Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 274/2011

Miðvikudagurinn 23. nóvember 2011

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Guðmundur Sigurðsson læknir, Kristín Benediktsdóttir hdl. og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 1. júlí 2011, kærir A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn um heimilisuppbót.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að greiðslur til kærandi vegna heimilisuppbótar féllu niður þann 1. janúar 2010 þegar húsaleigusamningur sem lá til grundvallar ákvörðun um greiðslu heimilisuppbótar rann út. Kærandi sótti um heimilisuppbót með umsókn til Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. maí 2011, frá 1. janúar 2010. Tryggingastofnun ríkisins hafnaði umsókninni með bréfi dags. 30. maí 2011.

 

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir svo:

 Þann 9 mai s.l. sótti ég A um heimilisuppbót. Þann 30. Mai s.l. fékk ég bréf þess efnis að umsókn minni um heimilisuppbót hefði verið synjað.

Ég sótti um greiðslur aftur í tímann frá 1. Janúar 2010.

Fram kemur í bréfi frá tryggingastofnun að ástæða synjunar fyrir tímabilið 1. Janúar 2010 til 31. Ágúst 2010 sé sú, að fram hefði komið á ársyfirliti dags, 5. janúar 2010 að heimilisuppbót sé ekki til staðar og ég hafi eki sótt um á þeim tíma.

Þetta eru mannleg mistök af minni hálfu, þar sem að þegar ég fæ ársyfirlit þá skoða ég bara upphæð sem borguð er mánaðarlega , neðst á yfirlitinu. Ég tók eftir að eitthvað hefði þetta lækkað, en ég taldi það vera vegna hruns og erfiðra aðstæðna í þjóðfélaginu og einnig hafði ég í fyrsta skipti verið í einhverri vinnu árið 2009, eftir að ég varð öryrki. Þetta er sem sagt yfirsjón af minni hálfu. Ég var svo viss um að þar sem ég hef verið í sama lögheimili frá 1. janúar 2009 þá þyrfti ég ekki að sækja um heimilisuppbót um hver áramót. Mér var svo bara bent á það þegar ég kom í öðrum erindagjörum til þjónusturáðgjafa tryggingastofnunar sl. Mai að ég væri ekki að fá heimilisuppbót og hefði ekki verið með frá 1. Janúar 2010, og var bent á að sækja strax um og biðja félagsráðgjafa um að votta um fjárhags og félagslega erfiðleika.

Í sama bréfi frá tryggingastofnun, kemur fram að ástæða synjunar fyrir tímabilið 1. September 2010 til dags umsóknar sé sú að samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá sé B, sem er 18 ára gömul dóttir mín, skráð til heimilis hjá mér.

Þá er vitnað í lög um félagslega aðstoð 99/2007 og reglugerð nr. 1052/2009 Að heimilt sé að greiða einhleypum lífeyrisþega heimilisuppbót ef hann er einn um heimilisrekstur. Án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögun við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Þar sem umrædd dóttir mín hefur átt við mikla félagslega erfiðleika að stríða allt sitt líf,hefur hún mjög illa getað sinnt vinnu og skóla, var m.a. atvinnulaus meira og minna allt árið 2010. Hún hefur fengið aðstoð vegna erfiðleika seinni hjá félagsráðgjafa sem í lok árs 2010 kom henni inn í fjölsmiðjuna sem er atvinnuþjálfun styrkt af Reykjavíkurborg. Þannig að það má með sanni segja að ég njóti ekki fjárhagslegs hagræðis af sambýli hennar.

Meðfylgjandi þessari kæru er bréf frá félagsráðgjafa mínum þar sem hún staðfestir þessar upplýsingar.“

Í bréfi, dags. 8. júní 2011 frá C, félagsráðgjafa, sem fylgdi með kæru segir svo:

 Undirrituð hefur verið í tengslum við A undanfarin ár vegna erfiðra aðstæðna hennar. Hún er einstæð móðir með börn fædd [?]. Barn f. [?] hefur verið hjá föður sínum undanfarin rúm 2 ár en er núna komið til móður sinnar.

Aðstæður A eru um margt erfiðar og fjárhagsvandi hluti af erfiðleikum hennar. Hún er búin að fara í greiðsluaðlögun hjá Umboðsmanni skuldara, er að vinna eins og hún getur og reynir allt til að láta enda ná saman.

Það munaði hana miklu þegar hún missti heimilisuppbótina. Það er rétt að dóttir hennar B f. [?] er til heimilis hjá henni en með sanni má segja að A nýtur ekki fjárhagslegs hagræðis af því. B hefur átt erfitt með að vera á vinnumarkaði, hefur heldur ekki getað verið í skóla. Hún er núna í Fjölsmiðjunni í þjálfun, þar sem miðað er að því að hún komist í skóla í haust. B fær um X kr. á mánuði í laun en hefur ekki borgað heim af þeim peningum, kaupir reyndar sjálf föt og fleira. B fær stuðning bæði í Miðgarði og Fjölsmiðjunni en ljóst er að hún er ekki í stakk búin til að leggja peninga til heimilisins.

A er einnig ósátt við að heimilisuppbót aftur í tímann sé ekki greidd. Hún segist hafa verið búin að sjá að greiðslur frá T.r. minnkuðu en kenndi um aðstæðum í þjóðfélaginu og taldi að bætur T.r. væru einfaldlega að lækka. Að auki var hún búin að vera í einhverri vinnu og taldi að það hefði áhrif á greiðslurnar. Þess vegna gerði hún ekki athugasemd strax heldur lét það bíða þar til hún áttaði sig á því að heimilisuppbót hafði fallið niður. Hún óskar eftir því að tekið verði tillit til aðstæðna hennar og henni greidd heimilisuppbót aftur í tímann.

 

Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi dags. 14. júlí 2011. Greinargerð dags. 2. ágúst 2011 barst frá stofnuninni þar sem segir svo:

Kæruefni

Kærð er synjun Tryggingastofnunar, dags. 30. maí 2011, á greiðslu heimilisuppbótar annars vegar fyrir tímabilið 1. janúar 2010 til 31. ágúst 2010 og hins vegar frá og með 1. september 2010. Í kæru segir: „Þetta eru mannleg mistök af minni hálfu, þar sem að þegar ég fæ ársyfirlit þá skoða ég bara upphæð sem borguð er mánaðarlega, neðst á yfirlitinu. Ég tók eftir að eitthvað hefði þetta lækkað, en taldi það vera vegna hruns og erfiðra aðstæðna í þjóðfélaginu og einnig hafði ég í fyrsta skipti verið í einhverri vinnu árið 2009. [...] Þar sem umrædd dóttir mín hefur átt við mikla félagslega erfiðleika að stríða allt sitt líf, hefur hún mjög illa getað sinnt vinnu og skóla, var m.a. annars atvinnulaus meira og minna allt árið 2010.“ Meðfylgjandi kæru var bréf frá félagsráðgjafa og þar segir m.a. að kærandi njóti ekki fjárhagslegs hagræðis af sambýli við dóttur hennar. Svo segir að dóttir kæranda fái „X kr. á mánuði í laun en hefur ekki borgað heim af þeim peningum.“

Málavextir

Kærandi er 75% öryrki og hefur árum saman notið örorkulífeyris og tengdra bóta m.a. heimilisuppbótar frá Tryggingastofnun eða frá árinu 2002. Greiðslur heimilisuppbótar féllu niður frá og með 1. janúar 2010. Ástæða stöðvunarinnar var að húsaleigusamningur sem lá til grundvallar ákvörðunar um greiðslu heimilisuppbótar, dags. 28. apríl 2009, rann út í lok árs 2009.

Þann 15. janúar 2010 var kæranda send greiðsluáætlun vegna þess árs, þar kemur fram að ekki var gert ráð fyrir greiðslu heimilisuppbótar. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Kærandi fór í endurmat örorku í apríl það sama ár og fékk kærandi í kjölfarið bréf þess efnis og var kæranda send ný greiðsluáætlun vegna ársins 2010 og þar kemur fram að ekki var gert ráð fyrir greiðslu heimilisuppbótar. Engar athugasemdir bárust. Í upphafi árs 2011 var kæranda send greiðsluáætlun ársins 2011 og þar var ekki gert ráð fyrir heimilisuppbót allt árið. Engar athugasemdir bárust frá kæranda fyrr en með nýrri umsókn um heimilisuppbót, dags. 9. maí sl. Kæranda var synjað um heimilisuppbót með bréfi dags. 30. maí 2011.

Synjun Tryggingastofnunar var tvíþætt. Í fyrsta lagi var kæranda synjað um heimilisuppbót vegna tímabilsins 1. janúar 2010 til 31. ágúst 2010 þar sem ekki var sótt um heimilisuppbót fyrr og að aðeins í undantekningar tilvikum séu bætur sem þessar greiddar afturvirkt. Í öðru lagi var kæranda synjað fyrir tímabilið frá 1. september 2010 vegna þess að dóttir kæranda sem var þá orðin 18 ára var og er enn til heimilis hjá kæranda og nýtur kærandi því fjárhagslegs hagræðis af því sambýli að mati Tryggingastofnunar.

Lög og reglugerðir

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 skal sækja um allar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 gilda ákvæði laga um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Sækja þarf um heimilisuppbót eins og aðrar bætur frá Tryggingastofnun.

Fjallað er um heimilisuppbót í 8. gr. laga um félagslega aðstoð. Þar segir að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða einhleypingi heimilisuppbót til viðbótar við tekjutrygginguna sem nýtur óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og sé einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Skilyrðin eru því þrjú sem þarf að uppfylla, og þau eru að hún greiðist einungis einhleypingum, þ.e. ógiftu fólki, hún greiðist einungis þeim sem njóta tekjutryggingar og hún greiðist einungis þeim sem eru einir um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra.

Í reglugerð nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri er að finna almenn ákvæði um heimilisuppbót og aðrar uppbætur í I. kafla reglugerðarinnar og sérstakar reglur um heimilisuppbót í II. kafla.

Synjun, fyrra tímabilið

Fyrir liggur að kærandi nýtur tekjutryggingar og var á tímabilinu 1. janúar 2010 til 31. ágúst 2010 einnig einn um heimilishald á heimili sínu án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað í skilningi laga um félagslega aðstoð. 

Meginreglan er sú að bætur reiknast frá þeim degi er umsækjandi uppfyllir bótaskilyrði sbr. 1. mgr. 52. gr. almannatryggingalaga. Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. almannatryggingalaga skal sækja um allar bætur. Samkvæmt 8. gr. laga um félagslega aðstoð er heimilt að greiða heimilisuppbót. Fyrir liggur að það liðu 16 mánuðir frá því að kærandi hætti á greiðslum heimilisuppbótar þar til hún sótti að nýju um bætur frá og með 1. janúar 2010. Umrætt ákvæði er heimildarákvæði og hefur Tryggingastofnun sett sér ákveðnar viðmiðanir við ákvörðun hvort greiða skuli heimilisuppbót afturvirkt. Heimilisuppbót er að jafnaði ekki greidd afturvirk en við sérstakar aðstæður, t.d. veikindi eða annað sambærilegt, er hægt að meta réttindi allt að 2 ár aftur í tímann.

Er það mat Tryggingastofnunar að fylgjast ekki með mánaðarlegum greiðslum til sín, skoða ekki árleg yfirlit sem sundurgreinir greiðslur stofnunarinnar ekki nægileg ástæða til að greiða heimilisuppbætur til kæranda aftur í tímann eins og krafist er. Kærandi verður að bera hallann af því aðgerðarleysi að sækja ekki um heimilisuppbót fyrr en 16 mánuðum eftir að greiðslum var hætt.

Synjun, seinna tímabilið

Kæranda var einnig synjað um greiðslu heimilisuppbótar þar sem að dóttir kæranda varð 18 ára á árinu 2010 og með því uppfyllti kærandi ekki eitt af skilyrðunum þremur í 8. gr. laga um félagslega aðstoð þ.e. skilyrðið að vera ein um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Heimilt er að greiða áfram heimilisuppbót þegar barn bótaþega nær 18 ára aldri stundi þá ungmennið nám. Þannig er ekki háttað um dóttir kæranda eins og fram kemur í fylgiskjali með kæru, undirritað af félagsráðgjafa Miðgarðs. Ungmennið er ekki í skóla og er með X kr. í laun á mánuði og er því ljóst að um fjárhagslegt hagræði ætti að vera ræða. Tryggingastofnun getur ekki tekið tillit til þeirrar röksemdafærslu að ungmenni borgi einfaldlega ekki heim þrátt fyrir tekjur og að það sé ástæða fyrir því að ekki sé um fjárhagslegt hagræði að ræða.

Niðurstaða

Með vísun til ofanritaðs telur Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni.“

 

Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var send kæranda til kynningar með bréfi dags. 4. ágúst 2011 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um heimilisuppbót frá 1. janúar 2010.

Greiðslur til kærandi vegna heimilisuppbótar féllu niður þann 1. janúar 2010 þegar húsaleigusamningur sem lá til grundvallar ákvörðun um greiðslu heimilisuppbótar rann út. Kærandi sótti um heimilisuppbót með umsókn til Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. maí 2011, frá 1. janúar 2010. Tryggingastofnun ríkisins hafnaði umsókninni með bréfi dags. 30. maí 2011.

Í rökstuðningi fyrir kæru greindi kærandi frá því að hún hefði tekið eftir því að greiðslur til sín hefðu lækkað en hún taldi það vera vegna erfiðra aðstæðna í þjóðfélaginu. Kærandi tók fram að hún hefði haldið að hún þyrfti ekki að sækja um heimilisuppbót um hver áramót þar sem hún hefði verið með sama lögheimili frá 1. janúar 2009. Kæranda hafi hins vegar verið bent á það af þjónusturáðgjafa Tryggingastofnunar ríkisins í maí 2011 að hún hefði ekki fengið heimilisuppbót síðan fyrir 1. janúar 2010. Þá segir kærandi að hún njóti ekki fjárhagslegs hagræðis af sambýli við 18 ára dóttur sína enda hafi hún illa getað sinnt vinnu og skóla og verið m.a. atvinnulaus meira og minna allt árið 2010.

Í bréfi frá C, félagsráðgjafa, dags. 8. júní 2011, sem fylgdi kæru, segir að dóttir kæranda hafi átt erfitt með að vera á vinnumarkaði og ekki getað verið í skóla. Hún sé núna í Fjölsmiðjunni í þjálfun þar sem miðað væri að því að hún kæmist í skóla í haust. Hún sé með um X kr. í laun en hefur ekki borgað heim af þeim peningum.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að synjun stofnunarinnar sé tvíþætt. Í fyrsta lagi væri kærandi synjað um heimilisuppbót vegna tímabilsins 1. janúar 2010 til 31. ágúst 2010 þar sem ekki hafi verið sótt um heimiliuppbót fyrr og aðeins í undantekningar tilvikum séu bætur sem þessar greiddar afturvirkt. Það sé mat stofnunarinnar að það að kærandi hafi ekki fylgst með mánaðarlegum greiðslum til sín og ekki skoðað árleg yfirlit sem sundurgreinir greiðslur stofnunarinnar sé ekki nægileg ástæða til að greiða heimilisuppbætur til kæranda aftur í tímann. Kærandi verði að bera hallan af því aðgerðarleysi að sækja ekki um heimilisuppbót fyrr en 16 mánuðum eftir að greiðslum var hætt. Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur ennfremur fram að kæranda væri í öðru lagi synjað um greiðslu heimilisuppbótar fyrir tímabilið frá 1. september 2010 vegna þess að dóttir kæranda sem var þá orðin 18 ára hefði verið og væri enn til heimilis hjá kæranda og kærandi njóti fjárhagslegs hagræðis af því sambýli að mati Tryggingastofnunar. Heimilt sé að greiða áfram heimilisuppbót þegar barn bótaþega næði 18 ára aldri ef barnið sundaði nám. Dóttir kæranda væri hins vegar ekki í skóla og með X kr. í laun á mánuði. Stofnunin gæti ekki tekið tillit til þeirrar röksemdarfærslu að ungmenni borgi einfaldlega ekki heim þrátt fyrir tekjur.

Samkvæmt 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð er heimilt að greiða einhleypingi, sem nýtur óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar, og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað, heimilisuppbót.

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda ákvæði laga um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Í 1. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar kemur fram að bætur skuli reiknast frá þeim degi er umsækjandi uppfyllti bótaskilyrði.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um niðurfellingu heimilisuppbótar fól í sér skerðingu á bótum kæranda og var því mjög íþyngjandi. Ágreiningslaust er að slík ákvörðun er stjórnvaldsákvörðun í skilningi 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ber stofnuninni því að tryggja að farið sé að þeim lögum við ákvörðunatökuna.

Fyrir liggur í málinu að Tryggingastofnun ríkisins tilkynnti kæranda ekki að greiðslur vegna heimilisuppbótar kæranda væru til skoðunar hjá stofnuninni áður en tekin var ákvörðun um að fella greiðslurnar niður 1. janúar 2010 eins og stofnuninni er skylt að gera, sbr. 14. gr. stjórnsýslulaga. Kæranda var því ekki gefinn kostur á að koma sínum sjónarmiðum að áður en ákvörðunin var tekin. Ekki er fallist á að greiðsluáætlun fyrir árið 2010 geti komið í stað slíkrar tilkynningar. Er framangreint andstætt 13. gr. stjórnsýslulaga sem og 10. gr. sömu laga.

Það er því niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að Tryggingastofnunar ríkisins hafi ekki gætt ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, áður en ákvörðun um niðurfellingu bóta í máli kæranda var tekin. Ennfremur var ekki gætt 4. mgr. 52. gr. laga um almannatrygginar nr. 100/2007 þar sem segir að starfsfólk Tryggingastofnunar og umboðsmenn hennar skuli kynna sér til hlítar aðstæður umsækjenda og bótaþega og gera þeim grein fyrir ýtrasta rétti þeirra samkvæmt almannatryggingalögum.

Af gögnum málsins má ráða að niðurfellingin á tímabilinu frá 1. janúar 2010 til 31. ágúst 2010 sé einungis byggð á því að eldri húsaleigusamningur hafi runnið út. Fyrir liggur að aðstæður kæranda breyttust ekkert fyrr en 31. ágúst 2010. Verður því ekki annað séð en að kærandi hafi uppfyllt bótaskilyrði á framangreindu tímabili, sbr. 1. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007.

Hvað varðar tímabilið frá 1. september 2010 snýst ágreiningurinn um það hvort kærandi hafi notið fjárhagslegs hagræðis af sambýli við 18 ára dóttur sína.

Í reglugerð nr. 1052/2009, með síðari breytingum, er að finna nánari útfærslu á því hvað felst í fjárhagslegu hagræði samkvæmt fyrrnefndri 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 8. gr. reglugerðarinnar kemur eftirfarandi fram:

,,Heimilisuppbót verður ekki greidd til aðila sem svo er ástatt um sem hér segir:

 

1.                        Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af sambýli við aðra aðila.

2.                        Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að hafa sameiginlega aðstöðu varðandi fæði eða húsnæði, t.d. sambýli á vegum félagasamtaka eða ríkis og bæja.

3.    Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að leigja herbergi eða húsnæði með sameiginlegri eldunarstöðu með öðrum.“

Skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar er samkvæmt tilvitnuðum laga- og reglugerðarákvæðum að um einhleyping sé að ræða sem sé einn um heimilisrekstur og njóti ekki fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Skiptir þar engu máli hvort um er að ræða systkini, vini eða aðra sem búa saman. Meta verður sjálfstætt í hverju tilviki að teknu tilliti til allra aðstæðna hvort viðkomandi njóti fjárhagslegs hagræðis af sambýli við aðra í skilningi reglna um heimilisuppbót.

Samkvæmt framangreindum ákvæðum um heimilisuppbót skal hún eingöngu greidd til einhleypings sem ekki nýtur fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.  Kærandi er einstæð fjögurra barna móðir og elsta barnið hennar er 19 ára stúlka. Samkvæmt kæru og bréfi félagsráðgjafa hefur stúlkan átt við félagslega erfiðleika að stríða og átt erfitt á vinnumarkaði. Hún hafi ekki heldur getað verið í skóla en sé nú í þjálfun sem miði að því að hún komist í skóla í haust. Því ekki augljóst eða öruggt að kærandi njóti í raun, og hafi notið frá 1. september 2010, fjárhagslegs hagræðis af sambýli við dóttur sína. Meta þarf því þetta atriði sérstaklega og komast að rökstuddri niðurstöðu um það.

Að mati úrskurðarnefndar almannatrygginga hefur ekki farið fram mat hjá Tryggingastofnun ríkisins á fjárhagslegu hagræði kæranda af sambýli við dóttur sína.  Málið hefur því ekki verið nægjanlega upplýst af hálfu stofnunarinnar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 4. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007. 

Niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga er því sú að synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um heimilisuppbót er felld úr gildi. Tryggingastofnun ríkisins ber að greiða kæranda heimilisuppbót frá 1. janúar 2010 til 31. ágúst 2010. Þá er ákvörðun Tryggingastofnunar vegna tímabilsins frá 1. september 2010  vísað aftur til stofnunarinnar til fyllri meðferðar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um heimilisuppbót er felld úr gildi. Tryggingastofnun ríkisins ber að greiða kæranda heimilisuppbót frá 1. janúar 2010 til 31. ágúst 2010. Ákvörðun stofnunarinnar vegna tímabilsins frá 1. september 2010 er vísað aftur til stofnunarinnar til fyllri meðferðar.

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Þuríður Árnadóttir lögfræðingur




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta