Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 75/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 75/2021

Miðvikudaginn 16. júní 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 7. febrúar 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála tafir Tryggingastofnunar á afhendingu gagna.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi, dags. 12. október 2020, óskaði kærandi eftir að fá endurreikninga Tryggingastofnunar ríkisins vegna áranna 2017-2019 og forsendur þeirra. Umrædd gögn voru send kæranda með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 4. desember 2020. Með tölvupósti til Tryggingastofnunar 6. janúar 2021 óskaði kærandi eftir greiðsluseðlum fyrir árin 2017-2020. Með tölvupósti Tryggingastofnunar 8. apríl 2021 var kærandi upplýstur um að greiðsluseðlar væri aðgengilegir á „Mínum síðum“. 

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 8. febrúar 2021. Með bréfi til kæranda, dags. 23. febrúar 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum um hvort kæra varðaði einhverja stjórnvaldsákvörðun Tryggingastofnunar gagnvart kæranda og þá hvaða ákvörðun. Svar barst frá kæranda með tölvupósti 8. mars 2021. Með bréfi til Tryggingastofnunar, dags. 29. mars 2021, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir upplýsingum um hvað liði meðferð beiðni kæranda um gögn. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 4. maí 2021, var úrskurðarnefndin upplýst um að beiðni kæranda hefði verið svarað og honum leiðbeint um að umbeðin gögn væru öll aðgengileg á vefsvæðinu „Mínum síðum“. Með bréfi, dags. 12. maí 2021, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir afstöðu kæranda til bréfs Tryggingastofnunar. Með tölvupósti 12. júní 2021 greindi kærandi frá því að hann teldi ótímabært að úrskurðarnefndin lokaði málinu.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi vilji kæra undanbrögð og seinagang Tryggingastofnunar við að afhenda kæranda launaseðla fyrir árin 2016 til 2020. Gögnunum sé ætlað að styðja málatilbúnað vegna skuldsetningar og rangrar meðferðar rekstrarfjár og arðs vegna atvinnurekstrar bótaþega á blandaðri kennitölu. Fram kemur að ósamræmi sé á milli upplýsinga sem Tryggingastofnun gefi og upplýsinga sem fengnar séu annars staðar frá. Kærandi spyr jafnframt hvort frítekjumarkið sem getið sé um í lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar eigi við um alla bótaútreikninga þar sem bótaþegi vinni á almennum vinnumarkaði. 

Í svari kæranda frá 8. mars 2021 kemur meðal annars fram að Tryggingastofnun sé sökuð um að halda að sér upplýsingum um grunnbótarétt og forsendur skerðinga bóta frá grunnbótabótaréttindum. Það eigi við um árin 2016-2019. Kærandi hafi beðið Tryggingastofnun um þessar upplýsingar en ekki fengið þær eða svar um hvort stofnuninni telji sér skylt að afhenda þær. Kærandi óskar eftir að úrskurðarnefndin úrskurði um að Tryggingastofnun skuli afhenda þessar upplýsingar.

Í svari kæranda frá 12. júní 2021 kemur fram að öll upplýsingagjöf sé enn í ólestri og með öllu ófullnægjandi. Af gögnunum megi ráða að frítekjumark vegna fjármagnstekna og atvinnutekna hafi ekki verið virt.

III.  Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal nefndin úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar. Þannig er almennt grundvöllur þess að unnt sé að leggja fram kæru til úrskurðarnefndar að fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun. Undantekningar eru þó gerðar frá þeirri meginreglu í ákveðnum tilvikum. Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er til að mynda heimilt, dragist afgreiðsla máls óhæfilega, að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst að kæra í máli þessu lúti annars vegar að töfum Tryggingastofnunar á að afhenda gögn og hins vegar að fyrirspurn um frítekjumark samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar sem beint er að úrskurðarnefndinni. Þannig er ljóst að kæran lýtur ekki að stjórnvaldsákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins. Fyrir liggur að Tryggingastofnun hefur nú svarað beiðni kæranda um gögn og bent honum á að þau hafi verið aðgengileg á „Mínum síðum“ á heimasíðu stofnunarinnar. Því eru ekki skilyrði fyrir úrskurðarnefndina til að aðhafast frekar með vísan til kæruheimildar 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.  Loks er það ekki hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála að svara fyrirspurnum um lögfræðileg álitaefni.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að nefndin hafi ekki heimild til þess að taka kæru til efnislegrar úrlausnar og er kæru því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta