Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Nr. 221/2009

 

 

 

 

 

Föstudaginn 6. nóvember 2009

 

 

221/2009

 

A

 

gegn

 

Tryggingastofnun ríkisins

 

 

Ú r s k u r ð u r

 

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

 

Úrskurðarnefnd almannatrygginga barst þann 19. júní 2009, kæra A, er varðar hlutfall örorkulífeyrisgreiðslna Tryggingastofnunar ríkisins honum til handa.

 

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi, sem búið hefur á Íslandi frá x, sótti með umsókn, dags. 11. mars 2004, um örorkulífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnunar ríkisins.  Umsókn hans var samþykkt og hefur kærandi fengið greiddan örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá 1. október 2003 að telja.  Vegna búsetu kæranda erlendis var honum upphaflega greidd 98% lífeyrisgreiðslna, en í greiðsluáætlun 2009, dags. 19. maí 2009, var greiðsluhlutfallið lækkað í 20,37%.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir:

 

„ Hér með legg ég fram kærubréf vegna greyðslu úrskurðar Tryggingarstofnunar gagnvart mér. Samkvæmt mati triggingalæknis upfyllir ég læknisfræðileg skilyrði fyrir áframhaldandi greiðslum. Matið gildir frá 01.05.2009 til 30.04.2014. Mánaðargreyðsla vegna mats er u.þ.b. 110.000 á mánuði, En vegna endurreikningar frá 1.Maí s.l. fékk ég 26.000 til mánðarlegra útborgun. Ég hef verið búsettur á Íslandi 28.mars 2001 til dagsins í dag. Búsetu vottorð munu fylgja þessu kærubréfi. Í minni vörn hef ég rétt til að kæra þessa ákvörðun vegna þess að ég get engan vegið lifað á 26.000 á mánuði og ber líka ábyrgð á dóttur minni sem er líka hér á Íslandi.“

 

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi, dags. 7. ágúst 2009, eftir greinargerð Tryggingastofnunar.  Barst nefndinni greinargerð, dags. 21. ágúst 2009, þar sem segir:

 

1. Kæruefnið

 

Þann 7. ágúst 2009 barst Tryggingastofnun kæra, dags. 19. júní 2009, vegna örokumats Tryggingastofnunar ríkisins.

 

2. Málavextir

 

Þann 11. mars 2004 sótti kærandi um örorkubætur hjá Tryggingastofnun. Kærandi fékk tímabundið mat sem gilti frá 1. október 2003 til 30. apríl 2004. Síðan þá hefur kærandi farið tvisvar sinnum í endurmat. Síðasta matið var framkvæmt 27. apríl s.l. og gildir það til 30. apríl árið 2014.

 

Við vinnslu endurmatsins kom í ljós að í fyrra mati hafði búsetuhlutfall kæranda ekki verið rétt skráð og var það leiðrétt að þessu sinni.

 

3. Réttarheimildir

 

Um greiðslu örorkulífeyris í fjallað í 18. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007. Í 4. mgr. þeirrar greinar er kveðið á um hver fullur örorkulífeyrir er og að um útreikning á hlutfalli búsetu á Íslandi fari eftir 1. mgr. 17. gr. sömu laga, en það ákvæði fjallar um ellilífeyri.

 

Í 1. mgr. 17. gr. almannatryggingalaga kemur skýrt fram að til að um fullan lífeyri sé að ræða þarf viðkomandi að hafa verið búsettur hér á landi í a.m.k. 40. almanaks ár á aldrinum 16 - 67 ára. Sé um skemmri tíma að ræða þá skal greiða lífeyrinn í hlutfalli við búsetutímann.

 

4. Samantekt og niðurstaða.

 

Kærandi er fæddur þann x og verður því sextán ára þann x. Kærandi ávinnur sér því lífeyrisréttindi frá sextán ára aldri og þangað til hann var metinn með örorku þann 1. október 2003. Frá x til x var kærandi búsettur í útlöndum. Þann x flytur kærandi til Íslands og hefur verið búsettur hér á landi til dagsins í dag.

 

Fram til 1. maí 2009 var greiddur 98% lífeyrir þar sem útreikningur búsetuhlutfalls fór fram þannig að reiknað var með þeim tíma sem kærandi hafði verið búsettur á Íslandi frá 16 ára aldri og fram að upphafi örorkumats og bætt við tímanum fram að 67 ára aldri.

 

Réttur til lífeyris er áunninn með búsetu í viðkomandi landi og við útreikning á lífeyrisgreiðslum er tekið mið af lengd búsetu umsækjandi í landinu. Eftir að farið hafði verið yfir ákvæði 18. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 (áður 12. gr. l. nr. 117/1993 og þar áður 12. gr. l. nr. 67/1971) um búsetuskerðingu örorkulífeyris hafði verið komst að þeirri niðurstöðu að ákvæði 4. mgr. 18. gr. þar sem kveðið er á um að örorkulífeyrir greiðist eftir sömu reglum og ellilífeyrir og að við ákvörðun búsetutíma, sbr. 1. mgr. 17. gr. skuli reikna með tímann fram til 67 ára aldurs, hafi verið rangtúlkað með því að við útreikning búsetutíma reiknaðist tíminn frá upphafi örorkumats fram að 67 ára aldri að fullu sem búsetutími hér á landi. Með réttu ætti eins og tilvísunin í 1. mgr. 17. gr. ber með sér að reikna búsetutímann í sama hlutfalli og búsetutímann frá 16 ára aldri fram að upphafi örorkumats á sama hátt og búsetutíminn frá 16 til 67 ára aldurs er reiknaður þegar um er að ræða ellilífeyri.

 

Frá 1. maí 2009 hefur búsetuútreikningur þannig farið fram á þann hátt að reiknaður er út búsetutími á Íslandi frá 16 ára aldri til upphafs örorkumats, reiknað út hve stórt hlutfall af tímanum búseta á Íslandi er og þeim hluta af tímanum sem eftir er frá upphafi örorkumats til 67 ára aldurs bætt við. Nánari skýringar á þessu má sjá á meðfylgjandi skjali.

 

Með vísun til ofanritaðs telur Tryggingastofnun sér ekki heimilt að breyta fyrri ákvörðun sinni og er hún staðfest.“

 

Þann 17. september 2009 barst úrskurðarnefndinni viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar, dags. 15. september 2009, þar sem fram kemur að við yfirferð yfir mál kæranda hafi komið í ljós að skekkja hafi verið gerð í útreikningum Tryggingastofnunar á búsetuhlutfalli kæranda.  Skekkjan hafi verið leiðrétt og við það hafi búsetuhlutfall kæranda hækkað úr 20,37% í 22,34%.  Fylgdi með afrit af bréfi, dags. 26. ágúst 2009, er varðar þessa leiðréttingu.

 

Greinargerð og viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar voru sendar kæranda til kynningar með bréfi, dags. 1. og 21. september 2009 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum.  Slíkt hefur ekki borist.

 

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

 

Mál þetta varðar breytingu Tryggingastofnunar á hlutfalli skerðingar lífeyrisgreiðslna til kæranda vegna búsetu hans erlendis.

 

Í kæru gerir kærandi grein fyrir að mánaðarlegar lífeyrisgreiðslur Tryggingastofnunar til hans hafi í maí 2009 lækkað úr u.þ.b. 110.000 kr. í 26. 000 kr.  Þá tekur kærandi fram að hann geti engan veginn lifað á 26.000 kr. á mánuði.

 

Í greinargerð Tryggingastofnunar segir  að fram til 1. maí 2009 hafi kæranda verið greiddur 98% lífeyrir þar sem útreikningur búsetuhlutfalls hafi farið þannig fram að reiknað hafi verið með þeim tíma sem kærandi hefði verið búsettur á Íslandi frá 16 ára aldri og fram að upphafi örorkumats og tímanum fram að 67 aldri bætt við.  Síðan segir að réttur til lífeyris sé áunninn með búsetu í viðkomandi landi og að við útreikning á lífeyrisgreiðslum sé tekið mið að lengd búsetu umsækjanda í landinu.  Farið hafi verið yfir ákvæði 18. gr. almannatryggingalaga og komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði 4. mgr. 18. gr. hafi verið rangtúlkað með því að við útreikning búsetutíma hafi reiknast tíminn frá upphafi örorkumats fram að 67 ára aldri að fullu sem búsetutími hér á landi.  Með réttu eigi að reikna búsetutímann í sama hlutfalli og búsetutímann frá 16 ára aldri fram að upphafi örorkumats á sama hátt og búsetutíminn frá 16 til 67 ára aldurs sé reiknaður þegar um sé að ræða ellilífeyri.  Þá segir að frá 1. maí 2009 hafi búsetuútreikningur farið fram á þann hátt að reiknaður sé út búsetutími á Íslandi frá 16 ára aldri til upphafs örorkumats, reiknað út hve stórt hlutfall af tímanum búseta á Íslandi sé og þeim hluta af tímanum sem eftir sé frá upphafi örorkumats til 67 ára aldurs bætt við.

 

Ákvæði um örorkulífeyri er í 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007.  Þar segir í 1. mgr.:

 

„ Rétt til örorkulífeyris eiga þeir sem hafa verið búsettir á Íslandi, sbr. II. kafla, eru á aldrinum 16 til 67 ára og:

a.   hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir tóku hér búsetu,

b.   eru metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.“

 

Í 4. mgr. 18. gr. almannatryggingalaga segir síðan:

 

„ Fullur örorkulífeyrir skal vera [351.528] kr. á ári og greiðist hann eftir sömu reglum og ellilífeyrir, sbr. þó 5. mgr. Við ákvörðun búsetutíma, sbr. 1. mgr. 17. gr., skal reikna með tímann fram til 67 ára aldurs umsækjanda.“

 

Í 1. mgr. 17. gr. almannatryggingalaga, sem vísað er til í 4. mgr. 18. gr. laganna, segir:

 

„ Rétt til ellilífeyris eiga þeir sem eru 67 ára eða eldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Fullur ellilífeyrir skal vera [351.528] kr. á ári og greiðist þeim einstaklingum sem hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs, sbr. þó 2. mgr. Sé um skemmri tíma að ræða greiðist ellilífeyrir í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri beggja hjóna, sem bæði fá lífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.“

 

Fram til 1. maí 2009 var útreikningi og greiðslu lífeyris til kæranda þannig háttað, að greiddur var 98% lífeyrir. Útreikningur búsetuhlutfalls fór fram þannig að reiknað var með þeim tíma sem kærandi hafði verið búsettur á Íslandi frá 16 ára aldri og fram að upphafi örorkumats og tímanum fram að 67 ára aldri bætt við að fullu. Af hálfu Tryggingastofnunar er því nú haldið fram að með réttu eigi að reikna búsetutímann frá örorkumati fram að 67 ára aldri í sama hlutfalli og búsetutímann frá 16 ára aldri fram að upphafi örorkumats.

 

Breytt réttarframkvæmd og lögskýring  af hálfu Tryggingastofnunar fær að mati úrskurðarnefndar almannatrygginga ekki beina stoð í orðalagi 18. gr. almannatryggingalaga.  Hefur stofnunin um langt árabil túlkað ákvæðið með þeim hætti að við útreikning búsetutíma skuli reikna tímann frá upphafi örorkumats fram að 67 ára aldri að fullu sem búsetutíma hér á landi.  Engar lagabreytingar hafa átt sér stað sem kalla á hina nýju framkvæmd Tryggingastofnunar.

 

Sú breytta framkvæmd sem Tryggingastofnun hefur tekið upp er verulega íþyngjandi fyrir bótaþega og kolvarpar væntingum bótaþega um greiðslur.  Telur úrskurðarnefndin ekki málefnalegt án skýrra lagafyrirmæla að breyta með svo íþyngjandi hætti þeirri framkvæmd á greiðslu örorkuífeyris, sem ríkt hefur um langt árabil.

 

Með vísan til alls þess sem að framan er rekið er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að ákvörðunum Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. maí og 26. ágúst 2009 er varða búsetuhlutfall við útreikning á fjárhæð lífeyrisgreiðslna til handa kæranda skuli hnekkt.  Rétt þykir að vísa  málinu til Tryggingastofnunar að nýju til ákvörðunar á lífeyrisrétti kæranda.

 

 

 

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um skerðingu lífeyrisgreiðslna til A, á Íslandi eru felldar úr gildi og málinu vísað að nýju til Tryggingastofnunar ríkisins til fyllri meðferðar.

 

 

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta