Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 395/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 395/2017

Miðvikudaginn 21. febrúar 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 25. október 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 20. október 2017 sem lýtur að samþykki á umsókn barnsmóður hans um milligöngu um meðlagsgreiðslur frá 1. október 2017.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með rafrænni umsókn, móttekinni af Tryggingastofnun ríkisins 10. október 2017, sótti barnsmóðir kæranda um milligöngu meðlagsgreiðslna með […] börnum þeirra frá 1. október 2017. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 20. október 2017, var kæranda tilkynnt að framangreind umsókn barnsmóður hans hafi verið samþykkt frá 1. október 2017.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. október 2017. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 6. nóvember 2017, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. nóvember 2017. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að samþykkja umsókn barnsmóður hans um milligöngu meðlagsgreiðslna frá 1. október 2017 verði felld úr gildi.

Í kæru kemur fram að kærandi sé að greiða helming á móti barnsmóður sinni í öllum útlögðum kostnaði sem börnin hafi þurft en barnsmóðir hans hafi neitað að taka þátt í þó að hún hafi samþykkt það.

Þar sem kærandi og barnsmóðir hans búi bæði í B komi börnin oft í mat til hans þó svo að þau séu hjá móður sinni. Miðað við það sem hann hafi verið að greiða fyrir barnsmóður sína geti hann ekki séð í hvað meðlagið ætti að fara.

Í hvert skipti sem hann hafi minnst á það sem hún þurfi að greiða honum fái hann hótanir um meira meðlag og meðlag aftur í tímann. Kærandi og barnsmóðir hans séu með sameiginlega forsjá.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar um að samþykkja beiðni barnsmóður kæranda um að hafa milligöngu um meðlag til hennar frá 1. október 2017. Tryggingastofnun hafi tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 20. október 2017, að stofnunin hafi samþykkt framangreinda milligöngu um greiðslu meðlags. Tryggingastofnun hafði borist umsókn 10. október 2017 frá barnsmóður kæranda um meðlag frá 1. október 2017, ásamt leyfisbréfi til skilnaðar að borði og sæng, dags. X, þar sem komi fram að kærandi skuli greiða einfalt meðlag með börnunum frá X til 18 ára aldurs.

Í 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé kveðið á um að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skuli gilda þegar lagt sé fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga.

Samkvæmt 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 sé Tryggingastofnun skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

Hlutverk Tryggingastofnunar sé að hafa milligöngu um greiðslu meðlags þegar ákvörðun hafi verið tekin með lögmætum hætti. Ef foreldri leggi fram löggilda meðlagsákvörðun beri Tryggingastofnun samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar og 67. gr. barnalaga að hafa milligöngu um greiðslu meðlags. Lög veiti Tryggingastofnun ekki heimild til að taka önnur gögn en talin séu upp í framangreindum ákvæðum til greina við milligöngu um greiðslu meðlags.

Hjá Tryggingastofnun liggi fyrir löggild meðlagsákvörðun, þ.e. leyfisbréf til skilnaðar að borði og sæng, dags. X, sem kveði á um meðlagsgreiðslur kæranda til barnsmóður hans. Þá liggi fyrir umsókn barnsmóður kæranda, móttekin 10. október 2017, um meðlag frá 1. október 2017. Tryggingastofnun beri skylda til að hafa milligöngu um meðlag samkvæmt lögformlegri meðlagsákvörðun sé þess farið á leit við stofnunina. Tryggingastofnun hafi engar heimildir til að virða að vettugi lögbundna skyldu sína til að greiða meðlag samkvæmt hinni lögformlegu meðlagsákvörðun. Tryggingastofnun hafi því borið að hafa milligöngu um greiðslu meðlags til barnsmóður kæranda frá 1. október 2017 og hafi ekki heimild til að taka til greina það sem kærandi hafi tekið fram í kæru sinni. Sambærileg niðurstaða hafi einnig verið í kærumálum nr. 42/2012, 81/2013 og 334/2014 fyrir úrskurðarnefnd almannatrygginga og í málum nr. 190/2016 og 77/2017 fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður kæranda frá 1. október 2017.

Kveðið er á um greiðsluskyldu Tryggingastofnunar ríkisins í 67. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þar segir að Tryggingastofnun ríkisins sé skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur er hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setja.

Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar getur hver sá sem fær úrskurð um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags og annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama gildir þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga nr. 76/2003. Þá segir í 6. mgr. 63. gr. laganna að heimilt sé að setja reglugerð um framkvæmd þessarar greinar þar sem meðal annars sé kveðið á um fyrirframgreiðslu meðlags þegar foreldri eða börn séu búsett erlendis og um hámarksgreiðslur sem Tryggingastofnun ríkisins inni af hendi. Reglugerð nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga hefur verið sett með stoð í framangreindu lagaákvæði.

Samkvæmt framangreindu ber Tryggingastofnun ríkisins að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur berist beiðni þar um frá meðlagsmóttakanda á grundvelli lögformlegrar meðlagsákvörðunar.

Kærandi vísar til þess að hann greiði helming á móti barnsmóður sinni í öllum útlögðum kostnaði vegna barnanna og hefur lagt fram yfirlit því til staðfestingar. Þá komi börnin oft til hans í mat þó svo að þau séu hjá móður sinni. Þá geti hann ekki séð í hvað meðlagið ætti að fara miðað við það sem hann hafi verið að greiða fyrir. Fyrir liggur að barnsmóðir kæranda, sem er meðlagsmóttakandi, sótti um milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins um meðlagsgreiðslur með […] börnum þeirra frá 1. október 2017 til 18 ára aldurs þeirra. Stofnunin samþykkti umsóknina á grundvelli gildandi leyfis til skilnaðar að borði og sæng, dags. X. Samkvæmt leyfisbréfinu ber kærandi meðlagsskyldu vegna […] barna þeirra frá X til 18 ára aldurs þeirra.

Hlutverk Tryggingastofnunar í tengslum við meðlagsgreiðslur markast af ákvæðum viðeigandi laga og reglugerða. Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar ber stofnuninni lögbundin skylda til að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur sé þess farið á leit við stofnunina í þeim tilvikum þar sem lögformleg meðlagsákvörðun liggur fyrir. Í ákvæðinu, sem er grundvöllur ákvörðunar stofnunarinnar, segir nánar tiltekið að hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni geti snúið sér til stofnunarinnar og fengið fyrirframgreiðslu meðlags samkvæmt úrskurðinum og sama gildir um staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður kæranda frá 1. október 2017.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður A, frá 1. október 2017, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta