Mál nr. 589/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 589/2024
Miðvikudaginn 22. janúar 2025
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.
Með rafrænni kæru, móttekinni 19. nóvember 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. nóvember 2024 um að stöðva greiðslu heimilisuppbótar afturvirkt frá 1. september 2024 og krefjast endurgreiðslu ofgreiddrar heimilisuppbótar.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi fékk greidda heimilisuppbót frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2024. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. nóvember 2024, var kærandi upplýst um að hún uppfyllti ekki skilyrði greiðslna heimilisuppbótar um að vera ein um heimilisrekstur þar sem hún hafi þann X. ágúst 2024 stofnað til hjúskapar samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá. Í bréfinu kom auk þess fram að heimilisuppbót yrði stöðvuð frá 1. september 2024 og hún krafin um 177.300 kr. ef engin gögn/andmæli bærust.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 19. nóvember 2024. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 27. nóvember 2024, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. desember 2024. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að samkvæmt lögum nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og reglugerð nr. 1200/2018 sé kærandi vissulega ekki einhleyp þar sem hún sé gift. Þrátt fyrir það sé enginn vafi að hún sé ein með heimili að B og eiginkona hennar með sitt heimili í C. Eiginkona kæranda eigi X börn sem búi hjá henni og kærandi eigi X börn sem séu búsett hjá föður sínum […]. Vegna aðstæðna sé ekki mögulegt fyrir þær að halda sameiginlegt heimili, börn maka kæranda séu í skóla í D og yngsta barna kæranda sé í skóla í E. Kærandi hafi engan fjárhagslegan ávinning af því að vera gift þar sem aðstæður hennar hafi ekkert breyst. Kærandi sjái um sig og sína og eiginkona hennar um sig og sína. Þetta kunni að vera skrítið en engu að síður sé staðan þessi. Það sé ekki útilokað að þær muni búa saman síðar þegar grisjast í barnaskaranum.
Í 7. gr. reglugerðar nr. 1200/2018 sé farið yfir hvað teljist fjárhagslegt hagræði en þá séu það einstaklingar með sama lögheimili og sem séu eldri en 18 ára, en heimilisuppbót sé ekki greitt til þeirra sem séu í eftirfarandi stöðu:
„1. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að hafa sameiginlega aðstöðu varðandi fæði eða húsnæði, t.d. sambýli á vegum félagasamtaka, ríkis og sveitarfélaga.
2. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af sambýli við aðra aðila um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.
3. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að leigja herbergi eða húsnæði með sameiginlegri eldunaraðstöðu með öðrum.“
Við skoðun málsins sjáist að þær hafi aldrei haldið heimili saman og muni ekki gera það í nánustu framtíð. Þess vegna geti niðurfelling heimilisuppbótar ekki átt við eingöngu vegna þess að þær hafi gengið í hjónaband. Bent sé á að þó svo að þær séu hjón þá fái kærandi sem dæmi ekki barnabætur með börnum eiginkonu hennar eins og væri ef þær myndu búa saman. Málið sé að það sé ekki ólöglegt að gifta sig þó svo maður haldi áfram sjálfstætt heimili. Fjöldinn allur af fólki geti staðfest aðstæður þeirra.
Farið sé fram á að málið verði endurskoðað með það í huga að Tryggingastofnun hafi ekki verið heimilt að stöðva heimilisuppbót til kæranda fyrir það eitt að hafa gift sig, enda myndi kærandi vilja finna fyrir þessu fjárhagslega hagræði sem stofnunin haldi fram að hún hafi í hjónabandinu.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar, dags. 6. nóvember 2024, um stöðvun heimilisuppbótar vegna breyttrar hjúskaparstöðu.
Samkvæmt 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem búi einn og sé einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.
Í 13. og 14. gr. laga um félagslega aðstoð komi fram að lög nr. 100/2007 um almannatryggingar gildi um framkvæmd laganna. Nánar sé fjallað um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri í reglugerð nr. 1200/2018.
Samkvæmt 1. mgr. 53. gr laga nr. 100/2007 um almannatryggingar beri Tryggingastofnun að sannreyna réttmæti bóta reglubundið. Í 2. mgr. komi fram að Tryggingastofnun hafi heimild til þess að endurskoða grundvöll bótaréttar hvenær sem er og samræma bætur þeim breytingum sem hafi orðið á aðstæðum greiðsluþega. Samkvæmt 3. mgr. hafi Tryggingastofnun heimild til þess að stöðva greiðslur komi í ljós að bótaréttur sé ekki fyrir hendi. Um ofgreiðslur og vangreiðslur fari samkvæmt 34. gr. laganna.
Málavextir séu þeir að með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 6. nóvember 2024, hafi kæranda verið tilkynnt um stöðvun heimilisuppbótar frá 1. september 2024 þar sem að samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá hafi kærandi gift sig X. ágúst 2024. Einnig hafi þess verið krafist að kærandi endurgreiddi Tryggingastofnun greiðslur heimilisuppbótar vegna tímabilsins 1. september 2024 til 30. nóvember 2024, að fjárhæð 177.300 kr. Sú ákvörðun hafi verið kærð.
Kærandi hafi fengið greidda heimilisuppbót annars vegar frá 1. mars 2017 til 1. ágúst 2018 og hins vegar frá 1. júní 2019 til 30. nóvember 2024, en greiðslur hafi verið stöðvaðar 6. nóvember 2024.
Kærandi telji sig eiga áframhaldandi rétt á heimilisuppbót á þeim grundvelli að hún haldi ein heimili, en eiginkona hennar hafi annað lögheimili og hafi hún greint frá því að fjárhagur þeirra sé aðskilinn.
Til þess að eiga rétt á heimilisuppbót þurfi öll skilyrði 8. gr. laga um félagslega aðstoð að vera uppfyllt, þ.e. að vera einhleypur lífeyrisþegi, búa einn og vera einn um heimilisrekstur án þessa að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Tryggingastofnun hafi stöðvað greiðslu heimilisuppbótar á þeirri forsendu að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 8. gr. laganna um að vera einhleyp. Samkvæmt þeirri skilgreiningu sem fram komi í Íslenskri nútímamálsorðabók, sem birt sé á netinu og unnin hjá orðfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, merki orðið einhleypur einstakling sem hvorki sé í sambúð né hjónabandi.
Af framangreindu sé ljóst að kærandi hafi gengið í hjúskap X. ágúst 2024 og því hafi hún ekki verið einhleyp þegar Tryggingastofnun hafi tekið kærða ákvörðun. Það sé því mat stofnunarinnar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 8. gr. laga um [félagslega aðstoð] um heimilisuppbót frá 1. september 2024. Á þeim grundvelli telji stofnunin að ákvörðun um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar hjá kæranda, sé rétt, miðað við fyrirliggjandi gögn.
Tryggingastofnun fari fram á staðfestingu kærðar ákvörðunar um stöðvun á greiðslu heimilisuppbótar frá 1. september 2024 vegna hjúskapar ásamt endurgreiðslu ofgreiddra bóta vegna tímabilsins 1. september 2024 til 30. nóvember 2024.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar og endurkrefja kæranda um ofgreiðslu heimilisuppbótar frá 1. september 2024.
Í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingu, segir að heimilt sé að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem búi einn og sé einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.
Til þess að eiga rétt á heimilisuppbót þurfa öll skilyrði ákvæðisins að vera uppfyllt. Í reglugerð nr. 1200/2018 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, með síðari breytingu, eru skilyrði ákvæðisins nánar útfærð.
Samkvæmt 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda lög nr. 100/2007 um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Þá segir í 2. málsl. 13. gr. laga um félagslega aðstoð að beita skuli IV. kafla A, V og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laganna.
Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laga um almannatryggingar, sem er í V. kafla laganna, er greiðsluþega skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Um eftirlit og viðurlög er fjallað í 53. gr. laganna sem er jafnframt í V. kafla laganna. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skal Tryggingastofnun reglubundið sannreyna réttmæti bóta, greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun um réttindi byggist á. Einnig segir í 2. mgr. 53. gr. að grundvöll bótaréttar megi endurskoða hvenær sem er og samræma betur þeim breytingum sem orðið hafi á aðstæðum greiðsluþega. Þá segir í 2. málsl. 3. mgr. ákvæðisins að um ofgreiðslur og vangreiðslur fari samkvæmt 34. gr. Ákvæði 1. mgr. 34. gr. laganna hljóðar svo:
„Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.“
Fyrir liggur að Tryggingastofnun ríkisins hefur greitt kæranda heimilisuppbót á árinu 2024. Samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá kvæntist kærandi X. ágúst 2024.
Eins og komið hefur fram þarf að uppfylla öll skilyrði 8. gr. laga um félagslega aðstoð til að eiga rétt á heimilisuppbót. Tryggingastofnun ríkisins stöðvaði greiðslu heimilisuppbótar á þeirri forsendu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 8. gr. laganna um að vera einhleyp. Samkvæmt gögnum málsins kvæntist kærandi X. ágúst 2024 og uppfyllti hún því ekki það skilyrði 8. gr. laga um félagslega aðstoð fyrir greiðslu heimilisuppbótar að vera einhleyp þegar ákvörðun Tryggingastofnunar var tekin 6. nóvember 2024. Átti kærandi því ekki rétt á greiðslu heimilisuppbótar og breytir engu þótt hún og eiginkona hennar búi ekki saman, en skv. 46. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 bera hjón sameiginlega ábyrgð á framfærslu fjölskyldunnar.
Í hinni kærðu ákvörðun er kveðið á um endurkröfu á ofgreiddri heimilisuppbót. Úrskurðarnefnd velferðarmála lítur til þess að í 1. mgr. 34. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um þá meginreglu að stofnunin skuli endurkrefja greiðsluþega um ofgreiddar bætur. Fyrir liggur að Tryggingastofnun greiddi kæranda heimilisuppbót sem hún átti ekki rétt á. Tryggingastofnun á því endurkröfurétt á hendur kæranda samkvæmt almennum reglum, sbr. þágildandi 1. mgr. 34. gr. laga um almannatryggingar, þar sem hún uppfyllti ekki skilyrði greiðslna á umdeildu tímabili.
Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. nóvember 2024, um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar til kæranda og endurkrefja hana um ofgreiddar bætur frá 1. september 2024, staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar til A, og endurkrefja um ofgreiddar bætur frá 1. september 2024, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir