Mál nr. 86/2014
Miðvikudaginn 4. febrúar 2014
86/2014
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
ÚRSKURÐUR
Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 28. febrúar 2014, kærir A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga ákvörðun Tryggingastofnunar um upphafstíma greiðslna endurhæfingarlífeyris.
Óskað er endurskoðunar.
Málavextir eru eftirfarandi samkvæmt málsgögnum. Með umsókn, dags. 4. mars 2014, sótti kærandi um endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins. Með bréfi, dags. 14. febrúar 2014, samþykkti stofnunin að greiða kæranda endurhæfingarlífeyri afturvirkt frá umsókn eða frá 1. janúar 2014 til 31. mars 2014. Kærandi fer fram á greiðslur lengra aftur í tímann eða frá 1. júlí 2013.
Í kæru til úrskurðarnefndar segir:
„Ástæða þess að ég ætla að kæra úrskurð Tryggingastofnunar er sú að ég var á endurhæfingarlífeyri frá 01.12.2012 til 31.06.2013. Eftir þann tíma fæ ég synjun sem engin rök finnast fyrir, fékk ekki synjunarbréf frá Tryggingastofnun. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir þá barst bréfið aldrei frá Reykjavík. Ég fékk einungis upplýsingar hjá Tryggingastofnun í B um að mér hefði verið synjað, þó svo að öll umbeðin gögn frá lækni, sjúkraþjálfurum og Virk væru til staðar. Þessir aðilar sem taldir eru upp hér á undan voru undrandi yfir niðurstöðu Tryggingastofnunar þar sem ég var engan veginn fær um að stunda vinnu á þessu tímabili, vísa ég þar í allar læknaskýrslur og fylgiskjöl sem Tryggingastofnun hefur hjá sér.
Ég er útskrifaður C og myndi gjarnan vilja geta unnið í vinnu þar sem menntun mín nýtist í starfi, en því miður eins og staðan hjá mér er í dag er það ekki möguleiki. Það sem ég fer fram á er að mér verði greiddur endurhæfingarlífeyrir frá 01.07.2013 til 31.12.2013 en frá því í maí 2013 hafa verið sendar 3 umsóknir, 3 læknisvottorð, 3 niðurstöður úr grunnmati endurhæfingarlífeyris ásamt staðfestingum á komum til sjúkraþjálfara bæði í B og Reykjavík.“
Með bréfi, dags. 10. mars 2014, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar vegna kærunnar. Greinargerð, dags. 24. mars 2014, barst frá stofnuninni þar sem óskað var frávísunar málsins frá úrskurðarnefnd á þeirri forsendu að kærufrestur væri liðinn. Greinargerðin var kynnt kæranda með bréfi, dags. 25. mars 2014, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Athugasemdir, dags. 7. apríl 2014, bárust frá kæranda og voru þær kynntar Tryggingastofnun með bréfi, dags. 11. apríl 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. september 2014, óskaði úrskurðarnefnd efnislegrar greinargerðar Tryggingastofnunar vegna kærunnar. Umbeðin greinargerð, dags. 15. september 2014, barst frá stofnuninni þar sem segir:
„1. Kæruefni
Kærð er synjun endurhæfingarlífeyris.
2. Málavextir
Kæranda hefur verið synjað formlega um endurhæfingarlífeyri í tvígang, fyrst með úrskurði dags. 06.08.2013 og seinna með úrskurði dags. 10.10.2013.
3. Lög og reglur
Um endurhæfingarlífeyri er fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum.
Lagagreinin hljóðar svo:
Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18-67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.
Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.
Um endurhæfingarlífeyri gilda ákvæði a-liðar 1. mgr. 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Um aðrar tengdar bætur fer eftir sömu reglum og gilda um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þessara laga. Sjúkrahúsvist í endurhæfingarskyni skemur en eitt ár samfellt hefur ekki áhrif á bótagreiðslur.
Tryggingastofnun ríkisins hefur eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.
Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðis þessa, m.a. um hvaða aðila skuli falið að annast gerð endurhæfingaráætlunar.
4. Gögn málsins
Við mat á umsókn um endurhæfingarlífeyri þann 06.08.2013 lágu fyrir læknisvottorð frá D dags. 06.05.2013, endurhæfingaráætlun frá lækni dags. 10.05.2013 og greinargerð frá E, sjúkraþjálfara dags. 22.07.2013. Óskað var eftir endurhæfingartímabili frá 01.07.2013 - 01.01.2014. Kærandi hafði áður fengið metið endurhæfingartímabil í 7 mánuði og hafði í úrskurði dags. 25.03.2013 verið óskað eftir nýrri ítarlegri og markvissari endurhæfingaráætlun ef um framhald endurhæfingartímabils ætti að vera að ræða.
Við mat á umsókn um endurhæfingarlífeyri þann 10.10.2013 lá fyrir endurhæfingaráætlun frá D lækni dags. 20.09.2013. Einnig barst læknisvottorð sem var dags. 06.05.2013 en móttekið þann 27.09.2013.
5. Mat v. endurhæfingarlífeyris
Kæranda hefur verið synjað formlega um endurhæfingarlífeyri í tvígang, fyrst með úrskurði dags. 06.08.2013 og seinna með úrskurði dags. 10.10.2013. Kærandi fékk úrskurðina senda bréfleiðis á lögheimili eins og reglur kveða á um. Eintök kæranda voru endursend af Íslandspósti til Tryggingastofnunar með þeirri merkingu að kærandi væri farinn af því heimilisfangi. Einnig var endursent afrit af mati með sömu athugasemd.
a. Mat á endurhæfingu dags. 06.08.2013
Fram kom í endurhæfingaráætlun dags. 10.05.2013 að endurhæfing fælist í sjúkraþjálfun og eftirliti hjá lækni tvisvar í mánuði. Stuðningur við endurhæfingu var fólginn í almennri hreyfingu og gönguferðum. Í fyrri endurhæfingaráætlunum hafði verið lagt upp með sjúkraþjálfun sem hluta af endurhæfingu. Samkvæmt yfirliti yfir reiknisfærða sjúkraþjálfunartíma hjá SÍ hafði kærandi einungis sótt einn tíma í sjúkraþjálfun frá áramótum, þann 13.05.2013.
Beiðni um mat á endurhæfingartímabili var tekin fyrir á fundi endurhæfingarhóps Tryggingastofnunar. Við skoðun máls þóttu ekki rök fyrir að meta áframhaldandi endurhæfingartímabil þar sem enginn stígandi hafði verið í endurhæfingunni auk þess sem kærandi hafði ekki sinnt sjúkraþjálfun eins og lagt hafði verið upp með í fyrri og núverandi endurhæfingaráætlun. Af þeim sökum var synjað.
b. Mat á endurhæfingu dags. 10.10.2013
Í endurhæfingaráætlun sem gilti fyrir tímabilið 01.06.2013 - 01.01.2014 kom fram að kærandi stundi líkamsrækt og gönguferðir, verði undir eftirliti læknis, muni hitta ráðgjafa Virk og að sótt hafi verið um á Reykjalundi.
Málið var tekið fyrir á fundi endurhæfingarhóps Tryggingastofnunar. Ný gögn gáfu ekki tilefni til breytinga á fyrra mati og stóð það því óbreytt. Endurhæfingaráætlun þótti ekki nógu markviss eða umfangsmikil til að byggja kæranda undir þátttöku á atvinnumarkaði. Af þeim sökum var synjað.
c. Rökstuðningur
Samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 skulu greiðslur endurhæfingarlífeyris inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar og er skilyrði að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila. Greiðslur endurhæfingarlífeyris taka þannig mið af því tímabili sem viðkomandi tekur þátt í skipulagðri endurhæfingu með starfhæfni að markmiði en ekki af því tímabili sem viðkomandi er óvinnufær.
Ítrekað skal að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sinnti kærandi ekki sjúkraþjálfun þó að það væri grunnurinn í endurhæfingaráætlunum sem kærandi hafði áður fengið metið endurhæfingarlífeyri út á í 7 mánuði. Einnig skal tekið fram að kallað hafði verið eftir ítarlegri og markvissari áætlun ef um framhald ætti að vera að ræða en einungis var skilað sambærilegri áætlun og áður sem kærandi hafði þó ekki sinnt sem skildi. Eftir synjun dags. 06.08.2013 var ný áætlun send inn sem var mun umfangsminni og var sjúkraþjálfun ekki hluti af þeirri áætlun. Sú áætlun taldist ekki nægjanlega markviss, umfangsmikil né nægjanlega vinnumiðuð til að skila kæranda aftur út á vinnumarkað enda einungis líkamsrækt, gönguferðir og eftirlit læknis, aðrir þættir áætlunar voru óljósir eða í bið.
Synjanirnar byggðu á því að kærandi hefði ekki sinnt hluta þeirrar endurhæfingar sem lagt var upp með auk þess sem það sem eftir stóð í áætlun þótti ekki nægjanlega markvisst, umfangsmikið né nægjanlega vinnumiðað til að skila kæranda aftur út á vinnumarkað. Til viðbótar þá virtist ekki vera tekið á þeim heilsufarsvanda sem valdið hafði óvinnufærni kæranda.
6. Niðurstaða
Tryggingastofnun telur ljóst að stofnunin hafi afgreitt umsóknir kæranda í samræmi við innsendar endurhæfingaráætlanir, lög um félagslega aðstoð, lög um almannatryggingar og úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga. Tryggingastofnun telur því ekki ástæðu til þess að breyta þeirri ákvörðun sinni.“
Greinargerðin var kynnt kæranda með bréfi, dags. 25. september 2014, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Með bréfi, dags. 7. október 2014, bárust svofelldar athugasemdir frá kæranda:
„Þegar fyrstu umsóknir mínar um endurhæfingarlífeyri voru sendar inn þá var ekki starfandi ráðgjafi hjá Virk í B og þess vegna var það heimilislæknirinn minn, D, sem sá um að senda þær umsóknir inn fyrir mig. Eftir að ráðgjafi Virk tók til starfa á nýjan leik í B benti heimilislæknirinn minn mér á að fara til hans þar sem hann gæti haft önnur og möguleg betri úrræði fyrir mig. Heimilislæknirinn mat ástandið og beitti þeim úrræðum er hann hafði, en ráðgjafar hjá Virk hafa annað tengslanet og aðrar úrlausnir í svona málum heldur en heimilislæknar. En nokkuð ljóst er að ekki geta allir farið á sama hraða og á sama hátt í gegnum veikindi á leið sinni í átta að bata. Engin ein leið er réttari og betri en önnur.
Varðandi yfirlit yfir reikningsfærða sjúkraþjálfunartíma hjá SÍ þá var það sjúkraþjálfarinn sem leyfði mér að nota aðstöðu í tækjasal, hann útbjó æfingaáætlun og vildi leyfa mér að prófa að gera æfingar í tækjunum í tækjasalnum og sjá hvernig ég yrði eftir þær æfingar. Sjúkraþjálfarinn þurfti ekki að standa yfir mér á meðan ég framkvæmdi æfingarnar og því hefur hann ekki látið mig kvitta fyrir þessum tímum er ég mætti í tækjasalinn og fylgdi eftir æfingaáætluninni. Ekki vissi ég betur en að það væri nóg fyrir mig að sjúkraþjálfarinn vissi að ég væri að mæta og framkvæma þær æfingar sem lagðar höfðu verið fyrir. Hefðbundin meðferð hjá sjúkraþjálfara, með nuddi, bylgjum, nálastungu og fleiru hafði þá ekki borið góðan árangur og þess vegna var þessi aðferð prófuð. Síðar átti það eftir að koma í ljós að réttast væri að athuga hvort að það að rétta axlargrindina af gæti orðið til þess að minnka svimann sem hrjáir mig. Hver og einn fagaðili sem komið hefur að þessari endurhæfingu minni hefur gert að sem hann/hún hefur getað gert miðað við fyrirliggjandi upplýsingar og áætlanir hverju sinni.
Ég hef farið eftir þeim áætlunum sem læknir, sjúkraþjálfarar og ráðgjafi hjá Virk hafa sett upp fyrir mig og því sem mér hefur staðið til boða. Ekki var það ég sjálf sem bjó til þessar áætlanir enda leitaði ég til fagaðila til þess að fá hjálp út úr þessum veikdinum mínum. Þó svo að fullur sigur sé ekki unnin þá væri ég í dag ekki að sjá þær framfarir sem orðið hafa ef að ég hefði ekki farið eftir og sinnt þeim áætlunum og leiðum sem settar voru upp af fagaðilum fyrir mig. Í mínu sveitarfélagi er ekki mikið um sérhæfðar lausnir í boði, til dæmis í heilbrigðismálum, og slíkt hef ég því þurft að sækja til Reykjavíkur.
Í þessari greinargerð frá TR var einnig komið inn á að TR hefði fengið endursend þau bréf sem mér voru send með Íslandspósti. Þetta þykir mér ákaflega undarlegt að eingöngu þessi tilteknu bréf hafi verið endursend en enginn annar bréfpóstur sem mér barst á þessum tíma frá öðrum aðilum, sem einnig var borinn út af Íslandspósti. Því þó svo að ég hafi þurft að flytja tímabundið í foreldrahús vegna veikinda minna, þá breytti ég ekki lögheimili mínu né lét breyta nokkru varðandi útburð bréfa til mín hjá Íslandspósti. Lögheimili mitt hefur verið það sama síðustu ár, einungis hef ég breytt því einu sinni á ævinni þegar ég flutti það frá æskuheimili mínu og yfir á mína fyrstu eign. Sama heimilisfang hefur verið stílað á öll þau gögn sem TR hefur sent til mín og því þykir mér undarlegt að þessi tilteknu bréf með úrskurði TR hafi ekki borist, að minnsta kosti fæ ég bréfpóstinn til mín í dag og er hann stílaður á þetta sama heimilisfang.
Einnig langar mig að benda á að ef að ég væri ekki búin að vera að sinna þeim æfingum sem lagðar hafa verið fyrir, eins og TR heldur fram, tel ég miklar líkur á því að þeir fagaðilar sem ég hef verið að vinna með eins og til dæmis heimilislæknir, ráðgjafi hjá Virk ásamt sjúkraþjálfurum væru fyrir margt löngu síðan hættir að vilja vinna með mér í átt að áframhaldandi bata.“
Athugasemdir kæranda voru kynntar Tryggingastofnun með bréfi, dags. 10. október 2014. Frekari athugasemdir bárust ekki.
Niðurstaða úrskurðarnefndar:
Mál þetta varðar ágreining um hvort kærandi hafi uppfyllt skilyrði endurhæfingarlífeyris tímabilið 1. júlí 2013 til 31. desember 2013.
Í kæru til úrskurðarnefndar segir að Tryggingastofnun hafi synjað umsókn um endurhæfingarlífeyri þrátt fyrir að öll umbeðin gögn hafi verið til staðar frá lækni, sjúkraþjálfurum og Virk. Kærandi greinir frá því að hún hafi ávallt fylgt þeim áætlunum sem hafi verið lagðar fram. Áætlanirnar hafi verið misjafnlega umfangsmiklar en settar upp eftir því hvað hafi hentað best hverju sinni að mati þeirra aðila sem hafi gert þær. Í athugasemdum segir kærandi, vegna athugasemda Tryggingastofnunar um mætingu í sjúkraþjálfun, að sjúkraþjálfari hafi leyft henni að nota aðstöðu í tækjasal og hann útbúið æfingaáætlun. Sjúkraþjálfarinn hafi ekki þurft að standa yfir sér á meðan hún hafi gert æfingarnar og því hafi hún ekki verið látin kvitta fyrir þessum tímum.
Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að kæranda hafi í tvígang verið synjað um endurhæfingu með bréfum dags. 6. ágúst 2013 og 10. október 2013. Fyrri synjun hafi byggt á því að rök hafi ekki þótt vera fyrir því að meta áframhaldandi endurhæfingu þar sem enginn stígandi hafi verið í endurhæfingu kæranda. Auk þess sem kærandi hafi ekki sinnt sjúkraþjálfun eins og lagt hafi verið upp með í fyrri og nýrri endurhæfingaráætlun. Seinni synjunin hafi byggt á því að ný gögn hafi ekki gefið tilefni til breytinga á fyrra mati og hafi það því staðið óbreytt. Endurhæfingaráætlun hafi ekki þótt nógu markviss eða umfangsmikil til að byggja kæranda undir þátttöku á atvinnumarkaði. Þá segir að synjanirnar hafi byggt á því að kærandi hafi ekki sinnt hluta þeirrar endurhæfingaráætlunar sem lagt hafi verið upp með auk þess sem það sem eftir hafi staðið hafi ekki þótt nægilega markvisst, umfangsmikið né nægjanlega vinnumiðað til að skila kæranda aftur út á vinnumarkað. Til viðbótar hafi ekki virst vera tekið á þeim heilsufarsvanda sem hafi valdið óvinnufærni kæranda.
Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greiddan endurhæfingarlífeyri á tímabilinu 1. desember 2012 til 31. júní 2013. Kærandi hefur í þrjú skipti eftir það sótt um áframhaldandi greiðslur. Tryggingastofnun synjaði tveimur fyrri umsóknunum en samþykkti greiðslur samkvæmt þriðju umsókninni, sem barst stofnuninni 6. mars 2014, fyrir tímabilið 1. janúar 2014 til 31. mars 2014. Ákvörðun stofnunarinnar um samþykki greiðslna byggir á endurhæfingaráætlunum, dags. 12. nóvember 2013 og 15. janúar 2014, og staðfestingu sjúkraþjálfara um að kærandi hafi mætt í sjúkraþjálfun tvisvar í viku frá 8. janúar til 4. mars 2014.
Endurhæfingarlífeyrir greiðist samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, en þar segir í 1. mgr.:
„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“
Ágreiningur í máli þessu snýst um mat Tryggingastofnunar á endurhæfingaráætlunum sem kærandi hefur lagt fram.
Eins og áður greinir samþykkti Tryggingastofnun áframhaldandi endurhæfingarlífeyri meðal annars á grundvelli endurhæfingaráætlunar, dags. 12. nóvember 2013. Samkvæmt þeirri endurhæfingaráætlun fór endurhæfing fram á tímabilinu 1. nóvember 2013 til 31. janúar 2014. Tryggingastofnun segir að greiðslur hafi verið samþykktar frá 1. janúar 2014 vegna upplýsinga frá sjúkraþjálfara um upphaf sjúkraþjálfunar í heimabyggð sem hafi verið í byrjun janúar 2014. Samkvæmt nefndri endurhæfingaráætlun var áætlað að kærandi myndi fyrst fara í tíma hjá sjúkraþjálfara sem sérhæfi sig í meðferð við stoðkerfis- og jafnvægisvandamálum til þess að meta ástand kæranda og koma með tillögur að meðferð sem yrði fylgt eftir af sjúkraþjálfara í heimabyggð. Úrskurðarnefnd fellst hins vegar á með Tryggingastofnun að áætlunin hafi ekki verið orðin nægilega umfangsmikil fyrr en með sjúkraþjálfun í heimabyggð sem hófst í janúar 2014.
Þá kemur einnig til álita hvort skilyrði endurhæfingarlífeyris hafi verið uppfyllt tímabilið 1. júlí 2013 til 31. október 2013. Í gögnum málsins liggur fyrir endurhæfingaráætlun læknis, dags. 6. maí 2013, þar sem fram kemur að tímabil endurhæfingar hafi verið fyrirhugað sex til níu mánuðir. Samkvæmt þeirri áætlun samanstóð endurhæfing af styrkjandi æfingum undir leiðsögn sjúkraþjálfara, almennri hreyfingu, gönguferðum tvisvar til fjórum sinnum í viku, þjálfun með styrkingu á innri vöðvum, í fyrstu daglega og síðan lengra á milli og kærandi átti að læra æfingaprógram, auk eftirlits hjá heimilislækni aðra hverja viku og samtalsmeðferð. Þá liggur fyrir endurhæfingaráætlun sama læknis, dags. 20. september 2013, þar sem fram kemur að áætluð endurhæfing fyrir tímabilið 1. júní 2013 til 1. janúar 2014 samanstandi af sjúkraþjálfun þar sem kærandi geri styrkjandi æfingar tvisvar til þrisvar í viku undir leiðsögn þjálfara, almennri hreyfingu, gönguferðum tvisvar til fjórum sinnum í viku, þjálfun með styrkingu á vöðvum í huga í fyrstu daglega og síðan lengra á milli og lærir æfingaprógram, eftirliti hjá lækni og samtalsmeðferð. Þá komu einnig fram upplýsingar um að sótt hefði verið um á Reykjalundi.
Við samanburð á framangreindum endurhæfingaráætlunum og áætlun, dags. 12. nóvember 2013, telur úrskurðarnefnd að í fyrri áætlunum hafi ekki hafi verið tekið nægilega heildstætt á þeim vanda sem hafði valdið óvinnufærni kæranda, þ.e. ekki verður ráðið að hvaða leyti fyrri áætlanir hafi átt að uppræta svima sem er þó annar tveggja þátta sem veldur óvinnufærni kæranda. Samkvæmt endurhæfingaráætlun, dags. 12. nóvember 2013, er hins vegar sérstaklega tekið á þeim vanda kæranda. Úrskurðarnefnd almannatrygginga fellst því á að fyrri áætlanir hafi ekki verið nægilega markvissar eða umfangsmiklar til að undirbúa kæranda undir þátttöku á vinnumarkaði eftir veikindi hennar. Þegar af þeirri ástæðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði til greiðslu endurhæfingarlífeyris á tímabilinu frá 1. júlí 2013 til 31. október 2013.
Með vísan til þess sem rakið hefur verið hér að framan er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma endurhæfingarmats kæranda staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um endurhæfingarlífeyri tímabilið 1. júlí 2014 til 31. desember 2013 er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga
Friðjón Örn Friðjónsson formaður