Mál nr. 274/2021 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 274/2021
Miðvikudaginn 7. júlí 2021
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.
Með ódagsettri kæru, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála málsmeðferð Tryggingastofnunar ríkisins við afgreiðslu á andmælum vegna endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2019.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2019. Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2019 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 417.070 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu og innheimtu kröfunnar með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 14. september 2020. Kærandi andmælti niðurstöðu endurreikningsins með bréfi, mótteknu 9. október 2020. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. október 2020, var kæranda tilkynnt um móttöku andmæla og hún upplýst að áætlaður afgreiðslutími væri átta vikur. Kærandi ítrekaði andmælin með erindi, mótteknu 5. janúar 2021. Með bréfi, dagsettu sama dag, staðfesti Tryggingastofnun móttöku andmælanna og var kærandi upplýst um að áætlaður afgreiðslutími væri átta vikur. Með bréfi, dags. 24. febrúar 2021, ítrekaði kærandi andmælin og var móttaka þeirra staðfest með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 26. febrúar 2021, og kæranda tilkynnt að áætlaður afgreiðslutími væri átta vikur. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. apríl 2021, var andmælum kæranda svarað og var kærandi upplýst um að endurreikningurinn skyldi standa óbreyttur.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 27. maí 2021. Í símtali úrskurðarnefndar við kæranda þann 4. júní 2021 upplýsti hún að kæruefnið varðaði seinagang og framkomu Tryggingastofnunar. Með bréfi, dags. 9. júní 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum kæranda um hvort kæran varðaði einhverja stjórnvaldsákvörðun Tryggingastofnunar gagnvart henni. Í símtali 28. júní 2021 greindi kærandi frá því að hún væri einungis að kæra vinnubrögð Tryggingastofnunar.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru greinir kærandi frá því að í meira en hálft ár hafi hún reynt að fá leiðréttingu eða skýringu á skerðingu bóta fyrir árið 2019 en þrátt fyrir fjögur bréf, tvö netbréf og komu á skrifstofu Tryggingastofnunar hafi hún ekki enn fengið nein greið svör.
Það sé mat kæranda að miklar hömlur hafi verið á afgreiðslu og meðhöndlun mála Tryggingastofnunar á árinu 2020 og fram til maí 2021 vegna COVID-19 en það geti ekki verið að það taki átta mánuði að afgreiða svona tiltölulega einfalt mál.
Meðfylgjandi sé afrit af síðasta bréfi kæranda til Tryggingastofnunar í von um að hægt verði að ýta á stofnunina til að meðhöndla mál hennar.
Í bréfi Tryggingastofnunar frá 9. október 2020 komi fram að innheimtu kröfu verði frestað þar til andmælin hafi verið afgreidd. Þetta hafi ekki staðist þar sem byrjað hafi verið að draga frá bótum hennar í janúar.
Það sé greinilegt að í lögum um ellilífeyri sé mjög margt til vanbóta. Henni sé kunnugt um að bæði pólitískir flokkar og Félag eldri borgara hafi reynt að taka á þessum málum en árangurslaust. En það þurfi að minnsta kosti að gefa ellilífeyrisþegum greinargóðar skýringar þegar bætur og skatttar hafi tekið 66% af sparnaði í gegnum mörg ár sem sé ætlaður til ellidaga.
Að auki sé bent á að það ætti að vera skylda Tryggingastofnunar að nefna með nafni þann starfsmann sem eigi að taka að sér að meðhöndla mál, það sé ógjörningur að hafa samskipti við símanúmer, netfang, ónafngreindan umboðsmann eða tölvu.
III. Niðurstaða
Kæra í máli þessu virðist fyrst og fremst varða málshraða Tryggingastofnunar ríkisins við afgreiðslu andmæla vegna endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2019. Í kæru er greint frá því að kærandi hafi í fjórgang andmælt niðurstöðu endurreiknings og það hafi tekið Tryggingastofnun átta mánuði að svara erindum hennar. Í símtali við úrskurðarnefnd velferðarmál 4. júní 2021 upplýsti kærandi að kæran varðaði seinagang og framkomu Tryggingastofnunar í hennar máli. Í símtali 28. júní 2021 ítrekaði kærandi að hún væri einungis að kæra vinnubrögð Tryggingastofnunar. Fyrir liggur að með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 6. apríl 2021, var andmælum kæranda svarað og var niðurstaðan sú að endurreikningurinn skyldi standa óbreyttur.
Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir að rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt þeim lögum, kveði úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, upp úrskurð í málinu. Hið sama gildi um ágreining um endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu þeirra, sbr. 55. gr. laganna.
Af framangreindu leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar velferðarmála er bundið við nánar tilteknar ákvarðanir sem Tryggingastofnun ríkisins tekur samkvæmt lögum um almannatryggingar og þeim reglugerðum sem settar eru með stoð í lögunum. Eins og úrskurðarvald nefndarinnar er afmarkað fellur það því utan valdsviðs hennar að fjalla almennt um kvartanir er lúta að starfsháttum eða málsmeðferð Tryggingastofnunar í málum sem stofnunin hefur til umfjöllunar.
Tryggingastofnun hefur afgreitt andmæli kæranda vegna endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2019. Af málatilbúnaði kæranda og símtölum við úrskurðarnefndina verður ekki séð að ágreiningur sé uppi um þá niðurstöðu heldur snýr kæran fyrst og fremst að því hvernig málsmeðferð stofnunarinnar var háttað í kjölfar þess að ákvörðun var tekin í máli kæranda. Af gögnum málsins verður ráðið að ekki sé til staðar ágreiningur á milli kæranda og Tryggingastofnunar ríkisins um nein af þeim ágreiningsefnum sem tilgreind eru í 13. gr. laga um almannatryggingar. Þegar af þeirri ástæðu er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
Kæranda er bent á að ef hún er ósátt við málsmeðferð Tryggingastofnunar getur hún freistað þess að bera umkvartanir sínar undir félagsmálaráðuneytið sem fer með yfirstjórn Tryggingastofnunar ríkisins, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga um almannatryggingar.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefndinni.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir