Mál nr. 10/2016
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 10/2016
Miðvikudaginn 21. september 2016
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 18. janúar 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. desember 2015 um að stöðva greiðslur uppbótar vegna reksturs bifreiðar til kæranda.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með umsókn, dags. 19. febrúar 2014, sótti kærandi um uppbót vegna reksturs bifreiðar. Var umsókn hennar samþykkt.
Með bréfi, dags. 21. desember 2015, tilkynnti Tryggingastofnun ríkisins kæranda að samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu væru skilyrði reglugerðar nr. 170/2009 ekki lengur uppfyllt vegna þess að kærandi hefði ekki lengur ökumann. Tryggingastofnun væri því ekki heimilt að greiða uppbót lengur og greiðslur yrðu stöðvaðar.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 20. janúar 2016. Með bréfi, dags. 27. janúar 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 10. febrúar 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. febrúar 2016, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að kærandi hafi um nokkurt skeið fengið greidda bæði heimilisuppbót og uppbót vegna reksturs bifreiðar frá Tryggingastofnun ríkisins, en 21. desember 2015 hafi henni borist bréf þess efnis að hún yrði að velja á milli þess að fá heimilisuppbót eða uppbót vegna reksturs bifreiðar. Ástæðan, sem gefin hafi verið upp, væri sú að fái einstaklingur heimilisuppbót verði hann að búa einn og til þess að fá uppbót vegna reksturs bifreiðar verði að skrá ökumann bifreiðar, sem í tilviki kæranda séu NPA (notendastýrð persónuleg aðstoð) aðstoðarmenn og því breytilegir.
Frá byrjun árs X hafi kærandi búið ein í Reykjavík þar sem hún hafi stundað nám en sé með lögheimili hjá foreldrum sínum í B.
Hún sé með NPA sem þýði að hún sé með aðstoðarfólk sem aðstoði hana við allar athafnir daglegs lífs, þar með talið að keyra bílinn hennar fyrir hana. Hún búi ein og reki heimili og bíl sjálf. Hún hafi ekki ökuréttindi og geti því ekki verið skráð sem akstursmaður bifreiðarinnar og þar sem hún búi ein komi ekki til greina að skrá neinn annan. Þar sem talsverð starfsmannavelta sé hjá henni komi ekki til greina að skrá neinn aðstoðarmanna hennar sem akstursmann en þar að auki telji hún það stuðla að óeðlilegu sambandi milli hennar og aðstoðarmanna hennar þar sem sambandið sé eingöngu faglegs eðlis. Aðstoðarmenn hennar séu aðeins hendur hennar og fætur.
Tryggingastofnun segi að ef kærandi reki ekki heimili ein fái hún ekki heimilisuppbót og til þess að fá uppbót vegna reksturs bifreiðar þurfi einhver að vera skráður sem akstursmaður. Hingað til hafi það verið faðir hennar en ef hún skrái hann missi hún heimilisuppbótina þar sem hún ræki þá ekki heimili ein. Þess vegna skapist þessi vandi, því að kerfið geri ekki ráð fyrir NPA. Samkvæmt fulltrúa Tryggingastofnunar myndi kærandi eiga rétt á bæði heimilisuppbót og styrk vegna reksturs bifreiðar ef hún væri sjálf skráð sem ökumaður bifreiðarinnar. Hún keyri ekki bílinn en hann sé í hennar eigu og hún sjái um reksturinn á honum ein.
Þess vegna telji hún sanngjarnt að hún fái undanþágu og sé skráð í kerfinu sem ökumaður bifreiðarinnar þrátt fyrir að hafa ekki ökuréttindi.
Hún óski eftir því að fá bæði heimilisuppbót og uppbót vegna reksturs bifreiðar, líkt og það fatlaða fólk sem geti keyrt sjálft, en hún telji á sér brotið með því að synja henni um greiðslurnar.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að Tryggingastofnun ríksins líti svo á að kæra kæranda snúi einungis að uppbót til bifreiðarekstrar, en ekki til heimilisuppbótar þar sem kærandi hljóti heimilisuppbót.
Í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð segi að heimilt sé að greiða elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna reksturs bifreiðar, sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar, ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar.
Í 3. mgr. 10. gr. sömu laga segi að heimilt sé að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða vanti líkamshluta.
Með stoð í 10. gr. fyrrnefndra laga hafi ráðherra sett reglugerð nr. 170/2009, með síðari breytingum, um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Í 2. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um uppbætur vegna reksturs bifreiða og segi að eingöngu sé heimilt að veita uppbótina þegar eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt: (1) Hinn hreyfihamlaði hafi sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður; (2) nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar sé ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggi fyrir og; (3) mat á ökuhæfni liggi fyrir.
Núgildandi reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða hafi tekið gildi árið 2009 og hafi hún tekið við af eldri reglugerð nr. 752/2002 um styrki og uppbætur Tryggingastofnunar ríkisins til hreyfihamlaðra vegna bifreiða, með síðari breytingum.
Með núgildandi reglugerð hafi aðgengi að uppbótum og styrkjum verið rýmkað verulega frá því sem áður hafi verið. Í reglugerð nr. 170/2009 hafi skilyrði til þess að eiga rétt á styrk vegna bifreiðakaupa, hvort sem það sé samkvæmt 4. gr. eða 5. gr. reglugerðarinnar, verið rýmkuð á þann hátt að nú þurfi umsækjendur ekki sjálfir að hafa ökuréttindi heldur dugi að heimilismaður hafi slík réttindi. Í dag séu því gerðar sömu kröfur til ökuréttinda umsækjanda og heimilismanns hans hvort sem um sé að ræða uppbætur vegna bifreiðakaupa og reksturs bifreiða samkvæmt 2. og 3. gr. eða styrki til bifreiðakaupa samkvæmt 4. eða 5. gr. reglugerðarinnar.
Samkvæmt skýru orðalagi reglugerðar nr. 170/2009 sé ljóst að hinn hreyfihamlaði þurfi sjálfur að hafa ökuréttindi eða annar heimilismaður þurfi að vera tilnefndur sem ökumaður bifreiðarinnar og sé það skilyrði veitingu uppbótar og styrkja til bifreiðakaupa.
Tryggingastofnun vilji benda á að búseta kæranda hafi ekki einvörðungu leitt af sér réttindamissi fyrir kæranda. Ýmis félagsleg réttindi frá ríki og sveitarfélögum séu bundin við það að bótaþegi sé einn um heimilishald. Of langt mál yrði að telja upp öll þau réttindi, en sem dæmi þá vilji stofnunin benda sérstaklega á að kærandi fái greidda heimilisuppbót samkvæmt 8. gr. laga um félagslega aðstoð, en kærandi falli þar undir þar sem hún sé ein um heimilisrekstur og njóti ekki fjárhagslegs hagræðis af sambýli að samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.
Samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 170/2009 sé það skilyrði fyrir veitingu uppbótar vegna reksturs bifreiðar að hinn hreyfihamlaði hafi sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður. Sama skilyrði sé að finna í 1. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar um styrkveitingu til bifreiðakaupa. Með öðrum orðum, til að eiga rétt á uppbót til reksturs bifreiðar samkvæmt reglugerð nr. 170/2009 þurfi einstaklingur annað hvort að vera með gilt ökuskírteini eða vera með lögheimili á sama stað og sá/sú sem muni keyra bíl kæranda. Þegar af þeirri ástæðu sé ljóst að skilyrði reglugerðarinnar séu ekki uppfyllt í tilviki kæranda.
Miðað við fyrirliggjandi gögn telji stofnunin ljóst að afgreiðsla málsins hafi að öllu leyti verið í samræmi við reglugerð nr. 170/2009 þar sem engar undantekningarheimildir sé að finna frá framangreindu skilyrði reglugerðarinnar. Tryggingastofnun vísi einnig til þess að fyrrum úrskurðarnefnd almannatrygginga hafi staðfest nálgun stofnunarinnar til að mynda í úrskurði nefndarinnar nr. 93/2014, dags. 28. maí 2014, og úrskurði 55/2010, dags. 1. desember 2010.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. desember 2015, um að stöðva greiðslur uppbótar vegna reksturs bifreiðar til kæranda.
Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar til bifreiðakaupa er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. 10. gr. laganna segir meðal annars svo:
„Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.“
Í 2. mgr. 10. gr. segir svo að sama gildi um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkulífeyrisþegi og örorkustyrkþegar. Þá segir í 3. málsl. 3. mgr. 10. gr. laganna að ráðherra setji reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæðinu, meðal annars um sex mánaða búsetuskilyrði.
Með stoð í 3. málsl. 3. mgr. nefndrar 10. gr. hefur ráðherra sett reglugerð nr. 170/2009, um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Ákvæði 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar fjallar um uppbætur vegna reksturs bifreiða og er hún svohljóðandi:
„Uppbót er eingöngu heimilt að veita þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
1. Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður.
2. Nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar er ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggur fyrir.
3. Mat á ökuhæfni liggur fyrir.“
Samkvæmt gögnum málsins voru greiðslur uppbótar vegna reksturs bifreiðar til kæranda stöðvaðar á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki skilyrði 1. tölul. 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar. Óumdeilt er í máli þessi að hvorki kærandi sjálf né heimilismaður hennar hafi ökuréttindi. Kærandi krefst þess hins vegar að hún fái undanþágu frá framangreindu skilyrði og sé skráð í kerfinu sem ökumaður bifreiðarinnar þrátt fyrir að hafa ekki ökuréttindi. Kærandi greinir frá því að hún sé með NPA og þeir starfsmenn sem aðstoði hana aki bifreiðinni fyrir hana.
Ljóst er að kærandi uppfyllir ekki skilyrði 1. tölul. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 170/2009 fyrir veitingu uppbótar vegna reksturs bifreiðar þar sem hún hefur hvorki ökuréttindi sjálf né annar heimilismaður. Ekki er kveðið á um neinar undanþágur frá framangreindu skilyrði í reglugerðinni. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur skilyrðið málefnalegt, enda sé nauðsynlegt að tryggja að bifreiðin sé einungis nýtt í þágu bótaþegans. Með hliðsjón af 1. tölul. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 170/2009 er ákvörðun Tryggingastofnunar frá 21. desember 2015 um stöðvun greiðslu uppbótar staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. desember 2015 í máli A, um að stöðva greiðslur uppbótar vegna reksturs bifreiðar til hennar er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir