Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 6/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 6/2016

Miðvikudaginn 14. september 2016

A

v/ B

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 12. janúar 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 5. janúar 2016 um að synja beiðni hennar um breytingu á tímabili gildandi umönnunarmats sonar kæranda, B.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna, dags. 3. janúar 2011, óskaði kærandi eftir aðstoð vegna sonar síns, B. Með umönnunarmati, dags. 3. febrúar 2011, var mat ákvarðað samkvæmt 5. flokki, 0%, fyrir tímabilið 1. janúar 2011 til 31. júlí 2014.

Með umsókn, dags. 25. nóvember 2014, óskaði kærandi að nýju eftir aðstoð vegna drengsins. Með umönnunarmati, dags. 23. desember 2014, var mat ákvarðað samkvæmt 4. flokki og 25% greiðslur fyrir tímabilið 1. desember 2014 til 31. júlí 2017. Í matinu kemur meðal annars fram að um sé að ræða barn sem þurfi umtalsverðan stuðning, þjálfun, lyfjameðferð og þétt eftirlit sérfræðinga. Verði sótt um að nýju þurfi að staðfesta tilfinnanlegan útlagðan kostnað vegna meðferðar barnsins með framlagningu á reikningum.

Með umsókn, dags. 29. apríl 2015, lagði kærandi fram beiðni um endurmat á gildandi mati. Ásamt beiðninni fylgdi skýrsla iðjuþjálfa, dags. 20. apríl 2015. Með ákvörðun, dags. 23. júní 2015, var beiðni kæranda synjað þar sem talið var að framlögð gögn gæfu ekki tilefni til breytingar á gildandi umönnunarmati.

Með umsókn, dags. 19. ágúst 2015, óskaði kærandi að nýju eftir umönnunarmati vegna drengsins. Þeirri umsókn fylgdi læknisvottorð C, dags. 24. ágúst 2015, þar sem fram kemur að drengurinn sé með einhverfu, truflun á virkni og athygli, námserfiðleika, aðskilnaðarkvíða í bernsku og svefntruflanir. Samkvæmt læknisvottorðinu er mælt með umönnunarmati samkvæmt 3. flokki. Með umönnunarmati, dags. 13. nóvember 2015, var mat ákvarðað samkvæmt 3. flokki, 35%, fyrir tímabilið 1. september 2015 til 31. júlí 2019. Í matinu kemur meðal annars fram að um sé að ræða barn sem þurfi aðstoð og gæslu í daglegu lífi vegna fötlunar sinnar.

Með beiðni, dags. 8. desember 2015, óskaði kærandi eftir endurmati á gildandi mati, þ.e. að hún fengi greiddan mismun á umönnunargreiðslum aftur til desembermánaðar 2014. Með ákvörðun, dags. 5. janúar 2016, var beiðni kæranda um breytingu á umönnunarmati synjað þar sem framlögð gögn gæfu ekki tilefni til breytinga á gildandi mati.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 14. janúar 2016. Með bréfi, dags. 27. janúar 2016, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 16. febrúar 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. febrúar 2016, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur en af kæru má ráða að hún krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að hún fái greiddar umönnunarbætur samkvæmt gildandi mati aftur í tímann, aftur til desembermánaðar 2014, þ.e. fái greiddan mismunin frá mati, dags. 23. desember 2014, fram að mati, dags. 13. nóvember 2015.

Í kæru kemur fram að beiðni kæranda um að fá greiddan mismun á umönnunarbótum aftur í tímann hafi verið synjað. Drengurinn fái greiningu í nóvember 2014 og kærandi fái bætur samkvæmt 4. flokki, 25%, í desember 2014, en sálfræðingurinn sem hafi greint hann hafi viljað að drengurinn færi í ítarlegri greiningu hjá D vegna gruns um meðal annars einhverfu. Það hafi svo reynst rétt hjá sálfræðingnum og biðin í frekari athugun hafi verið löng, en kærandi og drengurinn hafi ekki komist að fyrr en í júní 2015. Kærandi fari fram á að fá greiddan mismuninn frá mati, dags. 23. desember 2014, fram að mati, dags. 13. nóvember 2015. Umönnunarmat drengsins hafi verið hækkað um flokk vegna þess að grunur sálfræðingsins hafi reynst réttur. Á þessu tímabili hafi kærandi verið með drenginn í iðjuþjálfun og allt ferlið í kringum hans umönnun löngu hafið. Þó svo að biðtími eftir staðfestingu sé langur finnist kæranda ekki rétt að slíkur biðtími bitni á þeim sem minna megi sín.

Kæranda finnist hún eiga rétt á að fá þessar greiðslur afturvirkt þar sem frumgreining hafi legið fyrir með sterkum grun um að um frekari fötlun væri að ræða. Þetta komi allt skýrt og greinilega fram í öllum pappírum hjá Tryggingastofnun ríkisins. Ætti þessi biðtími ekki að bitna á kæranda og hennar fjárhag. Það liggi fyrir gögn hjá Tryggingastofnun ríkisins um mikinn útlagðan kostnað frá fæðingu drengsins þar sem hann sé einnig með fyrstu greiningu 2013. Svo þurfi hann að bíða eftir annarri greiningu til loka árs 2014. Kæranda finnist mega fara lengra aftur í tímann með greiðslur með drengnum miðað við allt sem kærandi hafi þurft að standa í. Kærandi sé sjálf öryrki og einstæð móðir með X börn og finnist henni rétt að hennar mál verði skoðað nánar.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kveðið sé á um heimild til fjárhagslegrar aðstoðar við framfærendur fatlaðra og langveikra barna í 4. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007. Nánar sé fjallað um heimildir og skilyrði greiðslna í reglugerð nr. 504/1997 með síðari breytingum.

Í 4. gr. laga um félagslega aðstoð og í 1. gr. reglugerðarinnar sé það gert að skilyrði fyrir fjárhagslegri aðstoð frá Tryggingastofnun að barn sé haldið sjúkdómi eða andlegri eða líkamlegri hömlun og að sjúkdómur eða andleg eða líkamleg hömlun hafi í för með sér sannanleg tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu.

Í 5. gr. reglugerðarinnar sé skilgreining á fötlunar- og sjúkdómsstigum. Þar sé tilgreint að fara skuli fram flokkun á erfiðleikum barna út frá umönnun, gæslu og útgjöldum annars vegar vegna barna með fötlun og þroska- og atferlisraskanir, tafla I, og hins vegar vegna barna með langvinn veikindi, tafla II.

Í greininni komi fram að aðstoð vegna barna með alvarlegar þroskaraskanir og/eða atferlisraskanir, sem jafna megi við fötlun eða geðræna sjúkdóma og krefjist þjálfunar og eftirlits sérfræðinga og aðstoðar í skóla og á heimili og meðal jafnaldra, miðist við 4. flokk í töflu I. Greiðslur vegna 4. flokks séu að hámarki 25% af lífeyri og tengdum bótum.

Til 3. flokks í töflu I séu þau börn aftur á móti metin sem vegna fötlunar þurfi aðstoð og gæslu í daglegu lífi, t.d. vegna vægrar þroskahömlunar, hreyfihömlunar sem krefjist notkunar spelka og/eða hækja við ferli, heyrnarskerðingar sem krefjist notkunar heyrnartækja í bæði eyru og vegna verulegrar sjónskerðingar á báðum augum. Greiðslur vegna þeirra barna sem falli undir 3. flokk geti verið 25%, 35% eða 70% af lífeyri og tengdum bótum. Fjárhæð greiðslna velti annars vegar á þyngd umönnunar og hins vegar á því hvort sjúkdómur eða andleg eða líkamleg hömlun hafi í för með sér sannanleg tilfinnanleg útgjöld.

Gerð hafi verið fimm umönnunarmöt vegna drengsins. Fyrsta mat, dags. 3. febrúar 2011, hafi verið samkvæmt 5. flokki, 0%, og síðan hafi verið mat, dags. 23. desember 2014, samkvæmt 4. flokki, 25%, fyrir tímabilið frá 1. desember 2014 til 31. júlí 2017. Í framhaldi af því hafi verið synjað um breytingu á gildandi mati með mati, dags. 23. júní 2015. Nú sé í gildi mat, dags. 13. nóvember 2015, sem sé samkvæmt 3. flokki, 35%, fyrir tímabilið 1. september 2015 til 31. júlí 2019. Synjað hafi verið um breytingu á því mati með mati, dags. 5. janúar 2016, en kærandi hafi óskað eftir hækkun greiðslna afturvirkt frá 1. desember 2014. Nú hafi það mat verið kært.

Þegar umönnunarmat sé gert sé byggt á 4. gr. laga um félagslega aðstoð. Þar segi að Tryggingastofnun sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna og taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hafi í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu.

Nánar sé tilgreint um heimildir til aðstoðar í reglugerð nr. 504/1997. Í 5. gr. reglugerðarinnar sé ákveðin flokkun vegna umönnunar, gæslu og útgjalda vegna barna með fötlun, veikindi og þroskaraskanir. Þessi flokkun reglugerðarinnar, ásamt fyrirliggjandi gögnum, sé notuð þegar umönnunarmat sé ákvarðað af Tryggingastofnun.

Gögn sem legið hafi til grundvallar gildandi mati, dags. 13. nóvember 2015, hafi verið umsókn kæranda auk greinargerðar, dags. 19. ágúst 2015, læknisvottorð C, dags. 24. ágúst 2015, niðurstöður athugana frá D, dags. 17. ágúst 2015, og eldri niðurstöður, dags. 12. júlí 2013, tillaga sveitarfélags, dags. 30. september 2015, vottorð E læknis, dags. 3. september 2015, greinargerð félagsráðgjafa og tillaga að meðferðaráætlun samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, dags. 1. september 2015, listi yfir lyf sem ávísað hafi verið til drengsins fyrir tímabilið 1. janúar 2009 til 31. desember 2014, afrit af niðurstöðum teymisfundar, dags. 24. september 2015, og afrit af fundargerð fundar með F, dags. 29. október 2015. Í kjölfar þessa mats hafi kærandi svo sent inn nýja umsókn, dags. 8. desember 2015, þar sem hún hafi óskað eftir að fá greiddan mismun á umönnunargreiðslum aftur til desember 2014. Engin önnur ný gögn hafi fylgt með en vísað hafi verið til fyrirliggjandi gagna hjá Tryggingastofnun. Með mati, dags. 5. janúar 2016, hafi verið synjað um breytingu á gildandi mati.

Gildandi mat sé samkvæmt 3. flokki, 35%, fyrir tímabilið 1. september 2015 til 31. júlí 2019. Ágreiningur málsins lúti ekki að flokkun eða greiðslustigi þess mats heldur að upphafstíma. Kærandi hafi óskað eftir að upphafstími þessa mats yrði frá 1. desember 2014 eða frá þeim tíma sem mat hafi verið gert samkvæmt 4. flokki, 25%. Í læknisvottorði C, dags. 24. ágúst 2015, hafi verið staðfest greining um ódæmigerða einhverfu eftir að drengurinn hafi farið í endurmat á vegum D. Tryggingastofnun líti svo á að einungis sé heimilt að gera mat samkvæmt 3. flokki eða hærra þegar fyrir liggi að fram hafi farið ítarlegar athuganir með viðurkenndum prófum hjá til þess bærum aðilum og til staðar alvarleg fötlun. Í ljósi þeirra upplýsinga sem fyrir liggi sé álitið að alvarleg fötlun hafi ekki verið staðfest fyrr en niðurstöður frá D hafi legið fyrir í ágúst 2015. Því hafi þótt viðeigandi að gera mat samkvæmt 3. flokki frá 1. september 2015. Vandi drengsins hafi ekki uppfyllt skilyrði fyrir mati samkvæmt 3. flokki fyrir þann tíma, en ljóst hafi verið að drengurinn hafi átt við erfiðleika að stríða og hafi þurft stuðning og þjálfun í daglegu lífi, enda hafi hann verið með gilt mat samkvæmt 4. flokki, 25%, á tímabilinu sem um ræði. Undir 4. flokk falli börn sem séu með alvarlegar þroskaraskanir og/eða atferlisraskanir, sem jafna megi við fötlun eða geðræna sjúkdóma og krefjist þjálfunar og eftirlits sérfræðinga, aðstoðar í skóla, á heimili og meðal jafnaldra. Umönnunarmat sé hugsað til þess að koma til móts við foreldra vegna kostnaðar sem hljótist af umönnun, meðferð og þjálfun barns umfram það sem eðlilegt geti talist. Litið sé svo á að umönnunarmat samkvæmt 4. flokki, 25%, hafi komið til móts við þann kostnað sem kærandi hafi lagt í umönnun, meðferð og þjálfun drengsins á tímabilinu 1. desember 2014 til 31. ágúst 2015.

IV.  Niðurstaða

Í málinu er deilt um ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 5. janúar 2016 um að synja beiðni kæranda um breytingu á gildandi umönnunarmati sonar hennar.

Ákvæði um umönnunargreiðslur er í 4. gr. laga um félagslega aðstoð. Segir í 1. mgr. greinarinnar að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hafi í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Þá sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda barna með alvarleg þroskafrávik, sem jafna megi við fötlun, og barna með alvarleg hegðunarvandamál sem jafna megi við geðræna sjúkdóma.

Í 3. mgr. 4. gr. laga um félagslega aðstoð segir að Tryggingastofnun ríkisins meti þörf samkvæmt ákvæðinu og í 4. mgr. segir að ráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar. Gildandi reglugerð um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna er nr. 504/1997, ásamt síðari breytingum.

Í 5. gr. reglugerðarinnar er mælt fyrir um fimm mismunandi flokka vegna langveikra barna og fimm flokka fatlaðra barna og barna með þroska- og atferlisraskanir. Falla alvarlegustu tilvikin í 1. flokk en þau vægustu í 5. flokk. Vegna þeirra barna sem falla í 5. flokk eru gefin út skírteini til lækkunar lyfja- og lækniskostnaðar en ekki eru greiddar sérstakar mánaðarlegar greiðslur, en það er gert vegna annarra flokka og fara þær greiðslur stighækkandi.

Í reglugerðinni er um að ræða tvenns konar flokkanir, annars vegar vegna umönnunar, gæslu og útgjalda vegna fatlaðra barna og barna með þroska- og atferlisraskanir og hins vegar vegna umönnunar, gæslu og útgjalda vegna langveikra barna.

Um fyrri tegund flokkunar, þ.e. vegna umönnunar og gæslu fatlaðra barna og barna með þroska- og atferlisraskanir, segir um 3. og 4. flokk:

 „fl. 3. Börn, sem vegna fötlunar þurfa aðstoð og gæslu í daglegu lífi t.d. vegna vægrar þroskahömlunar, hreyfihömlunar, sem krefst notkunar spelka og/eða hækja við ferli, heyrnarskerðingar, sem krefst notkunar heyrnartækja í bæði eyru, og verulegrar sjónskerðingar á báðum augum.

fl. 4. Börn með alvarlegar þroskaraskanir og/eða atferlisraskanir, sem jafna má við fötlun eða geðræna sjúkdóma og krefjast þjálfunar og eftirlits sérfræðinga og aðstoðar í skóla og á heimili og meðal jafnaldra.“

Í umönnunarmati frá 13. nóvember 2015 var umönnun sonar kæranda felld undir 3. flokk, 35%, frá 1. september 2015 til 31. júlí 2019. Áður hafði umönnun sonar kæranda verið felld undir 4. flokk, 25%, frá 1. desember 2014. Kærandi er ósátt við upphafstíma matsins frá 13. nóvember 2015 og óskar eftir að fá greiðslur samkvæmt 3. flokki, 35%, frá desember 2014. Kærandi byggir á því að löng bið hafi verið eftir greiningu hjá D en greiningin hafi staðfest grun sálfræðings sonar hennar frá því í desember 2014 um að drengurinn glímdi við einhverfu. Tryggingastofnun synjaði kæranda um breytingu á gildandi umönnunarmati með ákvörðun, dags. 5. janúar 2016.

Við mat á upphafstíma greiðslu umönnunarbóta lítur úrskurðarnefnd almannatrygginga til þess sem greinir í 1. og 4. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar:

„Réttur til bóta stofnast frá og með þeim degi er umsækjandi telst uppfylla skilyrði til bótanna og skulu bætur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi. Bætur falla niður í lok þess mánaðar er bótarétti lýkur.

[…]

Bætur skulu aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berst umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta.“

Af framangreindu má ráða að réttur til bóta stofnast frá og með þeim degi er umsækjandi uppfyllir skilyrði til bótanna og bætur skulu reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi en þó aldrei lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur nauðsynleg gögn berast Tryggingastofnun. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð gilda ákvæði laga um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á og um umönnunarbætur er fjallað í 4. gr. laga um félagslega aðstoð. Þá er fjallað um afturvirkar umönnunarbætur í 4. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 504/1997. Þar segir:

„Heimilt er að úrskurða greiðslur allt að tvö ár aftur í tímann sbr. 48. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar og 13. gr. laga nr. 118/1993, enda sé ljóst að sjúkdómur, fötlun eða þroska- eða hegðunarvandi hafi leitt til útgjalda og sérstakrar umönnunar á þeim tíma.“

Ákvæði 48. gr. laga nr. 117/1993 sem vísað er til er sambærilegt við framangreint ákvæði 53. gr. almannatryggingalaga. Úrskurðarnefnd almannatrygginga telur, með hliðsjón af framangreindum ákvæðum, að heimilt sé að greiða bætur lengra aftur í tímann en frá greiningu sérfræðinga ef það liggur fyrir að sjúkdómur, fötlun eða þroska- eða hegðunarvandi barns hafi verið til staðar þrátt fyrir að greining hafi ekki farið fram.

Í læknisvottorði C, dags. 24. ágúst 2015, segir meðal annars svo:

„Drengur sem kom fyrst á D í X vegna hamlandi vanda. Niðurstöður þeirrar athugunar voru misstyrkur í þroska og erfiðleikar sem tengdust einbeitingu, hegðun og líðan. Þá komu fram viss sérkenni í hegðun og erfið hegðun sem var meira hamlandi á heimili en í leikskóla. Hegðun drengsins uppfyllti greiningarviðmið fyrir ADHD og mótþróaröskun. Einnig komu fram einkenni einhverfu og vanlíðan. Hann kom í vor í nýja athugun m.a. til að meta betur einhverfurófseinkenni og vanlíðan. Hegðun hans uppfyllir skv. SCQ og beinni athugun ADOS greiningarviðmið fyrir Ódæmigerða einhverfu, ADHD og aðskilnaðarkvíða. Sjá nánar meðfylgjandi skýrslu um niðurstöður athugunar á D.“

Um umönnunarþörf og aðstoð vegna athafna daglegs lífs segir í læknisvottorði:

„Drengur sem þarf stöðugt eftirlit, stuðning og stýringu auk markvissrar þjálfunar til að auka færni hans. Móðir er í góðu sambandi við félagsþjónustu og hefur fengið stuðningsfjölskyldu. Í kjölfar greiningar hefur henni verið bent á námskeið og óskað eftir stuðningi við drenginn í skólanum. Ljóst að þessi drengur um þurfa mikinn stuðning í skóla og þjálfun bæði, utan hans og heima. Hann er á flókinni lyfjameðferð sem verður fylgt eftir með reglulegu eftirliti á D til að byrja með.“

Þá kemur fram að mælt er með umönnunarmati samkvæmt 3. flokki, að mati C læknis. Í niðurstöðum athugana D, dags. 17. ágúst 2015, var sonur kæranda greindur með ódæmigerða einhverfu, ADHD, aðskilnaðarkvíða og vitsmunaþroska undir meðallagi.

Í málinu liggur fyrir skýrsla G, sálfræðings á vegum Sveitarfélagsins H, dags. 28. nóvember 2014, vegna athugunar hennar á drengnum. Þar segir í samantekt og áliti:

„Einkenni athyglisbrests, ofvirkni og mótþróaþrjóskuröskunar eru yfir greiningarmörkum og greind mælist undir meðallagi jafnaldra. Vísbendingar koma einnig fram um vanlíðan og depurð og erfiðleika í samskiptum ásamt einkennum á einhverfurófi sem þarf að skoða nánar. Því er mælt með nánari greiningu og ráðgjöf um viðeigandi meðferð hjá J og endurmati á D.“

Jafnframt kemur eftirfarandi fram í greinargerð félagsþjónustusviðs Sveitarfélagsins H, dags. 17. desember 2014, vegna umsóknar kæranda um umönnunarbætur:

„B er X ára drengur sem býr ásamt […]. B er með erfiða hegðun og í nýlegri skimun sálfræðings eru einkenni athyglisbrests, ofvirkni og mótþróaþrjóskuröskunar yfir greiningarmörkum og greind mælist undir meðallagi jafnaldra. Einnig komu fram vísbendingar um vanlíðan, depurð og erfiðleika í samskiptum ásamt einkennum á einhverfurófi sem þarf að skoða nánar. Því er mælt með endurmati á D.“

Samkvæmt framangreindu var sonur kæranda fyrst greindur með ódæmigerða einhverfu með athugun D, dags. 17. ágúst 2015. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur hins vegar að af gögnum málsins megi ráða að fötlun kæranda hafi verið til staðar þegar skýrsla G sálfræðings var gerð þann 28. nóvember 2014. Ekki hafa komið fram vísbendingar um að einkenni hafi versnað á þeim tíma sem leið frá mati G þar til greining D lá fyrir. Úrskurðarnefndin telur því að að sýnt hafi verið fram á með fullnægjandi hætti að skilyrði umönnunargreiðslna samkvæmt 3. flokki, 35%, hafi verið uppfyllt þann 1. desember 2014.

Með vísan til framangreinds er synjun Tryggingastofnunar um breytingu á umönnunarmati vegna sonar kæranda frá 13. nóvember 2015 felld úr gildi. Upphafstími umönnunarmatsins samkvæmt 3. flokki, 35%, skal vera 1. desember 2014.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. janúar 2016, um að synja A, um breytingu á gildandi umönnunarmati vegna sonar hennar, B, er felld úr gildi. Upphafstími umönnunarmats samkvæmt 3. flokki, 35%, dags. 13. nóvember 2015, skal vera 1. desember 2014.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta