Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 484/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 484/2016

Miðvikudaginn 14. júní 2017

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 13. desember 2016, kærði B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 10. október 2016 um varanlega læknisfræðilega örorku vegna vinnuslyss sem hann varð fyrir X.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi varð fyrir slysi við vinnu sína sem atvinnumaður í [íþrótt] þann X. Slysið bar að með þeim hætti að kærandi var að keppa í [íþrótt], stökk upp [...] og þegar hann lenti datt hann illa og fékk áverka á hægra hné. Slysið var tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands sem samþykktu bótaskyldu. Með bréfi, dags. 10. október 2016, tilkynnti stofnunin kæranda að varanleg slysaörorka hans hefði verið metin 10%.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 13. desember 2016. Með bréfi, dags. 15. desember 2016 óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 30. janúar 2017, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt lögmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyssins, sem átti sér stað X, verði endurskoðuð og að tekið verði mið af matsgerð C læknis, dags. 16. júní 2016.

Í kæru segir að slysið hafi orðið með þeim hætti að kærandi hafi verið að stökkva [...] og þegar hann lenti hafi hann dottið og slasast illa á hægra hné.

Kærandi geti ekki sætt sig við hina kærðu ákvörðun og vísi til þess að hann hafi upphaflega gengist undir örorkumat vegna slysatryggingar D hjá tryggingafélagi. Með matsgerð C læknis, dags. 16. júní 2016, hafi kærandi verið metinn til 15% varanlegrar læknisfræðilegrar örorku. Um sé að ræða ítarlega og vel rökstudda matsgerð sem unnin hafi verið af sérfræðingi í bæklunarskurðlækningum.

Kærandi byggi á því að afleiðingar slyssins hafi verið of lágt metnar í matsgerð tryggingalæknis Sjúkratrygginga Íslands og leggja eigi til grundvallar niðurstöðu matsgerðar C bæklunarlæknis. Máli sínu til stuðnings leggi kærandi áherslu á eftirfarandi:

Í niðurstöðu C sé varanleg læknisfræðileg örorka metin 15% og miðað við að brjóskskemmdir þróist til slitgigtar þannig að skipta þurfi um lið og setja inn gervilið. Í matsgerð E tryggingalæknis Sjúkratrygginga Íslands hafi ekki verið tekið tillit til þessa og einungis miðað við liðþófarifu og brjóskáverka á hné án vöðvarýrnunar með vísan til liða í kafla VII.B.b.4. í miskatöflum örorkunefndar og læknisfræðileg örorka talin hæfilega metin 10%.

Kærandi telji að matsgerð C læknis endurspegli með nákvæmari hætti hvaða afleiðingar slysið hafi haft í för með sér. Afleiðingar slyssins hafi augljóslega verið vanmetnar af tryggingalækni Sjúkratrygginga Íslands.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að á þeim tíma sem slysið átti sér stað hafi slysatryggingar almannatrygginga fallið undir ákvæði IV. kafla laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum. Bætur úr slysatryggingum almannatrygginga séu sjúkrahjálp, dagpeningar, örorkubætur og dánarbætur, sbr. 31. gr. laganna.

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um varanlega læknisfræðilega örorku sé sjálfstætt mat sem stofnuninni sé falið að gera lögum samkvæmt, sbr. 2. gr. laga um almannatryggingar. Stofnunin byggi ákvörðun sína á fyrirliggjandi gögnum þegar litið sé svo á að mál sé að fullu upplýst og stofnunin sé ekki bundin af niðurstöðu annarra sérfræðinga. Þá taki stofnunin sjálfstæða ákvörðun um hvort orsakatengsl séu á milli einkenna og hins tilkynnta slyss.

Örorka sem sé metin samkvæmt IV. kafla laga um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé læknisfræðileg þar sem metin sé skerðing á líkamlegri og eftir atvikum andlegri færni hjá einstaklingum sem orðið hafa fyrir líkamstjóni. Við matið sé stuðst við miskatöflur örorkunefndar þar sem ýmsar tegundir líkamsáverka séu metnar til ákveðins miskastigs í hundraðshlutum án tillits til starfs eða menntunar tjónþola og án þess að líta til hvaða áhrif örorka hafi á getu til öflunar atvinnutekna.

Um greiðslu bóta vegna varanlegrar læknisfræðilegrar örorku hafi verið farið eftir ákvæði 34. gr. laga um almannatryggingar. Í 5. mgr. ákvæðisins segi að sé orkutap minna en 50% sé stofnuninni heimilt að greiða örorkubætur í einu lagi, sem jafngildi lífeyri hlutaðeigandi um tiltekið árabil, samkvæmt reglugerð nr. 187/2005 um eingreiðslu örorkubóta Tryggingastofnunar ríkisins. Að öðrum kosti greiðist lífeyrir í hlutfalli við örorku.

Í hinni kærðu ákvörðun hafi varanleg læknisfræðileg örorka kæranda verið ákvörðuð 10%. Við ákvörðunina hafi verið stuðst við tillögu að mati á varanlegri læknisfræðilegri örorku sem E sérfræðilæknir hafi gert að beiðni stofnunarinnar. Viðtal og læknisskoðun hafi farið fram á matsfundi 8. júní 2016.

Í tillögu matslæknis hafi komið fram að kærandi hafi lent í slysi X. Hann hafi verið að keppa í [íþrótt] með D og stokkið [...] en lent illa á hægri fæti og fundið skerandi sársauka utanvert í hnénu.

Næsta dag hafi hann gengist undir segulómskoðun af hnénu. Þá hafi sést stór rifa í utanverðum liðþófa og það verið nýtilkomin breyting samanborið við sambærilega rannsókn frá X. Miðlægi liðþófinn hafi verið heill. Mikill vökvi hafi verið í liðnum þar sem utanverðum liðþófa hafi verið þrýst undir í liðglufu utanvert og einnig hafi sést þar lárétt rifa. Enn fremur hafi verið allstór Baker´s cysta í hnésbót. Litlar brjóskskemmdir hafi sést á sulcus pateralaris á femur.

Kærandi hafi gengist undir speglunaraðgerð X þar sem hluti liðþófans hafi verið tekinn og restar hans hreinsaðar til. Töluverð chondromalacia hafi sést í brjóski neðan á lærlegg utanvert.

Kærandi hafi verið í meðferð hjá sjúkraþjálfara eftir aðgerðina. Hann hafi ekki getað leikið í [íþrótt] um sumarið […]. Þar hafi hann [íþrótt] en vegna viðvarandi óþæginda í hnénu hafi ekki orðið meira úr [íþrótt] það sumarið.

Í byrjun X hafi kærandi leitað til G bæklunarlæknis þar sem hann hafi verið með læsingu í hægra hné og verki þegar hann hafi þurft að hnika hné til í ákveðna stöðu. Á þessum tímapunkti hafi hann reynt að [íþrótt] en ákveðnar stöður á hnénu hafi þó verið mjög óþægilegar. Fengin hafi verið röntgenmynd og segulómrannsókn af hnénu sem hafi sýnt ástand eftir aðgerð og að ytra liðþófa hafi verið þrýst undir liðglufu og einnig smáar nabbamyndanir þar. Brjóskþynning hafi verið á liðbrúnum og talsverðar segulskinsbreytingar á liðþófanum aftanvert, jafnvel grunur um rof. Óveruleg vökvaaukning hafi verið í hnjáliðnum. Rannsókn hafi leitt til nýrrar aðgerðar X. Í þeirri aðgerð hafi liðþófi verið hreinsaður enn frekar og jafnframt borað í brjósk utanvert á lærleggshnúa vegna brjóskskemmda. Við eftirlit 4. júní 2015 hafi ástand verið betra en læknirinn hafi haft efasemdir um að kærandi yrði til stórræða í [íþrótt] í framtíðinni.

Kærandi hafi upplýst á matsfundi að hann hafi alfarið þurft að hætta [íþrótt]. Hann hafi reynt að æfa en lítið getað hlaupið og alls ekki tekið snöggar beygjur á hlaupum. Hann hafi fengið læsingar í hnéð og það bólgnað upp, ekki síst í hnésbót, þegar hann hafi reynt að hlaupa. Kærandi hafi jafnframt upplýst að hann hafi haldið áfram að gera æfingar upp á eigin spýtur og þjálfað lærvöðva mikið.

Kærandi hafi lýst því að þau einkenni, sem hann búi við í dag og hann reki til slyssins, séu viðkvæmni í hægra hné utanverðu og stundum verkir en ekki síst læsingar sem komi fram við lítið álag, svo sem ef hann sitji undir stýri á bíl og færi hægri fótinn af bensíngjöf á bremsu. Þá hafi kærandi lýst því að hann geti hvorki hlaupið né gengið langt og í lok vinnudags verði hann oft mjög þreyttur í hægri ganglim. Hann fari í líkamsrækt en geti ekki æft [íþrótt].

Matslæknir hafi lýst því í álitsgerð sinni að við skoðun hafi kærandi komið vel fyrir og gefið greinargóða sögu. Skoðun hafi beinst að utanverðu hægra hné. Matslæknir hafi lýst göngulagi eðlilegu svo og limaburði. Hann hafi tekið fram að kærandi væri X cm og samkvæmt upplýsingum frá honum sjálfum væri hann X kg að þyngd. Matslæknir hafi lýst kæranda sem vöðvastæltum á efri hluta líkama og að lærvöðvar væru áberandi sverir. Hann hafi getað staðið á tám og hælum, farið niður á hækjur sér og risið upp án stuðnings. Beygjugeta í hnjám væri sambærileg beggja vegna en hægra megin kæmi fram slaki við passiva réttu. Ekki væri vökvasöfnun í hnjálið. Stöðugleiki væri eðlilegur, smellur kæmi fram við álagspróf á liðþófa, McMurrey, hægra megin. Þegar kærandi beygi hnéð og snúi mjöðm út á við komi um leið fram læsing og smellur heyrist þegar hann rétti úr hnénu á ný. Eymsli hafi verið yfir liðbili utanvert á hnénu. Sjúkdómsgreiningu hafi matslæknir talið vera liðþófarifa á hné, S83.2 og brjóskáverki á hné, S83.3.

Í niðurstöðu eftir skoðun segi matslæknir í álitsgerð sinni að kærandi búi við afleiðingar liðþófa- og brjóskáverka á hægra hné. Hann fái álagsbundna verki og læsingar í hnéð þrátt fyrir að hafa gengist undir tvær aðgerðir. Samkvæmt töflum örorkunefndar um miskastig valdi liðþófarifa með vöðvarýrnun og hreyfiskerðingu 5% varanlegri örorku en brjóskáverki á hné með vöðvarýrnun og hreyfiskerðingu allt að 8% örorku. Í tilfelli kæranda hafi verið um að ræða hreyfiskerðingu en engan veginn vöðvarýrnun og að mati matslæknis hafi því verið rétt að meta áverka til 10% læknisfræðilegrar örorku með vísan til þessara tveggja liða í kafla VII.B.b.4. í miskatöflunum.

Um nánari umfjöllun um atvik málsins og rökstuðning vísist í hina kærðu ákvörðun og þeirra gagna sem ákvörðunin hafi verið byggð á.

Eins og fram hafi komið hafi hin kærða ákvörðun verið byggð á tillögu E sérfræðilæknis. Um sé að ræða mat óháðs matslæknis. E sé vanur matslæknir og búi að góðri kunnáttu og reynslu í þeim efnum. Það sé afstaða Sjúkratrygginga Íslands að afleiðingar slyssins hafi leitt til varanlegs heilsutjóns fyrir kæranda og að það tjón hafi verið réttilega metið til varanlegrar læknisfræðilegrar örorku í tillögu E.

Með kæru hafi fylgt matsgerð C læknis, dags. 16. júní 2016. Matsgerðin hafi verið unnin að beiðni lögmanns kæranda. Matsfundur hafi farið fram 30. maí 2016, eða um þremur vikum fyrir matsfund E. Í matsgerðinni hafi varanlegur miski verið metinn 15%. Í rökstuðningi matsmanns fyrir niðurstöðu um varanlegan miska segi að kærandi hafi orðið fyrir áverka á hné í [íþrótt] X. Við skoðun hafi komið fram að hann væri X cm á hæð og X kg að þyngd. Ekki hafi verið að sjá áberandi rýrnanir á hægra hné eða skekkjur og göngulag sé eðlilegt. Þá hafi C lýst því að kærandi hafi almennt verið geysilega vel vöðvaður. Hann væri stirður um báðar mjaðmir en jafn stirður. Við skoðun á hægra hné hafi ekki verið vökvi í liðnum. Þá hafi hnéð verið stöðugt og ekki nein stærri eymsli. Að lokum hafi C tekið fram að æða- og taugaskoðun hafi verið eðlileg. Niðurstaða hans hafi verið á þá leið að varanleg læknisfræðileg örorka væri hæfilega metin 15%, miðað við að brjóskskemmdir muni þróast til slitgigtar þannig að skipta þurfi um lið og setja inn gervilið.

Í mati C læknis hafi verið gert ráð fyrir að gerviliður yrði settur hjá kæranda og mat á læknisfræðilegri örorku því miðað við það, þ.e. VII.B.b.4. í miskatöflum, Gerviliður í hné, ísettur vegna afleiðinga áverka, 15%. Rétt sé þó að gerviliður hafi ekki verið settur hjá kæranda og telji stofnunin því rangt að miða við þann lið í miskatöflum. Sjúkratryggingar Íslands telji að vandamál kæranda í hné hafi verið réttilega metið til 10% læknisfræðilegrar örorku, en rétt sé að benda á að báðir læknar hafi komist að þeirri niðurstöðu að um hafi verið að ræða áverka á liðþófa og brjóskskemmdir með hreyfiskerðingu en engri vöðvarýrnun.

Í þessu sambandi sé rétt að benda á að versni einkenni kæranda í framtíðinni og gervilið verði komið fyrir í hné hans þá geti hann farið fram á endurupptöku hinnar kærðu ákvörðunar, samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verði skilyrði endurupptöku uppfyllt fari fram endurmat á ástandi kæranda. Sjúkratryggingar Íslands geti með engu móti fallist á að rétt sé við matið að miða við ástand sem einfaldlega sé ekki til staðar.

Stofnunin telji að mat E læknis hafi verið vel rökstutt og einkennum/ástandi lýst með ítarlegum hætti. Þá hafi hann ítarlega gert grein fyrir mati á varanlegri læknisfræðilegri örorku, bæði með nákvæmari tilvísun í miskatöflur og sundurliðun örorku á milli áverkanna. Um sé að ræða matslækni sem hafi reynslu í mati á heilsutjóni og að mati stofnunarinnar hafi ekkert komið fram sem hafi hnekkt mati hans.

Að öllu virtu beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun um varanlega læknisfræðilega örorku.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ágreining um varanlega læknisfræðilega örorku vegna vinnuslyss sem kærandi varð fyrir X. Sjúkratryggingar Íslands mátu varanlega slysaöroku hans 10%.

Í áverkavottorði H læknis, dags. 9. júlí 2015, er slysi kæranda lýst svo:

„A varð fyrir áverka í [íþrótt] með D í J þann X. Áverkinn var með þeim hætti að A [...] og kom illa niður á hægra hné. Hann bólgnaði strax mikið upp og benti skoðun til líklegs áverka á liðþófa.

Gerð var segulómskoðun um viku eftir áverkann. Sú rannsókn leiddi í ljós rifu og miklar skemmdir í ytri liðþófa hægra hnés auk gruns um brjóskskemmdir á liðflötum. A hafði ári áður undirgengist sams konar rannsókn sem sýndi svipað útlit á liðflötum en ekki áverkamerki á liðþófum.“

Í matsgerð E læknis, dags. 14. júlí 2016, sem unnin var að beiðni Sjúkratrygginga Íslands, er skoðun á kæranda, sem fór fram 8. júní 2016, lýst svo:

„A kemur mjög vel fyrir og svarar spurningum greiðlega[…]. Aðspurður um verkjasvæði sem rekja megi til slyssins sem hér er til umfjöllunar bendir hann á utanvert hægra hné. Göngulag er eðlilegt og limaburður. Matsþoli er X cm og hann kveðst vega X kg. Hann er mjög vöðvastæltur um efri hluta líkamans og lærvöðvar eru áberandi sverir. Hann getur staðið á tám og hælum, farið niður á hækjur sér og risið upp án stuðnings. Beygjugeta í hnjám er sambærileg beggja vegna. Hægra megin kemur fram slaki við passiva réttu. Ekki gætir vökvasöfnunar í hnjáliði. Stöðugleiki er eðlilegur, smellur kemur fram við álagspróf á liðþófa, McMurrey, hægra megin. Er hann beygir hnéð og snýr mjöðm út á við um leið kemur fram læsing og smellur heyrist er hann réttir úr hnénu á ný. Eymsli eru utanvert yfir liðbili utanvert á hnénu.“,

Í niðurstöðu matsgerðarinnar segir:

„Matsþoli býr við afleiðingar liðþófa- og brjóskáverka á hægra hné, fær álagsbundna verki og læsingar í hnéð þrátt fyrir að hafa gengist undir tvær aðgerðir. Samkvæmt töflu Örorkunefndar um miskastig veldur liðþófarifa með vöðvarýrnun og hreyfiskerðingu 5% varanlegri örorku en brjóskáverki í hné með vöðvarýrnun og hreyfiskerðingu allt að 8% örorku. Hér er um að ræða hreyfiskerðingu en engan vegin vöðvarýrnun og telur undirritaður eðlilegt að meta heildarörorku 10% með vísan til þessara tveggja liða í kafla VII Bb4 í töflu Örorkunefndar.“

Kærandi hefur lagt fram örorkumat C læknis, dags. 16. júní 2016, en þar var læknisfræðileg örorka kæranda talin vera 15%. Í matsgerðinni er skoðun á kæranda, sem fór fram 30. maí 2016, lýst svo:

„A gefur upp að hann sé X cm á hæð og X kg að þyngd og hann sé rétthentur. […]. A kemur eðlilega fyrir og saga er eðlileg. Ekki er að sjá áberandi rýrnanir eða skekkjur og göngulag er eðlileg. Hann er geysilega vel vöðvaður almennt. Bæði læri mælast X cm í umfangi, mælt 20 cm ofan við innra liðbil. Kálfar mælast X cm. Hann er stirður um báðar mjaðmir en jafn stirður. Við skoðun á hægra hné er ekki vökvi í liðnum. Það vantar 10° upp á bæði réttu og beygju í hægra hné, miðað við vinstra. Hnéð er stöðugt og ekki nein stærri eymsli. Æða- og taugaskoðun er eðlileg.“

Í samantekt og áliti matsgerðarinnar segir:

„A verður fyrir áverka á hægra hné í [íþrótt] X. Segulómun sýnir verulegan áverka á ytri liðþófa og speglun sem gerð er hálfum mánuði síðar, sýndi mikið rifinn ytri liðþófa og brjóskskemmdir utanvert í hnénu. A reyndi að spila [íþrótt] eftir að hafa náð sér eftir aðgerðina en spilaði einungis x leiki með D sem hann hafði spilað með síðan X. Hann fór til [...] en spilaði einungis lítið[…] og er hættur [íþrótt]. Vegna viðvarandi einkenna var gerð ný segulómun og í framhaldinu ný aðgerð. Var aðgerðin framkvæmd X en í gögnum ekki hægt að sjá af hverju svo langur tími leið frá X fram í X að gerð var ný aðgerð. Í þeirri aðgerð var fjarlægt meira af ytri liðþófa. Var A frá vinnu í mánuð eftir þá aðgerð.“

Ákvörðun slysaörorku samkvæmt IV. kafla laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, nú laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga, er eingöngu læknisfræðileg þar sem tilteknir líkamsáverkar eru metnir til ákveðins örorkustigs. Félagslegir þættir, svo sem vinnufærni og áhrif örorku á getu til tekjuöflunar, koma ekki til álita. Við læknisfræðilegt mat er stuðst við örorkumatsskrár/miskatöflur örorkunefndar frá árinu 2006 þar sem ýmsar tegundir líkamsáverka eru metnar til ákveðins miskastigs í hundraðshlutum án tillits til starfs eða menntunar tjónþola.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á örorku kæranda og byggir mat sitt á fyrirliggjandi gögnum sem hún telur nægileg. Við matið hefur úrskurðarnefndin til hliðsjónar miskatöflur örorkunefndar frá árinu 2006. Samkvæmt fyrrgreindri matsgerð E læknis eru afleiðingar slyssins taldar vera álagsbundnir verkir og læsingar í hné kæranda þrátt fyrir að hann hafi gengist undir tvær aðgerðir. Samkvæmt örorkumati C læknis eru afleiðingar slyssins taldar vera áverki á ytri liðþófa og brjóskskemmdir utanvert í hnénu.

Í töflum örorkunefndar er í kafla VII. fjallað um útlimaáverka. Undir staflið B er fjallað um ganglimi og b-liður í kafla B fjallar um áverka á hné og fótlegg. Samkvæmt undirlið VII.B.b.4.7. er unnt að meta 5% varanlega læknisfræðilega örorku vegna liðþófarifu með vöðvarýrnun og hreyfiskerðingu. Þá er unnt að meta allt að 8% varanlega læknisfræðilega örorku vegna brjóskáverka í hné með vöðvarýrnun og hreyfiskerðingu samkvæmt undirlið VII.B.b.4.6. Í matsgerð E læknis segir að í tilviki kæranda sé um að ræða hreyfiskerðingu en ekki vöðvarýrnun og því taldi hann rétt að meta 10% varanlega læknisfræðilega örorku með vísan til fyrrgreindra tveggja liða í miskatöflum örorkunefndar. Í matsgerð C læknis var niðurstaða um varanlega læknisfræðilega örorku miðuð við að brjóskskemmdir þróist til slitgigtar þannig að skipta þurfi um lið og setja inn gervilið. Samkvæmt undirlið VII.B.b.4.10. er unnt að meta 15% varanlega læknisfræðilega örorku vegna gerviliðs í hné, ísettur vegna afleiðinga áverka.

Úrskurðarnefnd velferðarmála horfir til þess að kærandi býr við hreyfiskerðingu eftir liðþófaáverka en ekki vöðvarýrnun. Því má telja varanlega læknisfræðilega örorku hæfilega metna til fjögurra stiga af fimm mögulegum samkvæmt áður tilvitnuðum undirlið í VII.B.b.4.7. í töflum örorkunefndar. Kærandi býr einnig við skemmdir á brjóski sem voru að minnsta kosti að einhverju leyti til staðar fyrir slysið samkvæmt niðurstöðu segulómskoðunar frá árinu áður. Sem fyrr segir býr kærandi við hreyfiskerðingu en ekki vöðvarýrnun. Af þeim átta stigum sem mest eru möguleg fyrir brjóskáverka í hné með vöðvarýrnun og hreyfiskerðingu samkvæmt VII.B.b.4.6. telur úrskurðarnefnd því hæfilegt að meta varanlega læknisfræðilega örorku til sex stiga. Samtals er því varanleg læknisfræðileg örorka metin til tíu stiga í tilviki kæranda.

Það er mat úrskurðarnefndar velferðarmála að samkvæmt læknisfræðilegum gögnum málsins sé varanleg læknisfræðileg örorka kæranda vegna slyssins þann X réttilega metin í hinu kærða örorkumati, þ.e. 10%, með hliðsjón af tilgreindum undirliðum VII.B.b.4. í miskatöflum örorkunefndar. Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um örorkumat kæranda er því staðfest.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 10% örorkumat vegna slyss sem A, varð fyrir X, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta