Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 154/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Beiðni um endurupptöku máls nr. 154/2024

Miðvikudaginn 21. ágúst 2024

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með tölvupósti sem barst úrskurðarnefndinni 8. júlí 2024 óskaði A eftir því að úrskurðarnefnd velferðarmála endurskoðaði mál hans vegna synjunar Sjúkratrygginga Íslands frá 26. mars 2024 um bætur til kæranda úr sjúklingatryggingu.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 26. mars 2024. Með bréfi, dags. 5. apríl 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst þann 9. apríl 2024. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 16. apríl 2024, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda 19. apríl 2024 og voru þær sendar Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. apríl 2024. Frekari efnislegar athugasemdir bárust ekki.

Með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 25. júní 2024, var ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands staðfest. Þann 8. júlí 2024 barst tölvupóstur frá kæranda þar sem hann óskar eftir endurupptöku á máli sínu hjá nefndinni.

II.  Sjónarmið kæranda

Í tölvupósti kæranda tekur hann fram að það sé sérstakt, að það sem hann muni eftir að læknar segi, standist ekki við það sem þeir skrifi í athugasemdir eftir tímann, t.d. að B hafi farið yfir blóðprufur hjá honum og hafi komist að því að kærandi væri með kalium skort og hafi spurt hann að því hvort heimilislæknir væri ekkert að gera fyrir hann. Hjartalæknar á Hjartagátt Landspítala, hafi einnig farið yfir blóðprufur árið X og komist að sömu niðurstöðu ogB en ekkert sé minnst á hvað læknar á Hjartagátt hafi að segja um mál kæranda.

Kærandi geti ekki betur séð en hann hafi veikst vegna kalium skorts og að hafa verið of lengi á blóðþynningarlyfinu warfarin. Kærandi spyr hvort það eigi að vera mjög heilsubætandi að taka inn eitur á hverjum degi því warfarin sé það.

Þá segi að fleiri en einn læknir hafi komist að því að kærandi sé með kalíum skort og hann hafi verið viðvarandi í mörg ár og spyr kærandi hvort það sé ekki viðurkennt í úrskurði.

Til sé hellingur af blóðprufum í gögnum um kæranda, sem læknar hafi notað til að meta stöðuna, en geti úrskurðarnefnd það ekki? Mælist kærandi alltaf um 3.0 í kalíum þá sé hann undir viðmiðunarmörkum sem séu 3.5 til 5.

Kærandi ítreki að það hafi verið hann sem hafi beðið um að nýru væru skoðuð. Það hafi einnig verið hann sem hafi beðið um að fá blóðþrýstingslyf, og hafi það verið presmin sem hann hafi fengið. Þetta sé ekki að koma frá C. Kærandi hafi einnig beðið um að hormón yrðu skoðuð. Það sé ekki C sem skrifi upp á hormónasprautu, það sé læknir sem heiti D og hafi leyst C af eftir að hann hafi farið í aðgerð á hné. Meðferð á hormónum hafi síðan verið breytt í gel, sem sé borið á húð, sem hann sé enn að nota því hormón mælist enn alltof lág og hafi verið mæld fyrir nokkrum dögum í E eftir beiðni frá F hjartalækni. Kærandi hafi orðið að minnast sérstaklega á það við D að láta skoða hormón aftur og þá hafi það atriði komist í farveg.

Þá tekur kærandi fram að hann hafi rætt við innkirtlalækni og hann tali um að lág testosterone gildi séu áhættuþáttur fyrir hjartasjúkdóma. Það jákvæða við þá blóðprufu sé að kalíum mælist 3.8 (mmol/L) - Viðmið: (3.5 - 5.0) og þetta hafi gerst eftir að kærandi hafi verið að taka inn 5 töflur af kaleroid á dag í um 2 mánuði.

III. Niðurstaða

Óskað er eftir endurupptöku á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 25. júní 2024. Með úrskurðinum var synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur til kæranda úr sjúklingatryggingu staðfest. Kærandi óskar þess að úrskurðarnefnd velferðarmála taki kæruna til efnislegrar meðferðar á ný.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

  1. ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða
  2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Aðili máls getur einnig átt rétt á endurupptöku máls á grundvelli annarra ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar, til að mynda ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á röngu mati stjórnvalds.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður ekki ráðið af gögnum málsins að niðurstaða nefndarinnar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik hafi breyst verulega frá uppkvaðningu úrskurðarins, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 37/1993, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 37/1993. Þá verður ekki séð að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar. Ítarleg læknisfræðileg gögn lágu fyrir við upphaflega meðferð málsins og þær upplýsingar sem koma fram í beiðni kæranda um endurupptöku gefa ekki til kynna að niðurstaða úrskurðarnefndarinnar hafi byggst á röngu mati.

Með hliðsjón af framangreindu er beiðni kæranda um endurupptöku máls úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 154/2024 synjað.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Beiðni A, um endurupptöku máls nr. 154/2024 hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, er synjað.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum