Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 329/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 329/2019

Þriðjudaginn 29. október 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 15. ágúst 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 4. júní 2019 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 23. mars 2019. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 4. júní 2019, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að skilyrði staðals væru ekki uppfyllt. Farið var fram á rökstuðning fyrir ákvörðuninni með tölvupósti 24. júní 2019 og var umbeðinn rökstuðningur veittur með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 25. júní 2019.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. ágúst 2019. Með bréfi, dags. 19. ágúst 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 5. september 2019, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. september 2019. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja honum um örorkulífeyri og tengdar greiðslur verði endurskoðuð.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi verið óvinnufær á tímabilum vegna þunglyndis og kvíða og þá sé hann einnig með sykursýki. Þegar kærandi hafi hitt tryggingalækni hafði hann verið óvenju góður í nokkrar vikur eftir langvarandi tímabil þunglyndis. Stundum hafi kærandi unnið meira en hann hafi ráðið við og svo dottið niður í veikindi.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kært sé örorkumat stofnunarinnar þar sem kæranda hafi verið synjað um örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar og einnig um örorkustyrk samkvæmt 19. gr. sömu laga.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Kærandi hafi sótt um örorkumat með umsókn, dags. 23. mars 2019, og mat hafi farið fram þann 4. júní 2019 í kjölfar skoðunar hjá tryggingalækni stofnunarinnar, dags. X 2019. Niðurstaða örorkumatsins hafi verið sú að synja kæranda um örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar og um örorkustyrk samkvæmt 19. gr. sömu laga.

Við mat á örorku styðjist tryggingalæknir við þau gögn sem liggi fyrir. Við örorkumatið hafi legið fyrir læknisvottorð B, dags. X 2019, svör við spurningalista vegna færniskerðingar, dags. X, umsókn, dags. 23. mars 2019, ásamt skoðunarskýrslu, dags. X 2019.

Við matið sé stuðst við staðal Tryggingastofnunar en honum sé skipt í tvo hluta, líkamlegan og andlegan. Til þess að standast efsta stig örorku samkvæmt staðli þurfi umsækjandi að fá 15 stig í líkamlega hlutanum eða 10 stig í þeim andlega, þó nægi að umsækjandi fái sex stig í hvorum hluta fyrir sig.

Í gögnum málsins komi meðal annars fram að kærandi hafi ungur greinst með sykursýki (E10,8) og hafi verið á insúlínmeðferð lengi. Sykurstjórnun hafi lengi gengið illa hjá honum en þokkalega hin síðari ár. Þá sé kærandi með sögu um erfiða geðröskun (F33,0) og kvíða (F41,1). Einnig komi fram að kærandi hafi átt erfitt uppdráttar félagslega sem lýsi sér í að hafa átt í erfiðleikum með félagsleg samskipti og í þráhyggjueinkennum. Kærandi eigi að baki innlagnir á geðdeild og hafi gert X tilraunir til sjálfsvígs. Við skoðun hjá skoðunarlækni hafi kærandi lýst eigin líðan sem sveiflukenndri og að stutt sé í vonleysi og uppgjöf hjá honum. Hann þoli illa mótlæti en hafi verið góður undanfarnar X vikur en segi að það geti syrt í álinn en hann sé þó búinn að læra að takast á við það og að honum líði betur á breyttum lyfjum. Fram komi að kærandi sé í reglulegu eftirliti hjá geðlækni og að hann sé á lyfjameðferð. Þá segi að kærandi hafi verið að mestu leyti líkamlega hraustur en hafi þó haft einhver verkjavandamál í fótum sem rekja megi til sykursýkinnar. Kærandi lýsi þeim einkennum sem krömpum eða seyðingsóþægindum, aðallega í lærum og kálfum, sem geti truflað hann við langar stöður og við gang. Atvinnusaga kæranda felist í því að hafa lært […] og starfað við hana með hléum vegna veikinda. Í dag sé hann í fullu starfi sem […] hjá […].

Skilyrði staðals um örorkulífeyri eða um örorkustyrk hafi ekki verið talin uppfyllt við mat á örorku þann 4. júní 2019 sem fram hafi farið í kjölfar skoðunar hjá skoðunarlækni þann X 2019. Við skoðunina hafi kærandi fengið þrjú stig í líkamlega hlutanum og fimm stig í þeim andlega. Færni til almennra starfa hafi talist eitthvað skert en þó ekki að hálfu leyti eins og tekið hafi verið fram í rökstuðningsbréfi stofnunarinnar, dags. 25. júní 2019.

Farið hafi verið að nýju yfir gögn málsins í kjölfar kæru. Sérstaklega hafi verið farið yfir hvort niðurstaða skoðunarskýrslu væri í samræmi við önnur gögn málsins. Að þessum gögnum virtum telji stofnunin ekki að um ósamræmi sé að ræða.

Rétt sé þó að hafa í huga að í skoðunarskýrslu séu svör kæranda og aðrar upplýsingar í málinu metnar af skoðunarlækninum. Í þessu tilfelli megi benda á að það sé mat skoðunarlæknis að líkamleg einkenni kæranda gefi þrjú stig samkvæmt matsstaðli vegna þess að kærandi geti ekki staðið nema í 30 mínútur án þess að ganga um.

Í andlega hluta skoðunarinnar hafi kærandi fengið tvö stig í 1. kafla „samskipti við aðra“ vegna þess að geðræn vandamál valdi honum erfiðleikum í samskiptum við aðra. Þá hafi hann fengið önnur tvö stig í 2. kafla skoðunarinnar „álagsþol“ þar sem andlegt álag eða streita hafi á tímabili átt þátt í því að kærandi hafi lagt niður starf. Að lokum hafi kærandi fengið eitt stig til viðbótar í 3. kafla „daglegt líf“ vegna þess að geðsveiflur valdi honum óþægindum einhvern hluta dagsins vegna kvíða og þunglyndis. Samanlagður stigafjöldi í andlega hluta matsins hafi því verið fimm stig.

Í ljósi alls framangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðsla á umsókn kæranda, þ.e. að synja um örorkulífeyri og um örorkustyrk hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu. Í því samhengi sé einnig tekið fram að kærandi málsins sé í fullri vinnu sem smiður og hafi verið undanfarin ár með hléum. Jafnframt skuli áréttað að ákvörðunin, sem kærð hafi verið í þessu máli, hafi byggst á faglegum sjónarmiðum og gildandi lögum og reglugerðum.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 4. júní 2019 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar eða eftir atvikum örorkustyrk samkvæmt 19. gr. sömu laga.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki nái hann að minnsta kosti sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð B, dags. X 2019. Þar eru tilgreindar eftirfarandi sjúkdómsgreiningar:

„Endurtekin geðlægðarröskun, yfirstandandi lota væg

Almenn kvíðaröskun

Insúlínháð sykursýki með ótilgreindum fylgikvillum“

Þá segir í vottorðinu um fyrra heilsufar kæranda:

„Undirritaður vísar til fyrri læknisvottorða vegna umsókna um örorku sem heimilislæknar sjúklings skrifuðu á sínum tíma þ.e. X, C og X, D. Þegar kom að endurnýjun á örorku síðast hafði [kærandi] ekki aðgengilegan heimilislækni, bjó á þessum tíma í E þannig að ekki varð úr endurnýjun.

[…] Í vottorði C kemur fram að hann fái toppa og sykurfall á víxl og þetta hefur haft mikil áhrif á þrek og líðan. […] Í vottorði D frá X kemur fram að langtímasykur sé 9,7. […]

[Kærandi] hefur glímt við alvarlegar geðraskanir. Hann hefur í grunninn kvíðaröskun, upplifað endurtekin geðlægðartímabil og á hann orðið X innlagnir vegna geðlægðar og sjálfsvígshættu. Í tengslum við geðlægðir hefur borið á aðsóknarranghugmyndum sem ekki hafa sést að öðru leyti hjá honum. Hann hefur sögur um alvarlegar sjálfsvígstilraunir og innlagnir haf gerst í tengslum við sjálfsvígstilraunir. […]“

Um sjúkrasögu segir í vottorðinu:

„[…] [Kærandi] er í umfangsmikilli meðferð og hefur verið til langs tíma. Honum er fylgt þétt eftir hér á F, á innlagnir, verið í viðtölum, fengið lyfjameðferð, tekið þátt í hópmeðferðum. Jafnframt hefur hann til langs tíma verið í þéttu eftirliti við göngudeild sykursýkis hér við F. Vandi [kæranda] hefur verið meira og minna alla tíð og undirritaður sér ekki hvernig önnur meðferð eða endurhæfing en sú sem á sér stað núna mun breyta því. Að mati undirritaðs er aðalmálið að reyna að draga úr því álagi sem [kærandi] býr við.“

Samkvæmt vottorðinu er kærandi óvinnufær að hluta og það er mat B að búast megi við að færni hans muni mögulega aukist með tímanum. Þá er eftirfarandi skráð í athugasemdum:

„Sjúklingur glímir við erfiðar líkamlegar og geðrænar raskanir. Vegna þeirra nær hann ekki að sinna bæði starfi á almennum vinnumarkaði og sinni heilsu á fullnægjandi hátt. Blóðsykursstjórnun verið algjörlega óviðunandi til langs tíma og bara tímaspursmál hvernig complicationir fari að gera vart við sig. Þrálátur kvíði gerir honum erfitt fyrir með að ráða fram úr einfaldari hlutum daglegs lífs og grunnt á sjálfsvígshugsunum og þunglyndistímabilum secundert. […] [Að] mati undirritaðs er sjálfsvígshætta viðvarandi. Vegna þessa er hann í þéttu eftirlit á F.“

Í málinu liggja einnig fyrir eldri læknisvottorð D, C og B vegna eldri umsókna kæranda um örorku.

Með kæru fylgdi læknisvottorð B, dags. 11. júlí 2019, þar sem segir meðal annars:

„Geðrænt ástand kemur iðulega í veg fyrir að hann sinni sínum áhugamálum og þegar margt liggur fyrir getur honum fallist hendur þannig að hann sitji tímunum saman án þess að gera nokkuð.

Það er iðulega hræðsla án augljósrar ástæðu og það er stutt í vonleysi og uppgjöf þegar á móti blæs og þá gjarnan spretta upp sjálfsvígshuganir. Einfaldari verkefni valda honum iðulega miklum kvíða sem getur valdið því að honum fallist hendur og forðist þau, finni fyrir uppgjöf og þá gjarnan dauðahugsanir. Hann er hæddur við versnanir og sjálfsvígshugsanir, eins og lýst í læknisvottorði áráttukennd hegðun sem veldur því að breytinga geta reynst honum erfiðar.

Það er klár samskiptavandi, hefur klár félagskvíðaeinkenni sem slá yfir í aðsóknarkennd. Á mannamótum upplifir hann sig iðulega einmana, getur dregið sig til hlés þar sem hann upplifir að fólki líki ekki við hann eða sé illa við hann. Þetta eru dæmigerðar aðstæður þar sem sjálfsvígshugsanir get sprottið upp. Því klárlega erfiðleikar í tjá -  og samskiptum við aðra. Það er ekki hægt að segja hvort hann ergir sig yfir því sem ekki angraði hann fyrir veikindin þar sem þetta ástand hefur fylgt honum meira og minna alla tíð.

Það er samdóma álit þeirra meðferðar aðila sem hafa komið að meðferð [kæranda], bæði á legudeild og göngudeild F að [kærandi] er samviskusamur og er virkilega að reyna sitt besta. Hann hefur skilning á því að það er mikilvægt fyrir hann að halda í virkni og óvirkni með meðfylgjandi félagslegri einangrun er líkleg til að gera ástand hans verra. Undirritaður fer hér með fram á að fyrri úrskurður um örorkumat verði endurskoðaður.“

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína. Í stuttri lýsingu á heilsuvanda segir kærandi að hann sé með sykursýki, tegund 1, auk geðrænna vandamála, kvíða og þunglyndis. Kærandi svarar spurningu um hvort hann eigi erfitt með að standa þannig að hann verki í fótleggina og hnén til lengri tíma. Þá svarar kærandi spurningu um það hvort hann hafi átt við geðræn vandamál að stríða játandi, um sé að ræða þunglyndi. Hann kvíði fyrir litlum hlutum, mæti stundum ekki í vinnu. Þunglyndið hafi einnig plagað hann. Þann X hafi hann reynt að […] en verið bjargað.

Skýrsla G skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hann að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins X 2019. Samkvæmt skýrslunni metur skoðunarlæknir líkamlega færniskerðingu kæranda þannig að kærandi geti ekki staðið nema í 30 mínútur án þess að ganga um. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við líkamlega færniskerðingu. Samkvæmt skýrslunni metur skoðunarlæknir andlega færniskerðingu kæranda þannig að geðræn vandamál valdi honum erfiðleikum í tjáskiptum við aðra. Andlegt álag hafi átt þátt í að kærandi hafi lagt niður starf og geðsveiflur valdi honum óþægindum einhvern hluta dagsins. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu.

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun kæranda þannig í skýrslu sinni:

„Framkvæmir allt sem um er beðið. Kvartar um í fótum við að beygja sig og bogra. Væg þreifieymsli í kálfum. Annað eðlilegt.“

Atferli í viðtali er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Gefur góða sögu. Grunn stemning telst eðlileg. Ekki áberandi kvíðaeinkenni. Gott augnsamband. Eðlilegur hugarhraði. Eðlileg raunveruleikatengsl. Ekki sjálfsvígshugsanir.“

Heilsufars- og sjúkrasögu kæranda er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Fram kemur að [kærandi] greindist ungur með sykursýki og hefur verið á insúlínmeðferð lengi. Sykurstjórnun lengi gengið illa en þokkalega á seinni árum þá er hann með sögu um erfiða geðröskun, kvíða, átti erfitt uppdráttar félagslega og hefur átt í erfiðleikum með félagsleg samskipti og þráhyggjueinkenni. Á að baki sér fleiri innlagnir á geðdeild. Hefur gert alvarlegar sjálfsvígstilraunir, […] Segist líða betur á breyttum lyfjum. Lýsir líðan sinni nú sem sveiflukenndri, stutt í vonleysi og uppgjöf. Þolir illa mótlæti, hefur verið góður undanfarnar X vikur en segir að það geti syrt í álinn en hann sé þó búinn að læra að takast á við það. Hefur farið i HAM-meðferð og leitað til geðdeildar ef að hann finnur að honum er farið að líða illa. Er í reglulegu eftirliti hjá geðlækni og á lyfjameðferð. […]“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, metur örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu er líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, sú að hann getur ekki staðið nema í 30 mínútur án þess að ganga um og gefur slíkt þrjú stig samkvæmt staðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því líkamleg færniskerðing kæranda metin til þriggja stiga. Hvað varðar andlega færniskerðingu telur skoðunarlæknir að geðræn vandamál valdi kæranda erfiðleikum í tjáskiptum við aðra. Slíkt gefur tvö stig samkvæmt staðli. Skoðunarlæknir metur það svo að andlegt álag hafi átt þátt í að kærandi lagði niður starf. Slíkt gefur tvö stig samkvæmt staðli. Skoðunarlæknir metur það svo að geðsveiflur valdi kæranda óþægindum einhvern hluta dagsins. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt staðli. Á grundvelli skoðunarskýrslu er því andleg færniskerðing kæranda metin til fimm stiga samtals.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. laga  um almannatryggingar mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefnd velferðarmála leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Við það mat skiptir máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfir nefndin til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst er í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að mikils misræmis gæti í gögnum málsins varðandi mat á andlegri færni kæranda.

Eins og fram er komið er líkamleg færniskerðing kæranda metin til þriggja stiga og andleg færniskerðing til fimm stiga samkvæmt skoðunarskýrslu. Í læknisvottorði B , dags. X 2019, sem gefið var út eftir örorkumat kæranda, er farið nokkuð ítarlega yfir andlega færniskerðingu kæranda og ber henni ekki saman við skoðunarskýrslu sem unnin var á grundvelli eldra vottorðs. Tryggingastofnun tekur í greinargerð sinni enga afstöðu til þessa nýja vottorðs.

Við samanburð á skoðunarskýrslu og framangreindu læknisvottorði kemur meðal annars fram í vottorðinu að geðrænt ástand kæranda komi iðulega í veg fyrir að hann sinni áhugamálum sínum. Aftur á móti metur skoðunarlæknir það svo að geðrænt ástand kæranda komi ekki í veg fyrir að hann sinni áhugamálum sínum sem hann naut áður með þeim rökstuðningi að niðurstaðan sé byggð á viðtali og að kærandi sé að gera upp gamlan bíl. Í læknisvottorðinu segir að kærandi hræðist auðveldlega án augljósrar ástæðu. Aftur á móti metur skoðunarlæknir það svo að kærandi sé ekki oft hræddur eða felmtraður án tilefnis með þeim rökstuðningi að það hafi ekki gerst án tilefnis. Í læknisvottorðinu kemur fram að það sé stutt í vonleysi og uppgjöf hjá kæranda þegar á móti blási og að þá spretti upp sjálfsvígshugsanir. Aftur á móti metur skoðunarlæknir það svo að kæranda sé annt um útlit og aðbúnað sinn í lífinu með þeim rökstuðningi að hann gæti að þessum hlutum og sé snyrtilegur til fara. Í læknisvottorðinu segir að einfaldari verkefni valdi kæranda iðulega miklum kvíða sem geti valdið því að honum fallist hendur og að hann forðist þau. Aftur á móti metur skoðunarlæknir það svo að kærandi forðist ekki hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi með þeim rökstuðningi að kærandi kannist ekki við það. Í læknisvottorði segir að þegar margt liggi fyrir geti kæranda fallist hendur þannig að hann sitji tímunum saman án þess að gera nokkuð. Aftur á móti metur skoðunarlæknir það svo að kærandi sitji ekki oft aðgerðarlaus tímunum saman.

Úrskurðarnefndin telur að fyrirliggjandi gögn gefi til kynna að skerðing á andlegri færni kæranda sé meiri en fram kemur í mati skoðunarlæknis. Eins og áður hefur komið fram hefur Tryggingastofnun ekki tekið afstöðu til þess sem misræmið lýtur að í greinargerð sinni. Ef fallist yrði á að geðrænt ástand kæranda komi í veg fyrir að hann sinni fyrri áhugamálum sínum, að kærandi sé oft hræddur eða felmtraður án augljósrar ástæðu, að kæranda sé ekki annt um útlit sitt og aðbúnað í lífinu, að kærandi forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi og að hann sitji oft tímum saman án þess að gera nokkuð þá fengi kærandi sjö stig til viðbótar samkvæmt staðli. Kærandi gæti því fengið samtals tólf stig vegna andlegrar færniskerðingar og uppfyllt þannig læknisfræðileg skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris.

Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að misræmi er á milli skoðunarskýrslu og annarra gagna sem fyrir liggja varðandi mat á andlegri færni kæranda. Í ljósi þess er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki verði hjá því komist að nýtt mat fari fram á örorku kæranda. Er æskilegt að í örorkumatinu verði tekin rökstudd afstaða til þess sem misræmið lýtur að. Hafa ber í huga að miklir hagsmunir eru því tengdir fyrir kæranda hvort hann uppfylli skilyrði örorkulífeyris.

Að framangreindu virtu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að ekki verði hjá því komist að fella ákvörðun Tryggingastofnunar úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og örorkustyrk, er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta