Mál nr. 212/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 212/2024
Miðvikudagurinn 11. september 2024
A
gegn
Sjúkratryggingum Íslands
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.
Með kæru, dags. 14. maí 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 14. febrúar 2024 um bætur til kæranda úr sjúklingatryggingu.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, dags. 5. febrúar 2021, vegna afleiðinga meðferðar sem fór fram á Heilsugæslunni á B, þann X. Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda með ákvörðun, dags. 14. febrúar 2024, á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum mætti rekja til þátta sem féllu undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 14. maí 2024. Með bréfi, dags. 6. júní 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst þann 18. júní 2024. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 20. júní 2024, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru er vísað til ákvörðunar Sjúkratrygginga Íslands, dags. 14. febrúar 2024, vegna umsóknar kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000. Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 14. maí 2024.
Í málavaxtalýsingu og forsendum niðurstöðu í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands séu dregnar fram komur kæranda á Heilsugæsluna á B í janúar 2018 og í maí 2019. Í fyrra skiptið hafi verið um að ræða komu vegna brjóstverkja sem hafi leitt til hjartaþolsprófs og í seinna skiptið komu vegna hægðabreytinga sem hafi leitt til ristilspeglunar. Í málavaxtalýsingu sé í báðum tilvikum greint frá því að kærandi hafi ekki greint frá kviðverkjum í þessi skipti. Í forsendum niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands sé sú staðreynd að ekki hafi verið saga um kviðverki notuð til að komast að þeirri niðurstöðu að meðferð kæranda á Heilsugæslunni á B þann X hafi verið í samræmi við almennt viðurkennda og gagnreynda læknisfræði. Þessi forsenda Sjúkratrygginga Íslands sé málinu í sjálfu sér óviðkomandi og virðist fremur ætlað að draga athygli frá kvörtun kæranda vegna þeirrar ófullnægjandi meðferðar og ófaglegu framkomu sem hún hafi mátt þola á heilsugæslunni þann X.
Í athugasemdum við frumvarp til laga nr. 111/2000 segi meðal annars:
„Við mat á því hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis hjá lækni eða öðrum skal ekki nota sama mælikvarða og stuðst er við samkvæmt hinni almennu sakarreglu skaðabótaréttar heldur miða við hvað hefði gerst ef rannsókn eða meðferð hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið.“
Við komu á Heilsugæsluna á B þann X hafi kærandi kvartað undan þrálátum verkjum í vinstri síðu sem væru stundum hægra megin líka. Á samskiptaseðil hafi læknir ritað: „eðlileg skoðun“. Staðreyndin sé hins vegar sú að engin skoðun hafi farið fram. Læknirinn hafi fullyrt að um verki frá stoðkerfi væri að ræða og beinlínis gert lítið úr kæranda þegar hún hafi talið svo ekki vera. Einskis hafi verið spurt, ekki hafi verið þreifað á svæðinu þar sem verkirnir væru eða gerð minnsta atlaga að því að finna frá hverju þeir gætu stafað. Niðurstaðan hafi verið að: „sjá til“, án skoðunar. Með engu móti sé hægt að halda því fram að hér hafi meðferð verið hagað eins vel og unnt hefði verið.
Í 2. gr. laga nr. 111/2000 séu talin upp þau tjónsatvik sem lögin taki til. Þar segi:
„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtalinna atvika:
1. Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.“
Í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins segi um 2. gr.:
„Tjón skal hafa hlotist af meðferð eins og greinir í 1. gr. frumvarpsins. Því skal ekki greiða bætur fyrir tjón af eðlilegum afleiðingum sjúkdómsins eða fylgikvillum sem rekja má til sjúkdómsins. Hafi hins vegar sjúkdómur dregist á langinn vegna þess að sjúklingur fékk ekki viðeigandi meðferð, t.d. af því að sjúkdómsgreining var röng, getur sjúklingur átt rétt á bótum, skv. 1. eða 2. tölul. 1. mgr. 2. gr.“
Um 1. tölul. 2. gr. segi:
„Skv. 1. tölul. er það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut átti að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem komast hefði mátt hjá með meiri aðgæslu. Það kemur til af því að skv. 1. tölul. á jafnan að meta hvort afstýra hefði mátt tjóni með því að haga meðferð eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.“
Meginröksemdir í umsókn kæranda um bætur lúti að því að meðferð hennar við komu á Heilsugæsluna á B þann X hafi ekki verið hagað eins vel og unnt hefði verið og hún ekki verið í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Í niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands sé vísað til þess að umkvartanir kæranda um verk í síðu hafi ekki gefið tilefni til sneiðmyndagreiningar eða segulómrannsóknar sem sé forsenda þess að greina megi umrætt æxli. Þær hafi hins vegar augljóslega gefið tilefni til faglegrar skoðunar á verkjum kæranda sem hefði getað leitt til frekari greiningar og rannsókna. Í stað þess hafi upplifun kæranda af þeirri meðferð sem hún hafi hlotið á Heilsugæslunni á B umræddan dag orðið til þess að hún hafi dregið það að leita aftur til læknis. Leiða megi líkur að því að ef faglega hefði verið staðið að meðferð kæranda hefði mátt takmarka það tjón sem hún hefði orðið fyrir.
Í kæru lýsir kærandi upplifun sinni af umræddri meðferð á Heilsugæslunni á B. Kærandi hafi sagst vera með tvö erindi en hið fyrra væri verkur í vinstri síðu og stundum í þeirri hægri. Verkur í vinstri síðu hafi verið ástæða komu kæranda á heilsugæsluna.
Læknir hafi sagt við kæranda að stoðkerfið væri sennilega ástæðan fyrir verknum. Kærandi hafi efast um það og sagt við lækninn að verkurinn kæmi oft fram um miðjan morgun. Læknirinn hafi þá sagt að stoðkerfisverkir kæmu oft fram á morgnana. Áður en kæranda hafi gefist færi á að benda á að hún ætti ekki við stirðleika þegar hún væri nývöknuð hafi læknirinn spurt ákveðið hvert hitt erindið væri. Þar með hafi kæranda ekki gefist tækifæri til að ræða umrædda verki frekar.
Læknirinn hafi ekki skoðað kæranda og því eigi orðin „eðlileg skoðun“ ekki við um heimsóknina. Hann hafi spurt kæranda einskis, til dæmis ekki hve lengi umræddir verkir hefðu varað. Að sögn kæranda hefði læknirinn þá fengið það svar að þeir hefðu varað í nokkra mánuði á vinstri hliðinni. Læknirinn hafi að mati kæranda ekki hlustað almennilega á frásögn hennar og hafi greinilega verið sama um umrædda verki. Kærandi spyrji sig hvað ef um verk í stoðkerfinu hefði verið að ræða? Hefði kærandi þá átt að hafa slíkan verk áfram?
Í febrúar 2020, þegar kærandi hafi verið að átta sig á því að hún þyrfti að jafna sig á skeytingarleysi umrædds læknis og fara í skoðun að nýju, hafi Covid-19 verið skollið á og fólk beðið um að bíða með læknisheimsóknir. Því hafi kærandi ekki farið í skoðun fyrr en um vorið þegar farið hafi verið að hægja á faraldrinum.
Á hvaða tímapunkti hæfur læknir hefði getað numið breytingar á kviðarholinu sé ekki hægt að segja til um, en umræddur læknir hafi ekki sýnt neina viðleitni til að finna út úr því hvað hefði verið að hrjá kæranda, hvorki með spurningum né skoðun af neinu tagi. Þvert á móti hafi hann sýnt kæranda vanvirðingu með því að gefa henni sama svarið ítrekað og klippa svo á umræðuna.
Þá bendi kærandi á að hennar læknar hafi talað um „hægvaxandi æxli“ sem sé ekki í samræmi við niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands um að æxlið hafi verið „hraðvaxandi“.
III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands
Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að kærandi hafi sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 með umsókn sem hafi borist Sjúkratryggingum Íslands þann [5. febrúar 2021]. Sótt hafi verið um bætur vegna afleiðinga meðferðar sem hafi farið fram á Heilsugæslunni á B þann X. Aflað hafi verið gagna frá meðferðaraðilum og hafi málið verið tekið fyrir á fundi fagteymis sem skipað sé læknum og lögfræðingum Sjúkratrygginga Íslands. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 14. febrúar 2024, hafi umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu verið synjað á þeim grundvelli að ekki hafi verið um að ræða bótaskylt atvik með vísan 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Synjun á bótaskyldu sé nú kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála.
Í greinargerð er vísað til kæru þar sem kærandi greini frá því að hennar læknar hafi talað um „hægvaxandi æxli“ og að slíkt sé ekki í samræmi við niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands.
Í læknabréfi C, dags. 1. september 2020, sé ritað eftirfarandi um vefjasvar: „Retroperitoneal sýni með leiomyosarcoma, high grade. Enginn æxlisvöxtur greinanlegur í perifer skurðrönd sýnis. Nýrnavefur án marktækra sjúklegra afbrigða. Ristilhluti án marktækra sjúklegra afbrigða. Jejunal hluti án æxlisvaxtar. Stakur svæðiseitill án æxlisvaxtar.“ Þá komi fram í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 14. febrúar 2024, að æxli af gerðinni leiomyosarcoma sé oft mjög hratt vaxandi og geti það tvöfaldast að stærð á fáeinum vikum.[1] Að mati Sjúkratrygginga Íslands verði að leggja á einstakling þá ábyrgð að leita læknisskoðunar séu einkenni viðvarandi og þá einkum ef um sé að ræða versnandi einkenni. Af gögnum málsins sé ljóst að kærandi hafi ekki leitað til læknis vegna einkenna sinna í rúma níu mánuði, þrátt fyrir versnandi líðan. Eðli málsins samkvæmt sé ekki unnt að endurmeta stöðuna ef ekki sé leitað til læknis vegna viðvarandi einkenna.
Að öðru leyti verði ekki annað séð en að afstaða Sjúkratrygginga Íslands til kæruefnis hafi þegar komið fram í ákvörðun stofnunarinnar, dags. 14. febrúar 2024. Því þyki ekki efni til að svara kæru efnislega með frekari hætti og vísi stofnunin til þeirrar umfjöllunar sem fram komi í gögnum málsins. Engin ný gögn hafi verið lögð fram sem taka þurfi afstöðu til.
Með vísan til framangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Kærandi telji að afleiðingar meðferðar sem hún hlaut á Heilsugæslunni á B þann X séu bótaskyldar samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.
Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu segir um tjónsatvik sem lögin taka til:
„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtalinna atvika:
1. Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.
2. Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.
3. Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.
4. Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“
Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hljótist af sjúkdómi sem sjúklingur sé haldinn fyrir. Afleiðingar sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eru þannig ekki bótaskyldar, en hins vegar getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar á greiningu eða við meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings ef könnun og mat á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af til dæmis rangri meðferð en öðrum orsökum. Sé niðurstaðan hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.
Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkist í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem komast hefði mátt hjá með meiri aðgæslu.
Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði rakið til dæmis til mistaka skuli að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.
Kærandi byggir kröfu sína um bætur úr sjúklingatryggingu á 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Hún hafi leitað á Heilsugæsluna á B þann X og kvartað undan þrálátum verkjum í vinstri síðu. Læknir hafi ritað „eðlileg skoðun“ á samskiptaseðil en engin skoðun hafi í raun farið fram. Læknir hafi fullyrt að um verki frá stoðkerfi væri að ræða án þess að þreifa á svæðinu eða spyrja kæranda spurninga. Kærandi telur að meðferð hafi ekki verið hagað eins vel og unnt hefði verið og hún ekki verið í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Að mati kæranda megi leiða líkur að því að ef faglega hefði verið staðið að meðferðinni hefði mátt takmarka það tjón sem hún hefði orðið fyrir.
Í tilvísun D læknis, dags. 13. maí 2019, segir:
„Beiðni um ristilspeglun.
A er X ára kona, almennt heilsuhraust, sem hefur miklar áhyggjur af því að hún sé með ristilkrabbamein. Engin fjölskyldusaga um slíkt en hún lýsir hægðabreytingum í vetur – linar og grannar hægðir, hefur ört hægðir og mikið í einu. Einnig verið að grennast. Misst um 4 kg en óljóst á hve löngum tíma. Þá er ferskt blóð með hægðum en það hefur verið til staðar í lengri tíma og talið vera gyllinæð. Ekki svartar hægðir. Ekki kviðverkir. Stundum óþægindi í endaþarmi og eins og þar sé golfkúla. Skoðun og almennar blóðprufur eru án athugasemda. Í vinstri ristilspeglun árið 2013 sást ekki athugavert nema innri gyllinæð en þá hafði hún einmitt einnig sömu áhyggjur og nú.“
Í læknabréfi E skurðlæknis, dags. 14. júní 2019, segir:
„Sjúklingur. A, Kennitala: X Ristilspeglun: Lyf gefin: Stesolid 5 mg i.v. Leptanal 75 microg i.v. Ástæða speglunar. skimun-meðaláhætta Speglunarlýsing: Ristilspeglun Liggur á vinstri hlið. Speglað upp í Terminal ileum (staðfest með mynd). Hreinsun: Góð Engir separ fundust. Fylgikvillar speglunar: Engir. Eðlileg ristilspeglun. Ný skimunarspeglun ráðlögð eftir 10 ár.“
Í samskiptaseðli F heimilislæknis, dags. X, segir:
„Verkir í hægri og vinstri síðu til skiptis. Aldrei báðum megin í einu.
Eðl. skoðun
Sjá til.“
Í samskiptaseðli G hjúkrunarnema, dags. 3. júní 2020, segir:
„Er í tímabókunarlínu hjá lækni
Verkir í maga í ár. Eru oftast nær ofarlega vi megin rétt undir rifbeinum. Kom og hitti lækni fyrir ári og ekkert kom út úr því. Vill fá að kíkja á þetta aftur þar sem hún vill ekki þjást lengur. Verkur kemur og fer. Er stundum að vakna á næturnar. Stundum er þetta neðar í kringum kvið. Var send í ristilspeglun, kom ekkert út úr henni, er oft með blóð í hægðum.“
Í samskiptaseðli H læknis, dags. 10. júní 2020, segir:
„Áður hraust, TVT vegna þvagleka 2019, góður árangur. Aldrei aðgerð á kvið. Hefur í 2-3 ár kvartað um kviðverki, ofarlega vinstra megin, án þess að neitt hafi fundist athugavert. Ristilspeglun vor 2019 alveg eðlileg upp að ileum. Við skoðun grannvaxin, hraustleg, BMI tæplega 20, allt eðlilegt nema þreifanleg fyrirferð undir vinstra rifjabarði, hnefastór, eymslalaus.
Álit: Þarf að útiloka tumor og aorta aneurysma. Panta blóðrannsókn og TS af abdomen, bið vinsamlegast um rannsókn fyrir 18/6 nk. ef mögulegt. Fær símatíma 19/6.“
Í samskiptaseðli H læknis, dags. 21. júní 2020, segir:
„Sjá svar rtg.læknis. Sennilega GIST (Gastrointestinal stromal tumor) eða carcinoid, þrýstir á pelvis og ureter og veldur vægri hydronefrosu. Of hátt til að vera frá kynfærum, nema ef um metastasa sé að ræða. Hún er 4 gravida, 3 para, abort ca. 1990, PN 1976, 2004 og 2007. Var komin með tíðahvarfaeinkenni 2018, fékk hormón en tók aldrei. Undanfarið tíðar smáblæðingar. Hefur stundum haft harðar hægðir og stöku sinnum blóð á hægðum, en ristilspeglun var eðlileg 2013, sást gyllinæð. Plan: Ræði við I, skurðlækni á SAK, sendi honum líka tilvísun. Okkur kemur saman um að fá MR af brjóst- og kviðarholi, einnig gyn.skoðun, bið um flýtimeðferð, og I lofar að fylgja þessu eftir. Upplýsi sjúkling um allt þetta. Verð sjálfur fjarverandi til 20/7 nk., set hana á símalínu hjá mér 22/7.“
Í tilvísun I skurðlæknis, dags. 22. júní 2020, segir:
„Niðurstaða:
Stór fyrirferð af óljósum toga vinstra megin í kviðarholi. í fyrsta lagi er grunur um neoplasiu og meðal mögulegra mismunagreininga er lymphoma, GIST og carcinoid. Ólíklega meinvarp.“
Í aðgerðarlýsingu Í sérfræðilæknis, dags. 18. ágúst 2020, segir:
„X árs gömul kona sem greindist nýlega með stórt æxli í kviðarholi vi. megin, sýnataka hefur staðfest sarcoma. Stigunarrannsóknir með CT og FDG-PET hafa ekki sýnt fram á meinvörp. Metin með skurðtækan sjúkdóm og eftir samráð innan sarcoma-teymis tekin ákvörðun um primer aðgerð í dag.“
Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til bótaskyldu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Fyrir liggur að kærandi greindist með æxli af gerðinni leimyosarcoma. Ljóst er að kærandi hafði leitað til læknis vegna verkja í vinstri og hægri síðu til skiptis, aldrei báðum megin samtímis, þann X og þar var skráð „eðlileg skoðun, bíða og sjá til“. Kærandi leitaði ekki aftur til læknis fyrr en í júní 2020 með sögu um verki í maga í ár. Kærandi greindist svo í framhaldinu með framangreint æxli. Í komunni X er ekki lýst ítarlegri skoðun og ekki heldur sagt hve lengi eigi að bíða og sjá til. Byggt á almennum sjónarmiðum hefði mátt ætla að það væru þrír til fimm mánuðir, það er frá nóvember 2019 til febrúar 2020. Kærandi lýsir því að í febrúar 2020 hafi hún hætt við slíkt vegna heimsfaraldurs Covid-19 og skoðun því frestast fram á vor 2020. Grundvallað á þessu og framlögðum gögnum verður ekki séð að um sjúklingatryggingaratburð sé að ræða.
Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að skilyrði bótaskyldu samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu séu ekki uppfyllt í tilviki kæranda. Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja A, um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson
[1] MedicinaNet: Leiomyosarcoma is a rare but aggressive type of cancer. It can grow fast and may even double in size in as little as four weeks. Statpearls: November 30, 2022. Soft-tissue sarcoma (STS) arises mainly from the embryonic mesoderm with some contribution from the neuroectoderm. STS is a rare malignancy that accounts for less than 1% of all adult cancers. It encompasses a heterogeneous group of tumors with over 175 molecular subtypes. Leiomyosarcoma (LMS) is one of the more common subtypes of STS, comprising up to 10-20% of all sarcomas.