Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 399/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 399/2021

Miðvikudaginn 17. nóvember 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 7. ágúst 2021, kærði A A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. maí 2021 um að senda Innheimtustofnun sveitarfélaga beiðni um innheimtu á greiddu meðlagi til barnsmóður kæranda vegna tímabilsins 1. apríl 2018 til 28. febrúar 2021. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með rafrænni umsókn, móttekinni 11. apríl 2019, sótti barnsmóðir kæranda um bráðabirgðameðlag með dóttur sinni frá 28. mars 2018 hjá Tryggingastofnun ríkisins. Meðfylgjandi var staðfesting Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 3. apríl 2019, á því að barnsmóðir kæranda hefði lýst mann föður barns síns og óskað eftir því að sýslumaður hlutaðist til um að afla faðernisviðurkenningar hins lýsta föður. Umsóknin var samþykkt og jafnframt síðari umsóknir um framlengingu á bráðabirgðameðlagi. Með rafrænni umsókn, móttekinni 29. mars 2021, óskaði barnsmóðir kæranda eftir milligöngu á meðlagsgreiðslum frá 1. mars 2021. Þá sótti barnsmóðir kæranda um milligöngu á meðlagsgreiðslum frá 1. apríl 2018 með umsókn 6. maí 2021. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 21. maí 2021, var kæranda tilkynnt um að stofnunin hefði greitt barnsmóður hans meðlag til bráðabirgða. Þar sem meðlagsákvörðun hefði verði gefin út hefði Innheimtustofnun sveitarfélaga verið send beiðni um innheimtu á greiddu meðlagi frá 1. apríl 2018 til 28. febrúar 2021.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 7. ágúst 2021. Með bréfi, dags. 11. ágúst 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 8. september 2021, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. september 2021. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 23. september 2021, og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dags. 24. september 2021. Viðbótargreinargerð, dags. 12. október 2021, barst frá Tryggingastofnun og var hún send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 13. október 2021. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfum, dags. 13. október og 4. nóvember 2021.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að kæran varði ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. maí 2021 þar sem honum sé gert skylt að greiða afturvirkt bráðabirgðameðlag frá 1. apríl 2018.

Kærandi greinir frá samskiptum sínum við barnsmóður sína. Fram kemur meðal annars að eftir fæðingu hafi kærandi fengið að hitta dóttur sína á heimili barnsmóður í klukkustund á sunnudögum. Þannig hafi þetta gengið í þrjú ár en þegar kærandi hafi óskað eftir frekari umgengni hafi alveg slitnað upp úr samskiptunum. Kærandi hafi því farið fram á umgengni við dóttur sína í gegnum sýslumann. Í kjölfarið hafi komið í ljós að barnið hefði aldrei verið feðrað.

Þá hafi kærandi ráðið sér lögmann til að reyna að láta feðra stúlkuna með DNA prófi. Kærandi hafi ekki átt peninga fyrir slíku prófi sjálfur og lögmaður hans hafi tjáð honum að erfitt gæti verið að fá fólk í slík próf ef vilji þeirra væri ekki fyrir hendi. Kærandi hafi orðið uppiskroppa með peninga og barnsmóðir hans hafi dregið málið á langinn. Eftir þetta ferli hafi komið uppgjöf í kæranda og sex ár hafi liðið með engum samskiptum.

Í ágúst 2019 hafi kærandi fengið erindi frá Sýslumanninum á B um að farið væri fram á að hann gengist við því að stúlkan væri barnið hans og að hann greiddi meðlag með barninu. Kærandi hafi útskýrt málavexti fyrir sýslumanninum og verið sagt að sannreyna yrði faðernið með DNA prófi. Sýslumaður hafi áframsent erindið á barnsmóður kæranda 20. september 2019 og hafi sagst ekki sjá betur en að afskiptum Sýslumannsins á B væri þar með lokið.

Fjórtán mánuðum síðar hafi kærandi fengið tölvupóst frá barnsmóður sinni, með nýjan sýslumann í „cc“, þar sem hún hafi tilkynnt honum að hann ætti tíma í DNA í  C 3. desember 2020. Þar fái kærandi staðfest að hann sé raunverulegur faðir stúlkunnar.

Kærandi hafi haldið áfram að eiga samskipti við barnsmóður sína í gegnum sýslumann og hægt og bítandi hafi hlutir farið að færast í betri farveg. Í upphafi árs 2021 hafi kærandi fengið að hitta dóttur sína í fyrsta skipti í sjö ár. Stúlkan hafi verið feðruð opinberlega á vormánuðum 2021.

Í kjölfarið hafi verið lagður til samningur um meðlagsgreiðslur. Kærandi hafi alltaf gert ráð fyrir því að hann myndi borga meðlag frá þeim tíma sem barnsmóðir hans yrði loks við því að feðra barnið en hún útskýrt að hún hafi fengið bráðabirgðameðlag frá Tryggingastofnun sem taka verði tillit til við „uppgjörstímann“. Kærandi hafi samþykkt það án betri vitundar og hafi í raun verið þakklátur fyrir að vera kominn á þennan stað.

Á fundi með kæranda og eiginkonu hans hafi barnsmóðir hans nefnt að hún vildi halda samskiptunum góðum og vildi helst að þau myndu ekki gera samning um umgengni hjá sýslumanni heldur halda þessu sín á milli. Kærandi hafi samþykkt það til að halda samskiptunum góðum.

Samskiptin hafi farið hægt og bítandi að færast yfir í gamla horfið. Kærandi og barnsmóðir hans hafi rætt það að dóttir þeirra yrði hjá kæranda í tvær vikur sumarið 2021 en það hafi dottið upp fyrir sig, án þess að barnsmóðir kæranda hafi látið vita. Í kjölfarið hafi hún bókað dóttur þeirra á sumarnámskeið um helgi sem hún hafi átt að vera hjá honum og tilkynnt að hún væri að fara í 5-6 vikna sumarfrí með stelpurnar sínar í kjölfarið þar sem engar „pabbahelgar“ yrðu.

Kærandi greinir frá erfiðum fjárhagsaðstæðum þeirra hjóna og segir að það hafi verið mikið áfall fyrir þau að fá rukkun um afturvirkt meðlag upp á 1,2-1,3 milljónir króna. Þá segir að það sé ljóst að barnsmóðir kæranda hafi aldrei haft vilja til þess að feðra dóttur þeirra. Henni hafi gefist fjölmörg tækifæri til þess en hafi þess í stað tekið einhliða ákvörðun um að ala hana upp sem einkadóttur sína. Þrátt fyrir að vita það að feðrun myndi leiða til meðlagsskyldu hjá undirrituðum hafi hún tekið meðvitaða ákvörðun árum saman um að gera það ekki. Með því hafi hún ekki einungis skert réttindi kæranda verulega í þessari baráttu heldur hafi hún einnig rýrt fjárhagsleg og tilfinningaleg lífsgæði barnsins með því að taka sína eigin hagsmuni fram yfir hagsmuni þess.

Það sem kærandi hafi áttað sig á núna eftir á sé að barnsmóðir hans hafi sótt um bráðabirgðameðlag undir lok mars 2019. Slíkar greiðslur geti verið að hámarki til tveggja ára. Krafan sem fylgi því að fá slíkar greiðslur sé sú að sýslumaður staðfesti að „málarekstur sé í gangi“. Fyrir kæranda sé það ljóst að barnsmóðir hans hafi á engum tímapunkti raunverulega unnið að feðrun barnsins á meðan hún hafi fengið greitt bráðabirgðameðlag. Þá hafi kærandi ekki verið upplýstur um að hún væri að fá greitt slíkt meðlag.

Það sé ekki fyrr en þegar þetta tímabil sé að renna upp og barnsmóður kæranda verði ljóst að henni sé skylt að endurgreiða bráðabirgðameðlagið sem hún láti verða af feðrun barnsins, en annað hefði haft umtalsverðar fjárhagslegar afleiðingar fyrir hana. Það sé mat kæranda að bráðabirgðameðlög séu ekki ætluð þeim sem geti sótt hefðbundið meðlag með einföldum hætti og að þarna hafi kerfið verið misnotað.

Kærandi gerir athugasemdir við þann tíma sem það hafi tekið að vinna málið. Barnsmóðir kæranda hafi fengið greitt bráðabirgðameðlag frá 1. apríl 2019. Í bréfi frá sýslumanni komi þó fram að barnsmóðir hans hafi lagt fram beiðni um faðernisviðurkenningu og meðlag 16. nóvember 2018. Beiðnin sé stimpluð um móttöku 28. mars 2019. Kærandi spyr hvernig það megi vera að það líði allt að fimm mánuðir frá því að beiðni móður sé lögð fram þar til beiðnin sé stimpluð um móttöku hjá sýslumanni. Kærandi hafi ekkert heyrt frá sýslumanni fyrr en í kringum mánaðamótin júlí/ágúst 2019. Þá hafi verið liðnir átta og hálfur mánuður frá því að barnsmóðir hans hafi lagt fram beiðni sína og hún hafi verið búin að fá greiðslur á bráðabirgðameðlagi í fjóra mánuði án þess að kærandi væri meðvitaður um málið.

Kæranda finnist tíminn sem það hafi tekið að vinna þetta mál óásættanlega langur. Upplýsingaflæði til hans verði að teljast ábótavant. Kærandi krefjist frekari skýringa.

Kærandi spyr hvort Tryggingastofnun hafi gert eitthvað til að sinna rannsóknarskyldu sinni í málinu, sbr. 38. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Ljóst sé frá bæjardyrum kæranda séð að ekkert hafi staðið í vegi fyrir feðrun barnsins um árabil. Kærandi spyr einnig hvort Tryggingastofnun hafi boðað barnsmóður hans á fund sinn og hvort hún hafi sannarlega setið þann fund og komið fram nauðsynlegum upplýsingum um málið, sbr. 39. gr. laga um almannatryggingar.

Kærandi vilji meina að Tryggingastofnun hafi ekki reglubundið sannreynt réttmæti bóta á meðan barnsmóðir hans hafi fengið greitt bráðabirgðameðlag, sbr. 45. gr. laga um almannatryggingar. Hann fari því fram á að sýnt verði fram á að Tryggingastofnun hafi fylgt því eftir á þessu tveggja ára tímabili að unnið væri að feðrun barnsins. Hann spyr til að mynda hvernig Tryggingastofnun hafi brugðist við þegar sýslumaður hafi sagt aðkomu sína að málinu lokið og ekkert gerst í málinu mánuðum saman. Hefði kærandi verið upplýstur um stöðu mála frá upphafi hefði honum gefist kostur á að útskýra málasvexti og Tryggingastofnun hefði þar með getað aflað viðeigandi gagna um málið. Hér bendi kærandi sérstaklega á að grundvöll bótaréttar megi endurskoða hvenær sem er og samræma þeim breytingum sem orðið hafi á aðstæðum greiðsluþega.

Þá vilji kærandi enn frekar benda á að leiki rökstuddur grunur á að bætur séu greiddar á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga frá greiðsluþega, sé heimilt að afla upplýsinga frá þriðja aðila sem ætla megi að geti veitt upplýsingar er máli skipti í því skyni að leiðrétta bótagreiðslur.

Rannsaka verði hvort barnsmóðir kæranda hafi komið á framfæri öllum nauðsynlegum gögnum og upplýsingum í umsókn sinni, sbr. 52. gr. laga um almannatryggingar. Þá sé eins farið fram á að skoðað verði sérstaklega hvaða upplýsingar hafi borist frá sýslumanni og hvort þær upplýsingar standist þær kröfur sem gerðar séu til embættisins samkvæmt lögum.

Ekki sé ljóst hvort 63. gr. laga um almannatryggingar eigi við um bráðabirgðameðlög. Ef svo sé vilji kærandi gjarnan að gerð verði grein fyrir úrskurði stjórnvalds um meðlag og að svör berist um hvers vegna slíkur úrskurður sé tekinn án vitneskju hans.

Kærandi bendi á 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 til að undirstrika hvernig barnsmóðir hans hafi farið á mis við lög með því að hafa ekki feðrað barn meðvitað í rúm 10 ár. Með því hafi hún brotið á rétti barnsins til að þekkja báða foreldra sína og á sama tíma hamlað rétti barnsins til framfærslu beggja foreldra.

Kærandi bendi á 7. gr. barnalaga til að undirstrika ítrekaðar og meðvitaðar tilraunir barnsmóður hans til að komast hjá því að feðra barnið. Kæranda þyki ótrúlegt að ekkert sé til í íslenskum lögum um viðurlög gagnvart þeim sem neiti að feðra börn sín. Kærandi óskar eftir að gerð verði grein fyrir þessum bráðabirgðaúrskurði og að rannsakað verði hvort sá úrskurður standist þær kröfur sem gerðar séu til aðila stjórnsýslunnar.

Í 9. gr. reglugerðar nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgeiðslna og annarra framfærsluframlaga segi að úrskurðurinn skuli vera samkvæmt 35. gr. og 1. mgr. 59. gr. barnalaga. Ákvæði 35. gr. barnalaga varði úrskurð um forsjá og kærandi eigi því erfitt með að tengja hann við þetta mál. Í 1. mgr. 59. gr. barnalaga segi:

„Nú hefur verið sett fram krafa um meðlag með barni, en fyrirsjáanlegt er að mál muni dragast á langinn þar sem foreldri, sem krafa beinist gegn, er búsett erlendis eða sérstökum örðugleikum er bundið að ná til þess og getur þá sýslumaður kveðið upp bráðabirgðaúrskurð um meðlag með barninu frá Tryggingastofnun ríkisins. Bráðabirgðameðlag verður ekki ákvarðað hærra en nemur einföldu meðlagi og ekki lengra aftur í tímann en krafan á hendur foreldri tekur til. Slík krafa verður þó aldrei úrskurðuð lengra aftur í tímann en eitt ár, enda hafi barnið verið búsett hér á landi þann tíma. Bráðabirgðameðlag, sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir samkvæmt þessari málsgrein, verður innheimt hjá hinu meðlagsskylda foreldri í samræmi við úrskurð sýslumanns á hendur því en er óafturkræft að öðru leyti.“

Kærandi spyr þar sem hann hafi ekki verið búsettur erlendis hvernig hægt sé að færa rök fyrir því að það hafi verið sérstökum örðugleikum bundið að ná til hans. Í eina skiptið sem barnsmóðir hans hafi lagt fram beiðni um faðernisviðurkenningu hafi kærandi tjáð sýslumanni að það væri sjálfsagt mál en að í ljósi aðstæðna væri réttast að sanna slíkt erfðafræðilega. Við þetta dragi sýslumaður og móðir sig úr málinu og ekkert gerist mánuðum saman. Um leið og móðir bjóðist svo til að verða við þessu hafi málið verið klárað af hálfu kæranda á skömmum tíma.

Samkvæmt 12. gr. reglugerðar nr. 945/2009 sé Tryggingastofnun heimilt að greiða bráðabirgðameðlag á meðan aflað sé faðernisviðurkenningar hjá lýstum barnsföður. Kærandi spyr hvernig Tryggingastofnun geti haldið áfram að greiða bráðabirgðameðlag í tvö ár þegar ekkert sé gert í málinu af hálfu barnsmóður hans. Kærandi eigi erfitt með að sjá hvernig Tryggingastofnun hafi uppfyllt skyldu sína um að fylgjast með framgangi mála og óskað sé eftir því að stofnunin sanni að það hafi verið gert. Kærandi spyr hvort stofnuninni hafi borist staðfesting um framgang máls innan hæfilegs tíma.

Sú krafa sem sett sé fram á hendur kæranda sé mjög íþyngjandi. Kærandi hafi ekki greiðslugetu til að standa undir henni. Í ljósi þess sem kærandi geri grein fyrir í kærunni spyrji hann hvort ákvörðunin standist meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

Burtséð frá því finnist kæranda að taka verði til greina að barnsmóðir hans hafi tekið meðvitaða ákvörðun um að feðra ekki barnið í 10 ár. Hvenær sem er á þessu tímabili hafi hún getað fengið faðerni staðfest hjá kæranda en kosið að gera það ekki til þess að komast hjá því að hann myndi öðlast réttindi hvað varði umgengni.

Krafa kæranda sé sú að krafa sem gerð hafi verið á hann verði látin falla niður og að meðlag verði greitt með eðlilegu móti frá þeim tíma sem skilað hafi verið inn samningi um meðlagsgreiðslur á vormánuðum 2021.

Það sé að mati kæranda ekkert sem réttlæti það að gerð sé krafa um að hann greiði afturvirkt bráðabirgðameðlag sem hann hafi ekki vitað af og hefði mátt forðast alfarið með því að feðra barnið strax.

Þá standi eftir þeir kostir að Tryggingastofnun annars vegar taki það á sig að hafa ekki staðið nógu vel að vígi í þessu máli og láti málið falla niður í heild sinni eða hins vegar að krafan verði færð yfir á barnsmóður kæranda sem ekki hafi komið fram af heilindum í þessu máli og hafi auk þess misnotað stofnunina til að ná fram meðlagsgreiðslum sem hefði auðveldlega verið hægt að ná fram með venjubundnum hætti.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að greinargerð Tryggingastofnunar varpi ljósi á vinnubrögð sýslumanns og sennilega verði að telja að þar standi hnífurinn í kúnni. Þá eru gerðar ítarlegar athugasemdir við vinnubrögð sýslumanns.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar um að samþykkja að verða við beiðni barnsmóður kæranda um að hafa milligöngu um meðlag til hennar með dóttur þeirra frá 1. apríl 2018.

Ákvæði 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar kveður á um það að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skuli gilda þegar lagt sé fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga.

Samkvæmt 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 sé Tryggingastofnun skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

Í 3. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar segi að þegar eftir að sýslumaður hafi veitt viðtöku ósk frá móður um að aflað verði faðernisviðurkenningar hjá lýstum barnsföður geti hún fengið meðlag greitt með barninu innan þeirra marka er 20. gr. laganna setji.

Nánar sé fjallað um bráðabirgðameðlag samkvæmt 3. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar í 12. gr. reglugerðar nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga. 

Tryggingastofnun hafi tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 31. mars 2021, að stofnunin hefði samþykkt að hafa milligöngu um greiðslu meðlags til barnsmóður hans frá 1. mars 2021 með dóttur þeirra. Tryggingastofnun hafi borist umsókn barnsmóður kæranda þann 29. mars 2021 um meðlagsgreiðslur frá 1. mars 2021 ásamt staðfestingu á samkomulagi um meðlagsgreiðslur, dags. 29. mars 2021, þar sem fram komi að kærandi samþykki að greiða meðlag með dóttur sinni frá 1. mars 2021 til 18 ára aldurs.

Þann 6. maí 2021 hafi borist ný umsókn frá barnsmóður kæranda um meðlagsgreiðslur frá 1. apríl 2018 ásamt annarri staðfestingu á samkomulagi um meðlagsgreiðslur, dags. 29. mars 2021, þar sem fram komi að kærandi samþykki að greiða meðlag með dóttur sinni frá 1. apríl 2018 til 18 ára aldurs. Kæranda hafi verið sent bréf þann 21. maí 2021 þar sem komi fram að Tryggingastofnun hefði greitt barnsmóður hans meðlag til bráðabirgða og þar sem meðlagsákvörðun hefði verið gefin út væri Innheimtustofnun sveitarfélaga send beiðni um innheimtu á greiddu meðlagi frá 1. apríl 2018 til 28. febrúar 2021.

Forsaga málsins sé sú að barnsmóðir kæranda hafi sótt um greiðslu bráðabirgðameðlags til Tryggingastofnunar fyrst með umsókn, dags. 1. apríl 2019, þar sem óskað hafi verið eftir greiðslum frá 28. mars 2019 og síðan með umsókn, dags. 11. apríl 2019, þar sem óskað hafi verið eftir greiðslum frá 28. mars 2018. Með umsóknunum hafi fylgt staðfesting frá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, dags. 3. apríl 2019, þar sem komi fram að barnsmóðir kæranda hefði með yfirlýsingu lýst mann föður að barni sínu og óskað eftir því að aflað yrði faðernisviðurkenningar hins lýsta föður. Tryggingastofnun hafi því samþykkt greiðslu bráðabirgðameðlags til kæranda frá 1. apríl 2018, eða 12 mánuði aftur í tímann eins og heimilt sé samkvæmt lögum.

Greiðsla bráðabirgðameðlags sé einungis samþykkt fram í tímann í sex mánuði í einu og því hafi greiðslur til barnsmóður kæranda einungis verið samþykktar til 30. september 2019. Til að heimilt sé að halda áfram greiðslu bráðabirgðameðlags þurfi að berast staðfesting á því að faðernismál sé enn í gangi. Slíkar yfirlýsingar hafi borist frá Sýslumanninum á A, dags. 26. júlí 2019 og 2. mars 2020, og því hafi greiðslur bráðabirgðameðlags verið framlengdar til barnsmóður kæranda, fyrst fyrir tímabilið 1. október 2019 til 31. mars 2020 og síðan frá 1. apríl 2020 til 30. september 2020.

Þann 26. ágúst 2020 hafi borist enn ein staðfesting frá Sýslumanninum á A með sömu upplýsingum um faðernismálið og Tryggingastofnun hafi þá ákveðið að óska eftir nánari upplýsingum um framgang málsins. Í bréfi frá Sýslumanninum á A, dags. 7. október 2020, hafi komið fram að þann 20. september 2019 hefði barnsmóður kæranda verið tilkynnt að afskiptum sýslumanns af beiðni hennar um faðernisviðurkenningu væri lokið en það hafi verið í fyrsta skipti sem Tryggingastofnun hafi verið upplýst um það. Í framhaldi af því hafi barnsmóður kæranda verið tilkynnt að ekki væri heimilt að halda áfram greiðslu bráðabirgðameðlags til hennar og að hugsanlega yrði hún endurkrafin um það bráðabirgðameðlag sem henni hafi þegar verið greitt nema hún myndi framvísa staðfestingu á því að enn væri verið að vinna í málinu, annaðhvort áfram hjá sýslumanni eða fyrir dómstólum.

Tryggingastofnun hafi þá borist staðfesting frá Sýslumanninum á A, dags. 20. nóvember 2020, um að málið væri enn til meðferðar hjá embættinu og því hafi Tryggingastofnun ákveðið að samþykkja áfram bráðabirgðameðlag til barnsmóður kæranda frá 1. október 2020 til 28. febrúar 2021.

Tryggingastofnun hafi milligöngu um greiðslu bráðabirgðameðlags á meðan unnið sé að feðrun barns og öflun meðlagsákvörðunar og þar til staðfestingar berist um slíkt. Ekki sé hámarkstími á greiðslu bráðabirgðameðlagsins en það sé einungs greitt í sex mánuði í senn. Til að hægt sé að halda áfram greiðslum þurfi að berast staðfesting á því að mál sé enn í gangi.

Þegar feðrun hafi átt sér stað og meðlagsákvörðun liggi fyrir, sem berist Tryggingastofnun, sé gert upp það bráðabirgðameðlag sem stofnunin hafi greitt í samræmi við meðlagsákvörðunina, sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 945/2009, en þar segi að þegar meðlagsákvörðun hafi borist skuli bráðabirgðameðlag, sem Tryggingastofnun hafi greitt, innheimt hjá hinu meðlagsskylda foreldri í samræmi við meðlagsákvörðunina. Það þýði að Tryggingastofnun greiði meðlagið frá þeim tíma sem meðlagsákvörðunin segi til um, þ.e.a.s. ef bráðabirgðameðlag hafi verið greitt frá sama tíma, og skuldajafni bráðabirgðameðlaginu sem greitt hafi verið á móti meðlaginu. Innheimtustofnun fái síðan upplýsingar um upphafstíma meðlagsgreiðslna og sjái um að innheimta meðlagið hjá hinum meðlagsskylda frá þeim tíma, eins og lög geri ráð fyrir.

Þá sé hlutverk Tryggingastofnunar að hafa milligöngu um greiðslu meðlags þegar ákvörðun hafi verið tekin með lögmætum hætti. Ef foreldri leggi fram löggilda meðlagsákvörðun beri Tryggingastofnun samkvæmt 63. gr. laga um almannatryggingar og 67. gr. barnalaga að hafa milligöngu um greiðslu meðlags. Lög veiti Tryggingastofnun ekki heimild til að taka önnur gögn til greina en þau sem talin séu upp í framangreindum ákvæðum við milligöngu um greiðslu meðlags.

Hjá Tryggingastofnun liggi fyrir löggild meðlagsákvörðun, þ.e. staðfesting á samkomulagi um meðlag, dags. 29. mars 2021, þar sem komi fram að kærandi samþykki að greiða meðlag með dóttur sinni frá 1. apríl 2018. Þá liggi fyrir umsókn barnsmóður kæranda um meðlag, dags. 6. maí 2021.

Með vísan til framangreinds beri Tryggingastofnun skylda til að hafa milligöngu um meðlag samkvæmt lögformlegri meðlagsákvörðun, sé þess farið á leit við stofnunina. Þá greiði Tryggingastofnun bráðabirgðameðlag, sé þess óskað og fyrir liggi staðfesting á því að faðernismál sé í gangi. Þegar meðlagsákvörðun berist skuli bráðabirgðameðlag, sem Tryggingastofnun hafi greitt, innheimt hjá hinu meðlagsskylda foreldri í samræmi við meðlagsákvörðunina. Tryggingastofnun hafi því borið að hafa milligöngu á meðlagi til barnsmóður kæranda frá 1. apríl 2018 þar sem bráðabirgðameðlag hafi verið greitt til barnsmóður kæranda frá þeim tíma og senda Innheimtustofnun tilkynningu um að innheimta það hjá kæranda.

Kærandi geri athugasemdir við ýmis atriði og leggi fram spurningar sem leitast verði við að svara. Hvað varði athugasemd við tímann sem hafi tekið að vinna málið snúi sú athugasemd kæranda að vinnunni hjá sýslumanni sem Tryggingastofnun komi ekkert að.

Tryggingastofnun telji að rannsóknarskyldu sinni hafi verið fullnægt og að ekki hafi verið nauðsynlegt að boða barnsmóður kæranda á sinn fund, enda hafi hún skilað inn þeim gögnum sem hafi þurft til að hægt væri að taka ákvörðun í málinu, bæði í upphafi og varðandi framhald greiðslna.

Hvað varði eftirlit með greiðslum hafi greiðslur bráðabirgðameðlags einungis verið greiddar sex mánuði í einu til barnsmóður kæranda og með því hafi eftirlitinu verið sinnt um að málið væri enn í gangi til að réttlæta áframhald greiðslna.

Kærandi vísi til ákvæða barnalaga nr. 76/2003 en það sé sýslumaður sem starfi á grundvelli þeirra en ekki Tryggingastofnun.

Tryggingastofnun hafi greitt barnsmóður kæranda bráðabirgðameðlag á grundvelli 3. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar en ekki á grundvelli bráðabirgðaúrskurðar samkvæmt 35. gr. eða 1. mgr. 59. gr. barnalaga. Hér að framan hafi verið fjallað ítarlega um þá ákvörðun, meðal annars varðandi það að reglulega hafi verið fengin staðfesting á framgangi faðernismálsins og að fullnægjandi upplýsingar hafi borist um að málið væri enn í gangi sem hafi réttlætt áframhaldandi greiðslur. Hvergi í lögum sé það gert að skilyrði að Tryggingastofnun eigi að upplýsa lýstan föður um að samþykkt hafi verið að greiða bráðabirgðameðlag á meðan unnið sé að feðrun barns.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar segir að stofnunin telji að ákvarðanir hennar um að greiða bráðabirgðameðlag til barnsmóður kæranda út frá þeim gögnum sem hafi borist frá sýslumanni og barnsmóður kæranda hafi verið réttar, enda í samræmi við lög og reglugerðir. Sama gildi um þá ákvörðun að innheimta þær greiðslur hjá kæranda í samræmi við hina löggildu meðlagsákvörðun. Telji kærandi að málsmeðferð og vinnubrögð sýslumanns hafi verið ábótavant í þessu máli þurfi hann að beina kvörtun sinni og fyrirspurnum þangað. Tryggingastofnun hafi ekkert með málsmeðferðina þar að gera.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. maí 2021 um að senda Innheimtustofnun sveitarfélaga beiðni um innheimtu á greiddu meðlagi til barnsmóður kæranda vegna tímabilsins 1. apríl 2018 til 28. febrúar 2021. 

Kveðið er á um greiðsluskyldu Tryggingastofnunar ríkisins í 67. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þar segir að Tryggingastofnun ríkisins sé skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar getur hver sá sem fær úrskurð um meðlag með barni, sem hann hefur á framfæri sínu, snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags og annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama gildir þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga. Í 3. mgr. 63. gr. laganna er kveðið á um það að eftir að sýslumaður hafi veitt viðtöku ósk frá móður um að aflað verði faðernisviðurkenningar hjá lýstum barnsföður geti hún fengið meðlag greitt með barninu innan þeirra marka er 20. gr. laganna setji.

Á grundvelli 70. gr., sbr. 6. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar, hefur verið sett reglugerð nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga. Ákvæði 12. gr. reglugerðarinnar hljóðar svo:

„Tryggingastofnun er heimilt að greiða bráðabirgðameðlag á meðan aflað er faðernisviðurkenningar hjá lýstum barnsföður, sbr. 3. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar. Með umsókn þarf að fylgja staðfesting frá sýslumanni um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar eða staðfesting um að faðernismál hafi verið höfðað fyrir dómi.

Tryggingastofnun skal fylgjast með framgangi mála hjá þar til bærum aðilum. Ef ekki berst staðfesting um framgang máls innan hæfilegs tíma skal stofnunin leitast við að afla frekari upplýsinga og er heimilt að stöðva greiðslur tímabundið þar til upplýsingar berast.

Þegar barn hefur verið feðrað og meðlagsákvörðun liggur fyrir skal skila frumriti ákvörðunarinnar til Tryggingastofnunar. Ef frumrit berst ekki skal stöðva greiðslur.

Þegar meðlagsákvörðun hefur borist skal meðlag, sem Tryggingastofnun hefur greitt samkvæmt þessari grein, innheimt hjá hinu meðlagsskylda foreldri í samræmi við meðlagsákvörðunina. Um ofgreitt bráðabirgðameðlag fer samkvæmt 16. gr.“

Fyrir liggur að Tryggingastofnun greiddi barnsmóður kæranda bráðabirgðameðlag frá 1. apríl 2018. Þá liggur fyrir staðfesting Sýslumannsins á B á samkomulagi um meðlag, dags. 29. mars 2021, þar sem fram kemur að gert hafi verið samkomulag um að kærandi greiði barnsmóður sinni einfalt meðlag með dóttur þeirra frá 1. apríl 2018 til 18 ára aldurs. Samkvæmt 4. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 945/2009 skal, þegar meðlagsákvörðun hefur borist, meðlag innheimt hjá hinu meðlagsskylda foreldri í samræmi við meðlagsákvörðun. Þar sem fyrir liggur lögformleg meðlagsákvörðun um að kærandi skuli greiða barnsmóður sinni meðlag frá 1. apríl 2018 telur úrskurðarnefnd velferðarmála að innheimta beri meðlagið hjá honum í samræmi við þá ákvörðun, enda var barnsmóður hans greitt bráðabirgðameðlag frá þeim tíma.

Kærandi gerir ýmsar athugasemdir við ákvarðanir Tryggingastofnunar um að veita barnsmóður hans bráðabirgðameðlag. Hann telur meðal annars að málið hafi ekki verið nægjanlega rannsakað og að Tryggingastofnun hafi ekki fylgst með framgangi málsins hjá sýslumanni. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst að framangreindar stjórnvaldsákvarðanir Tryggingastofnunar beinist að barnsmóður kæranda en ekki honum sjálfum. Úrskurðarnefndin hefur því ekki heimild til að taka þær til endurskoðunar að beiðni kæranda.

Kærandi gerir ítarlegar athugasemdir við málsmeðferð Sýslumannsins á B og vísar í tiltekin ákvæði barnalaga nr. 76/2003 máli sínu til stuðnings. Kærandi fer fram á að skoðað verði sérstaklega hvaða upplýsingar hafi borist frá sýslumanni og hvort þær upplýsingar standist þær kröfur sem gerðar séu til embættisins samkvæmt lögum. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal úrskurðarnefndin úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar. Þá segir í 1. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar að rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt lögunum kveði úrskurðarnefnd velferðarmála upp úrskurð í málinu. Tilteknar ákvarðanir Tryggingastofnunar samkvæmt lögum um almannatryggingar eru því kæranlegar til úrskurðarnefndar velferðarmála. Aftur á móti eru ákvarðanir sýslumanna samkvæmt barnalögum ekki kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar. Úrskurðarnefndin hefur því ekki heimild til þess að endurskoða málsmeðferð Sýslumannsins á B. Samkvæmt 3. gr. forsetaúrskurðar nr. 119/2018 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands fer dómsmálaráðuneytið með mál er varða börn og sýslumenn. Kæranda er því bent á að hann geti beint kvörtun þangað.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. maí 2021 um að senda Innheimtustofnun sveitarfélaga beiðni um innheimtu á greiddu meðlagi til barnsmóður kæranda vegna tímabilsins 1. apríl 2018 til 28. febrúar 2021 er staðfest. 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að senda Innheimtustofnun sveitarfélaga beiðni um innheimtu á greiddu meðlagi til barnsmóður A, vegna tímabilsins 1. apríl 2018 til 28. febrúar 2021, er staðfest. 

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta