti samkvæmt 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Það ágreiningsefni á því ekki undir úrskurðarnefnd velferðarmála. Með hliðsjón af framangreindu er þeim hluta kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning á greiðslum heimilisuppbótar og vaxta.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning á greiðslum heimilisuppbótar og vaxta vegna vangreiddra greiðslna til A, er staðfest. Kröfu kæranda um dráttarvexti er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta