Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 593/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 593/2023

Fimmtudaginn 8. febrúar 2024

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 11. desember 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 16. október 2023 um að samþykkja umsókn barnsmóður hans um milligöngu um meðlagsgreiðslur frá 1. október 2022.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með rafrænni umsókn, móttekinni 13. október 2023, sótti barnsmóðir kæranda um milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins um meðlagsgreiðslur með syni þeirra. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 16. október 2023, var kæranda tilkynnt um milligöngu stofnunarinnar á meðlagsgreiðslum til barnsmóður hans frá 1. október 2022. Kærandi fór fram á endurskoðun á framangreindri ákvörðun með bréfi, dags. 22. nóvember 2023, og rökstuðningur var veittur með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 4. desember 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 11. desember 2023. Með bréfi, dags. 13. desember 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 5. janúar 2023, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. janúar 2024. Athugasemdir bárust frá kæranda 16. janúar 2024 og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dags. 18. janúar 2024. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er greint frá því að kærð sé ákvörðun Tryggingarstofnunar um að leggja á meðlag 12 mánuði afturvirkt. Ákvörðunin sé byggð á samningi milli kæranda og barnsmóður hans, sem hafi verið gerður fyrir all nokkru síðan. Sá samningur hafi ekki haldið þar sem að þau hafi byrjað aftur saman stuttu eftir að hann hafi verið samþykktur og hafi þau verið í sambúð þangað til sumarið/haustið 2023.

Í október 2023 hafi kærandi allt í einu fengið rukkun upp á 12 mánaða meðlagsgreiðslur aftur í tímann. Kærandi og barnsmóðir hans hafi hætt saman haustið 2023 og hafi kærandi ekki verið krafinn um meðlagsgreiðslur þar til þessi reikningur hafi allt í einu birst. Það sé mat kæranda að stjórnvald hafi brotið á mörgum meginreglum stjórnsýsluréttar, meðal annars 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um tilkynningarskyldu, 13. gr. um andmælarétt, 11. gr. um jafnræðisreglu, 10. gr. um rannsóknarreglu, 15. gr. um upplýsingarétt og rétt kæranda til upplýsinga um niðurstöðu máls. Kærandi hafi sent Tryggingarstofnun beiðni um endurupptöku sem hann hafi stutt gögnum sem sanni að hann og barnsmóðir hans hafi enn verið saman á þeim tíma sem meðlagsgreiðslur taki til en hann hafi ekki fengið neitt út úr því. Kæranda finnist ekkert mál að borga meðlag en það sé ekki réttlátt að vera rukkaður um meðlagsgreiðslu upp á hálfa milljón sem taki til tímabils sem við þau hafi enn verið í sambúð.

Í athugasemdum kæranda segir að Tryggingastofnun hafi ekki gætt að tilkynningarskyldu stjórnsýsluréttar, sbr. 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með síðari breytingum, við meðferð málsins. Samkvæmt ákvæðinu sé skylt að upplýsa aðila um að málið sé til meðferðar hjá stjórnvaldi eins fljótt og kostur sé. Reglan sé sett fram svo aðili máls viti að málið sé í gangi og geti gætt hagsmuna sinna áður en tekin sé ákvörðun.

Kærandi hafi enga vitneskju haft um umsókn barnsmóður sinnar, dags. 13. október 2023, fyrr en hann hafi fengið bréf frá Tryggingastofnun með ákvörðun  um greiðslu meðlags afturvirkt tólf mánuði aftur í tímann, dags. 16. október 2023. Kæranda hafi því ekki verið tilkynnt um að málið væri til meðferðar líkt og skylt sé að gera samkvæmt 14. gr. stjórnsýslulaga.

Tryggingastofnun hafi ekki gætt að andmælarétti hans við vinnslu málsins, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Aðili verði að vita að mál sé til meðferðar hjá stjórnvaldi svo að hann geti nýtt andmælarétt sinn. Þar sem kærandi hafi ekki vitað að málið væri til meðferðar hafi hann ekki fengið tækifæri á að koma að sínum sjónarmiðum og frekari upplýsingum í málinu áður en Tryggingastofnun hafi tekið ákvörðun.

Tryggingastofnun hafi ekki gætt að rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar við vinnslu málsins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Ef aðili sé ekki upplýstur um að mál sé til meðferðar hjá stjórnvaldi og veitt tækifæri á að koma að sínum sjónarmiðum og veita upplýsingar um staðreyndir málsins og leggja fram gögn sé líklegt að málið sé ekki upplýst þegar ákvörðun sé tekin í því.

Eins og áður hafi komið fram sé ljóst að hvorki hafi verið gætt að tilkynningarskyldu stjórnsýsluréttar né meginreglunni um andmælarétt af hálfu Tryggingastofnunar. Með því að brjóta þær reglur hafi Tryggingastofnun brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar þar sem kærandi hafi bæði haft upplýsingar og gögn sem varpi ljósi á staðreyndir málsins.

Líkt og fram komi í kæru og gögnum málsins hafi kærandi og barnsmóðir hans verið í sambúð lengst af á því tímabili sem ákvörðun um afturvirkni taki til og lögmaður kæranda hafi lagt fram ýmis gögn því til sönnunar þegar óskað hafi verið eftir endurupptöku hjá Tryggingastofnun.

Í 54. gr. barnalaga nr. 76/2003 sé kveðið á um að ef barn eigi fasta búsetu hjá öðru foreldri beri  hinu foreldrinu skylda til að taka þátt í framfærslu barnsins með greiðslu kostnaðar við framfærsluna eða með greiðslu meðlags. Ljóst sé að sonur kæranda hafi átt fasta búsetu hjá báðum foreldrum fram til hausts 2023. Þar af leiðandi hafi ekki legið fyrir skylda af hálfu kæranda að greiða meðlag eða kostnað við framfærslu frá 1. október 2022, sbr. skýrt orðalag 54. gr. barnalaga. Ákvörðun Tryggingastofnunar frá 16. október 2023 sé því ekki í samræmi við lög er varði afturvirkni meðlagsgreiðslna.

Í greinargerð Tryggingastofnunar, dags. 3. janúar 2024, sé vísað til þess að ákvörðunin sé byggð á 42. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar og 67. gr. barnalaga nr. 76/2003. Í 10. gr. stjórnsýslulaga sé ákvæði um rannsóknarregluna, þar sem kveðið sé á um skyldu stjórnvalds til að sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Eðli málsins samkvæmt þurfi stjónvald að afla allra gagna og upplýsinga sem varpað geti ljósi á málið áður það teljist nægilega upplýst svo hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í máli hverju sinni. Ákvæði stjórnsýslulaga veiti aðila lágmarks réttarvernd í samskiptum við stjórnvöld og stjórnvöldum sé ekki heimilt að gera minni kröfur til málsmeðferðar eða víkja frá þeim meginreglum sem komi fram í stjórnsýslulögum nema löggjafinn hafi ákveðið slíkt með skýrum hætti í lögum. Hvergi í lögum um almannatryggingar eða barnalögum sé kveðið á um takmörkun á rannsókn máls er lúti að ákvörðun um milligöngu um innheimtu og greiðslu meðlags samkvæmt barnalögum. Tryggingastofnun hafi þannig verið skylt að gæta að 10. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins.

Með því að tilkynna kæranda ekki um að málið væri til meðferðar og gefa honum ekki færi á að koma að sínum sjónarmiðum og þeim upplýsingum um búsetu sonar hans  á  þeim  tíma  sem afturvirkni meðlags taki til hafi Tryggingastofnun láðst að upplýsa málið nægilega til að hægt væri að taka efnislega rétta ákvörðun í málinu. Þar sem upplýsingar og gögn um sambúð kæranda og  barnsmóður hans og um búsetu sonar þeirra hafi vantað við meðferð málsins sé niðurstaða Tryggingastofnunar byggð á röngum forsendum og efnislega röng.

Kærandi árétti að hann geri ekki athugasemdir við að Tryggingastofnun hafi milligöngu um innheimtu meðlags frá og með umsókn barnsmóður hans. Athugasemdir hans lúti eingöngu að ákvörðun Tryggingastofnunar um að meðlag skuli greitt afturvirkt í 12 mánuði frá því að umsókn barnsmóður hans hafi borist þar sem þau hafi öll búið á sama heimili og framfært barnið sameiginlega nánast allan þann tíma sem afturvirknin taki til.

Umrædd stjórnvaldsákvörðun sé mjög íþyngjandi þar sem kærandi sé námsmaður með lágar tekjur. Kærandi hafi nú þegar sent Innheimtustofnun sem sjái um að rukka umræddar meðlagsgreiðslur skattayfirlit síðasta árs sem og þrjá síðustu mánaðargreiðslur sem sanni að þetta sé gríðarlega íþyngjandi fyrir hann.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar um að samþykkja að verða við beiðni barnsmóður kæranda um að hafa milligöngu um meðlag til hennar með syni þeirra frá 1. október 2022.2

Í 42. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé kveðið á um það að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt  úrskurðinum. Sama skuli gilda þegar lagt sé fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga.

Í 4. mgr. 42. gr. laga um almannatryggingar komi fram að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða meðlag aftur í tímann allt að 12 mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar berist stofnuninni, enda eigi þá 4. mgr. 40. gr. ekki við.

Samkvæmt 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 sé Tryggingastofnun skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns um meðlag eða samningi foreldra um meðlag staðfestum af sýslumanni, þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemi einföldu meðlagi.

Tryggingastofnun hafi tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 16. október 2023, að stofnunin hefði samþykkt að hafa milligöngu um greiðslu meðlags til barnsmóður kæranda frá 1. október 2022 með syni þeirra . Tryggingastofnun hafði borist umsókn barnsmóður kæranda um meðlag, dags. 13. október 2023, um meðlagsgreiðslur frá 8. júní 2021 ásamt staðfestingu sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á samkomulagi um forsjá og meðlag, dags. 8. júní 2021, þar sem komi fram að kærandi skuli greiða meðlag með syni sínum frá 8. júní 2021 til 18 ára aldurs. Kærandi hafi andmælt þessari  ákvörðun með bréfi, dags. 22. nóvember 2023, sem hafi verið svarað með bréfi, dags. 4. desember 2023.

Hlutverk Tryggingastofnunar sé að hafa milligöngu um greiðslu meðlags þegar ákvörðun hafi verið tekin með lögmætum hætti. Ef foreldri leggi fram  löggilda meðlagsákvörðun beri Tryggingastofnun samkvæmt 42. gr. laga um almannatryggingar og 67. gr. barnalaga að hafi milligöngu um greiðslu meðlags, allt að 12 mánuði aftur í tímann. Lög veiti Tryggingastofnun ekki heimild til að taka önnur gögn en talin séu upp í framangreindum ákvæðum til greina við milligöngu um greiðslu meðlags. Hjá Tryggingastofnun liggi fyrir löggild meðlagsákvörðun, þ.e. staðfesting sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á samkomulagi um forsjá og meðlag, dags. 8. júní 2021, sem kveði á um meðlagsgreiðslur frá kæranda til barnsmóður hans. Þá liggi fyrir umsókn barnsmóður kæranda um meðlag. Samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá hafi kærandi hvorki verið í skráðri sambúð með barnsmóður sinni eða skráður með sama lögheimili og hún.

Með vísan til framangreinds beri Tryggingastofnun skylda til að hafa milligöngu um meðlag samkvæmt lögformlegri meðlagsákvörðun sé þess farið á leit við stofnunina allt að 12 mánuði aftur í tímann. Tryggingastofnun hafi engar  heimildir til að virða að vettugi lögbundna skyldu sína til að greiða meðlag samkvæmt hinni lögformlegu meðlagsákvörðun. Tryggingastofnun hafi því borið að hafa milligöngu á meðlagi til barnsmóður kæranda frá 1. október 2022, eða 12 mánuði aftur í tímann frá því að umsókn hafi borist og hafi ekki heimild til að taka til greina það sem kærandi hafi tekið fram í kæru sinni um sambúð þeirra.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi margsinnis í úrskurðum sínum staðfest þetta hlutverk Tryggingastofnunar og að ekki sé heimilt að horfa til annarra atriða við ákvörðun um milligöngu meðlagsgreiðslna. Í því samhengi skipti ekki máli hvort að barn hafi jafna búsetu hjá báðum foreldrum sínum eða hvort að greiðsla meðlags hafi farið fram fyrir það tímabil sem Tryggingastofnun hafi samþykkt milligöngu meðlags. Þá hafi nefndin sagt að ekki sé heimilt að setja viðbótarskilyrði í reglugerð sem takmarki lögbundinn rétt meðlagsmóttakanda til milligöngu meðlagsgreiðslna frá stofnuninni, eins og til dæmis að gefa greiðanda kost á að sýna fram á að meðlag hafi verið greitt fyrir sama tímabil. Meðal úrskurða nefndarinnar varðandi þessi atriði megi nefna úrskurði nr. 312/2017, 333/2018, 17/2019, 215/2019, 407/2019, 408/2019, 59/2020 og 76/2021.

Stofnunin telji að miðað við fyrirliggjandi gögn þá sé ljóst að afgreiðsla málsins hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög, reglur og úrskurði úrskurðarnefndar.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 16. október 2023 um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður kæranda frá 1. október 2022.

Kveðið er á um greiðsluskyldu Tryggingastofnunar ríkisins í 67. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þar segir að Tryggingastofnun ríkisins sé skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla laganna, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

Samkvæmt 42. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar getur hver sá sem fær úrskurð um meðlag með barni, sem hann hefur á framfæri sínu, snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags og annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama gildir þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga. Samkvæmt 4. mgr. 42. gr. laga um almannatryggingar er stofnuninni heimilt að greiða meðlag aftur í tímann allt að 12 mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar berst stofnuninni, enda eigi 4. mgr. 40. gr. laganna ekki við.

Í 44. laga um almannatryggingar er að finna heimild til að setja reglugerð um framkvæmd ákvæðisins og var reglugerð nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga sett með stoð í sambærilegu lagaákvæði eldri laga, sbr. einnig 63. gr. laganna. Fjallað er um heimild til að greiða meðlag aftur í tímann í 7. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. er heimilt að greiða meðlag í allt að 12 mánuði aftur í tímann, talið frá byrjun þess mánaðar sem gögn samkvæmt 5. gr. berast Tryggingastofnun. Þá segir í 2. og 3. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar:

„Þegar meðlagsákvörðun, þar með talin ákvörðun um meðlag til bráðabirgða skv. 9. gr., og ákvörðun um framlag til menntunar eða starfsþjálfunar skv. 10. gr. er eldri en tveggja mánaða skal einungis greiða frá byrjun þess mánaðar sem umsókn og fylgigögn skv. 5. gr. berast, nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi sem geta réttlætt greiðslur lengra aftur í tímann, allt að 12 mánuði. Með sérstökum ástæðum er m.a. átt við ef meðlagsmóttakanda hefur af einhverjum ástæðum verið ómögulegt að setja fram kröfu um milligöngu meðlagsgreiðslna án tafar.

Þegar sótt er um greiðslu aftur í tímann á grundvelli meðlagsákvörðunar sem er eldri en tveggja mánaða skal ennfremur gefa meðlagsskyldum aðila kost á að sýna fram á að meðlag hafi þegar verið greitt fyrir sama tímabil og sótt er um.“

Samkvæmt framangreindu ber Tryggingastofnun ríkisins að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur, berist beiðni þar um frá meðlagsmóttakanda á grundvelli lögformlegrar meðlagsákvörðunar. Fyrir liggur að barnsmóðir kæranda, sem er meðlagsmóttakandi, sótti um milligöngu Tryggingastofnunar um meðlagsgreiðslur með syni þeirra frá 8. júní 2021 með rafrænni umsókn þann 13. október 2023. Stofnunin samþykkti umsóknina frá 1. október 2022 á grundvelli staðfestingar Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, dags. 8. júní 2023, á samkomulagi um forsjá og meðlag. Samkvæmt því ber kæranda að greiða barnsmóður sinni einfalt meðlag með syni þeirra frá 8. júní 2021 til 18 ára aldurs barnanna. Í kæru greinir kærandi frá því að hann telji þessi ákvörðun ekki rétta þar sem að foreldrarnir hafi í byrjað aftur að búa saman eftir þetta samkomulag og þau hafi ekki slitið sambúð aftur fyrr en haustið 2023.

Hlutverk Tryggingastofnunar í tengslum við meðlagsgreiðslur markast af ákvæðum viðeigandi laga. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um almannatryggingar er stofnuninni falið að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur, sé þess farið á leit við stofnunina, í þeim tilvikum þar sem lögformleg meðlagsákvörðun liggur fyrir. Í ákvæðinu, sem er grundvöllur ákvörðunar stofnunarinnar, segir nánar tiltekið að hver sá sem fær lögformlega ákvörðun um meðlag með barni geti snúið sér til stofnunarinnar og fengið fyrirframgreiðslu meðlags samkvæmt ákvörðuninni.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráðið verði af 42. gr. laga um almannatryggingar að meginreglan sé sú að Tryggingastofnun beri að greiða meðlag í samræmi við meðlagsákvörðun. Þá telur úrskurðarnefndin að ákvæði 4. mgr. 42. gr. laganna feli í sér takmörkun á greiðslu meðlags aftur í tímann, þ.e. að ekki sé heimilt að greiða meðlag lengra en tólf mánuði aftur í tímann, talið frá byrjun þess mánaðar sem viðeigandi gögn bárust Tryggingastofnun. Í ljósi þess og með hliðsjón af þróun lagaákvæðisins og lögskýringargögnum telur úrskurðarnefnd velferðarmála að túlka verði heimild Tryggingastofnunar til greiðslu aftur í tímann samkvæmt 4. mgr. 42. gr. laga um almannatryggingar á þá leið að stofnuninni beri almennt að greiða aftur í tímann í samræmi við lagaákvæðið ef meðlagsákvörðun kveður á um það, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 312/2017. Að mati nefndarinnar hafa lög ekki að geyma heimild til að setja frekari skilyrði fyrir greiðslu aftur í tímann. Þá telur úrskurðarnefndin að reglugerðarheimildin í 44. gr. laga um almannatryggingar feli ekki í sér heimild til að setja viðbótarskilyrði í reglugerð sem takmarkar lögbundinn rétt meðlagsmóttakanda til milligöngu meðlagsgreiðslna frá Tryggingastofnun.

Eins og áður hefur komið fram liggur fyrir í máli þessu staðfesting á samkomulagi um forsjá og meðlag, dags. 8. júní 2021, sem kveður á um meðlagsskyldu kæranda með syni þeirra tveimur frá 8. júní 2021 til 18 ára aldurs. Í ljósi þess bar Tryggingastofnun að fallast á umsókn barnsmóður kæranda um milligöngu um meðlagsgreiðslur. Það er því mat úrskurðarnefndar að ekki sé heimilt að synja meðlagsmóttakanda um milligöngu meðlagsgreiðslna aftur í tímann með vísan til fullyrðinga kæranda um að hann og barnsmóðir hans hafi búið saman hluta umdeildu tímabili.

Kærandi gerir athugasemdir við málsmeðferð Tryggingastofnunar, nánar tiltekið að stofnunin hafi ekki veitt kæranda andmælarétt samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, hafi ekki tilkynnt honum um meðferð máls samkvæmt 14. gr. stjórnsýslulaga og hafi ekki gætt að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga við vinnslu málsins. Úrskurðarnefndin fellst ekki á að málsmeðferð Tryggingstofnunar hafi farið í bága við framangreind ákvæði stjórnsýslulaga þar sem augljóslega óþarft var að veita kæranda andmælarétt, sbr. niðurlag 13. gr. stjórnsýslulaga. Þá er ljóst af 14. gr. laganna að ekki þarf að tilkynna aðila máls um meðferð máls eigi hann ekki rétt samkvæmt 13. gr. til að tjá sig um málið. Eins greint hefur verið frá hér að framan liggur fyrir lögmæt meðlagsákvörðun og samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar ber stofnuninni lögbundin skylda til að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur sé þess farið á leit við stofnunina í slíkum tilvikum. Engin þörf var á að gefa kæranda kost á að sýna fram á að hann hefði hafið sambúð á ný með barnsmóður sinni, enda hefðu slík gögn engin áhrif á niðurstöðu málsins. Ekki er því fallist á að málsmeðferð Tryggingastofnunar hafi brotið í bága við framangreind ákvæði stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 16. október 2023 um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður kæranda frá 1. október 2022. 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður A, frá 1. október 2022, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta