Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 226/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 226/2016

Mánudaginn 29. ágúst 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 1. apríl 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála það að hún geti ekki sótt um greiðslur vegna ungmenna á heimasíðu Tryggingastofnunar ríkisins.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála greinir kærandi frá því að hún geti ekki sótt um greiðslur vegna ungmenna á heimasíðu Tryggingastofnunar ríkisins þar sem hún sé búsett í B. Úrskurðarnefnd óskaði nánari upplýsinga um kæruefnið frá kæranda með tölvupósti þann 21. júní 2016. Sú beiðni var ítrekuð með tölvupósti þann 28. júní 2016 en engin svör hafa borist frá kæranda. Þá óskaði úrskurðarnefnd upplýsinga frá Tryggingastofnun ríkisins með tölvupósti þann 8. júlí 2016 um hvort fyrir lægi ákvörðun vegna barnalífeyris vegna náms í tilviki kæranda. Með tölvupósti sama dag var því svarað að ekkert slíkt væri til hjá stofnuninni.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því í kæru til úrskurðarnefndar að hún geti ekki sótt um greiðslur vegna ungmenna á Mínum síðum hjá Tryggingastofnun ríkisins þar sem hún og börn hennar séu búsett í B. Hún uppfylli tvö af skilyrðum greiðslnanna, nánar tiltekið um að vera lífeyrisþegi og búa við efnaleysi. Kærandi fari fram á að hún fái að minnsta kosti tækifæri sem íslenskur ríkisborgari til að sækja um bæturnar og að tekið verði tillit til þess að hún sé öryrki og einstæð móðir með X unglinga á framfæri.  

III.  Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal nefndin úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar. Þannig er grundvöllur þess að unnt sé að leggja fram kæru til úrskurðarnefndar að fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er að ræða þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldur manna í skjóli stjórnsýsluvalds.

Í kæru greinir kærandi frá því að hún geti ekki sótt um greiðslur vegna ungmenna á heimasíðu Tryggingastofnunar ríkisins. Því til staðfestingar lagði kærandi fram útprentun af heimasíðu stofnunarinnar þar sem segir: „Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá er lögheimili þitt ekki á Íslandi. Vinsamlega hafðu samband til að leiðrétta skráningu.“ Af framangreindu má ráða að um sé að ræða sjálfvirkt svar á heimasíðu Tryggingastofnunar ríkisins með leiðbeiningu til kæranda um að hafa samband við stofnunina. Ekki er um að ræða stjórnvaldsákvörðun tekna af hálfu Tryggingastofnun ríkisins um rétt eða skyldur kæranda.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Úrskurðarnefnd hefur óskað nánari upplýsinga um kæruefnið frá kæranda í þeim tilgangi að upplýsa hvort fyrir liggi kæranleg stjórnvaldsákvörðun en engin svör hafa borist. Þá hefur úrskurðarnefnd óskað upplýsinga þar um frá Tryggingastofnun ríkisins, en stofnunin hefur upplýst að ákvörðun um barnalífeyri vegna ungmenna í tilviki kæranda liggi ekki fyrir.

Með hliðsjón af því að ekki liggur fyrir stjórnvaldsákvörðun í máli þessu ber að vísa kæru frá úrskurðarnefnd velferðarmála.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð


Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.


F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta