Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 315/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 315/2015

Miðvikudaginn 28. september 2016

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 29. október 2015, kærði B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 31. júlí 2015 um bætur úr sjúklingatryggingu.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 16. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, dags. 26. september 2011, vegna þess að það gleymdist að fjarlægja stent sem sett var upp í kjölfar gallblöðrutöku þann X. Í umsókninni er tjónsatvikinu lýst þannig að kærandi hafi farið í gallsteinaaðgerð og í kjölfarið kvartað yfir verkjum en henni verið sagt að þeir væru eðlilegir. Rúmlega ári síðar hafi meltingarlæknir dregið stent úr henni, sem hafði gleymst inni í henni við aðgerðina. Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda með ákvörðun, dags. 31. júlí 2015, á þeim grundvelli að kærandi hefði ekki orðið fyrir tjóni vegna stents sem hefði gleymst að fjarlægja og því félli atvikið ekki undir lög nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Kæra barst úrskurðarnefnd almannatrygginga þann 30. október 2015. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 1. desember 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. desember 2015, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá lögmanni kæranda með bréfi, dags. 14. desember 2015, og voru þær sendar Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. desember 2015. Viðbótargreinargerð, dags. 14. janúar 2016, barst frá Sjúkratryggingum Íslands og var hún kynnt lögmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 15. janúar 2016. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að úrskurðarnefnd almannatrygginga, nú úrskurðarnefnd velferðarmála, endurskoði ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja henni um bætur og að bótaskylda verði staðfest.

Í kæru er greint frá því að kærandi hafi farið í gallblöðrutöku á C þann X. Í lok aðgerðarinnar hafi verið sett dren á gallblöðrusvæðið. Í framhaldinu hafi verið gerð svokölluð ERCP aðgerð vegna leka eftir gallblöðrutökuna og stent sett í gallganginn. Venja sé að fjarlægja stentið 6-8 vikum eftir aðgerð en í tilviki kæranda hafi gleymst að fjarlægja það og það hafi verið í henni í rúmt ár og verið fjarlægt X.

Í tilkynningu kæranda til Sjúkratrygginga Íslands í X hafi kærandi tekið fram að hún hafi tafist í námi vegna þessa en hún hafi lifað við mikla verki eftir aðgerðina og leitað ítrekað til læknis vegna verkja. Hún hafi í fyrstu fengið þau svör að þetta væri eðlilegt. Þegar stentið hafi verið tekið úr henni rúmu ári eftir aðgerð hafi verkirnir hætt og því ljóst að rekja megi þá til mistakanna. Því sé um þjáningatímabil að ræða, tafir í námi og að ógleymdum sjúkrakostnaði. Þá hafi kærandi verið greind með bakflæði eftir atvikið.

Þá segir að málið hafi verið til meðferðar hjá Sjúkratryggingum Íslands í tæp fjögur ár. Aldrei á þeim tíma hafi verið kallað eftir gögnum eða upplýsingum frá kæranda um tjónið sem hún teldi sig hafa orðið fyrir vegna atviksins, hvorki upplýsinga frá kæranda sjálfri né óskað eftir gögnum. Kærandi telur að slíkt hefði verið nauðsynlegt og í samræmi við rannsóknarskyldu stofnunarinnar og vandaða stjórnsýsluhætti enda telji stofnunin að atvikið falli í eðli sínu undir ákvæði laga um sjúklingatryggingu nr. 111/2000 en synji bótaskyldu á þeim grundvelli að ekki liggi fyrir upplýsingar um tjón kæranda í gögnum málsins.

Byggt er á því að tjón umsækjanda eigi að meta samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993. Það sé Sjúkratrygginga Íslands að meta hvort atvikið falli undir ákvæði laga um sjúklingatryggingu og uppfylli atvik skilyrði laganna skuli meta tjón viðkomandi. Það sé venjan í sambærilegum málum enda þurfi aðkomu lækna til að meta þjáningatímabil, miska og örorku. Síðan þurfi að skoða fjártjón viðkomandi svo sem sjúkrakostnað og annað tjón, þar með talið tafir í námi.

Vísað er til sjúkraskrár kæranda og vottorðs D þar sem sjá megi að kærandi hafi ítrekað leitað til læknis vegna einkenna eftir gallblöðruaðgerðina. Í vottorði D segi hann að lítið sé vitað um afleiðingar þess að stent sé skilið eftir í líkama sjúklings í lengri tíma (í tilviki kæranda 17 mánuðir):

„Það sem oftast gerist með stent í gallrás er að þeir stíflast af völdum gallleðju eða steina sem hafa myndast og sjúklingur fær gulu og jafnvel holangitis. Í SÖGU kerfinu er ekki getið um að A hafi fengið slík einkenni. Hún virðist allavega hafa haft einkenni sem leiddu til umfangsmikilla rannsókna,. m.a. ristilspeglunar sem leiddi í ljós illkynja sepa í risli.“

Læknir kæranda staðfesti í vottorðinu að hún hafi haft töluverð einkenni vegna stentsins sem hafi leitt til umfangsmikilla rannsókna sem hafi leitt til þess að stentið fannst og var fjarlægt. Þessar rannsóknir hafi síðan leitt í ljós illkynja æxli. Einkenni kæranda hafi hins vegar verið vegna stentsins enda hafi mörg þeirra horfið eftir að stentið var fjarlægt. Telur kærandi því ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands ekki rétta og ekki í samræmi við þau gögn og upplýsingar sem liggi fyrir í málinu.

Í athugasemdum við greinargerð Sjúkratrygginga Íslands er ítrekað að kærandi telji að tilvik hennar falli undir skilyrði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu og að um ákvörðun bótafjárhæðar fari eftir skaðabótalögum samkvæmt 5. gr. laga um sjúklingatryggingu. Það sé ekki hlutverk starfsmanna Sjúkratrygginga Íslands, sem taki ákvörðun um bótarétt umsækjanda, að meta tjónið heldur lækna að fengnum læknisfræðilegum gögnum og upplýsingum um atvikið sem stofnunin óski eftir í formi spurningalista sem sendur sé til umsækjanda eftir að atvik hafi verið staðfest bótaskylt hjá stofnuninni. Þar sé meðal annars óskað eftir upplýsingum frá tjónþola um vinnutap og annað tjón sem hann telji sig hafa orðið fyrir vegna hins bótaskylda sjúklingatryggingaratviks. Tímabil þjáninga, mat á varanlegum miska og örorku vegna atviksins sé síðan í höndum lækna að meta.

III.  Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að í tilkynningu kæranda um atvikið, dags. X, hafi verið vísað á meðferðaraðila sem hafi dregið stent úr kæranda, E, lyf- og meltingarlækni. Sjúkratryggingar Íslands hafi byrjað gagnaöflun, enda liggi sú skylda á stofnuninni og forræði málsmeðferðar, bæði með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga svo og 15. gr. sjúklingatryggingarlaga. Hafi því legið til grundvallar að upplýsa um atvik með fullnægjandi hætti svo hægt væri að taka afstöðu til málsins í heild, og þess tíma sem hafi liðið frá aðgerðinni fram að tilkynningu, einkum hvort einhverjar skýringar kæmu fram um það hvers vegna stent hefði verið lengur en til stóð og þá hvort tjón hefði hlotist af og í hverju það tjón væri fólgið. Gagnaöflun hafi reynst torsótt, einkum frá þeim lækni sem hafi dregið stentið úr kæranda, E. Eftir ítrekaðar tilraunir til þess að fá gögn frá honum eftir hefðbundnum leiðum hafi verið ákveðið að leita ásjár Embættis landlæknis. Sú leið hafi ekki skilað tilætluðum árangri og hafi verið reynt, í samvinnu við lögmann kæranda, að leysa þá óviðunandi stöðu sem málsmeðferð hafi endað í. Þau gögn, sem mestu máli hafi skipt varðandi rannsókn málsins, hafi ekki borist fyrr en í mars 2015, þ.e. lýsingar E á því í hverju tjónið væri fólgið og ástand stents og kæranda vegna þessa.

Greint er frá því að í nótu frá X sé verið að lýsa kviðarónotum, nábíti og líkum einkennum. Ekkert komi þar fram um einkenni sem rakin verði til þess að stent hafi gleymst í gallgangi. Í nótu E, dags. X, segir við lýsingu á magaspeglun: „[...] Þegar tæki kemur niður í pars descendes duodeni sést hér plaststent í gallgang sem er fjarlægt með snöru. Þetta er stíft stent og þarf að draga kröftuglega í það til að það losni. Einnig teknar bx frá duodenum og antrum Clo próf sem er neikvætt. Álit og ráð: Fjarlægt stent frá choledocus (Amsterdam stent 9 cm langt – sjá ERCP lýsingu).  Sennilega hefur þetta gleymst að fjarlægja og hefur líklega gefið einhver einkenni. Fær annars ráð um GERD og skriflegar leiðbeiningar um lífstílsráð. Rp Pariet 20 mg. og skömmtunarleiðbeiningar. Afrit af PAD til heimilislæknis.“

Þau atriði sem lýst sé í gögnum og kærandi telji að rekja megi til þess að stentið hafi gleymst fái ekki staðist í læknisfræðilegu tilliti. Eins og fram komi í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands sé ekki um að ræða einkenni gulu, ljósar hægðir eða dæmigerðar breytingar á blóðprufum sem hefðu leitt í ljós „m.s.: Hækkuðu bílírúbíni, alkalískum fosfatasa og e.t.v. breytingum á fleiri lifrarprófum“. Þá verði verkir og fleira sem kærandi lýsi og reki til þessa atviks ekki tengdir stentinu í gallgangi.

Þá kemur fram að ekki hafi verið talið þjóna tilgangi að óska sérstaklega eftir svörum kæranda um tjón hennar. Helsta ástæðan sé sú að öll gögn bendi til þess að þau einkenni sem getið sé í gögnum stafi af öðrum orsökum en vegna stentsins sem hafi gleymst. Í öllu falli hefði því verið beinlínis rangt að gefa í skyn að um samþykktarmál væri að ræða og óska eftir upplýsingum um óvinnufærni og kostnað. Öllu slíku hefði verið synjað þar sem ekki væri orsakasamband á milli tilurðar kostnaðar, óvinnufærni (seinkunar náms o.s.frv.) eða annarra atriða sem kærandi rekur til sjúklingatryggingaratviksins. Með vísan til þess að atvik eigi undir 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu efnislega hafi Sjúkratryggingar Íslands vísað í endurupptökuheimild stjórnsýslulaga, en hvorki verði séð að ný gögn né upplýsingar liggi fyrir sem staðfesti tjón af völdum atviksins enda ekkert í sjúkraskrá eða gögnum sem bendi til þess. Þar sem engin ný gögn eða sjónarmið liggi að baki kæru verði öðru fremur áréttað það sem fram komi í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 31. júlí 2015, og enn minnt á heimild til endurákvörðunar að nánar uppfylltum skilyrðum.

Í viðbótargreinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að tímabundið atvinnutjón, þjáningatímabil, varanlegur miski, varanleg örorka og beint og annað fjártjón sé skoðað við úrlausn þeirra mála hjá Sjúkratryggingum Íslands þar sem sjúklingatryggingaratvik hafi verið samþykkt. Það sé þó alltaf forsenda samþykkis að sjúklingatryggingarlögum að tjón nái lágmarki viðmiðs 2. mgr. 5. gr. laga um sjúklingatryggingu. Tekið er fram að hendur Sjúkratrygginga Íslands séu ekki bundnar varðandi það hvernig staðið sé að ákvörðunum.  Stofnunin taki einfaldlega ákvörðun þegar mál teljist upplýst, hvort heldur um sé að ræða samþykki eða synjun og fari alltaf saman vinna lögfræðings og læknis, þ.e. ákvörðun sé tekin á fundi fagteymis sjúklingatryggingar en að fagteymi standa lögfræðingar og að jafnaði að minnsta kosti tveir læknar.

Þá sé tekin afstaða til hvers bótaliðar sem meta skuli vegna líkamstjóns vegna sjúklingatryggingar að skaðabótalögum, sbr. 1. mgr. 5. gr. sjúklingatryggingalaga. Fram kemur að kærandi hafi hvorki lagt fram reikninga né aðra kröfu um greiðslu afleidds tjóns eða beins tjóns vegna sjúklingatryggingaratviks og þar sem slík gögn liggi ekki fyrir verði það metið sem svo að ekki sé um annað fjártjón að ræða. Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra vegna tekjuáranna X – X hafi tjónþoli ekki orðið fyrir tekjutapi frá sjúklingatryggingaratviki. Ekki verði séð að kærandi hafi verið veik samkvæmt skilgreiningu skaðabótaréttar vegna sjúklingatryggingaratviks og hafi það verið metið af gögnum málsins, ekki síst sjúkraskrá. Samkvæmt læknisfræðilegum gögnum málsins, ekki síst sjúkraskrá, verði ekki ráðið að kærandi hafi orðið fyrir varanlegum einkennum eftir sjúklingatryggingaratvikið.  Þegar af þeirri ástæðu megi ljóst vera að ekki sé þörf á sérstöku mati læknis, enda yrði einkum byggt á fyrirliggjandi gögnum. Þá liggi fyrir að kærandi hafi hækkað í launum eftir sjúklingatryggingaratvikið, en ekki hafi komið fram neinar vísbendingar um að aflahæfi sé skert. Þá líti Sjúkratryggingar Íslands svo á að afleiðingar sjúklingatryggingaratviks séu ekki þess eðlis að þær muni skerða möguleika kæranda á vinnumarkaði í framtíðinni eða stytta starfsævi hennar. Að öllu virtu verði ekki séð að tjón nemi að lágmarki 88.142. kr. vegna sjúklingatryggingaratviksins en gögn hafi verið yfirlesin af læknum sjúklingatryggingarteymis stofnunarinnar og ákvörðun tekin á fjölskipuðum fundi. Bent er á að kæranda sé ríkulega tryggður réttur til endurupptöku málsins telji hún að tjón hafi leitt af sem ekki hafi verið tekið tillit til við ákvörðun.  

Tekið er fram að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands hafi byggt á því, meðal annars samkvæmt mati læknis, að ekki væri um neitt tímabil þjáningabóta að ræða, ekki tímabundið atvinnutjón og hvorki varanlegur miski né örorka sem afleiðingar þess að stent varð eftir í gallgangi. Einkenni af völdum stents sem skilið sé eftir í gallgangi of lengi séu mjög afgerandi og afmörkuð, en ekkert sé fram komið sem bendi til þess að kærandi hafi orðið fyrir tjóni. 

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar bætur á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu vegna mistaka við aðgerð á C þann X.

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu nr. 111/2000 segir um tjónsatvik sem lögin taka til:

„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtal­inna atvika:

1.    Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2.    Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3.    Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

4.    Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“

Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hlýst af sjúkdómi sem sjúklingur er haldinn fyrir. Að mati úrskurðarnefndarinnar eiga sömu sjónarmið við þegar tjón verður rakið til afleiðinga slyss.  Afleiðingar sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eða slyss eru þannig ekki bótaskyldar, en hins vegar getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar við greiningu eða meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings ef könnun og mat á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af til dæmis rangri meðferð en öðrum orsökum. Sé niðurstaðan hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.

Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkast í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr., eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem hefði mátt komast hjá með meiri aðgæslu.

Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu nr. 111/2000 skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði rakið til dæmis til mistaka skuli að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.

Kærandi byggir kröfu um bætur úr sjúklingatryggingu á 1. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000. Sjúkratryggingar Íslands hafa viðurkennt að mistök hafi átt sér stað í tilviki kæranda og að efnislega ætti atvikið undir fyrrgreindan 1. tölul. 2. gr. en bótaskyldu var synjað á þeim grundvelli að mistökin hefðu ekki leitt til tjóns fyrir kæranda. Kærandi kveðst hafa fundið fyrir miklum verkjum eftir aðgerðina og ítrekað leitað til læknis. Vegna mistakanna hafi hún tafist í námi auk þess sem um þjáningatímabil og sjúkrakostnað sé að ræða. Kemur því til skoðunar hvort framangreind mistök hafi leitt til tjóns fyrir kæranda.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til bótaskyldu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Samkvæmt gögnum málsins gekkst kærandi undir gallblöðrutöku í aðgerð þann X á C. Í lok aðgerðarinnar var sett inn dren vegna gallleka. Þann X var framkvæmd ERCP speglunaraðgerð á Landspítalanum vegna leka eftir gallblöðrutökuna. Í aðgerðinni var stent sett í gallganginn og stöðvaðist galllekinn um sólarhring síðar. Kviðarholsdren var fjarlægt þann X og kærandi útskrifuð. Stent var hins vegar ekki fjarlægt í kjölfar aðgerðarinnar eins og venja er til heldur greindist það í magaspeglun þann X og var þá fjarlægt.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 er það skilyrði fyrir greiðslu bóta að tjón megi að öllum líkindum rekja til sjúklingatryggingaratburðar. Fyrir liggur að stent var skilið eftir of lengi í kæranda. Sjúkratryggingar Íslands benda á að helstu þekktu afleiðingar þess séu þær að stentið stíflist af gallleðju eða gallsteinum og valdi fljótlega gulu eða gallgangabólgu. Í tilviki kæranda er ekkert skráð um slík einkenni í sjúkraskrá. Þótt stentið hafi ekki stíflast hjá kæranda og hún ekki hlotið þau miklu einkenni sem því fylgja verður hins vegar að teljast líklegt að stent sem skilið er eftir geti valdið verkjum, rétt eins og flestir eða allir aðskotahlutir sem skildir eru eftir í mannslíkamanum. Samkvæmt gögnum málsins leitaði kærandi til heimilislæknis þann X og kvartaði um kviðarónot. Hún gekkst undir ristilspeglun þann X og kvartaði þá einnig um kviðarónot. Þann X var framkvæmd magaspeglun þar sem stentið kom í ljós. Þá er til viðbótar við kvörtun um kviðarónot skráð að kærandi væri með verk undir hægri rifjaboga. Um magaspeglunina segir meðal annars svo í læknabréfi E læknis, dags. X: „Fjarlægt stent frá choledochus (Amsterdam stent 9 cm langt – sjá ERCP lýsingu). Sennilega hefur þetta gleymst að fjarlæga og hefur líklega gefið einhver einkenni.“ Úrskurðarnefndin horfir til þess að kærandi var með kviðarónot auk verkjar undir hægri rifjaboga en það er dæmigerður staður fyrir verki frá gallvegum. Að mati nefndarinnar eru þau einkenni mun líklegri til að hafa stafað af stentinu en litlum sepa neðarlega í ristli, sem einnig fannst við rannsóknir á kæranda. Að öllu framangreindu virtu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að það séu meiri líkur en minni á því að þeir verkir sem kærandi kvartaði um hafi stafað af því að stent var ekki fjarlægt fyrr. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi orðið fyrir bótaskyldu tjóni, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000.

Með vísan til þess sem rakið er hér að framan er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að viðurkenna bótaskyldu vegna þess að það gleymdist að fjarlægja stent sem sett var upp í kjölfar gallblöðrutöku þann X. Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til mats á tjóni kæranda vegna sjúklingatryggingaratburðarins.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja A, um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er felld úr gildi. Bótaskylda er viðurkennd og er málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til mats á tjóni kæranda vegna sjúklingatryggingaratburðarins.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta