Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 578/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 578/2024

Miðvikudaginn 29. janúar 2025

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 8. nóvember 2024, kærði B lögfræðingur f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 11. september 2024 á umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram læknisvottorð C, dags. 8. ágúst 2024, þar sem fram kom endurhæfingaráætlun. Tryggingastofnun leit á vottorðið sem ígildi umsóknar um endurhæfingarlífeyri. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. september 2024, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að sú endurhæfing sem lögð hafi verið fram uppfyllti ekki skilyrði 7. gr. laga um félagslega aðstoð um að umsækjandi skyldi taka þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði og að óljóst væri hvernig endurhæfingin kæmi til með að stuðla að endurkomu á vinnumarkað. Umboðsmaður kæranda óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni með tölvupósti 12. september 2024 sem var veittur með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 26. september 2024.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 8. nóvember 2024. Með bréfi, dags. 13. nóvember 2024, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 18. nóvember 2024, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. nóvember 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram sú krafa að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. september 2024, um að synja umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri verði felld úr gildi og að umsóknin verði samþykkt.

Kærandi sé ríkisborgari D og hafi verið veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga og hafi haft skráð lögheimili á Íslandi frá […]. Kærandi sé lamaður fyrir neðan mitti eftir árás […] árið X. Hann noti hjólastól og þvaglegg og sé auk þess greindur með sykursýki. Í læknisvottorði komi fram að kærandi hafi farið í endurhæfingu á dagdeild F 21. janúar til 3. mars 2023 og aftur 21. mars til 25. maí 2023. Auk þess hafi hann verið í sjúkraþjálfun.

Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri 22. desember 2023, sem hafi verið synjað með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 10. janúar 2024. Í ákvörðuninni segi að kærandi hafi ekki uppfyllt eitt af þeim skilyrðum sem þurfi að uppfylla til að fá umsókn samþykkta. Á meðal skilyrðanna sé að hafa verið tryggður hér á landi samfellt að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en örorka sé metin að minnsta kosti 75%. Í ákvörðun Tryggingastofnunar sé tekið fram að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði um að hafa fengið alþjóðlega vernd sem flóttamaður samkvæmt 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sbr. 18. gr. reglugerðar nr. 463/1999 um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá þar sem hann hafi dvalarleyfi af mannúðarástæðum sem veiti ekki undanþágu frá búsetuskilyrði varðandi örorkulífeyri.

Kærandi hafi sótt um endurhæfingarlífeyri með læknisvottorði og endurhæfingaráætlun C, dags. 8. ágúst 2024. Í endurhæfingaráætluninni komi fram að kærandi eigi að sinna daglegri útiveru með eiginkonu, hann fái heimahjúkrun vikulega og að hann muni vera í eftirliti hjá lækninum á tveggja til þriggja mánaða fresti.

Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. september 2024, hafi umsókn kæranda verið synjað.

Rökstuðningi Tryggingastofnunar fyrir synjun á umsókn kæranda sé mótmælt og á því byggt að umsóknin uppfylli skilyrði endurhæfingarlífeyris. Að mati kæranda sé rökstuðningur stofnunarinnar óskýr, skilja megi hann sem svo að stofnunin telji kæranda óvinnufæran og því sé ekki hægt að uppfylla skilyrði um endurhæfingu með starfshæfni að markmiði.

Kærandi hafi verið utan vinnumarkaðar frá því að hann hafi lamast. Endurhæfing sú sem læknir hans hafi lagt til feli í sér æskilegt fyrsta skref í tilraun til endurkomu á vinnumarkaðinn eftir svo langan tíma. Að synja kæranda um tækifæri til að reyna að auka starfshæfni sína sé að mati kæranda í andstöðu við jafnræðisreglur og bann við mismunun. Einnig sé bent á að lög um almannatryggingar og lög um félagslega aðstoð geri ráð fyrir því að fólk sem hafi skerta starfsgetu geti verið á vinnumarkaði. T.a.m. sé einstaklingum með hæsta hlutfall örorku tryggð frítekjumörk og eins og stjórnvöldum sé kunnugt um fari nokkur fjöldi slíkra einstaklinga á vinnumarkað. Enn fremur megi meðal annars benda á að með nýsamþykktum lögum um breytingar á örorkulífeyriskerfinu sem muni taka gildi 1. september 2025 geri stjórnvöld ráð fyrir stóraukinni þátttöku fatlaðs fólks á atvinnumarkaði. Að mati kæranda fari það gegn slíkum áformum að synja fötluðu fólki um tækifæri til endurhæfingar og í því skyni að reyna endurkomu á atvinnumarkað. Vísað sé til 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 7. gr. laga nr. 85/2018 um jafna meðferð utan vinnumarkaðar og 5. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hafi Tryggingastofnun talið annars konar endurhæfingu en þá sem læknir kæranda hafi gert áætlun um til þess fallna að hafa starfshæfni að markmiði hafi stofnuninni borið að leiðbeina kæranda um það, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Eins og lýst hafi verið hér að framan hafi Tryggingastofnun synjað kæranda um örorkulífeyri og endurhæfingarlífeyri. Óumdeilt sé að kærandi sé mikið fatlaður og gera megi ráð fyrir því að hann myndi uppfylla skilyrði örorkulífeyris ef ekki væri fyrir skilyrði um þriggja ára búsetu hér á landi samkvæmt a- lið 1. mgr. 24. gr. laga um almannatryggingar. Með því að synja kæranda einnig um endurhæfingarlífeyri sé kæranda gert nær ómögulegt að afla sér framfærslu fyrstu þrjú árin hér á landi. Það sé í andstöðu við 76. gr. stjórnarskrárinnar sem kveði á um að öllum sem þess þurfa, skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Ákvæðið hafi verið skýrt með þeim hætti að skylt sé að tryggja að lögum rétt sérhvers einstaklings til að minnsta kosti einhverrar lágmarksframfærslu. Kærandi telji ljóst að þar sem honum hafi verið synjað um örorkulífeyri og endurhæfingarlífeyri sé áskilnaði 76. gr. stjórnarskrárinnar um lágmarksframfærslu ekki fullnægt. Til að umsækjanda verði tryggð slík lágmarksframfærsla sé þess krafist að umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri verði samþykkt.

Áskilinn sé réttur til að koma að frekari athugasemdum og gögnum síðar gerist þess þörf.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að í kæru sé þess krafist að ákvörðun stofnunarinnar, dags. 11. september 2024, um að synja umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri verði felld úr gildi og að umsókn kæranda, dags. 8. ágúst 2024, verði samþykkt.

Umsókn um greiðslur endurhæfingarlífeyris hafi verið synjað á þeim grundvelli að endurhæfing kæranda hafi ekki verið talin uppfylla skilyrði er komi fram í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Jafnframt hafi verið tilgreint í fyrrnefndu bréfi stofnunarinnar að óvinnufærni ein og sér veiti ekki rétt til greiðslna endurhæfingalífeyris.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 1. mgr. 24. gr. og 1. mgr. 25. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, þeim sem metnir séu til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laganna.

Rétt til örorkulífeyris öðlist þeir sem metnir séu til að minnsta kosti 75% örorku, sbr. 25. gr., séu 18 ára eða eldri en hafi ekki náð ellilífeyrisaldri eins og hann sé ákveðinn samkvæmt 1. mgr. 16. gr., og séu tryggðir hér á landi, sbr. I. kafla. Umsækjendur um örorkulífeyri skuli enn fremur uppfylla að minnsta kosti eitt eftirfarandi skilyrða:

„a. hafa verið tryggðir hér á landi samfellt a.m.k. þrjú síðustu árin áður en örorka þeirra var metin a.m.k. 75%,

b. hafa verið tryggðir hér á landi við 18 ára aldur og metnir til a.m.k. 75% örorku frá 18 ára aldri,

c. hafa verið tryggðir hér á landi í samfellt síðustu tólf mánuði áður en örorka þeirra var metin a.m.k. 75% og áður annaðhvort verið tryggðir hér á landi í a.m.k. 20 ár eftir 16 ára aldur eða að lágmarki fimm ár eftir 16 ára aldur enda hafi þá búseta erlendis eftir 16 ára aldur ekki staðið lengur en í fimm ár.“

Heimilt sé þó að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar, 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. fyrrnefndrar greinar segi að heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18 til 67 ára verði til frambúðar eftir slys eða sjúkdóma. Greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð um allt að 24 mánuði, enda sé starfsendurhæfing með það að markmiði að auka atvinnuþátttöku enn talin raunhæf að mati framkvæmdaraðila, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð.

Tryggingastofnun hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt, til dæmis að lögð sé fram endurhæfingaráætlun, lagðir fram endurhæfingarþættir og að umsækjandi taki þátt í endurhæfingunni með fullnægjandi hætti. Í fyrrnefndri 7. gr. sé skýrt að skilyrði greiðslna sé endurhæfing með starfshæfni að markmiði, enda ekki álitið að sjúkdómsmeðferð eða óvinufærni sem slík veiti rétt til greiðslu endurhæfingarlífeyris. Um nánari skilyrði og framkvæmd endurhæfingarlífeyris sé fjallað um í reglugerð nr. 661/2020 um framkvæmd endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Í 4. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um upphaf, tímalengd og skilyrði greiðslna og í 5. gr. um sjálfa endurhæfingaráætlunina. Tiltekið sé í 6. gr. reglugerðarinnar hverjir geti verið umsjónaraðilar endurhæfingaráætlunar.

Kæranda hafi verið veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða í samræmi við 1. mgr. 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Kærandi sé með tímabundið mannúðarleyfi og dvalarleyfið sé merkt með ML-1-100. Fyrsta dvalarleyfi kæranda hafi verið með gildistíma til 13. apríl 2023 sem hafi verið framlengt til 12. apríl 2025. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá hafi kærandi komið til landsins […] og þjóðerni hans sé skráð D. Kærandi hafi þar af leiðandi ekki verið með lögheimili á Íslandi í þrjú ár. Kærandi uppfylli því ekki búsetuskilyrði sem komi fram í lögum um almannatryggingar.

Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri með umsókn, dags. 22. desember 2023. Samkvæmt læknisvottorði, dags. 4. ágúst 2022, hafi kærandi orðið fyrir [áras] í E árið X og hafi lamast fyrir neðan mitti í kjölfarið. Kærandi sé í hjólastól með ágætt setjafnvægi. Kærandi þjáist jafnframt af sykursýki. Kærandi hafi einnig greinst með hægðatregðu og þurfi nota klyx/toilax til að hafa hægðir. Í læknisvottorði segi að kærandi hafi farið í endurhæfingu á dagdeild á F frá 27. janúar 2023 til 3. mars 2023 og aftur frá 21. mars 2023 til 25. maí 2023.

Með ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 10. janúar 2024, hafi umsókn kæranda um örorkulífeyri verið synjað á þeim grundvelli að hann hafi ekki uppfyllt skilyrði um undanþágu frá búsetuskilyrðum varðandi örorkulífeyri. Kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði um að hafa búið hér á landi í að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn hafi verið lögð fram og hafði kærandi ekki sótt um alþjóðlega vernd sem flóttamaður samkvæmt 37 gr. laga um útlendinga, sbr. 18. gr. reglugerðar nr. 463/1999 um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá. Kærandi hafi kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála 16. janúar 2024. Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi staðfest ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri í máli nr. 28/2024, dags. 10. apríl 2024.

Kærandi hafi sótt um endurhæfingarlífeyri og hafi skilað inn læknisvottorði vegna umsóknar um endurhæfingalífeyri, dags. 8. ágúst 2024. Tryggingastofnun hafi synjað umsókn kæranda um endurhæfingalífeyri með bréfi, dags. 11. september 2024, þar sem endurhæfing hafi meðal annars ekki hafa uppfyllt skilyrði er komi fram í 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Í þessu tiltekna máli hafi kærandi kært þá ákvörðun, þ.e. synjun um greiðslu endurhæfingarlífeyris.

Eins og komið hafi fram hafi kærandi sótt um endurhæfingalífeyri með læknisvottorði og endurhæfingaráætlun, dags. 8. ágúst 2024. Í endurhæfingaráætlun komi fram að kærandi eigi að sinna daglegri útiveru með eiginkonu, hann fái heimahjúkrun vikulega og sé í eftirliti hjá læknum á tveggja til þriggja mánaða fresti.

Tryggingastofnun hafi synjað umsókn kæranda um endurhæfingalífeyri með bréfi, dags. 11. september 2024. Í bréfinu komi meðal annars fram:

„Við skoðun máls þykja ekki rök fyrir að meta endurhæfingartímabil þar sem sú endurhæfing sem lögð er fram í fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun telst ekki uppfylla skilyrði 7. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð þar sem segir að umsækjandi skuli taka þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði. Óljóst þykir hvernig endurhæfingin komi til með að stuðla að endurkomu á vinnumarkað.“

Óskað hafi verið eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun Tryggingstofnunar. Rökstuðningur hafi verið sendur til kæranda með bréfi, dags. 26. september 2024, en þar komi meðal annars fram:

„Umsókn um greiðslur endurhæfingarlífeyris var synjað dags. 11.09.2024 þar sem ekki þóttu rök fyrir að meta endurhæfingartímabil þar sem sú endurhæfing sem lögð er fram í fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun telst ekki uppfylla skilyrði 7. gr. laga nr. 99/2007, umfélagslega aðstoð. Þar segir að umsækjandi skuli taka þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði. Óljóst þykir hvernig endurhæfingin komi til með að stuðla að endurkomu á vinnumarkað.

Endurhæfingarlífeyrir tekur mið af því tímabili sem viðkomandi tekur þátt í skipulagðri starfsendurhæfingu þar sem tekið er á þeim heilsufarsvanda sem veldur óvinnufærni með áherslu á endurkomu á vinnumarkað. Óvinnufærni ein og sér veitir ekki rétt til greiðslna endurhæfingarlífeyris.

Það er mat Tryggingastofnunar að sú endurhæfing sem lagt var upp með komi ekki til með að auka frekar starfshæfni umsækjanda og sé því ekki nægileg til að veita rétt til greiðslna endurhæfingarlífeyris. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er ekki metið sem svo að endurhæfingin hafi starfshæfni að markmiði og uppfyllir því ekki skilyrði 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Umsókn var því synjað.“

Líkt og fram hafi komið hafi Tryggingastofnun eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt, til dæmis að lögð sé fram endurhæfingaráætlun, lagðir fram endurhæfingarþættir og að umsækjandi taki þátt í endurhæfingunni með fullnægjandi hætti. Í 7. gr. laga um félagslega aðstoð sé skýrt að skilyrði greiðslna að endurhæfing sé með starfshæfni að markmiði, enda ekki álitið að sjúkdómsmeðferð eða óvinufærni sem slík veiti rétt til greiðslu endurhæfingarlífeyris. Umsókn um greiðslur endurhæfingarlífeyris hafi verið synjað þar sem endurhæfing kæranda hafi ekki verið talinn uppfylla skilyrði 7. gr. laga  um félagslega aðstoð. Óvinnufærni ein og sér veiti ekki rétt til greiðslna endurhæfingalífeyris.

Í ljósi framangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðsla á umsókn kæranda, þ.e. að synja umsókn kæranda um endurhæfingu, sé rétt, miðað við fyrirliggjandi gögn. Sú niðurstaða sé byggð á faglegum sjónarmiðum sem og gildandi lögum og reglum. Tryggingastofnun fari því fram á staðfestingu ákvörðunar sinnar frá 11. september 2024 um að synja kæranda um endurhæfingarlífeyri.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort kærandi uppfylli skilyrði fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi hafi átt lögheimili hér á landi samfellt 12 síðustu mánuði og taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“

Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar segir um endurhæfingaráætlun:

„Endurhæfingaráætlun skal ávallt taka mið af heilsufarsvanda umsækjanda með það að markmiði að aðstoða umsækjanda við að leita lausna við þeirri færniskerðingu eða heilsubresti sem veldur skertri starfshæfni hans. Leitast skal við að endurhæfingaráætlun byggi á heildstæðri nálgun með það að markmiði að bæta heilsu og auka starfsorku og starfshæfni. Tryggingastofnun metur heild­stætt í hverju tilviki hvort endurhæfingaráætlun teljist fullnægjandi til að skilyrði fyrir greiðslum séu upp­fyllt.“

Heimild til greiðslu endurhæfingarlífeyris er samkvæmt framangreindu bundin ákveðnum skilyrðum. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort þau skilyrði séu uppfyllt.

Meðal gagna málsins er læknisvottorð C, dags. 8. ágúst 2024, þar sem fram koma eftirfarandi sjúkdómsgreiningar:

„Sykursýki, tegund 2 án fylgikvilla

Sequelae of injury of spinal cord

Hypercholesterolemia

Prostatocystitis

Spastic paraplegia

Neuromuscular dysfunction of bladder, unspecified

Hægðatregða

Hyperlipidaemia, unspecified

Acute stress reaction“

Um sjúkrasögu segir:

„X ára gamall maður upprunalega frá D sem er nú komin með tímabundið dvalarleyfi á íslandi. Lendir í [árás] í D […] og lamast fyrir neðan mitti hefur verið í hjólastól síðan. Er með suprapubiskann þvaglegg og hefur verið að fá tíðar sýkingar og verið í eftirliti hjá þvagfæraskurðlæknum á LSH. Hægðatregða og þarf að nota klyx/toilax til að hafa hægðir, þarf aðstoð við hægðalosun. Er í sj. þjálfun, hafði aldrei farið í gegnum endurhæfingu eftir að lamaðist. Fór í endurhæfingu á dagdeild F 27.01.2023 - 03.03.2023 og aftur 21.03.2023 - 25.05.2023. Sj. er einning greindur með sykursýki og hækkað kolesterol en komin á meðferð vegna þess. Hefur gengið erfitt að meðhöndla sykursýki þar sem lyf hafa ekki verið fáanlegt og sj. hefur átt erfitt með greiðslur fyrir lyfjum. Fékk abcess á hæ. rasskinn í vor var inniliggjandi á LSH í kjöfarið í abx sýklayfjagjföum. Hefur verið í eftirliti og sáraskiptum í kjölfarið. Hann hefur fengið slíkt áður 2017 og var þá með abscess á sama stað og þurfi kírúgískt inngrip ásamt mánaða meðferð á spítala í D.Heur verið sótt um örorku en fékk höfnun þar sem ekki búin að vera með dvalarleyfi í 3 ár. 3 ár í apríl 2025.“

Í tillögu að meðferð sem er áætlað að standi yfir í 60 mánuði segir:

„Daglegir göngutúrar með eiginkonu. - Fær heimahjúrkun 1x í viku. - Eftirlit hjá u-r á 2-3 mán fresti.“

Í læknisvottorði C, dags. 8. ágúst 2024, er greint frá eftirfarandi endurhæfingaráætlun:

„ENDURHÆFINGARÁÆTLUN

Sjá læknisvottorð fyrir frekari upplýsingar.

-Daglegir göngutúrar með eiginkonu

-Fær heimahjúkrun 1x í viku.

-Eftirlit hjá u-r á 2-3 mán fresti.“

Ágreiningur málsins lýtur að því hvort skilyrði greiðslna endurhæfingarlífeyris séu uppfyllt í tilviki kæranda. Í kærðri ákvörðun Tryggingastofnunar segir að ekki hafi þótt rök fyrir að meta endurhæfingartímabil þar sem að sú endurhæfing sem lögð hafi verið fram teldist ekki uppfylla skilyrði 7. gr. laga um félagslega aðstoð þar sem segi að umsækjandi skuli taka þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði og að óljóst sé hvernig endurhæfingin komi til með að stuðla að endurkomu á vinnumarkað.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, telur að kærandi glími við líkamlega og andlega færniskerðingu sem orsaki skerta vinnugetu. Samkvæmt endurhæfingaráætlun C læknis felst endurhæfing kæranda í daglegum göngutúrum með eiginkonu, heimahjúkrun einu sinni í viku og eftirliti hjá lækni á tveggja til þriggja mánaða fresti. Það er mat úrskurðarnefndar að endurhæfing kæranda sé hvorki nægjanlega umfangsmikil né markviss þannig að fullnægjandi verði talið að því leyti að verið sé að vinna með starfshæfni að markmiði og endurkomu á vinnumarkað eins og 7. gr. laga um félagslega aðstoð gerir kröfur um, sbr. einnig 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 661/2020. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að skilyrði fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð séu ekki uppfyllt.

Kærandi byggir á því að Tryggingastofnun hafi ekki við ákvarðanatöku í málinu litið til 65. og 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 7. gr. laga nr. 85/2018 um jafna meðferð utan vinnumarkaðar og 5. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Í 65. gr. stjórnarskárinnar segir að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþátta, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Þá segir í 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar að öllum sem þess þurfa skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Úrskurðarnefndin telur að framangreind ákvæði stjórnarskrárinnar, auk alþjóðasamninga, komi ekki í veg fyrir að löggjafanum sé heimilt að setja ákvæði í lög eða reglugerð þar sem kveðið sé á um ákveðið fyrirkomulag til þess að meta rétt einstaklinga til endurhæfingarlífeyris. Af 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð og 5. gr. reglugerðar nr. 661/2020 má ráða að Tryggingastofnun beri að leggja mat á hvort endurhæfingaráætlun teljist fullnægjandi til að skilyrði fyrir greiðslum endurhæfingarlífeyris séu upp­fyllt. Úrskurðarnefndin telur að ekkert bendi til annars en að mat á endurhæfingaráætlun hafi farið fram á jafnræðisgrundvelli, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar og að teknu tilliti til 76. gr. stjórnarskrárinnar og þess alþjóðasamnings sem vísað er til. Að öllu framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu endurhæfingarlífeyris staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um endurhæfingarlífeyri, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta