Mál nr. 371/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 371/2024
Þriðjudaginn 23. október 2024
A
gegn
Sjúkratryggingum Íslands
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.
Með kæru, sem barst 14. ágúst 2024, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 28. maí 2024, um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem kærandi varð fyrir X.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi varð fyrir vinnuslysi X. Tilkynning um slys barst Sjúkratryggingum Íslands 15. október 2021 sem samþykktu bótaskyldu. Með ákvörðun, dags. 28. maí 2024, mat stofnunin varanlega læknisfræðilega örorku kæranda vegna slyssins 18%.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 14. ágúst 2024. Með bréfi, dags. 20. ágúst 2024, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 13. september 2024, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. september 2024. Engar athugasemdir bárust.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir kröfu um að hin kærða ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 28. maí 2024, um 18% varanlega læknisfræðilega örorku verði endurskoðuð og að varanleg læknisfræðileg örorka verði ákvörðuð að minnsta kosti 23% líkt og staðfest sé í matsgerð C matslæknis, dags. 4. apríl 2024.
Í kæru er greint frá því að kærandi hafi orðið fyrir slysi á leið sinni til vinnu þann X. Slysið hafi orsakast með þeim hætti að hann hafi verið á rafhlaupahjóli í […] á leið til vinnu sinnar sem […] hjá D. Kona á reiðhjóli hafi komið á móti honum á öfugum vegarhelming og hafi kærandi sveigt frá til að forða árekstri með þeim afleiðingum að hann hafi fallið af hjólinu og borið báðar hendur fyrir sig í fallinu og fengið mikið högg. Hann hafi strax fengið mikla verki í báða handleggi, mest yfir olnbogum. Hann hafi verið fluttur með sjúkrabifreið á slysa- og bráðadeild í Fossvogi.
Slysið hafi verið viðurkennt bótaskylt hjá Sjúkratryggingum Íslands þann 15. nóvember 2021.
Matsfundur hafi verið haldinn þann X. Fyrir matsfundinn hafi legið frammi öll læknisfræðileg gögn málsins og hafi verið framkvæmd ítarleg læknisfræðileg skoðun á fundinum af matslækni. Með matsgerð matslæknis hafi varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins verið metin 23%. Niðurstöður matsmanns byggi því á yfirferð á öllum læknisfræðilegum gögnum málsins og að undangenginni ítarlegri læknisskoðun á matsfundi.
Á bls. 3 til 8 í matsgerðinni sé lýst læknisheimsóknum og niðurstöðum rannsókna vegna afleiðinga slyssins.
Á bls. 8 og 9 í matsgerðinni komi fram að einkenni sem rakin séu til slyssins séu frá báðum olnbogum og úlnliðum. Verkur í hægri olnboga sé álagsbundinn og komi við hreyfingar og allt álag við að spenna vöðva í kringum olnbogann. Hann finni fyrir kraftminnkun um olnbogann. Verkur í vinstri olnboga sé einnig álagsbundinn, við álag, teygjur, við að lyfta þungu í líkamsrækt og fleira. Verkur í hægri úlnlið komi við álag eins og við að nota úlnliðinn við þrif og fleira, einnig við fulla réttu um úlnliðinn. Hann fái verk við að skrifa með hægri hönd, en hann sé rétthentur. Verkur í vinstri úlnlið komi við álag eins og við réttu og við að halda þungum hlutum eða gera hluti eins og að þrífa. Hann geti takmarkað spilað kröfubolta eins og hann hafi gert áður, þoli illa álag bæði á olnboga og úlnliði. Eigi erfitt með að synda og fara í líkamsrækt, fái verki við það. Hann sé hættur að hjóla á reiðhjóli, þoli illa hristing og högg af stýri hjólsins og fái þá mikinn sársauka. Hann vakni stundum upp með verki í olnbogum eða úlnliðum. Þunglyndiseinkenni hafi verið til staðar eftir slysið og hann finni enn fyrir depurð hluta úr degi.
Á bls. 9 – 11 sé lýsing á læknisskoðun og niðurstöðum mælinga matslæknis á matsfundi. Á bls. 11-15 í matsgerðinni sé að finna samantekt og álit matslæknis. Komi meðal annars fram að í slysinu hafi kærandi hlotið innkýlt brot á sveif í hægri olnboga, ótilfært brot á sveif í vinstri olnboga og vökvaaukningu í báðum olnbogaliðum. Gripkraftur hafi verið minnkaður og þreifieymsli hafi verið yfir brotstað beggja vegna. Minnkaður kraftur sé í handlimum og þreytist kærandi fljótt. Máttleysi og verkir séu í báðum handlimum og finni hann til við alla áreynslu. Við skoðun matslæknis hafi verið minni kraftur í hægri handlim miðað við vinstri, þó hann sé rétthentur. Mikil eymsli hafi verið yfir hægri lateral epicondyl (tennis olnbogi) en væg á sama stað vinstra megin og yfir medial epicondylum (golf olnbogi). Hann sé með eymsli sveifarmegin yfir úlnliðum og Finkelstein próf sé jákvætt beggja vegna. Rétta um olnboga sé eðlileg en beygja sé vægt skert og sár, snúningshreyfingar um framhandleggi sem séu um brotstaði beggja vegna séu skertar og sárar, meira hægra megin. Beygja og rétta um vinstri úlnlið séu eðlilegar en skertar og sárar um hægri úlnlið. Hægri upphandleggur mælist aðeins minni að ummáli en sá vinstri.
Við mat matslæknis á varanlegri læknisfræðilegri örorku hafi fyrst og fremst verið hafðar til hliðsjónar miskatöflur örorkunefndar útgefnar í janúar 2020 en einnig hliðsjónarrit þegar það eigi við. Litið sé til líkamlegrar og andlegrar færnisskerðingar sem slys geti hafa valdið og einnig sé litið til þess hvort sú færniskerðing geti valdið viðkomandi sérstökum erfiðleikum í lífi sínu í skilningi skaðabótalaga nr. 50/1993 umfram það sem felist í því mati sem fram fari út frá læknisfræðilegu sjónarmiði. Matslæknir miði við í miskatöflum örorkunefndar áverka svarandi til daglegs áreynsluverkjar með miðlungshreyfiskerðingu í olnboga og skertri snúningshreyfingu um framhandlegg hægra megin 8% og vinstra megin 7% og daglegan áreynsluverk með vægri hreyfiskerðingu í úlnlið hægra megin 5% og vinstra megin 3% (VII.A.b. og VII.A.c.) og teljist varanleg læknisfræðileg örorka háð slysinu X réttilega metin 23%.
Kærandi byggi á því að matsgerð matsmanns sé svo sterkt sönnunargagn að leggja beri það til grundvallar niðurstöðu í málinu. Matsgerðin byggi þannig á ítarlegri yfirferð óháðs matsmanns á öllum læknisfræðilegum gögnum málsins auk matsviðtals við kæranda og ítarlegrar læknisskoðunar á olnbogum og úlnliðum beggja handleggjar.
Þá byggi kærandi á að ekki sé unnt að fallast á sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands sem fram komi í ákvörðun, dags. 28. maí 2024. Fram komi að ákvörðunin byggi á mati tryggingalækna Sjúkratrygginga Íslands. Fram komi að tjón á olnbogum sé ofmetið miðað við niðurstöður skoðunar kæranda hjá matsmanni en að öðru leyti sé matsgerðin grundvöllur ákvörðunar Sjúkratrygginga Íslands. Fram komi að um sé að ræða brot á caput radii bilat og verki í úlnliðum án brots. Brotin séu að jöfnu góðkynja og horfur góðar. Telji tryggingalæknar Sjúkratrygginga Íslands hæfilega ákveðið að miða við kafla VII.A. lið b.1. varðandi olnboga og gefi 5 stig fyrir hvorn olnboga. Ekki séu gerðar athugasemdir vegna miskamats fyrir úlnliði. Kærandi bendi á að til að meta hreyfiskerðingu sé mikilvægt að framkvæma ítarlega læknisskoðun. Engin slík skoðun hafi verið framkvæmd af hálfu tryggingalækna Sjúkratrygginga Íslands í málinu og sé ákvörðunin því tekin á ófullnægjandi hátt.
Kærandi byggi á því að hann sé með miðlungs hreyfiskerðingu í olnbogum og með daglegan áreynsluverk, líkt og matsgerð matslæknis staðfesti. Hann eigi erfitt með ýmsar daglegar athafnir og hafi verið frá vinnu í langan tíma vegna afleiðinga slyssins.
III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands
Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að þann 15. október 2021 hafi stofnuninni borist tilkynning um slys sem kærandi hafi orðið fyrir þann X. Að gagnaöflun lokinni hafi Sjúkratryggingar Íslands tilkynnt með bréfi, dags. 15. nóvember 2021, að um bótaskylt slys væri að ræða. Með ákvörðun, dags. 28. maí 2024, hafi varanleg læknisfræðileg örorka kæranda verið metin 18% vegna umrædds slyss. Þann 10. júní 2024 hafi kæranda verið greiddar bætur í samræmi við framangreinda ákvörðun.
Í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 28. maí 2024, komi eftirfarandi fram:
„Vísað er til umsóknar um miskabætur vegna slyss, sem átti sér stað X.
Lögð hefur verið fram matsgerð C, læknis, vegna slyssins, dagsett 4.4.2024. Var matsgerðin unnin á grundvelli fyrirliggjandi gagna auk viðtals og læknisskoðunar á matsfundi 6.12.2023.
Það er mat tryggingalækna Sjúkratrygginga Íslands, að í tillögunni sé forsendum miskamats rétt lýst en að tjón á olnbogum sé ofmetið miðað við niðurstöður skoðunar tjónþola hjá matsmanni og miskatöflur Örorkunefndar. Er matsgerðin grundvöllur ákvörðunar þessarar með lítilsháttar leiðréttingu. Um er að ræða brot á caput radii bilat og verki í úlnliðum án brots. Brotin sem nefnd eru reynast að öllu jöfnu góðkynja og horfur góðar. Í matsgerð er lýst hreyfiskerðingu sem telst væg. Tryggingalæknar SÍ telja hæfilega ákveðið að miða við kafla VII.A. lið b.1. varðandi olnboga en það gefur 5 stig fyrir hvorn. Ekki eru gerðar athugasemdir vegna miskamats fyrir úlnliði. Samanlagt verður miski þá 5+5+5+3=18 stig.
Með vísan til framangreinds er það mat SÍ, að varanlegur miski vegna slyssins teljist hæfilega ákveðin 18%, átján af hundraði.“
Með vísan til þess er að framan komi hafi það verið mat Sjúkratrygginga Íslands, að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins teldist vera 18%.
Að mati Sjúkratrygginga Íslands sé unnt að leggja fyrirliggjandi gögn og tillögu C læknis til grundvallar ákvörðun stofnunarinnar hvað varði einkennalýsingu og læknisskoðun. Sjúkratryggingar Íslands telji þá lýsingu sem liggi fyrir vera greinargóða.
Afleiðingar slyssins sem kærandi hafi orðið fyrir séu svokölluð brot á caput radii bilat og verkir í úlnliðum án brots. Brotin sem nefnd séu reynist að öllu jöfnu góðkynja og horfur góðar. Í matsgerð sé lýst hreyfiskerðingu sem teljist væg. Mismunandi tölur séu gefnar upp í töflum og texta miskataflna örorkunefndar. Að mati Sjúkratrygginga Íslands sé réttast að miða við lið VII.A.b.1.
Lögmaður kæranda leggi mikið upp úr sönnunargildi matsgerðar C og því að tryggingalæknar Sjúkratrygginga Íslands hafi ekki skoðað sjúkling. Eins og fram komi í skriflegri ákvörðun stofnunarinnar sé hún byggð á matsgerð C. Sjúkratryggingar Íslands dragi forsendur hans og lýsingu á læknisskoðun ekki í efa. Því sé óþarfi að láta kæranda koma í sérstaka skoðun á vegum Sjúkratrygginga Íslands. Tveir tryggingalæknar stofnunarinnar hafi farið yfir gögnin og talið að sú hreyfiskerðing sem C lýsi við sína skoðun teljist ekki miðlungs heldur væg. Tekið skuli fram að annar þeirra tryggingalækna sem hafi farið yfir gögnin sé handaskurðlæknir. Það að telja hreyfiskerðinguna miðlungs leiði til þess að stuðst sé við annan lið í miskatöflum en Sjúkratryggingar Íslands telji rétt að gera og jafnframt að matið verði hærra en ástæða sé til. Það hafi verið sameiginleg niðurstaða tryggingalækna Sjúkratrygginga Íslands að hæfileg læknisfræðileg örorka eða miski sé 18% byggt algerlega á forsendum úr matsgerð C.
Samkvæmt 3. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatryggingalaga annist Sjúkratryggingar Íslands framkvæmd slysatrygginga almannatrygginga samkvæmt lögum. Í því felist að stofnuninni sé falið að leggja mat á varanlega læknisfræðilega örorku vegna slysa sem séu bótaskyld úr slysatryggingum almannatrygginga, sbr. 12. gr. laganna og reglugerð nr. 187/2005. Hvorki sé tilgreint í lögunum hvernig slíkt mat á örorku fari fram né hvaða gögn þurfi að liggja fyrir hjá Sjúkratryggingum Íslands áður en ákvörðun sé tekin um örorku. Á stofnuninni hvíli hins vegar hin almenna rannsóknarskylda 10. gr. stjórnsýslulaga sem mæli fyrir um að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því.
Það hafi verið faglegt mat yfirtryggingalæknis, eftir ítarlega skoðun á gögnum málsins, að gögnin teldust fullnægjandi og að fyrir hendi væru fullnægjandi upplýsingar og læknisskoðun C.
Það sé afstaða Sjúkratrygginga Íslands að niðurstaða stofnunarinnar byggi á fullnægjandi gögnum og að rannsóknarskyldan hafi verið virt, skyldubundið mat Sjúkratrygginga Íslands hafi farið fram og að niðurstaða stofnunarinnar í málinu sé rétt.
Að öllu virtu beri því að staðfesta þá afstöðu Sjúkratrygginga Íslands sem gerð hafi verið grein fyrir hér að framan og staðfesta hina kærðu ákvörðun þess efnis að varanleg læknisfræðileg örorka teljist réttilega vera metin 18%.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ágreining um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem kærandi varð fyrir X. Með ákvörðun, dags. 28. maí 2024, mátu Sjúkratryggingar Íslands varanlega læknisfræðilega örorku kæranda vegna slyssins 18%.
Í bráðamóttökuskrá frá X, segir um slysið:
„Greiningar
Fracture of upper end of radius, S52.1
Saga
[…]
Komuástæða: Verkur í báðum höndum, fall af hlaupahjóli.
Var á rafhlaupahjóli á leið í vinnu kl. 10 í morgun, anna rafhlaupahjól kom á móti honum og hann sveigði frá með þeim afleiðingum hann dag. Bar báðar hendur fram fyrir sig. Fékk ekki höfuðhögg. Missti ekki meðvitund. Fékk strax mikla verki í báða handleggi, mest yfir olnbogum. Fann fyrir svima og yfirliðatilfinningu en taldið það vera út af sársaukanum.
Hraustur og lyfjalaus.
[…]
Skoðun
Almennt: meðtekinn að sjá, liggur í rúmi með báða handleggi á púða. Kveiknar sér við litla hreyfingu.
Vi. handleggur: Ekki greinanleg aflögun. Þreifieymsli yfir distal humerus meira lateral og proximal radius. Væg þreyfieymsli yfir úlnlið. Ekki eymsli yfir bátsbeini. Hreyfir olnboga mest 120!. Skert pron og supination. Skert hreyfing um úlnlið. Hreyfir fingur eðlilega. Eðlilegt skyn.
Hæ. handleggur: Ekki greinanleg aflögun. Þreifieymsli yfir distal humerus meira lateral og proximal radius. Þreifieymsli yfir posterior úlnlið. Ekki eymsli yfir bátsbeini. Hreyfir olnboga mest 120°. Skert pron eða supination. Skert hreyfing um úlnlið. Hreyfir fingur eðlilega. Eðlilegt skyn.
Ransóknir
Rtg vi. olnbogi: ótilfært brot í collum radii og vökvaaukning í olnbogalið.
Rtg hæ. olnbogi: innkýlt brot í collum radi og effusion í liðinum. Brotflaski lateralt á caput radii.
Álit og áætlun
Bilateral collum radii brot. Fengið ráðgjöf frá bæklun. Sjá ráðgjafasvar.
- fær olnbogaspelkun bilat, endurkoma eftir 7 daga.
- Kontrol rtg ekki í gifsi. Þá sling og mobilisering.“
Í örorkumatsgerð C, dags. 4. apríl 2024, segir svo um skoðun á kæranda 6. desember 2023:
„A kemur vel fyrir og svarar öllum spurningum greiðlega, hann kveðst vera Xcm á hæð og vega Xkg en kveðst hafa þyngst um Xkg eftir slysið vegna minni hreyfingar vegna eftirkasta slyssins. Varðandi hvar hann hefur einkenni sem hann rekur til slyssins bendir hann á hægri og vinstri olnboga utan- og innanvert og á hægri og vinstri úlnliði.
Háls: Það vantar 2 fingurbreiddir upp á að hakan nái niður í bringu við framsveigju á hálsi, framsveigjan mælist 40° og tekur í við endastöðu en aftursveigja mælist 40° og er ósár. Halli til hægri mælist 40° og til vinstri 50° og tekur meira í við halla til hægri. Snúningur til hægri mælist 70° og til vinstri 80° og tekur vægt í við endastöður. Hann er aumur yfir hnakkafestur og herðasvæði vinstra megin og yfir neðstu hálshryggjartindum. Við mælingar á hreyfingum í hálsi var notaður Isomed hreyfimælir (Dr. John Gerhardt) og var farið eftir forskrift ameríska læknafélagsins, AMA, við mælingarnar. Eftir staðlaða upphitun var tjónþoli látinn gera hverja hreyfingu 3svar, en svarið telst marktækt ef mjög lítill munur er á milli mælinga en ef munurinn er meiri þarf að gera allt að 6 mælingar, ef fleiri en 6 mælingar þarf að gera telst mælingin ekki marktæk. Ekki þurfi að gera fleiri en 3 mælingar á hverri hreyfingu hjá tjónþola og því gott samræmi á milli mælinganna.
Efri útlimir: Hann kveðst vera rétthentur, hægri öxl situr örlítið hærra en sú vinstri. Hreyfingar um axlarliði eru eðlilegar og fríar fyrir utan snúningshreyfingar sem eru skertar og sárar – tekur í olnboga (útsnúningur hæ 80°, vi 70° og innsnúningur hæ 60° og vi 60°). Sina- og taugaviðbrögð í handlimum eru til staðar og eru eins báðum megin, kraftar eru eðlilegir en þó er gripstyrkur hægra megin greinilega minni en vinstra megin og hægri handlimur er sjáanlega rýrari en sá vinstri. Snertiskyn er metið eðlilegt. Væg eymsli eru yfir festu tvíhöfða framan á öxl beggja vegna. Við skoðun á olnbogum er hann hvellaumur yfir lateral epiconcyl (tennisolnbogi) hægra megin en væg eymsli eru yfir lateral epicondyl vinstra megin og yfir medial epicondylum veggja vegna (golf olnbogi). Við skoðun á úlnliðum er hann aumur sveifarmegin yfir úlnliðum beggja vegna og Finkelstein próf vægt jákvætt.
Hreyfingar um olnboga eru mælar og eru þannig:
Hægri Vinstri
Rétta 0° 0°
Beygja 135° 130°
Hreyfingar um framhandleggi eru mældar og eru þannig:
Hægri Vinstri
Pronation 60° 100° Það tekur í hægra megin við endastöðu
Supination 70° 80° Það tekur í beggja vegna við endastöður
Hreyfingar um úlnliði eru mældar og eru þannig:
Hægri Vinstri
Rétta 70° 70° Það tekur í hægra megin við endastöðu
Beygja 40° 60° Það tekur í hægra megin við endastöðu
Ummál handlima er mælt og er þannig:
Hægri Vinstri
Upphandleggur 30cm 31cm
Framhandleggur 29cm 29cm
Bak: Það vantar 10cm upp á að fingur nái niður í gólf við framsveigju á baki, aftursveigja er vægt skert og sár. Halli til hægri og vinstri er eðlilegur og ósár. Bolvindur þegar hann situr með hendur í læstri hálsstöðu eru skertar og vægt sárar til hægri, til vinstri vægt skertar en sárar. Eymsli eru í mjóbaki fyrir vöðvum (paravertebralt) og væg yfir hryggjartindum, mest neðst í brjóstbaki. Eymsli eru yfir vöðvum vinstra megin í mjóbaki og yfir hryggjartindum, mest neðst í lendhrygg.
Neðri útlimir: Sina-taugaviðbrögð í ganglimum eru til staðar og eru eins báðum megin, Laségue taugaþanpróf er neikvætt beggja vegna. Hann getur gengið á tábergi og hælum og farið niður á hækjur sér og upp aftur án vandkvæða.“
Í samantekt og áliti örorkumatsins segir svo:
„Um er að ræða X ára karlmann sem hefur sögu um verki í vinstri olnboga árið X en átti aðeins eina komu vegna þess og ekki er lýst neinum langvarandi einkennum eftir slysið. Hann hlaut brot á miðhandarbeini I á hægri hönd árið X og fór í aðgerð vegna þess og var óvinnufær í 3 mánuði. Saga um umferðarslys í X og þá var lýst áverkum frá hrygg. Hann hefur að öðru leyti verið hraustur samkvæmt heimilislækni.
Þann Xféll hann af hlaupahjóli, hann fékk strax verki í báða handleggi mest yfir olnbogum. Við skoðun á slysadeild var hann meðtekinn af verk og var með þreifieymsli yfir báðum olnbogum og úlnliðum, auk hreyfiskerðingar í olnbogum og úlnliðum. Röntgen sýndi innkýlt brot á sveif í hægri olnboga, ótilfært brot á sveif í vinstri olnboga og vökvaaukningu í báðum olnbogaliðum. Beináverkar sáust ekki úlnliðum en röntgenlæknir taldi vanta AP myndir af úlnliðum. Við eftirlit viku eftir slysið sýndi röntgen óbreytta legu, hann fann fyrir verkjum hægra megin og fékk verki við snúningshreyfingar en hreyfði vel vinstra megin. Hann kom á heilsugæsluna 4 vikum eftir slysið og var enn óvinnufær, fékk veikindavottorð. Hann kom næst á heilsugæslu 2 mánuðum eftir slysið, fram kom að gripkraftur var minnkaður og þreifieymsli yfir brotstað veggja vegna, hann fékk tilvísun til sjúkraþjálfara. Hann kom næst rúmum 4 mánuðum eftir slysið, van með minnkaðan kraft í handlimum og varð fljótt þreyttur, var enn að bíða eftir sjúkraþjálfun, hann fékk óvinnufærnivottorð. Hann kom aftur hálfu ári eftir slysið, var í sjúkraþjálfun sem hjálpaði ekki mikið, ráðlögð var áfram þjálfun og hann fékk veikindavottorð. Hann kom næst rúmum 8 mánuðum eftir slysið, fékk óvinnufærnivottorð fyrir sjúkratryggingar og tilvísun til bæklunarlæknis. Hann hafði símasamband við lækni ári eftir slysið, fékk sjúkradagpeningavottorð. Hann kom til læknis rúmu ári eftir slysið, hafði verið í endurhæfingu frá slysinu sem hafði ekki skilað árangri, verið á biðlista hjá bæklunarlækni í 3 mánuði, ekki sjúkraþjálfun undanfarið meðan hann var að bíða eftir bæklunarlækni. Hann lýsti máttleysi og verkjum í báðum handlimum, fann til við alla áreynslu, við skoðun gripkraftur góður, reflexar daufir en til staðar. Gerð var endurhæfingaráætlun með sjúkraþjálfun og mati bæklunarlæknis og sótt um endurhæfingarlífeyri. hann kom næsta 15 mánuðum eftir slysið, hafði verið synjað um endurhæfingarlífeyri þar sem endurhæfingaáætlun þótti ekki nógu ítarleg. Hann fór til bæklunarlæknis rúmum 15 mánuðum eftir slysið, fram kom í bréfi læknisins að hann hafði verið hjá sjúkraþjálfara en ekki fengið bata af því, varð fljótt þreyttur í framhandleggjum og með minnkaðan kraft, hafði verið óvinnufær frá slysinu. Við skoðun var hann metinn með fulla hreyfigetu um olnboga og úlnliði, eymsli voru í olnbogabótum og bólga í liðhylki (capsulu) olnboga, ekki voru merki um vökva í olnbogaliðum. Röntgen sýndi gróin brot í olnbogum og ekki beináverka í úlnliðum en litla kölkun dorsalt við carpal bein í vinstri úlnlið. Læknirinn ráðlagði áfram sjúkraþjálfun og taldi ekki ábendingu fyrir aðgerð. Hann byrjaði hjá VIRK í starfsendurhæfingu tæpu 1½ ári eftir slysið og van enn í henni þegar matsfundur fór fram. Í læknisvottorði heimilislæknis tæpum 2 árum eftir slysið kemur fram varðandi afleiðingar slyssins að hann verði fljótt þreyttur í höndum og við skoðun 18 mánuðum eftir slysið hafi verið væg kraftminnkun við beygju og réttu um olnboga og tók í við þessar hreyfingar gegn mótstöðu. Hann var enn óvinnufær og í endurhæfingu hjá VIRK.
Núverandi einkenni sem hann rekur til slyssins eru frá olnbogum og úlnliðum. Hann lýsir álagsbundum verk í hægri olnboga sem kemur við hreyfingar og annað álag á olnbogann eins og við þrif og fleira, hann lýsir kraftminnkun um olnbogann. verkur í vinstri olnboga er einnig álagsbundinn og kemur m.a. við teygjur, við að lyfta þungu í líkamsrækt og fleira. Verkur í hægri úlnlið kemur við álag eins og við þrif og við fulla réttu um úlnliðinn, hann fær verk við að skrifa með hægri hönd en hann er rétthentur. Verkur í vinstri úlnlið kemur einnig við álag eins og að við réttu og við að halda á þungum hlutum og við þrif, aðeins minni einkenni eru frá vinstri úlnlið en þeim hægri. Hann segist mjög takmarkað geta spilað körfubolta eins og hann gerði fyrir slysið vegna einkenna frá olnbogum og úlnliðum en hann mæti þó stundum vegna félagsskaparins. Þá eigi hann erfitt með að synda, hjóla eða mæta í líkamsrækt vegna eftirkasta slyssins. hann lýsir þunglyndiseinkennum fyrst eftir slysið og kveðst stundum enn finna fyrir depurð hluta úr degi en hann hafi fengið stuðning hjá fjölskyldu og vinum.
Við skoðun bendir hann á hægri og vinstri olnboga og úlnliði og innanvert varðandi hvar einkenni eru eftir slysið. Minni kraftur er finnanlega í hægri handlim miðað við vinstri þó hann sé rétthentur. Væg eymsli eru framan á öxlum. Hann er með mikil eymsli yfir hægri lateral epicondyl (tennis olnbogi) en væg á sama stað vinstra megin og yfir medial epicondylum (golf olnbogi). Hann er með eymsli sveifarmegin yfir úlnliðum og Finkelstein próf er jákvætt beggja vegna. Rétta um olnboga er eðlileg en beygja er vægt skert og sár, snúningshreyfingar um framhandleggi sem eru um brotstaði beggja vegna eru skertar og sárar, meira hægra megin. Beygja og rétta um vinstri úlnlið eru eðlilegar en skertar og sárar um hægri úlnlið. Hægri upphandleggur mælist aðeins minni að ummáli en sá vinstri.“
Um mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku segir svo í örorkumatinu:
„Við matið er litið til þess að hann var hraustur fyrir slysið en hlaut í slysinu áverka á olnboga og úlnliði sem teljast háðir slysinu. Matsmaður gerir ráð fyrir að núverandi einkenni séu varanleg.
Miðað er við í miskatöflu Örorkunefndar áverka svarandi til daglegs áreynsluverkjar með miðlungshreyfiskerðingu í olnboga og skertri snúningshreyfingu um framhandlegg hægra megin 8% og vinstra megin 7% og daglegan áreynsluverk með vægri hreyfiskerðingu í úlnlið hægra megin 5% og vinstra megin 3% (VII.A.b. og VII.A.c) og telst varanleg læknisfræðileg örorka háð slysinu 26.08.2021 réttilega metin 23%.“
Ákvörðun slysaörorku samkvæmt þágildandi ákvæðum laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga er eingöngu læknisfræðileg þar sem tilteknir líkamsáverkar eru metnir til ákveðins örorkustigs. Félagslegir þættir, svo sem vinnufærni og áhrif örorku á getu til tekjuöflunar, koma ekki til álita. Við læknisfræðilegt mat er stuðst við örorkumatsskrár/ miskatöflur örorkunefndar frá árinu 2020 og/eða eftir atvikum hliðsjónarrit taflnanna þar sem ýmsar tegundir líkamsáverka eru metnar til ákveðins miskastigs í hundraðshlutum, án tillits til starfs eða menntunar tjónþola.
Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á örorku kæranda og byggir mat sitt á fyrirliggjandi gögnum sem hún telur nægileg. Fyrir liggur að eftir slysið sem kærandi varð fyrir X situr hann eftir með eðlilega réttu um olnboga en beygja er vægt skert og sár, snúningshreyfingar um framhandleggi sem eru um brotstaði beggja vegna eru skertar og sárar, meira hægra megin. Þar er snúningshreyfing skert í hægri framhandlegg. Beygja og rétta um vinstri úlnlið eru eðlilegar en skertar og sárar um hægri úlnlið. Hægri upphandleggur mælist aðeins minni að ummáli en sá vinstri.
Að mati úrskurðarnefndar er ljóst að um væga hreyfiskerðingu er að ræða í olnboga vinstra megin sem fellur að lið VII.A.b.1. í miskatöflunum, sem leiðir til 5% örorku. Hægra megin er hreyfiskerðing með skertri snúningshreyfingu sem fellur að lið VII.A.b.2. og leiðir til 8% örorku, þ.e. daglegur áreynsluverkur með miðlungs hreyfiskerðingu í olnboga eða skertri snúningshreyfingu á framhandlegg. Þá er til staðar væg hreyfiskerðing í báðum úlnliðum sem fellur að lið VII.A.c.1., þ.e. daglegur áreynsluverkur með vægri hreyfiskerðingu, sem leiðir til 5% örorku beggja vegna. Varanleg læknisfræðileg örorka kæranda vegna slyssins í heild er því metin 23%.
Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 18% varanlega læknisfræðilega örorku kæranda er því felld úr gildi. Varanleg læknisfræðileg örorka er ákvörðuð 23%.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 18% varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem A, varð fyrir X, er felld úr gildi og varanleg læknisfræðileg örorka ákvörðuð 23%.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson