Mál nr. 391/2021 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 391/2021
Miðvikudaginn 13. október 2021
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.
Með rafrænni kæru, móttekinni 31. júlí 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála mismunun Tryggingastofnunar ríkisins gagnvart öryrkjum á grundvelli búsetu innan EES.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Samkvæmt gögnum málsins fær kærandi greiddan örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 31. júlí 2021. Með tölvupóstum 25. ágúst og 8. september 2021 var óskað eftir upplýsingum um hvort kæra varðaði einhverja ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins gagnvart kæranda og þá hvaða ákvörðun. Með tölvupósti 9. september 2021 greindi kærandi frá því að hún byggi ein og það væri kostnaðarsamt að sjá um allt ein.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að kærð sé mismunun gagnvart öryrkjum á grundvelli búsetu innan EES. Þessi mismunun höggvi á rétt kæranda sem íslensks ríkisborgara. Kærandi hafi misst einu skattfrjálsu greiðsluna, þ.e. heimilisuppbót, við breytingu á búsetu. Einnig hafi orlofsgreiðslur vegna júlí og desember lækkað samkvæmt síðustu fréttum Tryggingastofnunar ríkisins. Þrátt fyrir stóraukna greiðsluliði stofnunarinnar á síðustu árum sé henni ítrekað tjáð að hún eigi ekki rétt á frekari greiðslum vegna búsetu erlendis. Þannig sé hún neydd til að flytja enn og aftur, þrátt fyrir alla heilsubresti.
III. Niðurstaða
Kæru í máli þessu fylgdu tölvupóstsamskipti á milli kæranda og Tryggingastofnunar ríkisins frá desember 2020. Í tölvupósti til Tryggingastofnunar 5. desember 2020 spyr kærandi hvers vegna hún fái ekki heimilisuppbót og gerð er athugasemd við að hún missi allar desemberuppbætur í skatt og greiði hærra verð fyrir gjaldeyri en samkvæmt skrásetningu Seðlabanka Íslands. Í svari Tryggingastofnunar 7. desember 2020 er greint frá því að heimilisuppbót greiðist ekki úr landi og kæranda hafi verið tilkynnt um það X 2013 þegar hún hafi flutt til B. Þá er greint frá því að desemberuppbót sé skattskyld og að Tryggingastofnun greiði allar greiðslur út í íslenskum krónum.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal nefndin úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar. Þannig er grundvöllur þess að unnt sé að leggja fram kæru til úrskurðarnefndar að fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun. Þá skal kæra berast úrskurðarnefndinni innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.
Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að tölvupóstur Tryggingastofnunar frá 7. desember 2020 sé ekki stjórnvaldsákvörðun heldur einungis svar við fyrirspurn kæranda. Kærandi nefndi ekki neina stjórnvaldsákvörðun þegar úrskurðarnefndin óskaði eftir upplýsingum um slíkt heldur greindi frá því að hún byggi ein og það væri kostnaðarsamt að sjá um allt ein. Þá fékk úrskurðarnefndin þær upplýsingar frá Tryggingastofnun að kæranda hefði ekki verið synjað um greiðslur frá stofnuninni nýlega. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kæra lúti ekki að kæranlegri stjórnvaldsákvörðun og því er kæru vísað frá úrskurðarnefndinni.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
Rakel Þorsteinsdóttir