Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 245/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 245/2023

Fimmtudaginn 24. ágúst 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 16. maí 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 13. apríl 2023 um að synja umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðunum Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 18. janúar 2023 og 13. apríl 2023, var kæranda synjað um endurhæfingarlífeyri á þeim grundvelli að óljóst þætti hvernig endurhæfing kæmi með að stuðla að endurkomu á vinnumarkað.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. maí 2023. Með bréfi, dags. 22. maí 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 26. maí 2023, tilkynnti Tryggingastofnun að í ljósi nýrra gagna hefði verið ákveðið að meta kæranda endurhæfingarlífeyri frá 1. október 2022 til 31. janúar 2023. Óskað var eftir afstöðu kæranda til bréfsins með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. júní 2023. Athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti 29. júní 2023. Með bréfi, dags. 4. júlí 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar vegna ágreinings um gildistíma samþykkts endurhæfingarlífeyris. Með bréfi, dags. 18. júlí 2023, tilkynnti Tryggingastofnun að samþykkt hefði verið að meta endurhæfingarlífeyri annars vegar vegna tímabilsins 1. febrúar 2023 til 30. júní 2023 og hins vegar vegna tímabilsins 1. júlí 2023 til 30. nóvember 2023. Óskað var eftir afstöðu kæranda til bréfsins með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. júní 2023. Athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti 15. ágúst 2023.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að B geðlæknir hafi sent endurhæfingaáætlun til Tryggingastofnunar ríkisins þegar kærandi hafi fyrst sótt um endurhæfingalífeyri hjá stofnuninni. Sú áætlun hafi augljóslega falið í sér endurhæfingu með starfshæfni að markmiði þar sem fram hafi komið að búið væri að sækja um að komast að hjá VIRK starfsendurhæfingu og að þessi áætlun gilti þar til VIRK tæki við endurhæfingu. Um leið og synjun við umsókninni hafi borist hafi aftur verið send endurhæfingaráætlun til Tryggingastofnunar og þau svör hafi fengist að umsókninni hefði ekki átt að vera hafnað og farið fram á að kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir synjun til þess að umsóknin yrði aftur tekin upp og þá ætti að afgreiða hana innan skamms.

Nú séu liðnar þrjár vikur. Eins og komi fram í bréfi B hafi þessi ákvörðun Tryggingastofnunar unnið gegn hennar vinnu með kæranda. Þar sem kærandi hafi verið tekjulaus síðan í október 2022 og þurft að reiða sig á fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, sem rétt dugi fyrir leigu, hafi reikningar eðli málsins samkvæmt hlaðist upp með þeim vanskilagjöldum sem fylgi. Það segi sig sjálft að slíkar fjárhagsáhyggjur, að lifa við fátækramörk og vera einstætt foreldri einhverfs unglings í miklum vanda, hafi ekki unnið með endurhæfingarferlinu. Kröfur kæranda felist í því að Tryggingastofnun greiði endurhæfingalífeyri frá því að sótt hafi verið um endurhæfingalífeyri upphaflega með vöxtum.

Í athugasemdum kæranda frá 29. júní 2023 segir að Tryggingastofnun hafi samþykkt endurhæfingarlífeyri fyrir takmarkað tímabil, eða frá október 2022 til 31. janúar 2023. Þá vanti svör og samþykkt frá 1. febrúar 2023 til dagsins í dag. Kærandi vilji eindregið að tímabilið sem vanti frá 1. febrúar 2023 til dagsins í dag verði greitt að fullu auk dráttarvaxta á reikninga sem hafi hlaðist upp sem ekki hafi verið hægt að greiða vegna bágrar fjárhagsstöðu.

Í athugasemdum kæranda frá 15. ágúst 2023 segir að kærandi sættist ekki á að kæran verði lögð niður þó svo að lífeyrinn sem hún hafi átt rétt á hafi verið greiddur. Álagið og áhyggjurnar sem hafi lagst á hana hafi haft mjög mikil áhrif og tafið bata hennar. Kærandi hafi verið tekjulaus í marga mánuði og það hafi haft slæm áhrif að lifa við fátækt.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í bréfi Tryggingastofnunar ríkisins frá 26. maí 2023 segir að í ljósi nýrra ganga, sem óskað hafi verið eftir í umsóknarferli og ekki hafi verið búið að taka afstöðu til þegar kæra hafi borist, hafi verið tekin ákvörðun um að meta kæranda endurhæfingartímabil í fjóra mánuði út frá fyrirliggjandi gögnum í málinu. Skilyrði um greiðslu endurhæfingarlífeyris séu uppfyllt frá 1. október 2022 til 31. janúar 2023.

Þar sem mál kæranda hafi verið afgreitt hjá Tryggingastofnun sé farið fram á að málið verði fellt niður hjá úrskurðarnefndinni.

Í bréfi Tryggingastofnunar frá 18. júlí 2023 segir að þann 21. júní 2023 hafi kærandi aftur sótt um endurhæfingarlífeyri. Þann 7. júlí 2023 hafi verið samþykkt að meta endurhæfingartímabil frá 1. júlí 2023 til 30. nóvember 2023. Tímabilið 1. febrúar 2023 til 1. júní 2023 hafi ekki verið samþykkt að svo stöddu.

Þann 8. júlí 2023 hafi komið viðbótarupplýsingar frá kæranda. Í ljósi nýrra upplýsinga, auk þess sem stígandi væri í endurhæfingu hjá kæranda og að kærandi væri komin að hjá VIRK, hafi verið ákveðið með bréfi, dags. 17. júlí 2023, að samþykkja endurhæfingartímabil frá 1. febrúar 2023 til 30. júní 2023.

Kærandi sé því með samþykkt endurhæfingartímabil fyrir 1. október 2022 til 30. nóvember 2023.

Þar sem afgreiðslu á máli kæranda hafi verið breytt hjá Tryggingastofnun sé farið fram á að málið verði fellt niður hjá úrskurðarnefndinni.

IV.  Niðurstaða

Kærumál þetta varðaði upphaflega ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. apríl 2023, um að synja kæranda um endurhæfingarlífeyri. Undir rekstri málsins tók Tryggingastofnun nokkrar nýjar ákvarðanir, þar sem fallist var að greiðslur endurhæfingarlífeyris vegna tímabilsins 1. október 2022 til 30. nóvember 2023.

Í tölvupósti kæranda frá 15. ágúst 2023 segir að kærandi sættist ekki á að kæran verði lögð niður. Álagið og áhyggjurnar sem hafi lagst á kæranda hafi haft mjög mikil áhrif og tafið bata hennar.

Í 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála segir að úrskurðarnefndin skuli úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt sé fyrir um í lögum sem kveði á um málskot til nefndarinnar. Þá segir í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurði um ágreiningsefni vegna ákvarðana sem teknar séu á grundvelli laganna. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð gilda ákvæði laga um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á, m.a. um kærurétt til úrskurðarnefndar velferðarmála og um hækkun bóta.

Af framangreindu leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar velferðarmála er bundið við stjórnvaldsákvarðanir sem Tryggingastofnun tekur samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Fyrir liggur að Tryggingastofnun hefur samþykkt umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri vegna umdeilds tímabils. Af málatilbúnaði kæranda verður ekki séð að ágreiningur sé uppi um þá niðurstöðu. Þegar af þeirri ástæðu er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

 

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta