Mál nr. 280/2022 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 280/2022
Miðvikudaginn 21. september 2022
Dánarbú A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.
Með rafrænni kæru 30. maí 2022 kærði B, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. maí 2022 um innheimtu ofgreiðslukröfu á hendur dánarbúi A.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. maí 2022, var kæranda tilkynnt um að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra greiðslna fyrir árið 2022 vegna dánarbús A hafi leitt í ljós ofgreiðslu bóta að fjárhæð 259.206 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefnd velferðarmála tók Tryggingastofnun ríkisins nýja ákvörðun í málinu, dags. 23. júní 2021, þar sem fallist var á niðurfellingu ofgreiddra bóta vegna eignaleysis dánarbúsins.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 30. maí 2022. Með bréfi, dags. 31. maí 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 21. júní 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. júní 2022, var greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins send kæranda og óskað eftir afstöðu hennar til greinargerðarinnar. Í símtali úrskurðarnefndar við kæranda 12. júlí 2022 sagðist hún ætla að skoða málið frekar. Beiðni um afstöðu var ítrekuð 26. júlí 2022 og 9. ágúst 2022, en engin svör bárust frá kæranda.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru greinir kærandi frá því að hún hafi ekki haft samband við móður sína síðastliðin 20 ár. Þar af leiðandi hafi kærandi ekki tekið neinn þátt í ákvörðun um dánarbúið. Kærandi hafi munnlega afsalað sér öllum réttindum og skuldum vegna dánarbúsins við sammæðra systkini og hafi ekki skrifað undir neina pappíra varðandi dánarbúið. Kærandi afsali sér því einnig að borga skuld við Tryggingastofnun, enda þyki það ekki við hæfi þegar engin tengsl séu og hafi ekki verið til staðar í langan tíma.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærður sé endurreikningur og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2021.
Um sé að ræða eignalaust dánarbú. Málið hafi verið sent samráðsnefnd Tryggingastofnunar um meðferð ofgreiðslna og vangreiðslna til niðurfellingar á skuld.
Tryggingastofnun fari því þess á leit að kærumálið verði fellt niður hjá nefndinni þar sem ekki hafi verið fjallað efnislega um beiðni um niðurfellingu. Komist nefndin að annarri niðurstöðu áskilji stofnunin sér hins vegar rétt til þess að koma að efnislegri greinargerð.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. maí 2022 um innheimtu ofgreiðslukröfu vegna dánarbús A.
Í kjölfar kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála óskaði Tryggingastofnun eftir því í greinargerð sinni, dags. 21. júní 2022, að úrskurðarnefnd velferðarmála myndi vísa kæru frá á þeim grundvelli að stofnuninni hafi ekki borist fyrr beiðni um niðurfellingu ofgreiddra bóta og hafi því tekið beiðni kæranda til meðferðar. Með bréfi, dags. 28. júní 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu kæranda til beiðni stofnunarinnar um frávísun málsins á framangreindum forsendum en án árangurs. Með ákvörðun, dags. 23. júní 2022, féllst stofnunin á niðurfellingu ofgreiddra bóta vegna eignaleysis dánarbúsins.
Úrskurðarnefnd velferðarmála kveður upp úrskurði um tiltekin ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. 13. gr. laganna. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að ágreiningur sé til staðar á milli kæranda og Tryggingastofnunar ríkisins. Stofnunin hefur fellt niður ofgreiðslukröfu á hendur dánarbúinu. Þar sem enginn ágreiningur er til staðar í máli þessu er kæru vísað frá úrskurðarnefndinni.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru B, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir