Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 226/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 226/2023

Miðvikudaginn 14. júní 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Unnþór Jónsson lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 5. maí 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 3. maí 2023 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 22. mars 2022. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 3. maí 2023, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing hefði ekki verið fullreynd.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 5. maí 2023. Með bréfi, dags. 9. maí 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 23. maí 2023, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að Tryggingastofnun ríkisins hafi synjað kæranda um örorku og einnig um endurhæfingarlífeyri. Kærandi nenni þessu ekki, hann sé líkamlega og andlega veikur.

 

 

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærandi hafi sótt um örorkulífeyri og tengdar greiðslur með umsókn, dags. 22. mars 2023, en hafi verið synjað með bréfi, dags. 3. maí 2023, með vísan til þess að ekki væri tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hefði ekki verið fullreynd.

Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 24. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 1. mgr. 24. gr. og 1. mgr. 25. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75 % örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laganna.

Hins vegar sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar, 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga um félagslega aðstoð, með síðari breytingum. Í 1. mgr. segi að heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18-67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil samkvæmt 1. mgr. um allt að 24 mánuði, enda sé starfsendurhæfing með það að markmiði að auka atvinnuþátttöku enn talin raunhæf að mati framkvæmdaraðila, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð.

Kærandi hafi fyrst sótt um örorkulífeyri með umsókn, dags. 19. september 2021, en þeirri umsókn hafi verið vísað frá vegna skorts á gögnum, sbr. bréf, dags. 20. september 2021.

Kærandi hafi fyrst sótt um endurhæfingarlífeyri með umsókn, dags. 12. mars 2022, og sú umsókn hafi verið samþykkt með bréfi, dags. 8. apríl 2022. Í kjölfarið hafi kærandi þegið endurhæfingarlífeyri samfleytt í samtals 11 mánuði, eða frá 1. apríl 2022 til 28. febrúar 2023. Framlengingu endurhæfingartímabils hafi verið synjað með bréfi, dags. 10. mars 2023, vegna þess að við skoðun máls hafi ekki þótt rök fyrir því að meta endurhæfingartímabil þar sem fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun hafi ekki talist nógu ítarleg í ljósi heildarvanda kæranda og óljóst hvernig endurhæfingin kæmi til með að stuðla að endurkomu á vinnumarkað, enda virtist virk endurhæfing þar sem tekið væri á heilsufarsvanda kæranda vart vera í gangi. Kærandi hafi því ekki uppfyllt skilyrði fyrir veitingu endurhæfingarlífeyris, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð þar sem segi að endurhæfing skuli vera með starfshæfni að markmiði. Kærandi hafi því ekki lokið að fullu rétti sínum til endurhæfingarlífeyris samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð og 4. gr. reglugerðar nr. 661/2020 um framkvæmd endurhæfingarlífeyris.

Kærandi hafi sótt á ný um örorkulífeyri með umsókn, dags. 22. mars 2023, en þeirri umsókn hafi verið synjað með bréfi, dags. 3. maí 2023, með þeim rökum að ekki væri tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hefði ekki verið fullreynd.

Við mat á umsóknum um örorkulífeyri styðjist tryggingalæknir við þau gögn sem liggi fyrir hverju sinni. Við örorkumat þann 3. maí 2023 hafi legið fyrir umsókn kæranda um örorkulífeyri, dags. 22. mars 2023, læknisvottorð, dags. 16. mars 2023, spurningalisti vegna færniskerðingar, dags. 30. mars 2023, þjónustulokaskýrsla VIRK, dags. 3. nóvember 2022, og eldri gögn vegna fyrri umsókna um endurhæfingarlífeyri.

Í læknisvottorði, dags. 16. mars 2023, sem útbúið hafi verið af B lækni og hafi legið fyrir við synjun Tryggingastofnunar á umsókn um örorkulífeyri þann 3. maí 2023, sé kærandi greindur með bakverk (e. dorsalgia) (M54.9), þunglyndi (e. depressive episode) (F32.9), fíkniheilkenni af völdum kannabisefna (e. mental and behavioural disorders due to use of cannabinoids - dependence syndrome) (F12.2) og axlarmeinsemd (e. shoulder lesion) (M75.9) sbr. ICD 10. Um fyrra heilsufar kæranda segi að hann hafi glímt við þunglyndi frá barnsaldri og að meðferðartilraunir hafi ekki skilað árangri. Um heilsuvanda og færniskerðingu kæranda nú segi að hann sé 30 ára karlmaður með langa sögu um verkjavanda í baki, herðum og vinstri öxl þar sem verkurinn sé verstur. Auk þess segi að kærandi hafi leitað lausnar á þessum vanda og að coxerit-kúr hafi hjálpað en aðeins á meðan á kúrnum hafi staðið. Þá segi að kærandi hafi misst starf sem hafi falið í sér líkamlega vinnu árið 2021 í kjölfar ítrekaðs veikindaleyfis vegna verkja. Þó segi að hann hafi nýlega sinnt erfiðisvinnu verkjaður. Auk þess segi að kærandi hafi glímt við þunglyndi frá barnsaldri, þrátt fyrir lyf og sálfræðimeðferð. Þá segi að kærandi hafi verið að neyta kannabisefna til verkjastillingar sem líklega hafi einnig áhrif á skerta vinnugetu hans. Um vinnufærni kæranda segi að hann hafi verið óvinnufær frá 20. júní 2021 og að ekki megi búast við að færni hans aukist. Að lokum segi að það sé mat vottorðshöfundar að kærandi komist ekki aftur á vinnumarkað þar sem starfsorka hans sé mikið skert og áhugahvöt sé ekki til staðar. Því til stuðnings vísi vottorðshöfundur til þess að kærandi hafi stundað endurhæfingu hjá VIRK í fimm mánuði og í aðra fimm mánuði í heilbrigðiskerfinu, án árangurs.

Við örorkumatið hafi legið fyrir spurningalisti vegna færniskerðingar, dags. 30. mars 2023, sem kærandi hafi fyllt út vegna umsóknar sinnar um örorku þann 22. mars 2023. Þar lýsi kærandi heilsuvanda sínum þannig að hann sé með gigt, brjósklos, kalkmyndun í öxlum, verki í baki, hálsi og liðum, persónuleikaröskun, kvíða, kvíðaröskun og krónískt þunglyndi. Um fyrirhugaða læknismeðferð á næstu mánuðum segist kærandi vera á biðlista fyrir sjúkraþjálfun og myndatökur. Um einstaka þætti færniskerðingar segi kærandi að vegna gigtar, brjóskloss, kalkmyndunar í öxlum, verkja í baki, hálsi og liðum eigi hann erfitt með að sitja á stól, standa upp af stól, beygja sig eða krjúpa, að standa, að ganga á jafnsléttu, að ganga upp og niður stiga, að nota hendurnar, að teygja sig eftir hlutum og að lyfta og bera hluti. Þá segist kærandi glíma við geðræn vandamál sem lýsi sér í persónuleikaröskun, kvíða, kvíðaröskun, krónísku þunglyndi og almennu áhugaleysi.

Við örorkumatið hafi einnig legið fyrir þjónustulokaskýrsla VIRK, dags. 3. nóvember 2022. Þar segi að meginástæður óvinnufærni kæranda hafi verið geðlægðarlota og bakverkur. Í starfsendurhæfingarmati, dags. 12. maí 2022, segi að heilsubrestur hafi verið til staðar sem hafi valdið óvinnufærni en að talið væri raunhæft að stefna á þátttöku á almennum vinnumarkaði og að starfsendurhæfing hjá VIRK myndi auka líkur á endurkomu til vinnu. Þá komi þar fram að kærandi hafi viljað laga öxlina og sjá síðan hvað væri í boði en að hann sæi fyrir sér að fara aftur í erfiðisvinnu. Verkir kæranda í öxl hafi hins vegar ekki verið taldir hamla atvinnuþátttöku hans að neinu ráði, þótt þeir takmörkuðu mögulega val á atvinnu. Í lok starfsendurhæfingarmatsins segi að stefnt hafi verið á fullt starf haustið 2022. Um þjónustulok, dags. 3. nóvember 2022, segi að kæranda sé vísað til meðferðar í heilbrigðiskerfinu. Þá segi að í upphafi þjónustu VIRK hafi læknir VIRK lagt til að kærandi sinnti starfsendurhæfingu í 3-4 mánuði með áherslu á undirbúning fyrir nám eða létt starf, líkamlega uppbyggingu vegna verkjavanda í öxl og að draga úr félagsfælni. Hins vegar segi að á tímabilinu hafi verkirnir versnað og að kærandi reyki kannabis til verkjastillingar sem gæti hafa haft áhrif á starfsendurhæfingu hans. Þar sem framganga hafi ekki verið í starfsendurhæfingu kæranda hafi verið mælt með vísun í heilbrigðiskerfið.

Tryggingastofnun vilji ítreka að stofnuninni sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkumat hjá stofnuninni gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 2.mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga um félagslega aðstoð.

Tryggingastofnun leggi sjálfstætt mat á færniskerðingu umsækjanda á grundvelli framlagðra gagna þar sem meðal annars sé horft til sjúkdómsgreininga, heilsufarsögu og upplýsinga um meðferðir/endurhæfingu sem umsækjandi hafi undirgengist í kjölfar veikinda og/eða slysa. Við gerð örorkumats sé Tryggingastofnun því ekki bundin af ályktunum lækna eða annarra meðferðaraðila um meinta örorku eða óvinnufærni umsækjanda. Við það mat skipti þannig máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfi Tryggingastofnun til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst sé í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs. Tryggingastofnun hafi á ný lagt mat á þau gögn sem liggi fyrir í málinu. Samkvæmt læknisvottorði, dags. 16. mars 2023, og öðrum fyrirliggjandi gögnum sé líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún sé metin af sérfræðingum Tryggingastofnunar, slík að ekki sé tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hans hefur ekki verið fullreynd heldur sé ráðið af eðli veikinda kæranda að endurhæfing geti komið að gagni. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sé því ekki útilokað að færni kæranda aukist með endurhæfingu. Enn sé talið mögulegt að vinna með heilsufarsvanda kæranda og því sé ekki tímabært að meta örorku kæranda. Við það mat sé horft til þess hvers eðlis heilsufarsvandi kæranda sé og þeirra endurhæfingarúrræða sem séu fyrirhuguð.

Mati sínu til stuðnings vísi Tryggingastofnun til þess að í læknisvottorði, dags. 16. mars 2022, segi að verkir þeir sem kærandi glími við séu verstir í öxl hans. Í þjónustulokaskýrslu VIRK, dags. 3. nóvember 2022, segi hins vegar að verkir kæranda í öxl séu ekki taldir hamla atvinnuþátttöku hans að neinu ráði þó að þeir takmarki mögulega val á atvinnu, enda segi í áðurnefndu læknisvottorði að kærandi hafi nýlega sinnt erfiðisvinnu, þrátt fyrir verki. Í sama læknisvottorði segi einnig að notkun kannabisefna og lítil áhugahvöt hafi áhrif á starfsorku kæranda. Í áðurnefndri þjónustulokaskýrslu segi einnig að regluleg notkun kannabisefna gæti hafa haft áhrif á starfsendurhæfingu kæranda. Af þessu megi ráða að færniskerðing kæranda felist helst í þunglyndi hans og fíkniheilkenni af völdum kannabisefna. Stofnunin vísi einnig til þess að í læknisvottorði vegna umsóknar um endurhæfingarlífeyri, dags. 20. febrúar 2023, hafi sami læknir talið að búast mætti við að færni kæranda gæti aukist með þverfaglegri aðstoð. Að mati sérfræðinga stofnunarinnar hafi færni kæranda ekki breyst síðan þá.

Að sama skapi vísi stofnunin til þess að kærandi hafi einungis lokið 11 mánuðum í endurhæfingu af 60 mánuðum mögulegum. Kærandi hafi þannig ekki fullnýtt rétt sinn til endurhæfingarlífeyris samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð og 4. gr. reglugerðar nr. 661/2020. Tryggingastofnun mæli því með að kærandi láti áfram reyna á viðeigandi endurhæfingu og sæki um endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun.

Það er því niðurstaða sérhæfðs mats Tryggingastofnunar á möguleikum kæranda til endurhæfingar að endurhæfing sé ekki fullreynd þar sem talið sé að enn sé hægt að vinna með heilsufarsvanda kæranda. Í því sambandi vilji Tryggingastofnun taka fram að mat á því hvort endurhæfing sé fullreynd miðist við læknisfræðilegar forsendur endurhæfingarinnar en ekki önnur atriði eins og til dæmis framfærslu viðkomandi, vilja hans til þess að sinna endurhæfingu, búsetu eða aðrar félagslegar aðstæður hans eða það hvort viðkomandi uppfylli ekki einhver önnur skilyrði endurhæfingarlífeyris hjá stofnuninni.

Einnig skulu áréttað að það sé ekki hlutverk Tryggingastofnunar að leggja til meðferðar- eða endurhæfingarúrræði heldur sé sú ábyrgð lögð á lækna umsækjenda að koma umsækjendum um endurhæfingarlífeyri og/eða örorkulífeyri í viðeigandi endurhæfingarúrræði sem taki mið af vanda einstaklingsins hverju sinni.

Í ljósi alls ofangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðslan á umsókn kæranda sé rétt. Sú niðurstaða sé byggð á faglegum sjónarmiðum sem og gildandi lögum og reglum.

Tryggingastofnun fari því fram á staðfestingu ákvörðunar sinnar frá 3. maí 2023 um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 3. maí 2023, þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt hafi verið að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 25. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar eru greiðslur örorkulífeyris bundnar því skilyrði að umsækjendur hafi verið metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. og 2. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi hafi átt lögheimili hér á landi samfellt síðustu 12 mánuði og taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 24 mánuði enda sé starfsendurhæfing með það að markmiði að auka atvinnuþátttöku enn talin raunhæf að mati framkvæmdaraðila, sbr. 1. mgr.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð B, dags. 16. mars 2023. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:

„BAKVERKUR

ÞUNGLYNDI

FÍKNIHEILKENNI AF VÖLDUM KANNABISEFNA

AXLARMEINSEMD, ÓTILGREIND“

Þá segir svo um heilsuvanda og færniskerðingu nú:

„A er 30 ára kk með langa sögu um verkjavanda í baki, herðum og vinstri öxl. Hefur leitað nokkrum sinnum til læknis vegna vandamálsins og fengið coxerit kúr sem hann segir að hafi hjálpað en verði alltaf slæmur aftur þegar kúrnum líkur. Nú er hann verstur í vi öxl og leitar því á síðdegisvaktina. Stigar verkinn 8/10 þegar verstur. Hefur verið að taka íbúfen eftir þörfum. Var rekinn úr vinnu í C árið 2021. Hefur verið að vinna erfiðisvinun allt sitt líf en var rekinn úr vinnunni vegna þess að hann bað um aukið veikindaleyfi vegna verkja að hans sögn. Nú verið í erfiðisvinnu og verkir í vi öxl hreyfigeta góð en verkjabogi frá 90 gr og uppúr. Þunglyndi frá barnsaldri lyf og sálfræðimeðferð lítið hjálpaðþ Þarf aðstoð stuðning og vinnu með áhugahvöt. Meðferð lokið: Greiningu og meðferð innan heilbrigðiskerfisins er lokið Hefur verið að neita cannabis til verkjastillingar sem líklega hefur einnig áhrif á skerta vinnugetu“

Lýsing læknisskoðunar er svohljóðandi í vottorðinu:

„Grannvaxinn geðslag lækkað og við skoðun þá er hann með ágætis hreyfingar en það tekur í við ystu hreyfingar í öxlinni, það eru væg jákv. klemmupróf, hann lýsir verkjum aftan í herðum og við provocation sem er neikv. þá fær hann verki í hálsinn og það er til gagnstæðrar hliðar þegar maður sveigir hálsliðina. Styrkurinn í öxlinni er minnkaður sérstaklega við álag á supraspinatus bilateralt.“

Í læknisvottorðinu kemur fram að kærandi hafi verið óvinnufær frá 20. júlí 2021 og að ekki megi búast við því að færni aukist. Í athugasemdum segir:

„Það er mitt mat að þessi maður komist ekki á vinnumarkað. Starfsorka er mikið skert áhugahvöt ekki til staðar. 5 mánuðir hjá Virk og aðrir 5 mánuðir hjá mér með endurhæfingaráætlun ekki skilað árangri.“

Fyrir liggur einnig læknisvottorð B, dags. 20. febrúar 2023, vegna umsóknar kæranda um endurhæfingarlífeyri. Þar kemur fram að kærandi sé óvinnufær en geti öðlast vinnufærni með þverfaglegri aðstoð. Í læknisvottorði B, dagsettu sama dag, segir um endurhæfingaráætlun:

„1. Stuðningsviðtöl hjá heimilislækni þar sem unnið er með þunglyndi og áhugahvöt

2. Sjúkraþjálfun x1 í viku

3. Styrktarþjálfun

4. Eigin þjálfun gönguferðir og virkniþjálfun

5. Námskeið hjá Kvíðameðferðarstöðinni.

6. Myndrannsóknir pending

7. Meðferð hjá D (sprautað í öxl)“

Þá liggur fyrir þjónustulokaskýrsla VIRK, dags. 3. nóvember 2022. Þar segir um þjónustuferil hjá ráðgjafa:

„A hefur verið í þjónustu VIRK í 5 mánuði. Í upphafi þjónustu lagði læknir VIRK til að bjóða 3-4 mánuði í starfsendurhæfingu með áherslu á undirbúning fyrir nám eða létt starf, líkamlega uppbyggingu vegna verkjavanda í öxl og draga úr félagsfælni. Auk viðtala og stuðnings ráðgjafa var A í sjúkraþjálfun á eigin vegum, fyrst aðeins 1-2x í mánuði en var aukið í 1x í viku. Einnig fór hann á félagskvíðanámskeið hjá Kvíðameðferðarstöðinni og lýkur því í nóvember. A hefur fengið tækifæri að sinna starsendurhæfingu þann tíma sem læknir mælti með í mati. Á tímabilinu hafa verkir versnað og hann því ekki að nálgast vinnumarkað. Þá reykir A kannabis reglulega til verkjastillingar sem gæti haft áhrif á starfsendurhæfingu. Hann er nú í uppvinnslu hjá bæklunarlækni. Þar sem framgangur er ekki í starfsendurhæfingu er mælt með vísun í heilbrigðiskerfið.“

Í fyrirliggjandi spurningalista vegna færniskerðingar, sem kærandi lagði fram með umsókn um örorkumat, svaraði hann spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni. Í lýsingu á heilsuvanda nefnir kærandi gigt, brjósklos, kalkmyndun í öxl/um, verki í baki, hálsi og liðum, „borderline personality disorder“, kvíða, kvíðaröskun og krónískt þunglyndi. Af svörum kæranda verður ráðið að hann eigi erfitt með ýmsar daglegar athafnir sökum verkja. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann glími við geðræn vandamál þannig að hann glími við „borderline personality disorder“, kvíða, kvíðaröskun og krónískt þunglyndi. Hann hafi engan áhuga á fólki og sé alveg sama um allt og alla.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Eins og áður hefur komið fram er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkulífeyri gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Þá var kæranda bent á reglur um endurhæfingarlífeyri.

Fyrir liggur að kærandi býr við vandamál af andlegum og líkamlegum toga. Í fyrrgreindu læknisvottorði B, dags. 16. mars 2023, kemur fram að kærandi sé óvinnufær og ekki megi búast við því að færni aukist. Í vottorðinu kemur fram að það sé mat læknis að kærandi komist ekki á vinnumarkað þar sem starfsorkan sé mikið skert og áhugahvöt ekki til staðar. Í þjónustulokaskýrslu VIRK kemur fram að þar sem framgangur sé ekki í starfsendurhæfingu sé mælt með vísun í heilbrigðiskerfið.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráðið verði af þjónustulokaskýrslu VIRK að endurhæfing hjá VIRK sé óraunhæf að svo stöddu en ekki verður dregin sú ályktun af skýrslunni að ekki sé möguleiki á endurhæfingu á öðrum vettvangi. Þá telur úrskurðarnefndin að ekki verði ráðið af þeim upplýsingum sem fram komi í læknisvottorðum B eða af eðli veikinda kæranda að frekari endurhæfing geti ekki komið að gagni. Þá liggur fyrir að kærandi hefur fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun í 11 mánuði en heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 60 mánuði samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að láta reyna á áframhaldandi endurhæfingu í tilviki kæranda áður en til örorkumats kemur.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 3. maí 2023, um að synja kæranda um örorkumat.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkumat, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta