Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 123/2024-Beiðni um endurupptöku

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Beiðni um endurupptöku máls nr. 123/2024

Miðvikudaginn 9. október 2024

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með beiðni, móttekinni 10. september 2023, óskaði A, eftir endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 10. júlí 2024, þar sem staðfest var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning á búsetuhlutfalli.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um ellilífeyri með rafrænni umsókn 7. ágúst 2023. Með bréfi, dags. 27. september 2023, samþykkti Tryggingastofnun greiðslur frá 1. september 2023. Í bréfinu kemur fram að réttur til bóta miðist við búsetu á Íslandi samkvæmt skráningu í Þjóðskrá og að búsetuhlutfall hans sé 40,41%.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 10. mars 2024. Að lokinni gagnaöflun úrskurðaði nefndin í málinu 10. júlí 2024. Með úrskurðinum staðfesti úrskurðarnefndin ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning á búsetuhlutfalli kæranda

II.  Sjónarmið kæranda

Í beiðni kæranda um endurupptöku segir að í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála hafi komið fram að frá því að kærandi hefði komið til Íslands 8. nóvember 2005 hafi hann unnið og borgað skatta en ekki verið búsettur á landinu. Á þeim tíma hafi kærandi fengið kennitölu frá Þjóðskrá með röngum fæðingardegi. Kærandi eigi afrit af skjali frá Íslandsbanka þar sem fram komi að heimilisfang kæranda sé B. Kærandi spyr hvernig geti staðið á því að banki opni bankareikning fyrir manneskju sem sé hvergi búsett. Kærandi hafi einnig opnað reikning í öðrum banka haustið 2005. Kærandi telji að skjalið frá Íslandsbanka sýni að hann hafi verið með opinberlega skráða búsetu á Íslandi síðan 2005. Kærandi óskar eftir endurskoðun á málinu sínu.

III.  Niðurstaða

Óskað er eftir endurupptöku á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 10. júlí 2024, þar sem staðfest var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning á búsetuhlutfalli kæranda. Ákvörðunin byggði á því að kærandi hefði verið með skráð lögheimili hér á landi frá 29. júní 2007 samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá. Þá benti úrskurðarnefndin kæranda á að ef hann liti svo á að hann hefði verið með lögheimili í reynd á Íslandi á árunum 2005 til 2007, þ.e. fasta búsetu í skilningi laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur, gæti hann lagt fram gögn því til stuðnings og óskað eftir endurskoðun hjá Tryggingastofnun.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul., eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 2. tölul.

Aðili máls getur einnig átt rétt á endurupptöku máls á grundvelli annarra ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar, til að mynda ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á röngu mati stjórnvalds.

Kærandi hefur lagt fram gagn um að hann hafi stofnað debetkortareikning í Íslandsbanka 23. desember 2005 og þar er tilgreint heimilisfang kæranda á Íslandi. Kærandi telur þetta sýna fram á að hann hafi verið með opinberlega skráða búsetu á Íslandi síðan 2005.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður ekki ráðið af gögnum málsins að niðurstaða nefndarinnar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik hafi breyst verulega frá uppkvaðningu úrskurðarins, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 37/1993. Þá verður ekki séð að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar. Gagnið sem kærandi lagði fram gefur ekki til kynna að niðurstaða úrskurðarnefndarinnar hafi byggst á röngum upplýsingum um málsatvik, enda sýnir stofnun bankareiknings á Íslandi, eða skráð heimilisfang á reikningaskrá Íslandsbanka, ekki fram á að kærandi teljist hafa haft lögheimili á landinu.

Með hliðsjón af framangreindu er beiðni kæranda um endurupptöku máls úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 123/2024 synjað.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Beiðni A, um endurupptöku máls nr. 123/2024 hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, er synjað.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta