Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 221/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 221/2024

Miðvikudaginn 10. júlí 2024

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Unnþór Jónsson lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 16. maí 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 3. maí 2024 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 2. mars 2024. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 3. maí 2024, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. maí 2024. Með bréfi, dags. 22. maí 2024, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 6. júní 2024, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. júní 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að ósk kæranda sé sú að fá að komast í örorkumat. Það sé ekki hægt að synja umsókn um örorkumat vegna þess að eina úrræðið sem sé óreynt sé Reykjalundur, bið eftir þjónustu þar séu einhverjir mánuðir. B heimilislæknir hafi sótt um á Reykjalundi en þar sé sagt að engin umsókn hafi borist, biðin sé því lengri en hún ætti að vera. C læknir hafi 3. maí 2024 greint kæranda með „Myalgic Encyphaelitis“ og því hafi þær upplýsingar ekki legið ekki fyrir þegar hann hafi sótt um. Það liggi því nú fyrir að ekki sé um tímabundið þreytuheilkenni að ræða.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar, dags. 3. maí 2024, um að synja kæranda um örorkumat á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 1. mgr. 24. gr. og 1. mgr. 25. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem metnir séu til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laganna.

Hins vegar sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar, 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. segi að heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18-67 verði til frambúðar eftir slys eða sjúkdóma. Greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð um allt að 24 mánuði, enda sé starfsendurhæfing með það að markmiði að auka atvinnuþátttöku enn talin raunhæf að mati framkvæmdaraðila, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð.

Tryggingastofnun hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt, til dæmis að lögð sé fram endurhæfingaráætlun, lagðir fram endurhæfingarþættir og að umsækjandi taki þátt í endurhæfingunni með fullnægjandi hætti. Í áðurnefndri 7. gr. sé skýrt að skilyrði greiðslna sé endurhæfing með starfshæfni að markmiði, enda ekki álitið að sjúkdómsmeðferð eða óvinnufærni sem slík veiti rétt til greiðslu endurhæfingarlífeyris.

Um nánari skilyrði og framkvæmd endurhæfingarlífeyris sé fjallað um í reglugerð nr. 661/2020 um framkvæmd endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Í 4. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um upphaf, tímalengd og skilyrði greiðslna og í 5. gr. um sjálfa endurhæfingaráætlunina. Í 6. gr. reglugerðarinnar sé tiltekið hverjir geti verið umsjónaraðilar endurhæfingaráætlunar.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi lokið samtals átta mánuðum á greiðslum endurhæfingarlífeyris á tímabilinu 1. október 2023 til 31. maí 2024. Kærandi hafi fyrst sótt um endurhæfingarlífeyri 25. september 2023. Meðfylgjandi hafi verið læknisvottorð, dags. 26. september 2023, og endurhæfingaráætlun, dags. 8. september 2023. Kærandi hafi fengið endurhæfingarlífeyri samþykktan fyrir tímabilið 1. október 2023 til 31. mars 2024, dags. 16. október 2023. Kærandi hafi sent inn áframhaldandi endurhæfingaráætlun, dags. 9. febrúar 2024, sem hafi verið samþykkt fyrir tímabilið 1. apríl 2024 til 31. maí 2024.

Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri 2. mars 2024 sem hafi verið synjað með bréfi, dags. 3. maí 2024, þar sem talið hafi verið að endurhæfing væri ekki fullreynd. Sú ákvörðun hafi verið kærð.

Við mat á örorku sé stuðst við þau gögn sem liggi fyrir. Með umsókn um örorkulífeyri, dags. 2. mars 2024, hafi legið fyrir læknisvottorð, dags. 25. febrúar 2024, svör við spurningalista vegna færniskerðingar, dags. 2. mars 2024, skýrsla sjúkraþjálfara, dags. 15. mars 2024, og þjónustulokaskýrsla, dags. 3. maí 2024.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins er greint frá því sem fram kemur í læknisvottorði, dags. 25. febrúar 2024, svörum kæranda við spurningum vegna færniskerðingar og því sem fram kemur í skýrslu sjúkraþjálfara, dags. 15. mars 2024. Einnig er í greinargerð stofnunarinnar greint frá því sem fram kemur í starfsgetumati VIRK.

Í kæru kemur fram að kærandi sé nýgreindur með ME-sjúkdóm. Eftir að kærandi kærði ákvörðun Tryggingastofnunar hafi hann sótt um endurhæfingarlífeyri með umsókn, dags. 1. júní 2024. Með umsókninni hafi fylgt læknisvottorð, dags. 30. maí 2024, þar sem fram komi að hann sé meðal annars greindur með „Benign myalgic encephalomyelitis“ og auk þess komi meðal annars fram að nýlega hafi verið sótt um á Reykjalundi fyrir kæranda, hann fylgi ráðleggingum ME-teymis og að þörf sé á frekari endurhæfingu.

Tryggingastofnun ítreki að stofnuninni sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkumat gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar, 7. gr. laga um félagslega aðstoð og 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat.

Tryggingastofnun leggi sjálfstætt mat á færniskerðingu umsækjanda á grundvelli framlagðra gagna þar sem meðal annars sé horft til sjúkdómsgreininga, heilsufarssögu og upplýsinga um meðferðir/endurhæfingu sem kærandi hafi undirgengist í kjölfar veikinda og/eða slysa. Við gerð örorkumats sé Tryggingastofnun því ekki bundin af ályktunum lækna eða annarra meðferðaraðila um meinta örorku eða óvinnufærni umsækjanda. Við það mat skipti máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu rökstudd. Loks horfi Tryggingastofnun til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst sé í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs.

Í læknisvottorði, dags. 25. febrúar 2024, komi fram að kæranda sé hægt batnandi og að búast megi við því að færni hans muni aukast með tímanum. Í skýrslu sjúkraþjálfara hafi verið mælt með því að sótt verði um Reykjalund eða í Hveragerði. Í þjónustulokaskýrslu VIRK hafi kæranda verið vísað aftur í heilbrigðiskerfið til frekari meðferðar og úrvinnslu á heilsubresti, en talið hafi verið að vinna þyrfti vandann út frá síþreytu.

Samkvæmt læknisvottorði, dags. 30. maí 2024, sé kærandi kominn með greininguna ME, og að búið sé að sækja um fyrir kæranda á Reykjalundi.

Í gögnum frá kæranda komi fram að mælt hafi verið með hann færi á Reykjalund eða í Hveragerði og að sótt hafi verið um á Reykjalundi þar sem kærandi sé að bíða eftir að komast að. Kærandi sé nýgreindur með ME og sé samkvæmt læknisvottorði að fylgja ráðleggingum ME-teymis. Það sé mat Tryggingastofnunar að kærandi uppfylli ekki skilyrði fyrir örorkumati að svo stöddu, þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd og talið sé að enn sé hægt að vinna með heilsufarsvanda kæranda til þess að auka vinnuhæfni. Á þeim forsendum telji Tryggingastofnun það vera í fullu samræmi við gögn málsins að hafna örorkumati í tilviki kæranda.

Í því sambandi skuli þó áréttað að það sé ekki hlutverk Tryggingastofnunar að leggja til meðferðar- eða endurhæfingarúrræði, heldur sé sú ábyrgð lögð á lækna kæranda, þ.e. að koma umsækjendum um endurhæfingarlífeyri og/eða örorkulífeyri í viðeigandi endurhæfingarúrræði sem taki mið af vanda einstaklingsins hverju sinni.

Að öllu framangreindu virtu sé það niðurstaða Tryggingastofnunar að endurhæfing kæranda hafi ekki verið fullreynd. Samkvæmt því mati uppfylli kærandi ekki skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar um að viðeigandi endurhæfing skuli hafa verið fullreynd. Mikilvægt sé að einstaklingar, sem hugsanlega sé hægt að endurhæfa, fullnýti öll möguleg endurhæfingarúrræði sem í boði séu við þeim heilsufarsvandamálum sem hrjái þá. Með endurhæfingarúrræðum sé í þessum skilningi átt við þverfagleg, einstaklingsmiðuð úrræði sem eigi að stuðla að virkri þátttöku einstaklingsins í samfélaginu. Þá verði ekki ráðið af gögnum málsins að veikindi kæranda séu þess eðlis að endurhæfing geti ekki komið að gagni.

Að öllu framangreindu virtu sé það niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðsla á umsókn kæranda, þ.e. að hafna umsókn um örorkulífeyri að svo stöddu, sé rétt, miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu. Sú niðurstaða sé byggð á faglegum sjónarmiðum sem og gildandi lögum og reglum. Ásamt fyrri sambærilegum fordæmum fyrir úrskurðarnefndinni þar sem staðfest hafi verið að Tryggingastofnun hafi heimild til þess að krefjast þess af umsækjendum um örorkulífeyri að þeir fullreyni fyrst öll þau úrræði sem þeim standi til boða áður en til örorkumats komi.

Tryggingastofnun fari því fram á staðfestingu kærðrar ákvörðunar frá 3. maí 2024 um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 3. maí 2024, þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt hafi verið að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 25. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar eru greiðslur örorkulífeyris bundnar því skilyrði að umsækjendur hafi verið metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. og 2. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi hafi átt lögheimili hér á landi samfellt síðustu 12 mánuði og taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 24 mánuði enda sé starfsendurhæfing með það að markmiði að auka atvinnuþátttöku enn talin raunhæf að mati framkvæmdaraðila, sbr. 1. mgr.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð B, dags. 25. febrúar 2024. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:

„NONORGANIC INSOMNIA

VEFJAGIGT

SKJÁLFTI, ÓTILGREINDUR

HRYGGSLITGIGT, ÓTILGREIND “

Um fyrra heilsufar segir:

„A býr á D og er almennt hraustur fyrir utan bakverkjasögu. Er að taka Norgesic, Cloxabix. Stilnoct. Almennt verið hraustur fram að sínum einkennum er byrjuðu 2023 fyrir utan vandamál með hæ. hné.“

Um heilsuvanda og færnskerðingu segir:

„Verið að upplifa titring yfir thorax, skjálfti í höndum og fótum. Kemur og fer. Er að upplifa ósjálfráðar hreyfingar. Skástur í hreyfingu en er frekar að upplifa þetta í hvíld.

Finnst jaðarsjónin afficeruð, dettur stundum úr focus við að lesa. Ef hann snýr sér að þá þarf sjónin að jafna sig í smátíma. Þekkt bakverkjasaga. Fékk sprautur í bakið sem hann versnaði við. Er að missa hluti, - þarf að halda um kaffibolla með báðum höndum. Þreytist afar fljótt. Farinn að missa skammtíma minnið. Hættur að keyra. Farinn að eiga erfitt með að pissa sem er nýtt.

Blóðr. allar verið eðlilegar. Væg aukning í styrk polyklonal immunoglóbúlína. Paraprotein ekki greinanleg

MRI heili neg.

Verið frá vinnu í nokkurn tíma vegna sinna einkenna

-Ástand hægt batnandi. Hitt taugalækni og skoðun verið eðlileg, blóðprufur verið eðlilegar, vísað í sjúkraþjálfun og er hann að bíða eftir mati sj.þjáflara á E. Beiðni verið send í VIRK.

Hitti G fyrir stuttu sem taldi ekki um taugasjúkdóm að ræða, fyrst og fremst verkir og mögulega Flbromyalgiu “

Í læknisvottorðinu kemur fram að kærandi sé óvinnufær og að búast megi við því að færni aukist með tímanum. Í frekara áliti á vinnufærni og horfum á aukinni færni segir:

„Búið að rannsaka þennan ágæta mann ígrundað og ekki finnst nein haldbær skýring á hans einkennum fyrir utan mögulega Fibromyalgiu. Einnig hafa verið vangaveltu um ME.“

Einnig liggur fyrir læknisvottorð B, dags. 26. september 2023, vegna umsóknar um endurhæfingarlífeyri, þar er greint frá sjúkdómsgreiningunum Fibromyalgia og ótilgreindum bakverk. Auk framangreindra læknisvottorða liggur einnig fyrir læknisvottorð H, dags. 30. maí 2024, vegna umsóknar kæranda um endurhæfingarlífeyri. Í vottorðinu er greint frá sjúkdómsgreiningunum „Benign myalgic encephalomyelitils“, vefjagigt og ótilgreindum skjálfta. Fram kemur að nýlega hafi verið sótt um á Reykjalundi fyrir kæranda og að hann fylgi nú ráðleggingum ME-teymis

Meðal gagna málsins er kortlagning og ráðgjöf I sérhæfðs sjúkraþjálfara á ástandi kæranda, dags. 15. mars 2024, þar segir meðal annars:

Um upphaf núverandi vandamála segir:

„A segist hafa verið við góða heilsu áður en hann lenti í slysunum tveimur árið X og aftur árið X. Eftir fyrra slysið hafa bakverkir verið viðvarandi. Þekkti bakverki fyrir en þeir voru allt annars eðlis og meira tengdir líkamsbeitingu líkt og þreytuverkir. Fékk Covid vorið 2022 og var veikur í 3 daga og var 10 daga frá vinnu. Var lengi að ná upp þreki á ný eftir það. Slasaðist á hendi um […]. Er stífur og með verki í hendinni. Mikið álag í vinnu haustið 2022 í […] og síðan aðgerð á hné í desember.“

Í niðurstöðum mats/ráðgjöf sjúkraþjálfara segir:

„Einkenni A benda til þess að hann hafi þróað með sér síþreytu. Hann hefur mjög litla orku, er fljótur að „krassa“ eftir álag og lengi að jafna sig aftur. Ég velti fyrir mér hvort að Covid smitið hafi átt sinn þátt í því en það er ómögulegt að segja fyrir víst. Líklega er um samverkandi þætti að ræða (sjá sögu). Hann er með mikla miðlæga verkjanæmingu (streita í taugakerfinu). Allt bendir til að A verði að vinna með vandann út frá síþreytu og ljóst að hann er ekki að fara á vinnumarkað á næstunni. Eftirfarandi gæti hjálpað.

1)         Tilvísun hefur verið send til C krabbameinslæknis varðandi tíma fyrir A. C hefur verið að hitta fólk með síþreytu. Mögulega ávísar C á hann LDN lyfi sem notað hefur verið við síþreytu og mildar í sumum tilfellum einkennin.2)     Besta sannreynda meðferð við síþreytu er að tileinka sér virknistýringu og A hefur útvegað sér bók ME-félagsins um það.

3)         Ég mæli með að sótt verði um Reykjalund eða Hveragerði fyrir A þ.e.a.s. ef hann kærir sig um. Þar sem hann býr í […] og fátt er um úrræði væri mjög gott fyrir hann að komast í slíka endurhæfingu og fá hjálp frá mismunandi fagstéttum á einum stað.

4)         Ég hef látið A hafa æfingar til að gera heima sem eru þess eðlis að slaka á taugakerfinu og örva Vagus taugina (10.heilataugin sem tilheyrir parasympatíska taugakerfinu). Einnig hef ég bent honum á sérstakar æfingar til að vinna á ákveðnum vandamálum t.d. æfing fyrir fætur og styrktaræfingar fyrir lærvöðva.

5)         Ég myndi líka telja að sjúkraþjálfun gæti hjálpað A en þá er ég að tala um meðferð sem dregur úr verkjum en ekki æfingameðferð/þjálfun. Bandvefsmeðferð eða nudd gæti dregið úr verkjum og þannig létt álagi af taugakerfinu.“

Í þjónustulokaskýrslu VIRK, dags. 3. maí 2024, segir um þjónustuferil hjá ráðgjafa:

„A var 8 mánuði í þjónustu VIRK. Á tímabilinu sótti hann ACT-námskeið, námskeið til að auka einbeitingu og grunnnámskeið um vefjagigt. Einnig fjarsjúkraþjálfun, þar til hann komst að í einstaklingsmeðferð hjá sjúkraþjálfara í sinni heimabyggð. Einnig fékk hann kortlagningu og ráðgjöf sérhæfðs sjúkraþjálfara. Hann var mjög einbeittur og samvinnufús með mikla áhugahvöt að komast aftur út á vinnumarkað. Þrátt fyrir það, varð hann sífellt orkuminni, og átti erfiðara með að sinna verkefnum í daglegu lífi. Eftir kortlagningu sjúkraþjálfarans komst hann að þeirri niðurstöðu að allt bendir til að A verði að vinna með vandann út frá síþreytu og ljóst að hann er ekki að fara á vinnumarkað á næstunni. Því er komið að þjónustulokum hjá VIRK og honum vísað aftur í heilbrigðiskerfið til frekari meðferðar og úrvinnslu á sínum heilsubresti.“

Í fyrirliggjandi spurningalista vegna færniskerðingar, sem kærandi lagði fram með umsókn um örorkumat, svaraði hann spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni. Í lýsingu á heilsuvanda nefnir kærandi þreytu, máttleysi, skjálfta, verki, slæmt hægra hné, skerta færni í hægri hendi, svima, hjartsláttartruflanir og heilaþoku. Af svörum kæranda verður ráðið að hann eigi erfitt með margar daglegar athafnir vegna þreytu og verkja. Kærandi svarar neitandi spurningu um það hvort hann glími við geðræn vandamál. Í athugasemd segir:

„Búinn að vera óvinnufær síðan Janúar 2023, ég er oft með skjálfta og á erfitt með einbeitingu. Suma daga er ég ófær um akstur og er hættur að keyra lengri vegalengdir.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Eins og áður hefur komið fram er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkulífeyri gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Þá var kæranda bent á reglur um endurhæfingarlífeyri.

Fyrir liggur að kærandi hefur fengið greiddan endurhæfingarlífeyri í átta mánuði. Í fyrrgreindu læknisvottorði B, dags. 25. febrúar 2024, kemur fram að kærandi sé óvinnufær og að búast megi við að færni aukist með tímanum. Auk þess segir í vottorðinu að kæranda hafi verið vísað í sjúkraþjálfun og VIRK. Í skýrslu sjúkraþjálfara kemur fram að mælt hafi verið með því að sótt verði um Reykjalund eða í Hveragerði. Í þjónustulokaskýrslu VIRK kemur fram að kæranda hafi verið vísað í heilbrigðiskerfið til frekari meðferðar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að hvorki verði ráðið af þeim upplýsingum sem fram koma í framangreindum gögnum né af eðli veikinda kæranda að frekari endurhæfing geti ekki komið að gagni. Þá liggur fyrir að kærandi hefur fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun í átta mánuði en heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 60 mánuði samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að láta reyna á áframhaldandi endurhæfingu í tilviki kæranda áður en til örorkumats kemur.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 3. maí 2024, um að synja kæranda um örorkumat.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkumat, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum