Mál nr. 443/2021 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 443/2021
Miðvikudaginn 15. desember 2021
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.
Með rafrænni kæru, móttekinni 31. ágúst 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 31. maí 2021 á umsókn hennar um niðurfellingu ofgreiddra bóta.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi fékk tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2019. Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2019 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 217.119 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. maí 2020. Kærandi andmælti endurreikningnum og Tryggingastofnun ríkisins leit á erindið sem beiðni um niðurfellingu ofgreiddra bóta. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 31. maí 2021, var kæranda tilkynnt að beiðninni hafi verið synjað. Undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefndinni framkvæmdi Tryggingastofnun ríkisins nýjan endurreikning vegna ársins 2019 og var kæranda tilkynnt um niðurstöðuna með bréfi, dags. 24. september 2021.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 31. ágúst 2021. Með bréfi, dags. 2. september 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 15. október 2021, barst beiðni Tryggingastofnunar ríkisins um frávísun málsins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. október 2021, þar sem óskað var eftir afstöðu kæranda til greinargerðarinnar. Úrskurðarnefndin hringdi í kæranda 16. nóvember 2021 til að óska eftir afstöðu til greinargerðar Tryggingastofnunar en án árangurs.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru vísar kærandi í bréf Tryggingastofnunar varðandi beiðni hennar um niðurfellingu ofgreiðslukröfu. Kærandi fallist ekki á þessa kröfu þar sem hún sé byggð á tekjum sem samræmist ekki þeim tekjum sem hún hafi fengið á árinu 2019.
Kærandi hafi ítrekað óskað eftir viðbrögðum við athugasemdum sínum vegna niðurstöðu endurreikningsins en án árangurs. Þann 25. febrúar 2021 hafi hún sent Tryggingastofnun bréf á ný þar sem hún hafi útskýrt mál sitt og upplýst að hún hefði ekki efni á að endurgreiða skuldina. Tryggingastofnun hafi í kjölfarið óskað eftir gögnum um mánaðarleg útgjöld hennar og svo hafi stofnunin synjað beiðni hennar. Kærandi krefjist þess að við endurreikninginn verði eingöngu tekið tillit til tekna hennar frá júní 2019.
Kærandi fari hér með fram á að endurreikningur vegna tekjuársins 2019 verði endurskoðaður.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar er greint frá því að stofnunin hafi farið yfir mál kæranda á nýjan leik, bæði þau gögn er hafi borist með kæru og þau gögn sem hafi þegar legið fyrir.
Erindi kæranda hafi verið afgreitt sem niðurfellingarbeiðni á sínum tíma. Af kæru megi ráða að kærandi hafi í upphafi ætlað að andmæla endurreikningi ársins 2019 og sé vísað til þess erindis í kærunni. Við meðferð kærunnar hafi ekkert slíkt erindi fundist hjá Tryggingastofnun en fyrirspurn kæranda um hvernig andmæla ætti uppgjöri hafi hins vegar fundist.
Farið hafi verið yfir forsendur endurreikningsins við vinnslu greinargerðarinnar. Við þá yfirferð hafi kom í ljós að athugasemdir kæranda ættu rétt á sér og því hafi réttindi hennar verið endurreiknuð á nýjan leik í fullu samræmi við þær forsendur sem komi fram í kæru.
Þar sem Tryggingastofnun hafi breytt fyrri ákvörðun sinni og fallist á kröfu kæranda, óski stofnunin eftir því að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni að svo stöddu.
IV. Niðurstaða
Með kæru fylgdi ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 31. maí 2021 um að synja umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiddra bóta. Í kjölfar kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála tók Tryggingastofnun nýja ákvörðun í máli kæranda, dags. 24. september 2021, þar sem tekjutengdar bætur ársins 2019 voru endurreiknaðar að nýju, að teknu tilliti til athugasemda kæranda varðandi tekjur hennar á því ári. Úrskurðarnefndin óskaði eftir afstöðu kæranda til beiðni stofnunarinnar um frávísun málsins á framangreindum forsendum en án árangurs.
Úrskurðarnefnd velferðarmála kveður upp úrskurði um tiltekin ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. 13. gr. laganna. Af kæru má ráða að ágreiningurinn varði endurreikning tekjutengdra bóta vegna ársins 2019 þar sem svokallaðar aðrar tekjur, sem kærandi fékk greiddar áður en hún hóf töku örorkulífeyris, hafi verið taldar henni til tekna. Samkvæmt endurreikningi og uppgjöri, dags. 22. maí 2020, vegna tekjuársins 2019, var kærandi með svokallaðar aðrar tekjur að fjárhæð 253.114 kr. en samkvæmt endurreikningi, dags. 24. september 2021, var sú fjárhæð lækkuð í 34.590 kr. Af gögnum málsins verður ráðið að ekki sé lengur ágreiningur til staðar á milli kæranda og Tryggingastofnunar ríkisins þar sem stofnunin hefur tekið endurreikning og uppgjör ársins 2019 upp og endurreiknað tekjutengdar bætur að nýju, að teknu tilliti til athugasemda kæranda. Samkvæmt því er kæru vísað frá úrskurðarnefndinni.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefndinni.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir