Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 312/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 312/2016

Miðvikudaginn 21. september 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 25. ágúst 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála lækkun á fjárhæð bótagreiðslna til hans þann 1. september 2016.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins fær kærandi greiddar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Þann 1. september 2016 lækkaði fjárhæð útgreiddra bóta þar sem hærri staðgreiðsla var tekin af þeim en áður hafði verið gert.  

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 24. ágúst 2016. Með tölvupósti þann 5. september 2016 óskaði úrskurðarnefnd upplýsinga frá Tryggingastofnun ríkisins um lækkun greiðslna kæranda og eftir atvikum ástæðu hennar. Með tölvupósti þann 6. september 2016 upplýsti stofnunin að lækkun greiðslnanna hafi stafað af því að skattkort kæranda hefði verið ofnotað og beiðni þar um hafi borist frá skattyfirvöldum. Þann 14. september 2016 bárust nefndinni greiðsluskjöl vegna bótagreiðslna stofnunarinnar til kæranda fyrir ágúst og september 2016.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir þá kröfu fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála að lækkun bótagreiðslna hans frá Tryggingastofnun ríkisins verði leiðrétt.

Í kæru segir að í samtali kæranda við skattstofu hafi komið fram að skattkort hans hjá Tryggingastofnun ríkisins hafi verið afturkallað vegna ofnotkunar. Afleiðingar þess séu þær að greiðsla frá Tryggingastofnun ríkisins hafi lækkað 1. september 2016 sem hafi numið skattkortinu. Kærandi telur eitthvað bogið við að hann þurfi að gjalda þess. Persónulegar afleiðingar þessa séu þær að kærandi hafi ekki getað leyst út lyf, svo sem hjartalyf og sykursýkislyf. Kærandi óski eftir að þetta verði leiðrétt sem fyrst og séð til þess að næsta greiðsla verði ekki skert af sömu ástæðu.

III.  Niðurstaða

Í kæru kemur fram að kærandi hafi fengið upplýsingar frá skattyfirvöldum um að skattkort hans hafi verið afturkallað frá Tryggingastofnun ríkisins. Þá hefur Tryggingastofnun upplýst úrskurðarnefnd um að fjárhæð útgreiddra bóta til kæranda hafi lækkað 1. september 2016 af þeim sökum. Samkvæmt greiðsluskjölum sem liggja fyrir í málinu lækkaði fjárhæð útgreiddra bóta til kæranda frá Tryggingastofnun þann 1. september 2016 þar sem útreikningur staðgreiðslu tók mið af 0% skattkorti. Þann 1. ágúst 2016 lá fyrir 38% skattkort við útreikning bótanna og þar af leiðandi var útgreiðslan hærri. Kærandi gerir þá kröfu fyrir úrskurðarnefnd að þessi lækkun verði leiðrétt.

Í 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir að rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt þeim lögum kveði úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. lög um úrskurðarnefnd velferðarmála, upp úrskurð í málinu.

Úrskurðarnefnd telur ljóst af gögnum þessa máls að bætur kæranda lækkuðu ekki 1. september 2016 heldur var tekin hærri staðgreiðsla af þeim vegna beiðni skattyfirvalda þar um. Ekki er því um að ræða ágreining um fjárhæð bóta á grundvelli laga um almannatryggingar. Ákvörðun um skattalega meðhöndlun bótanna er ekki tekin á grundvelli þeirra laga. Ágreiningsefnið á því ekki undir úrskurðarnefnd velferðarmála. Með hliðsjón af framangreindu er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Bent skal á að um er að ræða ágreiningsefni sem fellur undir valdsvið skattyfirvalda.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta