Mál nr. 331/2023-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 331/2023
Miðvikudaginn 15. nóvember 2023
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.
Með kæru, móttekinni 5. júlí 2023, kærði B félagsráðgjafi, fyrir hönd A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 24. maí 2023 um að synja umsókn kæranda um uppbót vegna bifreiðakaupa.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með umsókn 16. maí 2023 sótti kærandi um uppbót vegna bifreiðakaupa og uppbót vegna reksturs bifreiðar. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 24. maí 2023, var umsókn kæranda um uppbót vegna bifreiðakaupa synjað á þeim grundvelli kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði um að kaupsamningur/afsal mætti ekki vera eldri en tveggja ára frá dagsetningu umsóknar. Kærandi fór kærandi fram á rökstuðning fyrir ákvörðun stofnunarinnar sem var veittur með tölvupósti 6. júní 2023. Kærandi óskaði aftur eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun stofnunarinnar og var hann veittur með bréfi, dags. 26. júní 2023.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 5. júlí 2023. Með bréfi, dags. 11. júlí 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 26. júlí 2023, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. júlí 2023. Athugasemdir bárust frá umboðsmanni kæranda 18. ágúst 2023 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. ágúst 2023. Með bréfi, dags. 1. september 2023, barst viðbótargreinargerð frá stofnuninni og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. september 2023. Með bréfi, dags. 22. september 2023, bárust athugasemdir frá umboðsmanni kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. september 2023. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru er greint frá því að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 24. maí 2023, um að synja kæranda um uppbót vegna bifreiðakaupa. Rökstuðningur hafi borist með tölvupóstum 6. og 26. júní 2023.
Í bréfi Tryggingastofnunar, dags. 24. maí 2023, hafi kæranda verið synjað um uppbót vegna bifreiðakaupa á þeim forsendum að hann hafi ekki uppfyllt eftirfarandi skilyrði: „Kaupsamningur/afsal skal ekki vera eldri en tveggja ára, frá og með dagsetningu umsóknar, sbr. 4.mgr. 32. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007.“
Svohljóðandi sé 4. mgr. 32. gr. laga um almannatryggingar sem falli undir IV. kafla A. Greiðslur, endurmat réttinda og uppgjör greiðslna:
„Greiðslur skulu aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berst umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um rétt til greiðslna og fjárhæð þeirra, sbr. þó 4. mgr. 42. gr.“
Ekki sé ljóst hvernig þessi lagagrein eigi við í máli kæranda, þar sem hún eigi við um reglulegar greiðslur afturvirkt, sem séu yfirleitt greiddar mánaðalega, en ekki um eingreiðslu sem umsækjandi geti sótt um og fengið á fimm ára fresti.
Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi með tölvupósti 6. júní 2023 sem hafi borist með bréfi samdægurs sem sé svohljóðandi:
„Umsókn þinni er synjað vegna þess að bifreiðin sem sótt er um uppbót/styrk vegna kaupa á er keypt 21.03.2019 (fyrir meira en tveimur árum). Aðeins er heimilt að greiða slíkan styrk fyrir bifreið sem keypt var allt að tveimur árum áður en umsókn er samþykkt.“
Í rökstuðningnum hafi hvorki verið vísað í lagagrein né í annan lagalegan grundvöll fyrir synjuninni. Tryggingastofnun hafi sent kæranda ítarlegri rökstuðning með bréfi, dags. 26. júní 2023, þar sem honum hafi verið bent á að þann „möguleika að þegar styrkurinn rennur út að sækja um að nýju. Því heimild er til þess á fimm ára fresti, sbr. 11. gr. reglugerðarinnar sem kveður á um fimm ára regluna sem gildir um umsókn hverrar bifreiðar. Þá er heppilegt að sækja um með dágóðum fyrirvara og verður að vera kaupsamningur á bifreið meðfylgjandi sem er ekki eldri en tvö ár aftur í tímann.“
Þetta eigi ekki við í tilviki kæranda, hann hafi fengið samþykki fyrir uppbót vegna bifreiðakaupa í desember 2016. Það sé liðinn lengri tími en fimm ár frá því að kæranda hafi síðast fengið samþykki fyrir uppbót vegna bifreiðakaupa og hafi nýtt hana til bifreiðakaupa.
Í athugasemdum umboðsmanns kæranda, dags. 18. ágúst 2023, er greint frá því að málið snúist ekki um hreyfihömlunarmatið sjálft. Óumdeilt sé að kærandi sé með hreyfihömlunarmat og uppfylli skilyrði 4. og 6. gr. reglugerðar nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða um mat á þörf og skilyrði fyrir uppbót vegna kaupa á bifreið. Synjun stofnunarinnar hafi verið byggð á því að samkvæmt verklagsreglu gildi ekki heimild til greiðslu á uppbót vegna kaupa á bifreið hafi hún verið keypt meira en tveimur árum áður en umsókn hafi verið samþykkt af stofnuninni, sbr. einnig lögjöfnun frá 4. mgr. 32. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.
Áréttað sé að hvergi í lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð né í reglugerð nr. 905/2021, sem sé sett með stoð í áðurnefndum lögum, komi fram að kaupsamningur megi ekki vera eldri en tveggja ára. Ekki sé hægt að lögjafna við 4. mgr. 32. gr. laga um almannatryggingar þar sem ekki sé um eðlislíkar greiðslur að ræða. Markmið laga um almannatryggingar sé að tryggja þeim sem þurfi bætur og aðrar greiðslur vegna elli, örorku og framfærslu barna. Þess konar greiðslur greiðist venjulega reglulega með vissu millibili eins og til dæmis greiðslur vegna örorku sem greiðist venjulega mánaðarlega en í þessu tilviki sé um að ræða eina greiðslu sem greiðist á fimm ára fresti að vissum skilyrðum uppfylltum.
Þrátt fyrir að Tryggingastofnun sé almennt heimilt að setja sér verklagsreglur, þá sé sú heimild takmörkuð og þurfi að fara varlega þegar slíkar reglur séu settar. Verklagsreglur séu ekki taldar vera sjálfstæð réttarheimild, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 1970/1996. Því þurfi stjórnvöld að gæta þess að setja ekki verklagsreglur sem séu íþyngjandi fyrir þann sem leiti réttar síns (umsækjanda) og séu miklar kröfur gerðar um að slíkar ákvarðanir byggist á viðhlítandi lagastoð og séu í samræmi við fyrirmæli viðkomandi lagaákvæðis.
Í viðbótarathugasemdum umboðsmanns kæranda, dags. 22. september 2023, segir að í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar komi fram að stofnunin líti til ákvæðis laga um almannatryggingar við túlkun og einnig sé vísað 13. gr. laga um félagslega aðstoð: „Ef greiðsla samkvæmt lögum þessum er grundvölluð á tekjum umsækjanda eða greiðsluþega skulu þær ákveðnar skv. 22. og 30. gr. laga um almannatryggingar.“
Uppbót vegna bifreiðakaupa sé ekki greiðsla sem grundvölluð sé á tekjum umsækjanda eða greiðsluþega. Samþykki fyrir uppbót til bifreiðakaupa grundvallist á því að umsækjandi sé með hreyfihömlunarmat í gildi og þurfi nauðsynlega á bifreið að halda. Eins og áður hafi komið fram í bréfi, dags. 18. ágúst 2023, sé óumdeilt að kærandi sé með hreyfihömlunarmat og uppfylli skilyrði 4. og 6. gr. reglugerðar nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða um mat á þörf og skilyrði fyrir uppbót vegna kaupa á bifreið.
Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar komi fram að „hvorki í 10. gr. laga um félagslega aðstoð né í 6. gr. reglugerðar nr. 905/2021, sem lýtur að uppbót vegna kaupa á bifreið og reynir á í málinu, er vísað í eignarhald á bifreið, heldur er vísað í kaup á bifreið, þannig að greiðslur skulu ákvarðaðar samfara kaupum. Með öðrum orðum er ekki ætlunin að veita uppbót vegna bifreiðar sem er einfaldlega í eigu umsækjanda, heldur er ætlunin að uppbótin sé vegna kaupa á bifreið.“
Uppbót vegna bifreiðakaupa sé iðulega ákvörðun fyrir eða eftir að bifreiðakaup hafi átt sér stað. Samkvæmt 3. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 905/2021 gildi ákvörðun um að veita umsækjanda uppbót eða styrk í tólf mánuði hverju sinni. Nýti umsækjandi ekki rétt sinn áður en því tímabili sé lokið falli ákvörðunin úr gildi. Ekkert slíkt ákvæði sé varðandi gildistíma ákvörðunar um uppbót til kaupa á bifreið í þeim tilvikum þegar umsækjandi kaupi bifreiðina fyrir þann tíma sem samþykki fyrir uppbótinni hafi verið veitt. Hvort heldur umsækjandi hafi keypt bifreið ári fyrir samþykki uppbótar vegna bifreiðakaupa eða rúmum tveimur árum, þá sé hann eigandi bifreiðarinnar þegar uppbót sé veitt.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kæran varði umsókn um uppbót vegna bifreiðakaupa, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 905/2021, sbr. einnig 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Kæranda hafi verið synjað um sérstaka uppbót til bifreiðakaupa þar sem kaupsamningur/afsal á umræddri bifreið hafi verið eldri en tveggja ára miðað við umsóknardag.
Í 10. gr. laga um félagslega aðstoð sé kveðið á um heimild til að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrksþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Í 1. mgr. 10. gr. segi einnig að heimilt sé að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings og í 3. mgr. 10. gr. segi:
„Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði.“
Sú reglugerð sem eigi við í málinu sé nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Í málinu reyni einkum og sér í lagi á túlkun á 6. og 9. gr. reglugerðarinnar. Í 6. gr. sé kveðið á um uppbót vegna kaupa á bifreið og segi að heimilt sé að greiða hreyfihömluðum, sbr. 3. tölul. 2. gr., elli- og örorkulífeyrisþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem greiðsluþegi sé talinn þurfa nauðsynlega á að halda samkvæmt reglugerðinni. Heimilt sé að veita uppbót til framfæranda hreyfihamlaðra barna sem njóta umönnunargreiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.
Ákvæði 11. gr. reglugerðarinnar lúti að endurnýjun umsókna og fjalli um heimild til bifreiðakaupa á fimm ára fresti. Það lagaákvæði sem helst reyni á í tilviki þessu varði greiðslur til greiðsluþega sem taki mið af atburði aftur í tímann og megi þá miða við 4. mgr. 32. gr. laga um nr. 100/2007 almannatryggingar sem kveði á um að greiðslur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun hafi borist umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg séu til að unnt sé að taka þá ákvörðun um rétt til greiðslna og fjárhæð þeirra og megi lögjafna frá því ákvæði eins og gildi um verklagsreglu Tryggingastofnunar að óheimilt sé að veita samþykki fyrir umsókn um styrk eða uppbót til bifreiðakaupa ef kaupin hafi átt sér stað lengra en tvö ár aftur í tímann.
Umsókn kæranda um uppbót til kaupa á bifreið samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 905/2021 hafi verið synjað 24. maí 2023. Álitaefnið sé hvort bifreiðin X, sem kærandi hafi keypt árið 2019 samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu, geti gilt vegna umsóknarinnar um uppbót til kaupa á bifreið. Fyrri umsóknin hafi borist Tryggingastofnun 7. nóvember 2022 sem sé um tveimur og hálfu ári eftir kaupin, þ.e. þann 21. mars 2019. Seinni umsókn um styrk til uppbóta vegna bifreiðakaupa kæranda vegna sömu bifreiðar hafi borist stofnuninni 16. maí 2023.
Heimilt sé að greiða hreyfihömluðum einstaklingum uppbót til þess að mæta kostnaði vegna kaupa á bifreið að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, sbr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð og reglugerð vegna hreyfihamlaðra einstaklinga nr. 905/2021. Á grundvelli fyrirliggjandi læknisvottorðs, dags. 19. október 2022, hafi hreyfihömlun kæranda verið metin og sé gildistími þess hreyfihömlunarmats frá 1. janúar 2023 og til 31. desember 2026.
Það sé hvorki hreyfihömlunarmatið né læknisfræðileg greining á kæranda og forsendur þess sem sé deilumálið heldur sé það fyrst og fremst sú staðreynd að verklagsreglan um heimild til greiðslu á uppbót vegna kaupa á bifreið gildi ekki hafi hún verið keypt meira en tveimur árum áður en umsókn hafi verið samþykkt af stofnunni, sbr. einnig lögjöfnun frá 4. mgr. 32. gr. laga um almannatryggingar. Skilyrði ákvæðisins hafi því ekki verið uppfyllt í tilviki kæranda þar sem umrædd bifreið hafi verið keypt þann 21. mars 2019. Þar með hafi umsókn kæranda verið synjað með bréfi, dags. 24. maí 2023.
Í ljósi alls framangreinds sé niðurstaða Tryggingastofnunar sú að afgreiðsla á umsókn kæranda sé í senn lögmæt og málefnaleg. Farið sé fram á staðfestingu á kærðri ákvörðun, dags. 24. maí 2023, um að synja kæranda um sérstaka uppbót til bifreiðakaupa, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 905/2021, þar sem óheimilt sé að veita slíka uppbót ef bifreið sem umsóknin varði hafi verið keypt meira en tveimur áður en umsókn hafi verið afhent stofnuninni, sbr. verklagsreglur Tryggingastofnunar og 4. mgr. 32. gr. laga um almannatryggingar. Lögjafnað sé út frá því lagaákvæði miðað við upphafsdag greiðslna og kaupdag bifreiðar sem málið varði. Skýrt komi fram í verklagsreglum stofnunarinnar að einungis sé heimilt að greiða uppbót/styrk vegna bifreiðar ef hún hafi verið keypt allt að 2 árum áður en umsókn hafi verið samþykkt.
Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 1. september 2023, segir að í athugasemdum kæranda sé dregið í efa að verklagsregla stofnunarinnar um að bifreið verði að hafa verið keypt innan tveggja ára frá umsókn um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa eigi næga stoð í lögum og reglugerðum. Því sé mótmælt að rétt sé að lögjafna frá 4. mgr. 32. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.
Að mati Tryggingastofnunar byggist verklagsreglan á réttmætri túlkun á reglugerð nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða og telji stofnunin rétt að líta til ákvæðis 4. mgr. 32. gr. laga um almannatryggingar í því sambandi, þannig að lögjafnað sé frá ákvæðinu. Ákvæðið sé svo hljóðandi: „Greiðslur skulu aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berst umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um rétt til greiðslna og fjárhæð þeirra, sbr. þó 4. mgr. 42. gr.“ Undantekningin sem nefnd sé í 4. mgr. 42. gr. eigi einungis við um meðlag.
Þó að reglugerð nr. 905/2021 sé sett á grundvelli 10. gr. laga um félagslega aðstoð, þá sé ekki úr lausu lofti gripið að líta til ákvæða laga um almannatryggingar við túlkun, enda segi í 13. gr. laga um félagslega aðstoð: „Ef greiðsla samkvæmt lögum þessum er grundvölluð á tekjum umsækjanda eða greiðsluþega skulu þær ákveðnar skv. 22. og 30. gr. laga um almannatryggingar. Einnig skal beita IV. kafla A, V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laga þessara.“ Ákvæði 4. mgr. 32. gr. sé að finna í IV. kafla A.
Rétt sé að leggja áherslu á að hvorki í 10. gr. laga um félagslega aðstoð né í 6. gr. reglugerðar nr. 905/2021, sem lúti að uppbót vegna kaupa á bifreið og reyni á í málinu, sé vísað í eignarhald á bifreið, heldur sé vísað í kaup á bifreið, þannig að greiðslur skuli ákvarðaðar samfara kaupum. Með öðrum orðum sé ekki ætlunin að veita uppbót vegna bifreiðar sem sé einfaldlega í eigu umsækjanda, heldur sé ætlunin að uppbótin sé vegna kaupa á bifreið.
Uppbót eða styrkur til bifreiðakaupa sé þannig augljóslega hugsuð í tengslum við tímamark bifreiðakaupa. Hafi kaup á bifreið átt sér stað áður en sótt sé um uppbótina/styrkinn, þá verði Tryggingastofnun að taka afstöðu til þess hve langur tími megi líða frá kaupunum áður en sótt sé um. Tveggja ára regla stofnunarinnar, sem eigi stoð í 4. mgr. 32. gr. laga um almannatryggingar, sé að mati stofnunarinnar ívilnandi fyrir umsækjendur og telji stofnunin sig ekki hafa heimild til að teygja sig lengra aftur í tímann, enda væri þá gengið lengra en kveðið sé á um í 4. mgr. 32. gr. laga um almannatryggingar og vart lengur um að ræða uppbót/styrk samfara kaupum, eins og lög um félagslega aðstoð og reglugerð nr. 905/2021 kveði á um.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um uppbót vegna bifreiðakaupa á þeim grundvelli að meira en tvö ár liðu frá því að bifreiðin var keypt þar til hann sótti um uppbót til bifreiðakaupa.
Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð er heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Með stoð í 3. málsl. 3. mgr. nefndrar 10. gr. hefur ráðherra sett reglugerð nr. 905/2021 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða þar sem þessi heimild er útfærð nánar.
Í 11. gr. reglugerðarinnar segir um endurnýjun umsókna:
„Heimilt er að veita uppbætur og styrki vegna bifreiðakaupa á fimm ára fresti til sama einstaklings.
Þegar um er að ræða styrki skv. 7. og 8. gr. reglugerðar þessarar er heimilt að víkja frá tímamörkum skv. 1. mgr. eyðileggist bifreið á tímabilinu. Þó er eingöngu heimilt að víkja frá tímamörkum 1. mgr. þegar um styrk skv. 7. gr. er að ræða hafi bifreiðin verið tólf ára eða yngri þegar hún eyðilagðist.“
Þá segir í 3. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar að ákvörðun um að veita umsækjanda uppbót eða styrk gildi í tólf mánuði hverju sinni. Nýti umsækjandi ekki rétt sinn áður en því tímabili sé lokið falli ákvörðunin úr gildi.
Í 1. mgr. 55. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er kveðið á um að sækja skuli um allar bætur og greiðslur samkvæmt lögunum. Samkvæmt 4. mgr. 32. gr. laga um almannatryggingar skulu greiðslur aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berst umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um rétt til greiðslna og fjárhæð þeirra. Samkvæmt 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda ákvæði laga um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Þá segir í 2. málsl. 13. gr. laga um félagslega aðstoð að beita skuli IV. kafla A, V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laganna.
Fyrir liggur að kærandi sótti um uppbót vegna bifreiðakaupa þann 16. maí 2023, en hann hafði keypt umrædda bifreið í 21. mars 2019 eða rúmlega fjórum árum áður. Tryggingastofnun synjaði umsókn kæranda á þeim grundvelli kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði um að kaupsamningur/afsal mætti ekki vera eldri en tveggja ára frá dagsetningu umsóknar. Í greinargerð Tryggingastofnunar er greint frá því að umrædd verklagsregla sé byggð á túlkun á reglugerð nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða og lögjöfnun frá 4. mgr. 32. gr. laga um almannatryggingar.
Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst að fyrrgreindri reglu 4. mgr. 32. gr. laga um almannatryggingar, um að greiðslur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár, verði ekki beitt um uppbót vegna bifreiðakaupa samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, enda er ljóst að ákvæðið á við um bætur sem greiddar eru út mánaðarlega. Hins vegar telur úrskurðarnefndin að líta verði til þess að í 3. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 905/2021, sem sett er með stoð í 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega að stoð, segir að ákvörðun um að veita umsækjanda uppbót gildi í tólf mánuði hverju sinni. Nýti umsækjandi ekki rétt sinn áður en því tímabili sé lokið falli ákvörðunin úr gildi. Gerir reglugerðin þannig ráð fyrir að umsækjandi sæki um og fái samþykkta uppbót áður en hann kaupir sér bifreið. Með hliðsjón af því er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að sú verklagsregla Tryggingastofnunar, að miða við að kaupsamningur eða afsal fyrir bifreið megi ekki vera eldri en tveggja ára við framlagningu umsóknar, sé ívilnandi fyrir umsækjendur. Verður einnig að telja hana málefnalega með vísan til ákvæðis 4. mgr. 32. gr. laga um almannatryggingar og þar sem hún gildir jafnt fyrir alla.
Þar sem umrædd kaup fóru fram rúmlega fjórum árum áður en kærandi sótti um uppbót vegna bifreiðakaupa verður með hliðsjón af framangreindu staðfest sú niðurstaða Tryggingastofnunar ríkisins að synja kæranda um greiðslu uppbótar vegna bifreiðakaupa.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um uppbót vegna kaupa á bifreið, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir