Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 457/2010

Miðvikudaginn 6. júlí 2011

457/2010

A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Hjördís Stefánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 26. október 2010, kærir B, f.h. A, endurgreiðslukröfu Tryggingastofnunar ríkisins vegna ofgreiddra bóta á árinu 2009.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að við endurreikning og uppgjör bótagreiðslna vegna ársins 2009 reiknaðist Tryggingastofnun ríkisins að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 119.383 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Með bréfi dags. 26. júlí 2010 fór Tryggingastofnun ríkisins fram á endurgreiðslu hinna ofgreiddu bóta.

Í rökstuðningi fyrir kæru segir:

„Greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaganna eru til að bæta umsækjanda, sem hefur áunnið sér rétt til greiðslna úr sjóðum stéttarfélagsins með aðild og mánaðarlegum greiðslum, launatap vegna óvinnufærni fyrstu mánuðina eftir að umsækjandi dettur út af launaskrá. A missti atvinnutekjur sínar vegna veikinda og fékk greidda dagpeninga hjá sjúkrasjóði sínum. Þar sem dagpeningarnir koma í stað launatekna, sem hafa fallið niður vegna veikinda eða slysa, eiga þær að lúta sömu reglum um frítekjumark og skerðingar og atvinnutekjur, þegar lífeyrisgreiðslur almannatrygginga eru reiknaðar út og greiddar – á sama hátt og greiðslur atvinnuleysisbóta og greiðslur úr fæðingarorlofssjóði. Dagpeningar eru skattskyldar tekjur skv. II: kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. í 2. tölulið 7. gr. A. tekjuskattslaga segir: ”Skattskyldar tekjur teljast með þeim undantekningum og takmörkunum, er síðar greinir, hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær eru, svo sem: [...] 2. Tryggingabætur, meðlög og styrkir. Skaðabætur og vátryggingafé vegna sjúkdóms, slysa, atvinnutaps eða launamissis og hvers konar skaðabætur og vátryggingabætur, sbr.þó 2. tölulið 28. gr. ...” Skv. 16. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 ráðast tekjur af því hvað telst til tekna skv. II. kafla tekjuskattslaganna.

Einstaklingur sem fær greiddar atvinnuleysisbætur skilar engu vinnuframlagi. Atvinnuleysisbætur eru ígildi launatekna og því gildir um þær sama frítekjumark og um launatekjur, það sama á að eiga við um dagpeningagreiðslur úr sjúkrasjóði. Atvinnuleysisbætur eru eins og sjúkrasjóður færðar inn í 2.3. á skattframtali (Lífeyrisgreiðslur. Greiðslur frá Tryggingastofnun. Aðrar bótagreiðslur, styrkir o.fl)., en í sinn hvorn dálkinn. Greiðslur í fæðingarorlofi eru annað dæmi um aðrar tekjur sem eru ígildi launatekna. Þessar greiðslur eru meðhöndlaðar eins og launatekjur hjá TR hvað varðar frítekjumark.

Undirrituð sendi ríkisskattstjóra fyrirspurn á árinu 2009 um framtal greiðslna til einstaklinga vegna sjúkra- og slysadagpeninga frá öðrum en Tryggingastofnun ríkisins. Í svari ríkisskattstjóra segir: ”Upplýsingar úr skattframtali eru nýttar af Tryggingastofnun ríkisins sem forsendur við útreikning bóta, en ríkisskattstjóri hefur ekki áhrif á með hvaða hætti slíkt er gert. Um slíkt fer eftir lögum og reglum um viðkomandi bótaflokk.” Leiðrétting á ósamræmi á skráningu launatekna annars vegar og dagpeninga úr sjúkrasjóði sem koma í stað launatekna hins vegar hjá Tryggingastofnun ríkisins og ólíkum áhrifum þessara tekna á skerðingu lífeyris ætti þ.a.l. og samkvæmt svarbréfi ríkisskattstjóra að koma í gegnum Tryggingastofnun ríkisins.“

Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi dags. 4. nóvember 2010. Greinargerð dags. 9. desember 2010 barst frá stofnuninni þar sem segir:

1. Kæruefnið

Kærður er endurreikningur ofgreiddra bóta vegna ársins 2009 sem var kynntur fyrir kæranda með bréfi stofnunarinnar, dags. 26. júlí 2010. Kæruefnið er hvernig Tryggingastofnun reiknar dagpeninga úr sjúkrasjóði stéttarfélags kæranda til tekna. Í kæru segir m.a. að þar sem kærandi „missti atvinnutekjur sínar vegna veikinda og fékk greidda dagpeninga hjá sjúkrasjóði sínum. Þar sem dagpeningarnir koma í stað launatekna, sem hafa fallið niður vegna veikinda eða slysa, eiga þær að lúta sömu reglum um frítekjumark og skerðingar og atvinnutekjur, þegar lífeyrisgreiðslur almannatrygginga eru reiknaðar út og greiddar – á sama hátt og greiðslur atvinnuleysisbóta og greiðslur úr fæðingarorlofssjóði.“

2. Lagaákvæði

Í 16. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 (atl.) er kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. er tilgreint hvað teljist til tekna og samkvæmt 1. ml. þeirrar greinar er meginreglan sú að: „Til tekna samkvæmt III. kafla laga þessara teljast tekjur skv. II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki telst til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., og 4. og 5. tl. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.“

Bótagreiðsluár er almanaksár. Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skal Tryggingastofnun ríkisins endureikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna skv. 7. mgr. 16. gr. laganna, sbr. og III. kafla reglugerðar nr. 598/2009.

Komi í ljós við endurreikning að bætur hafa verið vangreiddar eða ofgreiddar fer um það skv. 55. gr. laganna. Þar kemur fram að Tryggingastofnun skuli draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar öðlast rétt til. Sú skylda er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Í 2. mgr. 52. gr. atl. felst rík skylda lífeyrisþega að vera vakandi fyrir því að tekjuforsendur bótaútreiknings séu réttar á hverjum tíma og gera viðvart ef svo er ekki. Aftur á móti er einungis um heimild hjá Tryggingastofnun að ræða til að afla tekjuupplýsinga. Slík heimild verður þess ekki valdandi að firra lífeyrisþega ábyrgð á upplýsingagjöf sinni samkvæmt ákvæðinu. Á umsóknareyðublaði um bætur, svo og á eyðublöðum fyrir tekjuyfirlýsingar, er texti sem umsækjendur og lífeyrisþegar undirrita, þar sem þeir ábyrgjast að láta Tryggingastofnu vita ef breytingar verða á tekjum þeirra.

3. Málavaxtalýsing

Uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2009 sem kærandi var upplýstur um þann 26. júlí 2010 leiddi til ofgreiðslu að fjárhæð 119.383 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Ástæða þess að endurkrafa myndaðist í uppgjöri á hendur kæranda er sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2010 vegna tekjuársins 2009 hafði farið fram, kom í ljós að tekjur kæranda á árinu 2009 reyndust hærri en tekjuáætlun gerði ráð fyrir. Samkvæmt 7. mgr. 16. gr. atl. og 6. gr. reglugerðar nr. 598/2009 kemur fram að endurreikningur byggist á upplýsingum á skattframtölum bótaþega.

Í tillögu Tryggingastofnunar að tekjuáætlun kæranda vegna ársins 2009 sem var send í janúar 2009 var gert ráð fyrir að kærandi hefði 340.080 kr. í launatekjur og 780.000 kr. í atvinnuleysisbætur. Þá var og m.a. gert ráð fyrir lífeyrissjóðstekjum að fjárhæð 1.179.576 kr. og um 120.000 kr. í fjármagnstekjur. Í janúar leiðrétti kærandi fyrirliggjandi tekjuáætlun á þá leið að ekki væri um launatekjur að ræða, atvinnuleysisbætur væru 350.000 kr., greiðslur úr lífeyrissjóðum væru 1.140.000 kr. og fjármagnstekjur væru 331.848 kr. Í júlí leiðrétti kærandi aftur fyrirliggjandi tekjuáætlun á þá leið að lífeyrissjósgreiðslur voru lækkaðar niður í 1.104.000 kr. og annað var óbreytt.

Við bótauppgjör ársins 2009 kom í ljós að lífeyrissjóðstekjur kæranda reyndust vera 1.094.743 kr., í atvinnuleysistekjur 578.811 kr., aðrar tekjur 374.844 kr., fjármagnstekjur 152.683 kr., laun kr. 484.459 og greiðslur úr séreignasjóði voru 48.102 kr. Niðurstaða endurreikningsins var því krafa að fjárhæð 119.383 kr.

4. Dagpeningar úr sjúkrasjóðum

III. kafli almannatryggingalaga fjallar um lífeyristryggingar. Í 2. mgr. 16. gr. laganna kemur fram hvaða tekjur teljast til tekna samkvæmt þessum kafla. Þar kemur fram að um sé að ræða tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með ákveðnum undantekningum.

Í 7. gr. þeirra laga er að finna skilgreiningu á skattskyldum tekjum. Þeim er skipt í þrjá flokka þ.e. A, B og C. Í B-lið er fjallað um tekjur af atvinnurekstri og í C-lið er fjallað um fjármagnstekjur. Í A-lið eru taldir fjórir flokkar tekna:

1) Launatekjur og sambærilegar tekjur

2) Tryggingabætur, meðlög og styrkir. Skaðabætur og vátryggingafé vegna sjúkdóms, slysa, atvinnutaps eða launamissis og hvers konar skaðabætur og vátryggingabætur

3) Endurgjald til höfunda og rétthafa fyrir hvers konar hugverk

4) Verðlaun og heiðurslaun

Samkvæmt þessu er ljóst að tekjuskattslögin gera greinarmun á launatekjum sem falla undir lið 1) og sjúkradagpeningum sem falla undir lið 2). Hvergi kemur fram að bætur vegna sjúkdóms eða slysa, þ.m.t. sjúkradagpeningar, séu ígildi launatekna.

Kærandi fjallar um að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og atvinnuleysisbætur sem fái ekki sömu meðhöndlun og greiðslur úr sjúkrasjóðum. Þær tekjur teljast með launatekjum og sambærilegum greiðslum þar sem forsenda fyrir móttöku þeirra er hæfni til að vinna launað starf og þær falla því undir 1. tl. A-liðar 1. mgr. 7. gr. tekjuskattslaga. Athygli er vakin á að gerður er greinarmunur á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og fæðingarstyrki sem er ekki meðhöndlaður eins og launatekjur heldur er hann meðhöndlaður eins greiðslur úr sjúkrasjóðum.

Frítekjumark b-liðar 2. mgr. 16. gr. atl. tekur til atvinnutekna. Ákvæðið gefur ekki tilefni til annars en þröngrar lögskýringar og því er ekki hægt að færa aðrar greiðslur sem koma í stað atvinnutekna, þegar viðkomandi getur ekki stundað atvinnu, undir ákvæðið.

Hefur þessi túlkun Tryggingastofnunar á meðferð dagpeninga úr sjúkrasjóðum verið staðfest hjá Úrskurðarnefnd almannatrygginga í máli nr. 386/2009.

5. Niðurstaða

Með vísun til ofanritaðs telur Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni.“

Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var send umboðsmanni kæranda til kynningar með bréfi dags. 10. desember 2010 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Með bréfi dags. 5. janúar 2011 bárust meðal annars eftirfarandi athugasemdir frá kæranda:

„Af lögum um almannatryggingar nr. 100/2007 er ljóst að tekjur lífeyrisþega eiga að hafa áhrif á greiðslur almannatrygginga. Þannig lækka greiðslur ef lífeyrisþegi hefur aðrar tekjur. Enn fremur er ljóst af 16. gr. laga um almannatryggingar að tekjur skuli túlka með sama hætti og gert er í lögum um tekjuskatt. Sjúkradagpeningar hafa sömu stöðu og launatekjur í lögum um tekjuskatt nr. 90/2003 og því þarf að skýra lagaákvæði í almannatryggingalögum til þess að annað eigi að gilda um meðferð sjúkradagpeninga við útreikning bóta skv. lögum um almannatryggingar. Samheitið „atvinnutekjur” í b-lið 2. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 er ekki nægilega skýrt til að TR megi túlka það með þeim þrönga hætti sem stofnunin gerir. Þvert á móti ber að skýra þetta rúmt, vafi og öll túlkun á að vera borgaranum í hag og með hliðsjón af því að tekjur í lögum um almannatryggingar hafa sömu merkingu og í lögum um tekjuskatt. Slík lögskýring leiðir af sér að tekjur skv. A- og B- lið 7. gr. laga um tekjuskatt falla allar undir frítekjumarkið í b-lið 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Í a-lið 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar er fjallað um frítekjumark vegna fjármagnstekna (C-liður 7. gr. tekjuskattslaga). Í b-lið 2. mgr. 16. gr. sömu laga er fjallað um frítekjumark fyrir atvinnutekjur, en það er samheiti yfir tekjur skv. A. og B. lið 7. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003.

Í lögfræðiorðabókinni er eftirfarandi skilgreining á orðinu „ígildi” :„E-ð sem getur komið í stað annars.” Sjúkradagpeningar koma í stað launatekna og hafa sömu stöðu og launatekjur í lögum um tekjuskatt. Því er í algeru ósamræmi við lögin um almannatryggingar og uppbyggingu þeirra ef sjúkradagpeningar, sem koma í stað launatekna, koma allir til frádráttar bótum en að á þeim sé aftur á móti ekkert frítekjumark, eins og á öðrum tekjum. Atvinnuleysisbætur og fæðingarorlofsgreiðslur eru dæmi um aðrar tekjur sem eru ígildi launatekna.

Atvinnuleysisbætur og greiðslur í fæðingarorlofi eru meðhöndlaðar eins og launatekjur hjá TR hvað varðar frítekjumark. Líkt og sjúrkadagpeningar er um að ræða tímabundnar greiðslur, sem koma í stað launatekna, eru greiddar til einstaklinga sem hafa verið á vinnumarkaði og eru tímabundið utan vinnumarkaðar. Að sama skapi eru þær greiddar, eins og sjúrkadagpeningar, án þess að um vinnuframlag sé að ræða.

Í greinargerð TR segir að sjúkradagpeningar falli augljóslega undir lið 2) í A lið 7. gr. laga nr. 90/2003. Í þessu fellst viðurkenning stofnunarinnar á því að við úrlausn málsins eigi að fara eftir tekjuskattslögum og túlka hugtök með sambærilegum hætti og gert er í þeim lögum. Undir 2) lið A-liðar fellur eftirfarandi: Tryggingabætur, meðlög og styrkir. Skaðabætur og vátryggingafé vegna sjúkdóms, slysa, atvinnutaps eða launamissis og hvers konar skaðabætur og vátryggingabætur. Sjúkradagpeningar frá stéttarfélagi falla ekki undir lög um almannatryggingar. Enn fremur er ekki um ræða vátryggingarbætur, skaðabætur, meðlög eða styrki. Dagpeningagreiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélaga eru ígildi launatekna og falla undir fyrsta lið A-liðar: Launatekjur og sambærilegar tekjur og eru þær eins og atvinnuleysisbætur.“

Athugasemdir umboðsmanns kæranda voru kynntar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi dags. 12. janúar 2011. Frekari athugasemdir hafa ekki borist.

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar ágreining um hvort greiðslur dagpeninga úr sjúkrasjóði stéttarfélags skuli reiknast sem atvinnutekjur við útreikning á tekjutengdum bótum almannatrygginga og þar með sæta sömu reglum og atvinnutekjur varðandi frítekjumörk.

Í rökstuðningi fyrir kæru var greint frá því mati kæranda að dagpeningar eigi að lúta sömu reglum um frítekjumark og skerðingar og atvinnutekjur, þegar lífeyrisgreiðslur almannatrygginga séu reiknaðar út og greiddar, á sama hátt og greiðslur atvinnuleysisbóta og greiðslur úr fæðingarorlofssjóði. Í athugasemdum var greint frá mati kæranda að sjúkradagpeningar hafi sömu stöðu og launatekjur í lögum um tekjuskatt og því þurfi að skýra lagaákvæði í almannatryggingalögum til þess að annað eigi að gilda um meðferð sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um almannatryggingar. Samheitið atvinnutekjur í b lið 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar sé ekki nægilega skýrt til að Tryggingastofnun megi túlka það með þeim þrönga hætti sem stofnunin geri. Þvert á móti beri að skýra þetta rúmt, vafi og öll túlkun eigi að vera borgaranum í hag. Slík lögskýring leiði af sér að tekjur samkvæmt a og b lið 7. gr. laga um tekjuskatt falli allar undir frítekjumark b liðar 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Líkt og með atvinnuleysisbætur séu dagpeningar tímabundnar greiðslur, sem komi í stað launatekna, séu greiddar til einstaklinga sem hafa verið á vinnumarkaði og séu tímabundið utan vinnumarkaðar. Að mati kæranda eru dagpeningagreiðslurnar ígildi launatekna og falla undir fyrsta lið a liðar 7. gr. laga um tekjuskatt.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var greint frá því að stofnunin telji alveg ljóst að lög um tekjuskatt geri greinarmun á launatekjum sem falli undir 1. lið a liðar 7. gr. laga um tekjuskatt og sjúkradagpeningum sem falli augljóslega undir 2. lið a liðar sömu greinar. Hvergi komi fram að bætur vegna sjúkdóms eða slyss, þ.m.t. sjúkradagpeningar, séu ígildi launatekna. Frítekjumark b liðar 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar taki til atvinnutekna. Ákvæðið gefi ekki tilefni til annars en þröngrar lögskýringar og því sé ekki hægt að færa aðrar greiðslur sem komi í stað atvinnutekna, þegar viðkomandi geti ekki stundað atvinnu, undir ákvæðið.

Kærandi naut á árinu 2009 tekjutengdra lífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins. Tryggingastofnun framkvæmdi endurreikning á bótagreiðslum ársins 2009 til kæranda eftir að álagning skattstjóra lá fyrir á árinu 2010. Reiknaðist þá stofnuninni svo til að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur á árinu 2009 samtals að fjárhæð 119.383 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Ágreiningur málsins lýtur að sjúkradagpeningagreiðslum úr stéttarfélagi sem kærandi naut á árinu og falla undir liðinn „aðrar tekjur“ á tekjuáætlun. Námu þær tekjur samtals 374.844 kr.

Í 2. mgr. 16. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 er skilgreint hvað teljist til tekna samkvæmt III. kafla almannatryggingalaga sem varðar lífeyristryggingar. Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 16. gr. almannatryggingalaga er meginreglan sú að:

„Til tekna skv. III. kafla laga þessara teljast tekjur skv. II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki telst til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.“

Samkvæmt 7. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003 er meginregla II. kafla laganna sú að skattskyldar tekjur teljast vera hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær séu. Síðan eru taldar upp í A-, B- og C-liðum margvíslegar tekjur sem eru skattskyldar. A-liður 7. gr. tekjuskattslaga skiptist upp í fjóra tölusetta undirflokka. Samkvæmt 1. tölulið A-liðar 7. gr. tekjuskattslaga telst til skattskyldra tekna endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, án tillits til viðmiðunar, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Samkvæmt 2. tölulið A-liðar 7. gr. tekjuskattslaga teljast til skattskyldra tekna tryggingabætur, meðlög og styrkir, enn fremur skaðabætur og vátryggingafé vegna sjúkdóms, slysa, atvinnutaps eða launamissis, svo og hvers konar aðrar skaðabætur og vátryggingabætur.

Það er óumdeilt í máli þessu að dagpeningar þeir sem kærandi fékk greidda frá stéttarfélagi sínu sökum veikinda eru skattskyldar tekjur samkvæmt 7. gr. laga um tekjuskatt. Enn fremur er óumdeilt í málinu að umræddar dagpeningagreiðslur teljast til tekna samkvæmt almannatryggingalögum og eiga að hafa áhrif á útreikning tekjutengdra bóta Tryggingastofnunar ríkisins til kæranda. Ágreiningur málsins lýtur hins vegar að því hvaða áhrif umræddar dagpeningagreiðslur eigi að hafa við bótaútreikninginn. Í b-lið 2. mgr. 16. gr. almannatryggingalaga er kveðið á um að tekjur örorkulífeyrisþega af atvinnu skuli hafa áhrif við útreikning á fjárhæð tekjutryggingar. Breyting var gerð á framangreindu þann 1. apríl 2008, sbr. lög nr. 17/2008, en þar segir að örorkulífeyrisþegi geti valið á milli þess að hafa ákveðna krónutölu sem frítekjumark vegna atvinnutekna eða telja ákveðinn hundraðshluta af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar.

Samkvæmt 16. gr. almannatryggingalaga er meginreglan sú að tekjur lífeyrisþega skuli hafa áhrif við útreikning á tekjutengdum bótum hans frá Tryggingastofnun ríkisins. Framangreind ákvæði um frítekjumark og að hægt sé að velja milli frítekjumarks í krónum talið og sem hundraðshluta af tekjum er undantekningarákvæði sem eftir almennum lögskýringarreglum ber að skýra þröngt. Frítekjumark framangreindra ákvæða 2. og 3. málsliða b-liðar 2. mgr. 16. almannatryggingalaga tekur samkvæmt orðanna hljóðan aðeins til atvinnutekna. Það er niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að samkvæmt þröngri lögskýringu nái ákvæðið aðeins til tekna sem lífeyrisþegi fái fyrir atvinnu og að ekki sé unnt að teygja ákvæðið yfir aðrar greiðslur sem komi í stað atvinnutekna geti viðkomandi einstaklingur ekki stundað atvinnu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að rétt hafi verið af hálfu Tryggingastofnunar að fara með dagpeningagreiðslur sem kærandi fékk greiddar vegna veikinda frá stéttarfélagi sínu, eins og svokallaðar „aðrar tekjur“ og reikna henni lífeyrisgreiðslur samkvæmt því, án þess að nokkuð frítekjumark eigi við.

Úrskurðarnefnd almannatrygginga hefur yfirfarið endurreikning Tryggingastofnunar og er það niðurstaða nefndarinnar að endurreikningurinn hafi verið framkvæmdur á réttan hátt og beri réttilega með sér að kæranda hafi verið ofgreiddar bætur á árinu 2009.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Staðfestur er endurreikningur Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum stofnunarinnar til handa A, á árinu 2009.

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson, formaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta