Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 82/2011

Miðvikudaginn 2. nóvember 2011

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.

Með bréfi, dags. 22. febrúar 2011, kærir A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Tryggingastofnunar ríkisins um að greiða mæðralaun lengra aftur í tímann en tvö ár.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi sendi Tryggingastofnun ríkisins tölvupóst þann 12. janúar 2011 þar sem fram kom að hún hefði verið að fá upplýsingar um að hún hafi ekki fengið greidd mæðralaun síðan 1. desember 2005 en hún hafi talið að svo hafi verið. Hún hafi fengið upplýsingar um að þann 1. desember 2005 hafi átt að breyta greiðslum mæðralauna þar sem hún fengi aðeins greiðslur með tveimur börnum í stað þriggja en að allar greiðslur hafi hins vegar fallið niður. Með bréfi dags. 14. janúar 2011 tilkynnti Tryggingastofnun ríkisins kæranda um að stofnunin hefði samþykkt greiðslu mæðralauna afturvirkt frá 1. nóvember 2009. Í bréfinu kom fram að stofnuninni væri einungis heimilt að greiða bætur tvö ár aftur í tímann samkvæmt 53. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007.

 

Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga segir:

 „Þegar í ljós kom að ég hafði ekki fengið greidd mæðralaun eins og ég átti rétt á hafði ég samband við Tryggingastofnun ríkisins og óskaði eftir leiðréttingu.

Með bréfi Tryggingastofnunar dags. 14.1.2011 var mér tjáð að ég gæti fengið leiðréttingu 2 ár aftur í tímann þar sem ekki væri heimilt að endurgreiða bætur lengra en tvö ár aftur í tímann, og var vísað til 53. gr. laga um almannatryggingar.

Ég er ósátt við þessa niðurstöðu. Ég tel að 53. gr. eigi ekki við um mæðralaun enda eru það ekki bætur. Skv. 2. tl. 1. mgr. 3. gr. I. Nr. 112/2008 teljast bætur vera, bætur greiddar í peningum, svo sem dagpeningar, endurgreiðslur á útlögðum kostnaði, styrkir og aðrar greiðslur, og aðstoð til sjúkra og slasaðra sem veitt er á annan hátt samkvæmt lögum þessum.

Þar sem almannatryggingar eru ekki meðal þeirra bóta sem fjallað er um í 3. gr. hér að ofan tel ég að 53. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 eigi ekki við og því hafi Tryggingastofnun ekki verið heimilt að synja mér um endurgreiðslu.

Ég óska eftir að nefndin taki þetta til ákvörðunar. Þar sem ég er ekki löglærð óska ég þess að mér verði leiðbeint t.d. ef ég þarf að leita frekari gagna áður en málið verður tekið til ákvörðunar.

Félagslegar aðstæður mínar eru bágbornar. Ég er einstæð móðir með tvö börn á mínu framfæri og hef verið atvinnulaus síðan í ágúst 2009. Endurgreiðsla þeirra fjármuna sem ég átti rétt á skiptir máli fyrir börnin mín.“

 

Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi dags. 28. febrúar 2011. Greinargerð dags. 12. apríl 2011 barst frá stofnuninni þar sem segir:

 Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar um upphafstíma mæðralauna.

Málavextir eru þeir að með tölvupósti dags. 12. janúar 2011 óskaði kærandi eftir leiðréttingu á mæðralaunum aftur í tímann.  Greiðsla mæðralauna með þremur börnum hennar hafði stöðvast frá og með 1. desember 2005, þegar elsta barn hennar varð 18 ára, og hafði hún ekki fengið greidd mæðralaun frá þeim tíma.  Með bréfi dags. 14. janúar 2011 var samþykkt að greiða kæranda mæðralaun með tveimur börnum hennar frá og með 1. janúar 2009, eða tvö ár aftur í tímann eins og lög leyfa. 

Samkvæmt 2. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 er heimilt að greiða mæðra- og feðralaun til einstæðra foreldra sem hafa börn sín undir 18 ára aldri á framfæri og eru búsett hér á landi.  Í 1. gr. reglugerðar nr. 540/2002, um mæðra- og feðralaun, segir að skilyrði sé að foreldri hafi tvö eða fleiri börn yngri en 18 ára á framfæri sínu, og að börnin séu búsett hér á landi hjá foreldri samkvæmt lögmætri skipan.

Mæðra- og feðralaun er heimilt að greiða einstæðu foreldri sem hefur tvö eða fleiri börn á framfæri sínu.  Greidd er ákveðin fjárhæð með þremur börnum eða fleiri og önnur með tveimur börnum, þ.e. greidd er lægri fjárhæð með tveimur börnum en þremur börnum eða fleiri.

Á árinu 2005, þegar greiðslur stöðvuðust til kæranda, var verklagið þannig að sækja þurfti um greiðslu mæðralauna með tveimur börnum þegar eitt af þremur börnum varð 18 ára.  Greiðsla mæðralauna með þremur börnum stöðvaðist þegar elsta barnið varð 18 ára og sækja þurfti um greiðslu mæðralauna með yngri tveimur börnunum.  Um breytta fjárhæð var að ræða og því um nýja ákvörðun að ræða.

Í 52. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 (og þágildandi 47. gr. almannatryggingalaga nr. 117/1993) segir að sækja skuli um allar bætur frá Tryggingastofnun og þá segir í 2. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar (og þágildandi 2. mgr. 48. gr. laga nr. 117/1993) að bætur skuli aldrei ákvarða lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn berst.  Með vísan til 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda þessi ákvæði almannatryggingalaga, nú og þá, einnig um greiðslu mæðralauna frá Tryggingastofnun samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.

Þá segir einnig í 52. gr. almannatryggingalaga (og þágildandi 47. gr. laga nr. 117/1993) að bótaþegum sé skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á aðstæðum sínum sem geta haft áhrif á greiðslur.  Einstaklingum ber því að fylgjast með þeim greiðslum sem þeir þiggja frá Tryggingastofnun.

Kærandi óskaði ekki eftir leiðréttingu á greiðslu mæðralauna til sín fyrr en rúmum fimm árum eftir að þær greiðslur stöðvuðust til hennar.  Með vísan til ofangreindra lagaákvæða og klárlegs tómlætis kæranda telur Tryggingastofnun ekki ástæðu til þess að breyta ákvörðun sinni.

 

Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var send kæranda til kynningar með bréfi dags. 2. maí 2011 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Svohljóðandi athugasemdir dags. 10. maí 2011 bárust frá kæranda:

„Það er ágreiningslaust að ég fékk ekki greidd mæðralaun fyrir tímabilið 01. desember 2005 til 14.janúar 2011.

Ég tel að greinargerðin svari því ekki af hverju ég fæ ekki endurgreitt lengra en 2 ár aftur í tímann.

þá tel ég að greinargerðin færi ekki rök fyrir því að 53. gr. sem fjallar um bætur eigi ekki við um mæðralaun.

Mæðralaun eru ekki bætur heldur laun sem ríkið greiðir til mæðra.Ég tel að ekki sé heimilt að synja um greiðslu lengra en 2 ár aftur í tímann það sem styður að mæðralaun eru laun en ekki bætur sem 53.gr. telur til m.a. að ég greiði fullan skatt af þessu eins og af öðrum launum.Tryggingastofnun var með skattkortið mitt og gat því nýtt það að fullu.

þá mótmæli ég því að hér sé um tómlætisáhrif að ræða enda hefur verið viðurkennt að ég fékk greitt 2 ár aftur í tímann,en þá áttu tómlætisáhrif ekki við.

þá vil ég ítreka það að aðstæður mínar eru bágbornar og endurgreiðsla þeirra fjármuna sem ég átti rétt á skipta miklu máli fyrir börnin mín.“

 

Athugasemdir kæranda voru kynntar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi dags. 11. maí 2011. Viðbótargreinargerð dags. 26. maí 2011 barst frá stofnuninni þann 30. maí 2011 þar sem fram kom að athugasemdir kæranda gæfu ekki tilefni til breytinga á ákvörðun stofnunarinnar. Greinargerðin var kynnt kæranda með bréfi dags. 30. maí 2011. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar ágreining um hversu langt aftur í tímann Tryggingastofnun ríkisins eigi að greiða kæranda mæðralaun. Greiðslur mæðralauna til kæranda stöðvuðust þann 1. desember 2005 þar sem elsta barn af þremur börnum hennar hafði náð 18 ára aldri og fer kærandi fram á leiðréttingu á greiðslum frá þeim tíma með tveimur yngri börnum sínum. Tryggingastofnun ríkisins samþykkti að greiða kæranda mæðralaun tvö ár aftur í tímann eða frá 1. janúar 2009.

Í kæru til úrskurðarnefndar greindi kærandi frá því að hún teldi að 53. gr. laga um almannatryggingar ætti ekki við um mæðralaun enda séu það ekki bætur. Samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 112/2008 teljist bætur vera, bætur greiddar í peningum, svo sem dagpeningar, endurgreiðslur á útlögðum kostnaði, styrkir og aðrar greiðslur, og aðstoð til sjúkra og slasaðra sem veitt sé á annan hátt samkvæmt lögunum. Þá greindi kærandi frá því að félagslegar aðstæður sínar séu bágbornar. Hún sé einstæð móðir með tvö börn á sínu framfæri og að hún hafi verið atvinnulaus síðan í ágúst 2009. Þá segir að endurgreiðsla þeirra fjármuna sem hún eigi rétt á skipti máli fyrir börn hennar.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að á árinu 2005, þegar greiðslur hafi stöðvast til kæranda, hafi verklagið verið þannig að sækja hafi þurft um greiðslu mæðralauna með tveimur börnum þegar eitt af þremur börnum hafi orðið 18 ára. Greiðsla mæðralauna með þremur börnum hafi stöðvast þegar elsta barnið hafi orðið 18 ára og sækja hafi þurft um greiðslu mæðralauna með tveimur yngri börnunum. Um breytta fjárhæð hafi verið að ræða og því hafi verið um nýja ákvörðun að ræða. Þá var vísað til 53. gr. laga um almannatryggingar þar sem kveðið sé á um að ekki sé heimilt að ákvarða bætur lengur aftur í tímann en tvö ár. Einnig var vísað til 52. gr. laga um almannatryggingar þar sem fram komi að bótaþegum sé skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingum á aðstæðum sínum sem geti haft áhrif á greiðslur. Einstaklingum beri því að fylgjast með þeim greiðslum sem þeir þiggi frá Tryggingastofnun.

Ágreiningur málsins lýtur að stöðvun Tryggingastofnunar ríkisins á greiðslu mæðralauna til kæranda frá 1. desember 2005. Ástæða þess að greiðslurnar stöðvuðust frá þeim tíma eru verklagsreglur sem Tryggingastofnun ríkisins vann eftir á þeim tíma. Kærandi var einstæð móðir með þrjú börn undir 18 ára aldri á framfæri. Þegar elsta barnið náði 18 ára aldri hefði kærandi, samkvæmt verklagsreglunum, þurft að sækja aftur um greiðslu mæðralauna vegna tveggja yngri barna sinna. Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að greidd hafi verið ákveðin fjárhæð með þremur börnum og önnur með tveimur börnum. Þar sem um breytta fjárhæð hafi verið að ræða hafi verið um nýja ákvörðun að ræða.

Fjallað var um mæðra- og feðralaun í 2. gr. þágildandi laga um félagslega aðstoð nr. 118/1993. Í 1. mgr. nefndar 2. gr. segir m.a.:

 „Heimilt er að greiða mæðra- og feðralaun til einstæðra foreldra sem hafa börn sín undir 18 ára aldri á framfæri og eru búsett hér á landi. Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um greiðslu mæðra- og feðralauna.

Reglugerð nr. 540/2002, um mæðra- og feðralaun, hefur verið sett með stoð í tilvitnuðu lagaákvæði og er hún enn í gildi. Þá segir í 2. mgr. nefndrar 2. gr.:

 „Árleg mæðra- og feðralaun skulu vera sem hér segir:

Með tveimur börnum                      37.728 kr.

Með þremur börnum eða fleiri        98.088 kr.

Ákvæðið er óbreytt í 2. gr. núgilandi laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 nema hvað varðar fjárhæð bótanna. Samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði er heimilt að greiða mæðra- og feðralaun hafi umsækjandi tvö eða fleiri börn undir 18 ára aldri á framfæri að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Þegar kærandi lagði inn umsókn um mæðralaun til Tryggingastofnunar ríkisins hafði hún þrjú börn undir 18 ára aldri á framfæri. Frá og með 1. desember 2005 átti hún rétt til mæðralauna með tveimur börnum undir 18 ára aldri sem þýðir að þrátt fyrir að elsta barnið hafi náð 18 ára aldri uppfyllti kærandi áfram lagaskilyrði fyrir greiðslu mæðralauna þar sem hún hafði áfram tvö börn undir 18 ára aldri á framfæri. Að mati úrskurðarnefndar almannatrygginga áttu verklagsreglur þær sem Tryggingastofnun ríkisins fór eftir þegar greiðslur til kæranda voru stöðvaðar árið 2005 sér hvorki stoð í lögum um félagslega aðstoð nr. 118/1993 né reglugerð nr. 540/2002. Kærandi var með gilda umsókn um mæðralaun hjá Tryggingastofnun ríkisins þegar stofnunin stöðvaði greiðslurnar. Þá lítur úrskurðarnefndin til þess að í 4. mgr. 47. gr. gildandi laga um almannatryggingar nr. 117/1993 segir:

 „Starfsfólk Tryggingastofnunar og umboðsmenn hennar skulu kynna sér til hlítar aðstæður umsækjenda og bótaþega og gera þeim grein fyrir ýtrasta rétti þeirra samkvæmt lögum þessum, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar.  

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslu mæðralauna til kæranda þann 1. desember árið 2005 á þeirri forsendu að hún hefði þurft að leggja inn nýja umsókn um mæðralaun hafnað.

Lögmæt ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu mæðralauna til kæranda lá fyrir þegar greiðslur voru stöðvaðar til kæranda.  Lögmætar greiðslur til kæranda voru stöðvaðar með ólögmætum hætti. Þegar þannig háttar telur úrskurðarnefndin að ákvæði 53. gr. laga um almannatryggingar eigi ekki við.

Málinu er heimvísað til Tryggastofnunar til ákvörðunar á frekari greiðslum mæðralauna til kæranda að öðrum skilyrðum uppfylltum.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur mæðralauna til A, frá 1. desember 2005 er hrundið. Málinu er vísað aftur til Tryggingastofnunar til fyllri meðferðar.

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson formaður




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta