Mál nr. 181/2010
Miðvikudagurinn 8. desember 2010
181/2010
AgegnTryggingastofnun ríkisins
Ú r s k u r ð u r
Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.
Með kæru, dags. 8. apríl 2010, kærir A synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn um umönnunarbætur tvö ár aftur í tímann vegna umönnunar föður síns.
Óskað er endurskoðunar.
Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi sótti um umönnunarbætur vegna föður síns þann 11. febrúar 2010. Tryggingastofnun ríkisins samþykkti umsóknina með bréfi dags. 5. mars 2010. Stofnunin synjaði hins vegar beiðni kæranda um afturvirkar umönnunargreiðslur á þeirri forsendu að umönnunarbætur væru ákvarðaðar frá þeim tíma sem umsókn og fylgigögn berast stofnuninni.
Í rökstuðningi fyrir kæru segir meðal annars:
„Hér með leyfi ég mér undirrituð að mótmæla þeirri ákvörðun Tryggingastofnun Ríkisins, að greiða mér ekki þessi tvö ár, sem leyfilegt er að sækja um, aftur í tímann, fyrir umönnun föður míns. Ég hef annast hann af kostgæfni s.l. fimm ár, en þá flutti hann á heimili mitt vegna þess að hann gat ekki búið einn og hugsað um sig sjálfur. Eins og sjá má á meðfylgjandi læknisvottorði þarf hann og hefur þurft heilmikla umönnun frá því hann kom og ekki fer honum fram. Ég hef ekki treyst mér í þessi fimm ár að vinna nema hámark 60% vinnu sem sjúkraliði vegna umönnunar hans og hefði þó ekki veitt af eins og tímar eru núna. Ég vil einnig taka það skýrt fram að hvorki mér né föður mínum hefur nokkurn tímann verið tjáð að við gætum sótt um margumræddar umönnunarbætur. Að lokum vil ég minn á sparnað ríkisins með því að börn reyni að hugsa um og annast aldraða foreldra sína sjálf og ætti kannski að hvetja til þess. “
Úrskurðarnefndin óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi dags. 19. apríl 2010. Greinargerðin er dags. 26. maí 2010. Þar segir m.a.:
„ Í 5. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, er til staðar heimild til greiðslu maka- og umönnunarbóta, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Þar kemur fram að heimilt sé, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að greiða maka elli- eða örorkulífeyrisþega makabætur sem eru allt að 80% af grunnlífeyri og tekjutryggingu almannatrygginga. Jafnframt er heimilt, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að greiða öðrum sem halda heimili með elli- eða örorkulífeyrisþega umönnunarbætur. Þá kemur þar fram að ráðherra setji nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur sett reglur nr. 407/2002 um framkvæmd 5. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 1. gr. reglnanna er kveðið á um það, líkt og í lagaákvæðinu, að heimilt sé, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að greiða öðrum sem halda heimili með elli- eða örorkulífeyrisþega umönnunarbætur sem eru allt að 80% af grunnlífeyri og tekjutryggingu almannatrygginga.
Þá kemur fram í 2. gr. reglnanna að heimilt sé að greiða maka- eða umönnunarbætur, sbr. 1. gr., ef sýnt er fram á tekjuleysi eða tekjutap umsækjanda. Í 3. gr. reglnanna er kveðið á um að leggja þurfi fram staðfestingu á tekjuleysi eða tekjutapi umsækjandans eða lífeyrisþegans sem er verið að annast.
Málavextir eru þeir að í framhaldi af umsókn kæranda um umönnunarbætur dags. 11. febrúar 2010 voru samþykktar umönnunarbætur til kæranda frá 01.02.2010 til 31.07.2010 en kæranda synjað um afturvirkar greiðslur, sbr. bréf Tryggingastofnunar til kæranda dags. 5. mars og 19. mars 2010.
Í kæru kemur fram að faðir kæranda hafi búið hjá henni síðastliðin fimm ár. Hún geti ekki og hafi ekki getað unnið fulla vinnu vegna umönnunar hans, hún vinni nú sem sjúkraliði í 60% starfi.
Þar sem 5. gr. laga um félagslega aðstoð er heimildarákvæði hefur Tryggingastofnun sett sér ákveðnar viðmiðanir við ákvörðun um greiðslu maka- og umönnunarbóta. Tryggingastofnun lítur svo á að maka- og umönnunarbótum sé fyrst og fremst ætlað að bæta tekjumissi vegna lækkaðs starfshlutfalls umönnunaraðila þegar lífeyrisþegi þarf umönnun við athafnir daglegs lífs. Þær byggja á réttindum þegar umsókn er lögð fram og eru ákvarðaðar frá því að umsókn og fylgigögn berast. Þær eru ekki ákvarðaðar aftur í tímann nema í þeim tilvikum sem um skyndileg og alvarleg veikindi er að ræða sem ekki var um að ræða í tilviki kæranda.
Tryggingastofnun telur því að ekki hafi verið heimilt að samþykkja umönnunarbætur aftur í tímann til kæranda og telur ekki ástæðu til þess að breyta þeirri ákvörðun sinni. “
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi dags. 27. maí 2010 og henni gefin kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt barst ekki.
Niðurstaða úrskurðarnefndar:
Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni um greiðslu umönnunarbóta vegna föður kæranda tvö ár aftur í tímann.
Í rökstuðningi fyrir kæru til úrskurðarnefndar vísar kærandi til þess að hún hafi verið grandlaus um rétt sinn til umönnunarbóta og þar af leiðandi hafi hún ekki sótt um bæturnar fyrr. Kærandi hafi aðeins unnið 60% starf vegna umönnunar föður síns síðastliðin fimm ár.
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var greint frá því að stofnunin telji að heimildir standi ekki til að greiða kæranda umönnunarbætur tvö ár aftur í tímann. Slíkar bætur séu ekki ákvarðaðar aftur í tímann nema í tilvikum þar sem skyndileg eða alvarleg veikindi hafi komið upp. Um slíkt sé ekki að ræða í tilfelli kæranda.
Samkvæmt 5. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 er heimilt að greiða maka elli- eða örorkulífeyrisþega eða öðrum sem halda með þeim heimili umönnunarbætur þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur sett reglur nr. 407/2002 um maka og umönnunarbætur þar að lútandi.
Samkvæmt 7. gr. reglna nr. 407/2002 skal sækja um umönnunarbætur hjá Tryggingastofnun ríkisins og skulu umsóknir vera á eyðublöðum stofnunarinnar eða með rafrænum hætti á þar til gerðum eyðublöðum.
Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi fyrst um umönnunarbætur með umsókn dags. 11. febrúar 2010. Tryggingastofnun ríkisins samþykkti umsóknina frá fyrsta degi þess mánaðar sem umsóknin barst. Í umsókninni fór kærandi einnig fram á greiðslur tvö ár aftur í tímann en þeirri beiðni var synjað. Fram að þeim tíma sem kærandi lagði inn umrædda umsókn hafði málið ekki verið til meðferðar hjá Tryggingastofnun ríkisins.
Samkvæmt 14. gr. laga um félagslega aðstoð skulu ákvæði laga um almannatryggingar gilda um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Í 53 gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 segir í 1. mgr. að bætur skuli reiknaðar frá þeim degi sem umsækjandi hefur uppfyllt skilyrði til bótanna. Í 2. mgr. nefndrar 53. gr. er heimild til að úrskurða bætur aftur í tímann, þó aldrei lengra en tvö ár. Meginreglan er sú að bætur reiknist frá þeim degi er umsækjandi uppfyllir bótaskilyrði, sbr. 1. mgr. 52. gr. almannatryggingalaga. Í öllum tilvikum verður umsækjandi að skila inn viðeigandi umsókn til Tryggingastofnunar ríkisins. Í lögum um félagslega aðstoð er fjallað um umönnunarbætur í 5. gr. Greinin felur í sér heimildarákvæði og hefur Tryggingastofnun sett sér ákveðnar viðmiðanir við ákvörðun umönnunarbóta. Þær viðmiðanir byggja m.a á réttindum þegar umsókn er lögð fram og eru almennt ákvarðaðar frá þeim tíma sem umsókn er lögð fram.
Í máli þessu er ekki ágreiningur um bótarétt. Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 er meginreglan sú að sækja skuli um allar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Bótaþegi verður því að leita eftir rétti sínum. Það gerði kærandi með umsókn dagsettri 11. febrúar 2010. Samkvæmt 2. mgr. nefndrar 52. gr. er umsækjanda skylt að veita stofnuninni nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt. Telur úrskurðarnefndin að almennt skuli ákvarða bætur frá þeim tíma sem beiðni um þær er lögð fram og eitthvað sérstakt þurfi til að koma til að ákvarða bætur aftur í tímann. Það að hafa ekki haft vitneskju um bótarétt getur að mati nefndarinnar ekki talist til sérstakra ástæðna þannig að réttlæti afturvirkar greiðslur.
Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar almannatrygginga að ekki sé heimilt að greiða kæranda afturvirkar umönnunarbætur á þeirri forsendu að hún hafi verið grandlaus um rétt sinn. Samkvæmt meginreglu verður að sækja um allar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins og er það á ábyrgð bótaþega að leita eftir rétti sínum.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja a um afturvirkar umönnunarbætur er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga
Friðjón Örn Friðjónsson, formaður