Mál nr. 337/2015
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 337/2015
Miðvikudaginn 17. ágúst 2016
A
gegn
Sjúkratryggingum Íslands
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.
Með kæru, dags. 27. nóvember 2015, kærði B hrl., f.h. A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 11. nóvember 2015 um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem hann varð fyrir þann X.
Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 36. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi varð fyrir slysi við vinnu þann X. Slysið var tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands og bótaskylda samþykkt en með bréfi, dags. 11. nóvember 2015, tilkynnti stofnunin kæranda að varanleg slysaörorka hans hafi verið metin 8%.
Kæra barst úrskurðarnefnd almannatrygginga þann 27. nóvember 2015. Með bréfi, dags. 30. nóvember 2015, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 14. desember 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. desember 2015, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir kröfu um að úrskurðarnefnd almannatrygginga, nú úrskurðarnefnd velferðarmála, endurskoði mat á varanlegum afleiðingum slyssins þann X.
Í kæru er greint frá því að slys kæranda þann X hafi orðið með þeim hætti að hann hafi verið að vinna við [...] og hafi ætlað að losa [...] sem fest hafi í vélinni. Hann hafi við það fest hanskann sem vélin hafi gripið í og lent með vinstri hendi í vélinni.
Kærandi hafi verið fluttur á Sjúkrahúsið C þar sem hann hafi verið skoðaður. Við skoðun hafi komið í ljós að um áverka á litla fingri vinstri handar væri að ræða. Við skoðun hafi nöglin nánast verið farin og skurður lófamegin. Röntgenmynd hafi sýnt að hann hafi tekið framan af fjærkjúku en millikjúkuliðurinn verið heill. Við eftirlit hafi síðar komið fram vefjadrep og stytta hafi þurft fingurinn aftur þann X. Þá hafi verið gerð ný stytting/stúfhögg rétt handan við millikjúkuliðinn.
Í kjölfar slyssins hafi kærandi verið óvinnufær frá X til X. Hann hafi reynt að starfa aftur á sama stað og áður en ekki getað unnið sömu vinnu. Kærandi hafi ekki jafnað sig eftir áverkann og sé enn með verki í vinstri hendi sem versni í kulda og við allt álag. Kærandi sé með daglegan áreynsluverk og finni jafnframt fyrir þrýstingsverk í vinstri hendi. Höndin verði bláleit á handarjaðrinum og litlafingrinum. Höndin sé mjög aum viðkomu, þ.e.a.s. stúfurinn og honum finnist vera stirðleiki í baugfingrinum. Hann hlífi mjög litlafingri og baugfingri og noti aðallega hina þrjá fingurna þegar hann beiti vinstri hendi.
D læknir hafi skoðað kæranda og lagt mat á afleiðingar vegna slyssins í matsgerð dags. 22. desember 2014. Í matsgerðinni segi um mat á varanlegum afleiðingum slyssins:
„Í slysinu X fékk [kærandi]áverka á vinstri hendi. Hann er rétthentur. Um var að ræða áverka á vinstra litla fingri. Gera þurfti 2 aðgerðir á fingrinum og er stúfhögg um millikjúkuliðinn. Stúfur óvenju viðkvæmur. Væg skerðing á hreyfigetu í vinstri úlnlið. [Kærandi]var óvinnufær til X. Mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku tekur mið af miskatöflu Örorkunefndar, VII. kafla, A., d., 1. tl. missir á fjær- og miðkjúku litla fingurs 5% og VII. kafli, A., d., 4.tl. hreyfiskerðing í fingrum 2% og úlnliður VII. kafli, A., c., daglegur áreynsluverkur með vægri hreyfiskerðingu 5%. Samtals er því varanleg læknisfræðileg örorka metin 12%“
E læknir hafi skoðað kæranda að beiðni Sjúkratrygginga Íslands og lagt mat á afleiðingar slyssins í tillögu, dags. 22. október 2015. Í tillögunni segi hann um mat á varanlegum afleiðingum slyssins:
„Ég tel rétt að miða mat á afleiðingum slyssins við það að tapast hafi allur vinstri litlifingur því sá hluti sem eftir er nýtist ekki tjónþola neitt heldur er frekar til trafala vegna viðkvæmni. Ég tel afleiðingar þær sem um hefur verið fjallað og raktar hafa verið til umrædds slyss falla best að lið VII.A.d.1 í miskatöflunum og ennfremur er litið til þess sem segir um hreyfiskerðingu í lið VII.A.d.4 (tafla á bls. 12). Að öllu virtu tel ég varanlega læknisfræðilega örorku vegna afleiðinga slyssins X hæfilega metna 8% (átta af hundraði).“
Kærandi telji að í tillögu E séu varanlegar afleiðingar vegna slyssins vanmetnar. Hann telji að í tillögu hans sé ekki tekið mið af lið VII. A. c. í miskatöflum örorkunefndar, þ.e.a.s. daglegan áreynsluverk með vægri hreyfiskerðingu. Kærandi telji að matsgerð D sé vel ígrunduð og þar sé réttilega vísað til þess að jafna megi áverkanum til 12 stiga miska en ekki 8 stiga miska líkt og E hafi gert.
Að mati kæranda séu varanlegar afleiðingar vegna slyssins að minnsta kosti þær sem D hafi komist að í matsgerð, dags. 22. desember 2014.
III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands
Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands kemur fram að þann 29. nóvember 2013 hafi stofnuninni borist tilkynning um vinnuslys sem kærandi hafi orðið fyrir þann X. Að gagnaöflun lokinni tilkynntu Sjúkratryggingar Íslands með bréfi, dags. 20. janúar 2014, að um bótaskylt slys væri að ræða. Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 10. nóvember 2015, hafi varanleg læknisfræðileg örorka kæranda verið metin 8% vegna umrædds slyss. Sjúkratryggingar Íslands hafi sent kæranda bréf, dags. 11. nóvember 2015, þar sem honum hafi verið tilkynnt að ekki komi til greiðslu örorkubóta, sbr. 6. mgr. 34. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, þar sem segir að örorkubætur greiðist ekki ef örorka sé metin minni en 10%. Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands hafi verið kærð til úrskurðarnefndar almannatrygginga, nú úrskurðarnefndar velferðarmála, þar sem kærandi telji afleiðingar slyssins meiri og verri en fram komi í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands.
Slys kæranda þann X hafi orðið með þeim hætti að hann hafi misst framan af vinstri litlafingri í [...] í vinnuslysi. Síðar hafi komið drep í stúfendann þannig að framkvæma hafi þurft stúfhögg rétt framan við nærkjúkulið.
Í hinni kærðu ákvörðun hafi varanleg læknisfræðileg örorka kæranda verið metin 8%. Við ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands hafi verið byggt á örorkumatstillögu E bæklunar- og handaskurðlæknis, á grundvelli 34. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, dags. 22. október 2015. Hafi tillagan verið unnin á grundvelli fyrirliggjandi gagna auk viðtals og læknisskoðunar. Það sé mat Sjúkratrygginga Íslands að í tillögunni sé forsendum örorkumats rétt lýst og að rétt sé metið með vísan til miskatöflu örorkunefndar, liðar VII.A.d.1. með hliðsjón af lið VII.A.d.4. hvað varði hreyfiskerðingu. Sé tillagan því grundvöllur ákvörðunar Sjúkratrygginga Íslands og þess að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins sé rétt ákveðin 8%.
Kærð hafi verið niðurstaða Sjúkratrygginga Íslands um 8% varanlega læknisfræðilega örorku og vísað til örorkumats D, sérfræðings í bæklunarskurðlækningum, dags. 22. desember 2014, þar sem varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins sé metin 12% og hafi í kæru verið tekið fram að varanlegar afleiðingar slyssins séu að mati kæranda að minnsta kosti þær sem tilteknar séu í örorkumatiD.
Munurinn á örorkumatstillögu E og örorkumati D sé sá að E geti þess sérstaklega að í gögnum sé ekki lýst neinum öðrum áverkum en þeim er lúti að litlafingri vinstri handar og hreyfiskerðingu á baugfingri sömu handar, sérstaklega sé ekki lýst áverkum á hægri öxl eða hægri úlnlið og fyrst hafi verið minnst á einhver einkenni frá vinstri úlnlið ellefu mánuðum eftir slysið og öxlin þá einnig nefnd á nafn en ekki hafi verið fjallað frekar þá um einkenni eða lýst skoðun á þessum liðum. Verði þessi síðarnefndu einkenni því ekki rakin til slyssins. D meti hins vegar einkenni í úlnlið og öxl til afleiðinga af völdum slyssins til viðbótar við áverka á litlafingri og baugfingri vinstri handar.
Þar sem örorkumatstillaga E sé nýrri en hann hafi verið með örorkumatsgerð D til hliðsjónar og hoggið sérstaklega eftir því við skoðun á kæranda og fyrri gögnum hvort einkenni í úlnlið og öxl geti talist til sennilegra afleiðingar slyssins þann X, þá sé það afstaða Sjúkratrygginga Íslands að rétt sé að miða mat á afleiðingum slyssins við lýsingar á einkennum og niðurstöðu skoðunar sem komi fram í fyrirliggjandi tillögu E bæklunar- og handaskurðlæknis að varanlegri læknisfræðilegri örorku þannig að með vísan til liðar VII.A.d.1. í miskatöflum örorkunefndar og með hliðsjón af lið VII.A.d.4. hvað varði hreyfiskerðingu teljist rétt niðurstaða vera 8% varanleg læknisfræðileg örorka.
Að öllu virtu beri að staðfesta þá afstöðu Sjúkratrygginga Íslands sem gerð hafi verið grein fyrir hér að framan og staðfesta hina kærðu ákvörðun um 8% varanlega læknisfræðilega örorku.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ágreining um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem kærandi varð fyrir þann X. Sjúkratryggingar Íslands mátu varanlega slysaörorku kæranda 8%.
Í læknisvottorði F, dags. X, er tildrögum slyssins, meðferð og batahorfum lýst svo:
„Tók framan af litla fingri vi handar í [...]. Við skoðun nöglin farin nánast og skurður líka volart. Tekin er röntgenmynd sem sýnir að hann hefur tekið aðeins framan af distal phalanx en pipp liðurinn er heill.
[…]
X sl. (G): Það er gerð digital block með Lidocain 1% með Adrenalini. Sárið dorsalt á medial phalangs er saumað saman með einstaka 6/0 Ethilon. Síðan er sárið volart saumað saman. Fyrst er sárið snyrt og ólífvænlegir húðbitar teknir í burtu. Sett einstaka 5/0 Vicryl í sinaslíðrið og er það saumað yfir skaðaða flexor sinina. Því næst er húðin saumuð saman með einstaka 5/0 Ethilon. Notuð er goose-töng og klipinn distal parturinn af phalangs sem stendur út í gegnum sárið. Þegar búið er að snyrta það hæfilega mikið til er hægt að setja hold yfir beinið. Þá er reynt að loka þessu sári af bestu getu með einstaka 5/0 Ethilon saumum. Síðan settar umbúðir.
Fyrir aðgerð fékk sjúklingur sýklalyf. Fær recept t. Staklox 500 mg x4 og einnig Parkodin forte við verkjum.
X sl. (H): Við skoðun er búið að amputera um miðjan hluta phalanx medius, stúfur er bólginn, sár eru gróin. Hann er viðkvæmur, bæði fyrir snertingu og kulda. Bíðum átekta. Hann er alveg óvinnufær eins og staðan er í dag. Reikna með honum í skoðun og eftirlit í X. Það er svolítið spenntur stúfurinn.“
Í áverkavottorði F, sem gert var að beiðni J, dags. X, segir meðal annars svo:
„A leitaði til okkar X til J. Þar kom fram að hann ynni í K. Hann hefði tekið framan af litla fingri vinstri handar í [...]. Við skoðun sé nöglin farin nánast og skurður volart. Tekin sé röntgenmynd sem sýnir að hann hafið tekið aðeins framan af distal phalanx en pipp liðurinn sé heill. G ætli að gera að þessu í framhaldinu. Sjúklingur hafi fengið Ekvacillin 2 gr í æð pre op. G segir í lýsingu sinni að hann hafi séð flexor sinina sem sé búin að skaðast lítillega en að langmestu leyti heil. Ekki sé sjáanlegur skaði á taugum eða æðum. Einnig sé skaði á distal phalangs þannig að distal hluti beinsins sé farinn af þannig að það sé sár ca. 5mm frá naglbeði. Hann setur upp að settar hafi verið meiriháttar sáraumbúðir á húð á efri útlim. Í nótu G frá X kemur fram að slasaði hafði komið í umbúðarskipti og hafi sárið litið viðunandi út. Lítilsháttar roði sé í fingrinum en engin sýkingarmerki önnur. Hafi verið settur á Staklox meðferð eftir traumað. Í dag líti þetta ágætlega út teknir séu saumar og hann fái nýjar umbúðir og eigi að skipta um þær eftir 2 daga. 28. október var síðan tekin ný mynd hjá G. Þar var óbreytt ástand samanborið við undangengna rannsókn. Þannis sé status eftir amputation á distala litla fingri þar sem hluta af fjærkjúkunni hafi farið með. Engin breyting hafi orðið á þessu. G segir í nótu sinni að slasaði upplifi verki í fingrinum. Hann geti ekkert hreyft en hafi getað það áður. Roði og bólga sé á fingrinum en engin örugg sýkingarmerki. Necrosa sé fremst í fingurgómnum. Nú sé einnig að koma í ljós necrosur á öðrum stöðum, þ.e.a.s. að húðin hafi flagnað af. Þetta hafi verið hreinsað upp eftir bestu getu, laus og dauð húð klippt í burtu. Dorsalt sé allt mjög lífvænlegt en volart sé necrosa í húðinni alveg upp að DIP liðnum. Eftir að þetta hafi verið hreinsað séu settar umbúðir og hann fái Staklox í nokkra daga. Hann eigi að koma aftur í umbúðaskipti innan tíðar. X fjarlægði G umbúðirnar. Segir þá að necrosa mörkin séu mun skýrari en áður. Necrosan nái nú upp fyrir DIP liðinn. Slasaði komi aftur á morgun og fyrirhugað sé að fjarlægja necrosuna og reyna að loka sárinu. X er síðan aðgerðarlýsing hjá honum. Þar er því lýst að necrosan sé í distalt hluta fingurs og nái necrosan volart að sárakanti miðphalangs. G segist hafa skorið allan necrosan volart að sárakanti miðphalangs. G segist hafa skorið allan necrotiseraðan vef niður að beini. Beinið sé klipið í sundur, sárið hreinsað og eitthvað sé blóðrásin hugsanlega minnkuð dorsalt. Ákveðið sé að láta reyna á þetta og sárakantarnir séu saumaðir saman með Ethilon 5/0. Umbúðaskipti fyrirhuguð daginn eftir. Næsta nóta er frá X frá K. Í nótu L sama dag segir að teknir hafi verið saumar, slasaði sé enn mjög aumur í fingri. Hann sé rauður og þrútinn. Hann hafi verið hættur að taka sýklalyf. Vaktlæknir meti að hann þurfi viku til viðbótar. Hann eigi Staklox heima og megi taka það. Þann X gerði ég síðan vinnuveitendavottorð frá X – X, sárið var þá ósýkt og meðferð talin vera lokið. X var síðan endurkoma hjá G. Þar kemur fram að töluverðir verkir og bólga séu í fingrinum. G telur slasaða ekki vinnuhæfan, sárið sé ekki að fullu gróið. Hugsanlega sé einhver necorsa í sárinu ennþá sem valdi bólgum og verkjum. Ein sutura sé fjarlægð úr sárinu og settar umbúðir. Hann eigi að koma aftur næstkomandi mánudag í eftirlit.
X sá síðan G hann aftur og skrifaði beiðni fyrir sjúkraþjálfun og pantaði tíma. X gerði ég síðan áverkavottorð fyrir hann sem var opið. Hann var þá ennþá óvinnufær. Slasaði hafði þá séð G þann X. Þá var stúfur bólginn en sár gróið. Hann var viðkvæmur bæði fyrir snertingu og kulda. Ákveðið var að bíða átekta. G taldi hann alveg óvinnufæran. Reiknaði með eftirliti og skoðun í X. Sagði að stúfurinn væri svolítið spenntur. X kom hann svo til mín og var enn með verki upp með hendi frá fingri. Vildi prófa að vinna ég taldi að hann gæti unnið léttari vinnu. Hann fékk tíma hjá H bæklunarlækni. Átti að panta síma hjá mér. Spurning um nýja aðgerð í X samkvæmt minnisblaði H. Fór til H þann X. Ég hafði þá í millitíðinni heyrt í M hjá VIRK sem hafði hjálpað til með vinnuna. Var að vinna á [...] og gekk vel. X. segir í áliti H að hann geti ráðið við þessa vinnu. Fingurinn sé kulsækinn og hann sé stirður og aumur. Við skoðun sé stúfhögg distalt við PIP-liðinn. Enginn hreyfing sé við PIP-liðinn. Það sé glansandi stúfur og fremur þéttur endi og ekki alveg góður stúfur. Nánast eðlilegur hreyfiferill í MCP – liðnum. Það vanti cm á að baugfingur nái inn í lófa við lófakreppu. H og A séu sammála um að þó að stúfurinn sé ekki góður þá sé hann það góður að ekki borgi sig að gera aðgerð á næstunni. H ráðlagði A að vinna eins mikið og hann gæti og reyna að descensibilicera stúfinn sjálfan með nuddi og nuði. Ekkert frekara eftirlit áætlað nema að verri einkenni kæmu. Ég heyrði síðan næst í A þann X sl. Þar kom fram að oft væri verkur í stubbnum, í vinstri litla fingri. Einnig væri hann með verki í vinstri úlnlið og jafnvel öxlinni. Hann hefði unnið frá X. Ég lét hann hafa framhaldsslysavottorð vegna slyssins. Það var hann skráður óvinnufær til og með X.“
Í örorkumatstillögu E læknis, dags. 22. október 2015, segir um skoðun á kæranda þann 18. ágúst 2015:
„Eðli áverka og kvartana samkvæmt, einskorðast líkamsskoðun við hendur tjónþola.
Hann kemur vel fyrir á matsfundi, er rólegur og yfirvegaður og gefur greinargóð svör við spurningum sem fyrir hann eru lagðar. Geðslag virðist eðlilegt.
Vinstri litlifingur er 3 cm styttri en sá hægri og má sjá að stúfhögg er rétt framan við (distalt við) nærkjúkulið fingursins. Skálægt ör er yfir stúfenda og er nokkur inndráttur í því. Viðkvæmni er í stúfenda en mjúkvefjabólstrun er ágæt. Það er ágæt hreyfigeta í hnúalið fingursins en engin hreyfigeta í nærkjúkulið. Snertiskyn í stúfenda er ágætt miðað við staðsetningu. Ennfremur vantar 1 cm á að gómur vinstri baugfingurs nemi eðlilega við lófa þegar hann kreppir hnefann en hreyfigeta í fingrum vinstri handar er að öðru leyti eðlileg.
Skoðun á báðum úlnliðum er eðlileg. Hreyfigeta í þeim er eðlileg beggja vegna og hreyfingar eymslalausar. Snertiskyn í fingurgómum beggja handa er eðlilegt. Engin merki um taugaklemmu koma fram við skoðun.“
Í forsendum og niðurstöðum matsins segir svo:
„Tjónþoli lenti í slysi því er hér um ræðir þann X er hann var við vinnu sína og lenti með vinstri hönd í [...]. Við slysið missti hann framan af vinstri litlafingri og var þar um að ræða hluta af fjærkjúku. Eftir að gert hafði verið að áverkanum kom síðar í ljós að hann fékk drep í stúfendann þannig að stytta þurfti fingurinn frekar. Var stúfhöggið framkvæmt rétt handan við nærkjúkulið. Tjónþoli er með kulvísi í vinstri litlafingri og einnig með verki. Þá er hann viðkvæmur ef hann rekur fingurinn utan í og hann getur ekkert beitt fingrinum. Að auki er hann með væga hreyfiskerðingu í baugfingri og verður það rakið til slyssins eða öllu heldur til umbúðameðferðar eftir slysið þótt svo baugfingur hafi ekki orðið fyrir áverka upphaflega.
Á matsfundi nefnir tjónþoli einnig einkenni frá öxl og ennfremur frá úlnlið. Ekkert í fyrirliggjandi gögnum bendir til þess að hann hafi orðið fyrir neinum áverka á þessum svæðum og verða einkenni þaðan ekki rakin til slyssins.
Ekkert hefur komið fram sem bent getur til þess að aðrir áverkar eða fyrra ástand eigi nokkurn þátt í ástandinu eins og það er í dag. Einkenni tjónþola eru ekki líkleg til að breytast neitt að ráði hér eftir þannig að rakið verði til slyssins, ég lít á þau sem varanleg og tel tímabært að meta afleiðingar slyssins.
Við mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku er stuðst við miskatöflur Örorkunefndar (2006). Ég tel rétt að miða mat á afleiðingum slyssins við það að tapast hafi allur vinstri litlifingur því sá hluti sem eftir er nýtist ekki tjónþola neitt heldur er frekar til trafala vegna viðkvæmni. Ég tel afleiðingar þær sem um hefur verið fjallað og raktar hafi verið til umrædds slyss falla best að lið VII.A.d.1 í miskatöflunum og ennfremur er litið til þess sem segir um hreyfiskerðingu í lið VII.A.d.4 (tafla á bls. 12). Að öllu virtu tel ég varanlega læknisfræðilega örorku vegna afleiðinga slyssins X hæfilega metna 8% (átta af hundraði).“
Lögmaður kæranda hefur lagt fram örorkumatsgerð D læknis, dags. 22. desember 2014, en matsgerðina vann hann að ósk lögmannsins og Vátryggingafélags Íslands. Um skoðun á kæranda þann 3. nóvember 2014 segir svo í matsgerðinni:
„Skoðun beinist að höndum og úlnliðum. Það er stúfhögg á vinstra litla fingri við millikjúkuliðinn. Lengd hægri litla fingurs mælist 8,8 cm frá hnúalið en vinstra megin 5 cm. Það er fremur strekkt húð yfir stúfnum og hersli í öri. Eymsli eru á stúfenda og hnúalið. Hreyfigeta í hnúalið litla fingurs vinstri handar er 0°-90° en hægra megin er yfirrétta 15° og beygjugeta 110°. Vantar 2 cm á að baugfingur nái að lófafellingu í kreppu.
Hreyfiferill í úlnliðum | Hægri | Vinstri |
Rétta | 70° | 60° |
Beygja | 60° | 40° |
Hliðarfærsla að þumli og frá þumli | 10°-0°-20° | 10°-0°-15° |
Snúningshreyfing lófi upp/lófi niður | 90°-0°-90° | 90°-0°70° |
Eymsli ölnar megin í vinstri úlnlið.“
Niðurstaða framangreindrar örorkumatsgerðar D er að varanleg læknisfræðileg örorka kæranda vegna slyssins teljist vera 12%. Í niðurstöðu matsgerðarinnar segir:
„Í slysinu X fékk A áverka á vinstri hendi. Hann er rétthentur. Um var að ræða áverka á vinstra litla fingri. Gera þurfti 2 aðgerðir á fingrinum og er stúfhögg um millikjúkuliðinn. Stúfur óvenju viðkvæmur. Væg skerðing á hreyfigetu í vinstri úlnlið. A var óvinnufær til X. Mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku tekur mið af miskatöflu Örorkunefndar, VII. kafla A., d., 1.tl. missir á fjær- og miðkjúku litla fingurs 5% og VII. kafli A., d., 4.tl. hreyfiskerðing í fingrum 2% og úlnliður VII. kafli, A., c., daglegur áreynsluverkur með vægri hreyfiskerðingu 5%. Samtals er því varanleg læknisfræðileg örorka metin 12%.“
Ákvörðun slysaörorku samkvæmt IV. kafla almannatryggingalaga nr. 100/2007, nú laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga, er eingöngu læknisfræðileg þar sem tilteknir líkamsáverkar eru metnir til ákveðins örorkustigs. Félagslegir þættir, svo sem vinnufærni og áhrif örorku á getu til tekjuöflunar, koma ekki til álita. Við læknisfræðilegt mat er stuðst við örorkumatsskrár/miskatöflur örorkunefndar frá árinu 2006 þar sem ýmsar tegundir líkamsáverka eru metnar til ákveðins miskastigs í hundraðshlutum án tillits til starfs eða menntunar tjónþola.
Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á örorku kæranda og byggir mat sitt á fyrirliggjandi gögnum sem hún telur nægileg. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi við vinnu við [...] og ætlaði að losa [...] sem fest hafði í vélinni. Hann festi hanskann sinn sem vélin greip í og lenti með vinstri hendi í vélinni með þeim afleiðingum að hann missti framan af litlafingri vinstri handar.
Samkvæmt hinu kærða örorkumati var varanleg læknisfræðileg örorka kæranda metin 8%. Í miskatöflum örorkunefndar er í kafla VII. fjallað um útlimaáverka. Undir staflið A er fjallað um áverka á öxl og handlegg og d. liður í kafla A fjallar um finguráverka. Undirliður 1 fjallar um fingurmissi á einum fingri en undirliður 4 fjallar um hreyfiskerðingu í fingrum. Örorkumatstillögu E læknis, dags. 22. október 2015, og örorkumatsgerð D læknis, dags. 22. desember 2014, ber ekki saman hvað varðar vísan til afleiðinga slyssins og vísan til miskataflna varðandi mat á læknisfræðilegri örorku kæranda. Samkvæmt örorkumatstillögu E telur hann rétt að miða við það að tapast hafi allur vinstri litlifingur því sá hluti sem eftir er nýtist tjónþola ekki neitt heldur sé hann frekar til trafala vegna viðkvæmni. Samkvæmt lið VII.A.d.1. í töflum örorkunefndar leiðir missir á baugfingri eða litlafingri til 7% örorku. E telur einnig að rétt sé að líta til þess sem segir um hreyfiskerðingu í lið samkvæmt lið VII.A.d.4. í miskatöflum. Er þar væntanlega átt við hreyfiskerðingu í baugfingri sem E telur að leiði til 1% örorku. Að öllu virtu telur hann varanlega læknisfræðilega örorku vegna afleiðinga slyssins til 8%. Í örorkumatstillögu D telur hann rétt að miða við missi á fjær- og miðkjúku litlafingurs, samkvæmt lið VII.A.d.1. sem leiðir til 5% örorku. D metur hreyfiskerðingu í fingrum til 2% samkvæmt lið VII.A.d.4., auk þess sem hann metur einkenni frá úlnlið kæranda samkvæmt VII.A.c.1, þ.e. daglegan áreynsluverk með vægri hreyfiskerðingu til 5%.
Samkvæmt örorkumatstillögu D er kærandi með væga hreyfiskerðingu í vinstri úlnlið. Í örorkumatstillögu E kemur fram að ekkert í fyrirliggjandi gögnum bendi til þess að kærandi hafi orðið fyrir áverka á þessum svæðum og verði einkenni þaðan ekki rakin til slyssins. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að einkenni í úlnlið kæranda sé ekki að rekja til slyssins þar sem ekki hafi verið minnst á einkenni frá úlnlið fyrr en ellefu mánuðum eftir að slysið átti sér stað.
Það er mat úrskurðarnefndar velferðarmála að samkvæmt læknisfræðilegum gögnum málsins sé varanleg læknisfræðileg örorka kæranda vegna slyssins þann X réttilega metin í hinu kærða örorkumati, þ.e. 8%, með hliðsjón af liðum VII.A.d.1. og VII.A.d.4. í miskatöflum örorkunefndar.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Staðfest er ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 8% örorkumat vegna slyss sem A, varð fyrir þann X.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir