Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 36/2011

Miðvikudaginn 26. október 2011

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða, Guðmundur Sigurðsson læknir, Kristín Benediktsdóttir hrl. og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 25. janúar 2011, kærir A, ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslu heimilisuppbótar til hennar vegna sambúðar hennar með B.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að Tryggingastofnun ríkisins barst ábending um að kærandi væri í sambúð með B. Í kjölfarið tilkynnti Tryggingastofnun til Þjóðskrá grun um ranga skráningu lögheimilis B og óskaði eftir því að erindi stofnunarinnar yrði tekið til skoðunar. Í kjölfarið mun Þjóðskrá hafa flutt lögheimili B að C, heimili kæranda. Með bréfi, dags. 30. desember 2010, tilkynnti Tryggingastofnun ríkisins kæranda um að hún uppfyllti ekki skilyrði til greiðslu heimilisuppbótar þar sem hún væri í sambúð með B og yrðu greiðslur stöðvaðar frá 1. janúar 2011 nema hún skilaði inn gögnum sem staðfestu að þau byggju ekki í sömu íbúð. Voru greiðslurnar stöðvaðar frá og með 1. janúar 2011.    

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir svo:

 „Mér barst bréf fá ykkur þar sem mér var tjáð að ég æti að vera skráð í sambúð með B. Sem er alls EKKI rétt, og hefur mér verið tjáð um það að ég eigi ekki rétt á bótarétt vegna sambúðar, en ég er ekki í sambúð, ég læt filgja lögheimilis skrá mín og bréfið sem ég fék frá ykkur. Ég á kærasta og ætla ekki að neita því og hann heitir B, en við búum ekki saman og getum þar af leiðandi ekki verið í sambúð og þar sem að ég og hann höfum einungis verið saman í 3-4 mán. þá er ég alls ekki að fara að búa líkt því strax með honum og svo á ég líka 2 börn sem þurfa að kynast honum fyrst og hann þeim, þar af segja ef þetta samband gengur upp sem kemur í ljós með tímanum.“

 

Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi, dags. 23. febrúar 2011. Greinargerð, dags. 3. mars 2011, barst frá stofnuninni þar sem segir svo:

Kæruefni

Kæranda var tilkynnt að heimilisuppbót yrði felld niður þar sem ábending hefði borist um að kærandi byggi ekki ein og heimilisuppbót væri að jafnaði bundin við þá sem væru einir um heimilishald. Við það er kærandi ósátt og kærir niðurfellinguna  til æðra stjórnvalds.

Lög sem málið snerta

Samkvæmt 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð er Tryggingastofnun heimilt að greiða einstaklingum sem njóta óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar svonefnda heimilisuppbót til viðbótar öðrum bótum. Skilyrði er að hlutaðeigandi sé einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Enn fremur taka lögin fram að heimilisuppbót greiðist einungis einhleypingum, þ.e. ógiftu fólki. Full heimilisuppbót er nú 27.242 kr. á mánuði.

Eigi viðkomandi rétt á skertri tekjutryggingu samkvæmt lögum um almannatryggingar lækkar heimilisuppbótin eftir sömu reglum.

Samkvæmt 2. mgr. 52. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 er bótaþegum skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Enn fremur segir í sömu lagagrein að bótaþegum sé skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Samkvæmt 1. mgr. 14.gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð gilda ákvæði laga um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á.

Málavextir

Kærandi er 25 ára gömul kona sem býr á C. Síðan 1. ágúst 2010 hefur hún notið endurhæfingarlífeyris, aldurstengdrar örorkuuppbótar, fullrar tekjutryggingar og mæðralauna.  Að auki fékk hún greidda heimilisuppbót tímabilið ágúst til desember 2010 en sú uppbót var felld niður frá og með 1. janúar 2011.

Kæranda var tilkynnt með bréfi 30. desember 2010 að Tryggingastofnun hefði borist ábending um að hún væri í sambúð með B án þess að stofnuninni hefði verið tilkynnt um þá breytinga á högum kæranda.  Vegna þessara breyttu aðstæðna uppfyllti kærandi ekki lengur skilyrði til greiðslu heimilisuppbótar og yrðu þær greiðslur stöðvaðar frá og með 1. janúar 2011 nema kærandi skilaði inn gögnum sem staðfestu að hún og umræddur karlmaður byggju ekki í sömu íbúð.

Við þetta er kærandi ósátt. Í stað þess að snúa sér til Tryggingastofnunar til þess að reyna að sýna stofnuninni fram á að um misskilning væri að ræða ákvað kærandi að kæra synjunina strax til æðra stjórnvalds.  Það er henni þó að sjálfsögðu fullkomlega heimilt.  Í kærubréfi sínu fullyrðir kærandi að það sé alls ekki rétt að umræddur karlmaður sé sambýlismaður hennar.  Hann sé að vísu kærasti hennar en þau tvö búi ekki saman hvað sem síðar verði.

Skilgreining á lögheimili skv. lögum um lögheimili nr. 21/1991

Samkvæmt 1. mgr. 1.gr. þessara laga  er lögheimili manns sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu.   Í 2. mgr. sömu greinar kemur fram að maður telst hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.

Lögheimiliskráning kæranda og kærasta hennar

Eins og sjá má á meðfylgjandi gögnum úr Þjóðskrá flutti kærandi lögheimili sitt að C þann 19. apríl 2010 og var skráningin látin gilda nokkrar vikur aftur í tímann eða frá 1. mars 2010.  Kærandi hefur átt lögheimili þar síðan.

Sömuleiðis má sjá á meðfylgjandi gögnum að B kærasti kæranda flutti lögheimili sitt að C á heimili kæranda þann 8. desember 2010 og var skráningin látin gilda nokkrar vikur aftur í tímann eða frá 11. nóvember 2010.  Þann 11. febrúar 2011 lætur hins vegar umræddur B flytja lögheimili sitt frá C í annað hús á C. Er sú skráning látin gilda rúma tvo mánuði aftur í tímann eða frá 30. nóvember 2010.

Rök Tryggingastofnunar fyrir niðurfellingu heimilisuppbótar.

Fyrir liggur að B er kærasti kæranda.  Sömuleiðis liggur fyrir að þessi kærasti hennar flutti lögheimili sitt á heimili hennar í desember 2010 með gildistöku frá 11. nóvember 2010.  Erfitt er að sjá hvers vegna umræddur karlmaður ætti að taka upp á því að flytja lögheimili sitt til konu sem hann býr ekki hjá eins og kærandi heldur fram.  Engin skýring liggur fyrir á þeim gjörningi enda í andstöðu við lögheimilislög að flytja lögheimili sitt á stað þar sem maður býr ekki.

Það vekur líka athygli að það er ekki fyrr en eftir að Tryggingastofnun sendir kæranda bréf og upplýsir hana um hvaða afleiðingar það hefur fyrir hana varðandi bótarétt að vera ekki lengur ein með heimilisrekstur að umræddur karlmaður flytur lögheimili sitt frá þáverandi og núverandi kærustu sinni, kæranda í þessu máli.

Það verður að teljast líklegt að lögheimilisflutningur kærastans í febrúar 2011 frá kærustu sinni sé málamyndagjörningur gerður til þess eins að kærasta hans missi ekki rétt til heimilisuppbótar.  Það er ástæðan fyrir því að Tryggingastofnun ákvað að fella niður heimilisuppbót til kæranda.

Kæranda er að sjálfsögðu heimilt að sækja um heimilisuppbót að nýju telji hún sig uppfylla að nýju þau skilyrði sem lög setja varðandi þann bótaflokk.

 

Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var send kæranda til kynningar með bréfi dags. 4. mars 2011 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Með bréfi sem móttekið var þann 23. mars 2011 af úrskurðarnefnd almannatrygginga bárust athugasemdir frá kæranda þar sem eftirfarandi kom meðal annars fram:

 „Í bréfi Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins undir Málavextir, skrifar Tryggingastofnun að ég A hafi fengið bréf frá þeim þann 30. des 2010 um að ég fengi ekki lengur heimilisuppbót vegna þess að ég væri í sambúð með B, sem er alls ekki rétt vitnun hjá þeim, og þetta tiltekna bréf sem ég átti að hafa fengið sent hjá þeim fékk ég ekki í hendurnar fyrr en ég mæti upp á TR og talaði við konu sem heitir E og spurði ég hana hvað olli því að ég fengi ekki lengur heimilisuppbót og þá útskýrði hún fyrir mér að ég hefði hreinlega ekki rétt á henni lengur þar sem að þeir hefðu fengið ábendingar um það að ég væri í sambúð með B og ég sagði við hana að það væri ekki rétt að við værum ekki undir neinum kringumstæðum í sambúð en jú hann væri kærastinn minn og nefni ég við hana að ég teldi nú að það væri ekki ólöglegt að reyna að koma fótum undir sig í lífinu með því tildæmis að finna sér maka í framtíðinni og spurði ég hana hvernig ég gæti sannað mál mitt og snúið mér í þessu og þá segir E við mig að eina sem ég gæti gert sé að kæra þennan útskurð hjá þeim og ég spurði hvernig ég færi að því og þá rétti hún mér kæru blöð og sýndi mér hvernig ég ætti að fylla þau út og ég yrði að gera það og koma svo með það til þeirra þar sem þau mundu senda það suður fyrir mig og þetta væri besti og eini valkosturinn minn, þannig það er ekki rétt það sem Tryggingastofnun segir í bréfinu sínu („Við þetta er kærandi ósátt. Í stað þess að snúa sér til Tryggingastofnunar til þess að reyna að sýna stofnuninni fram á að um misskilning væri að ræða ákvað kærandi að kæra synjunina strax til æðra stjórnvalds.“)  Þessi rök frá Tryggingastofnun eru ekki með neinu móti sönn þar sem að ég snéri mér til Tryggingastofnunar og sagði þeim frá því að þetta væri ekki rétt og hvernig ég gæti leiðrétt þetta þá benti hún E mér á að eini valkosturinn minn væri að kæra til æðri stjórnvalda þannig með því er það Tryggingastofnun sem gefur mér ekki annan valkost en að kæra.

Lögheimilisskráning kæranda og kærasta hennar

Hérna vitna ég í bréfið frá Tryggingastofnun: („Sömuleiðis má sjá á meðfylgjandi gögnum að B kærasti kæranda flutti lögheimili sitt að C á heimili kæranda þann 8. desember 2010 og var skráningin látin gilda nokkrar vikur aftur í tímann eða frá 11. nóvember 2010.“) hér fyrir ofan má sjá að Tryggingastofnun vitnar í að B hafi sjálfur flutt lögheimilið sitt til mín sem er á engan hátt satt og þar með talið fara þeir með lygi í þessu máli, það var Tryggingastofnun sem sendi Þjóðskrá beiðni um að láta flytja lögheimili B upp að C án hans vitundar og þegar við spurðumst út í það þá sögðu þeir að þeir hafi haft send honum bréf upp á C sem hann vitanlega fékk ekki þar sem að hann er ekki með neitt pósthólf þar vegna þess að hann býr ekki þar, og þegar hann spurði Tryggingastofnun að því hvort að hann hefði ekkert um þetta að segja þá var honum tjáð að það væri bara hirðuleysi hjá honum að að hafa ekki fylgst með því að hann hafi átt að fá þetta bréf , en þá spyr ég líka hvernig getur það verið hirðuleysi þegar þú veist ekki einu sinni að það sé verið að senda manni bréf og þát getur maður vitanlega ekki svarðað því heldur.

B leigði að F til desembers 2010 og hefði hann því ekki farið út í að að flytja lögheimilið sitt þann 11 nóvember og svo flytur hann frá F vegna þess að meðleigjandi hans flytur til Reykjavíkur og getur hann því ekki staðið undir því sjálfur að leigja þar einn og flytur þess vegna til föður síns að G en þegar hann flytur gleymir hann að flytja lögheimilið sitt strax og gerir það því ekki um leið og hann flytur og jú má telja það trassaskap að hafa ekki sinnt því strax en fólk er mannlegt og maður getur stundum verið seinn í snúningum.

Rök Tryggingastofnunar fyrir niðurfellingu heimilisuppbótar.

Hér má sjá nokur atriði sem ég vitna í sem Tryggingastofnun notar sem rök („fyrir liggur að B er kærandi kæranda.“) Já B er kærastinn minn og hef ég aldrei farið neitt leynt með það eða hvað þá neitað því og það að ég eigi kæranda á ekki að hafa það í för með sér að ég missi heimilisuppbót mína. („Sömuleiðis liggur fyrir að þessi kærasti hennar flutti lögheimili sitt á heimili hennar í desember 2010 með gildistöku frá 11. nóvember 2010.) B fluti aldrei lögheimilið sitt til mín heldur var það Tryggingastofnun sem lætur færa hann með því að senda þjóðskrá beiðni fyrir því og hafði hann samband við þjóðskrá og spurði þá út í málið og sögðu þeir að lögheimilið hefði verið flutt af beiðni Tryggingastofnunar. („Erfitt er að sjá hvers vegna umræddur karlmaður ætti að taka upp á því að flytja lögheimili sitt til konu sem hann býr hjá eins og kærandi heldur fram.„) Það er ekki erfitt að sjá út úr þessu þar sem að B flytur ekki lögheimilið sitt sjálfur heldur er það Tryggingastofnun sem tekur fram fyrir hendur á honum án hans vitundar og án minnar vitundar og mundi ég telja að ég ætti að fá að vita af því að það sé verið að flytja lögheimili annarra heim til mín og hvað þá aðilinn sem er verið að flytja lögheimili hjá. („Engin skýring liggur fyrir á þeim gjörningi enda í andstöðu við lögheimilislög að flytja lögheimili sitt á stað þar sem maður býr ekki.“). með þessum orðum hér fyrir ofan má sjá að Tryggingastofnun brýtir lög, þar sem að B flutti aldrei lögheimili sitt sjálfur heldur er það Tryggingastofnun sem flytur það og brýtur þar með talið lög með því að flytja lögheimili á stað þar sem viðkomandi býr ekki að mínu mati.

 („það verður að teljast líklegt að lögheimilisflutningur kærastands í febrúar 2011 frá kærustu sinni sé málamyndagjörningur gerður til þess eins að kærasta hans missi ekki rétt til heimilisuppbótar.“) þessi rök hjá Tryggingastofnun eru gjörsamlega óréttmæt, eins og ég er búin að segja marg oft hér fyrir ofan þá flutti B aldrei lögheimili sitt sjálfur til mín, þannig það er ekkert bogið við það að lögheimili sé flutt frá C, enda þegar B flytur lögheimili sit þá þarf að skrifa hvar hann bjó áður og þar skrifar hann F og núverandi búseta G.

Þannig með þessum rökstuðning mínum öllum hér fyrir ofan sé ég ekki nein rök fyrir því að Tryggingastofnun ætti að synja heimilisuppbót til mín þar sem hún hefur engin réttmæt rök né sönn rök. Og að mínu mati á ég rétt á því að Tryggingastofnun endurgreiða mér heimilisuppbótina frá 1. janúar síðastliðinum. ...“

 

Athugasemdir kæranda voru kynntar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi, dags. 18. apríl 2011. Viðbótargreinargerð, dags. 9. maí 2011, barst frá stofnuninni þar sem segir:

„Með ódagsettu bréfi sem úrskurðarnefnd barst 24. mars sl. gerði kærandi ýmsar athugasemdir við greinargerð Tryggingastofnunar.    Úrskurðarnefndin hefur nú sent Tryggingastofnun afrit af þessu bréfi kæranda til kynningar.

Tryggingastofnun hefur farið yfir þetta bréf kæranda og vill koma eftirfarandi atriðum á framfæri:

1.                   Það er rétt hjá kæranda að atvikum að lögheimilisbreytingu B er ekki rétt lýst í fyrri greinargerð Tryggingastofnunar og er beðist velvirðingar á því.  Samkvæmt upplýsingum frá ytra eftirliti TR var atburðarásin þessi:

a)                  Í nóvember 2010 barst Tryggingastofnun ábending um að kærandi væri ekki ein um heimilishald heldur væri með sambýling sem væri kærasti hennar og ætti hún því ekki rétt á heimilisuppbót skv. lögum. Slík uppbót er einungis ætluð þeim sem eru einir um heimilisrekstur.  Í framhaldi af þessu var Þjóðskrá sent bréf (sjá afrit) dags. 11. nóvember og hún beðin að taka lögheimilisskráningu kærasta kæranda til meðferðar, þ.e. B.

b)                 Í framhaldi af þessu sendi Þjóðskrá B erindi um hugsanlega ranga skráningu lögheimilis á tvö heimilisföng.  Annars vegar á heimilisfang kæranda þar sem hann var talinn búa samkvæmt ábendingu.  Hins vegar á lögheimili kærða að F.

c)                  Þar sem B andmælti ekki erindi Þjóðskrár flutti Þjóðskrá lögheimili hans til kæranda.  Í framhaldi af því stöðvaði umboð Tryggingastofnunar greiðslu heimilisuppbótar til kæranda.  Hún kærði síðan þá stöðvun til úrskurðarnefndar almannatrygginga.

d)                 Það var ekki fyrr en í febrúar 2011 sem B flytur lögheimili sitt að G  með gildistöku frá nóvember 2010.

e)                  Frá því að B flutti lögheimili sitt að G hefur kærandi ekki sótt að nýju um heimilisuppbót til Tryggingastofnunar.

Í bréfi Þjóðskrár var B gefinn frestur til andmæla.  Þar sem B hreyfði ekki andmælum flutti Þjóðskrá lögheimili hans.  Þjóðskrá er sjálfstæð ríkisstofnun sem tók sjálf ákvörðun um það í kjölfar ábendingar Tryggingastofnunar og eftir að hafa rannsakað málið að flytja lögheimili B.

Að öðru leyti áréttir Tryggingastofnun það sem fram kemur í fyrri greinargerð stofnunarinnar að ef kærandi telur sig uppfylla að nýju þau skilyrði að eiga rétt á heimilisuppbót þá er eðlilegast að hún sæki um slíkar bætur.“

 

Viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var kynnt kæranda með bréfi dags. 11. maí 2011. Með bréfi dags. 7. júní 2011 voru kæranda kynnt viðbótargögn frá Tryggingastofnun ríkisins. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslu heimilisuppbótar til kæranda vegna sambúðar hennar með B.

Í kæru greindi kærandi frá því að hún væri ekki í sambúð með B, hann sé hins vegar kærasti hennar en þau búi ekki saman. Í athugasemdum við greinargerð Tryggingastofnunar greindi kærandi frá því að B hafi ekki flutt lögheimili sitt sjálfur heldur hafi Tryggingastofnun gert það. Þá greindi kærandi frá því að B hafi búið í leiguhúsnæði að F en meðleigjandi hans hafi síðan flutt til Reykjavíkur. Hann hafi ekki haft efni á að leigja einn og því hafi hann flutt lögheimili sitt til föður síns að G. Þegar hann flutti þangað hafi hann hins vegar ekki flutt lögheimili sitt strax.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að atvikum að lögheimilisskráningu B hafi ekki verið rétt lýst í fyrri í greinargerð. Atburðarrásin hafi verið sú að í nóvember 2010 hafi Tryggingastofnun borist ábending um að kærandi væri ekki ein um heimilisrekstur heldur væri með sambýling sem væri kærasti hennar. Í kjölfarið hafi þjóðskrá sent B erindi um hugsanlega ranga skráningu lögheimilis á tvö heimilisföng. Annars vegar á heimili kæranda þar sem hann var talinn búa samkvæmt skráningu og hins vegar á lögheimili kærða að F. Þar sem B hafi ekki andmælt erindi Þjóðskrár hafi lögheimili hans verið flutt til kæranda. Í framhaldi af því hafi greiðslur heimilisuppbótar til kæranda verið stöðvaðar. Þjóðskrá sé sjálfstæð ríkisstofnun sem hafi tekið ákvörðun um það í kjölfar ábendingar Tryggingastofnunar og eftir að hafa rannsakað málið að flytja lögheimili B. 

Mál þetta lýtur að ágreiningi um hvort kærandi hafi uppfyllt skilyrði heimilisuppbótar. Í 8. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 er fjallað um heimilisuppbót þar sem segir:

„Heimilt er að greiða einhleypingi, sem nýtur óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað, að auki heimilisuppbót, 23.164 kr. á mánuði. Eigi viðkomandi rétt á skertri tekjutryggingu samkvæmt lögum um almannatryggingar skal lækka heimilisuppbótina eftir sömu reglum.

Samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði er réttur til heimilisuppbótar bundinn því skilyrði að bótaþegi sé einn um heimilisrekstur og njóti ekki fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Meta verður sjálfstætt í hverju tilviki að teknu tilliti til allra aðstæðna hvort viðkomandi njóti fjárhagslegs hagræðis af sambýli við aðra í skilningi reglna um heimilisuppbót.

Með bréfi dags. 30. desember 2010 var kæranda tilkynnt um ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um stöðvun á greiðslu heimilisuppbótar. Greiðslurnar voru stöðvaðar frá og með 1. janúar 2011. Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Eigi aðili máls rétt á að tjá sig um efni þess skv. 13. gr. skal stjórnvald, svo fljótt sem því verður við komið, vekja athygli aðila á því að mál hans sé til meðferðar, nema ljóst sé að hann hafi fengið vitneskju um það fyrir fram, sbr. 14. gr. sömu laga.

Samkvæmt gögnum málsins hafði Tryggingastofnun ríkisins fengið ábendingu um að kærandi væri í sambúð. Að frumkvæði stofnunarinnar var lögheimili þess aðila sem hún var talin í sambúð með kannað nánar með erindi til Þjóðskrár, dags. 11. nóvember 2010. Á meðan því ferli stóð var kærandi aldrei upplýst um að mál hennar væri til meðferðar hjá Tryggingastofnun ríkisins. Málið kom fyrst til vitundar kæranda þegar henni var tilkynnt með bréfi stofnunarinnar, dags. 30. desember 2010, um stöðvun greiðslu heimilisuppbótar tveimur dögum seinna eða 1. janúar 2011. Samkvæmt því átti kærandi ekki kost á að koma athugasemdum og sjónarmiðum sínum á framfæri við Tryggingastofnun áður en stofnunin tók ákvörðun í málinu. Er þessi málsmeðferð andstæð 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að Tryggingastofnun ríkisins hafi ekki gætt að 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga við meðferð máls kæranda.

Verður því ekki hjá því komist að fella ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins úr gildi.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslu heimilisuppbótar til A, frá 1. janúar 2011 er felld úr gildi.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Guðmundur Sigurðsson varaformaður




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta