Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Nr. 20/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 20/2018

Miðvikudaginn 18. apríl 2018

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 23. janúar 2018, kærði B lögfræðingur, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 1. nóvember 2017 um að synja umsókn kæranda um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Þann 15. maí 2017 barst Sjúkratryggingum Íslands tilkynning frá kæranda um að hún hefði orðið fyrir slysi á leið til vinnu X 2012. Stofnunin hafnaði bótaskyldu með bréfi, dags. 1. nóvember 2017. Í bréfinu segir að ekki verði ráðið af gögnum málsins við hvaða afleiðingar kærandi búi í dag sem rekja megi til slyssins X 2012. Það sé mat stofnunarinnar að orsakatengsl á milli slyssins og heilsutjóns kæranda séu óljós og því séu ekki skilyrði fyrir hendi til að víkja frá tilkynningarfresti þágildandi 28. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 23. janúar 2018. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 1. febrúar 2018, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. febrúar 2018. Viðbótargögn bárust frá lögmanni kæranda með bréfi, dags. 21. mars 2018, og voru þau send Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að óskað sé endurskoðunar á ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja umsókn hennar um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga.

Í kæru segir að kærandi hafi lent í mjög alvarlegu slysi X 2012. Hún hafi leitað á slysadeild vegna verkja frá hálsi og höfði eftir höfuðhögg. Verkir hafi síðan farið að leiða niður í bak nokkrum dögum síðar. Hún eigi allmargar komur til lækna eftir umrætt slys og einnig komur til sjúkraþjálfara. Hún hafi staðið í þeirri trú að afleiðingar slyssins myndu lagast með tímanum en svo hafi ekki orðið. Hún hafi síðan leitað aftur til læknis í X 2016 vegna bakverkja. Þá riti læknir: ,,Lengi verið viðkvæm í brjóstbaki og upp í háls. Einnig verkir neðst í mjóbaki og spjaldhrygg. Fór í sjúkraþjálfun 2013 sem gerði heilmikið gagn. Nú aftur slæm.“ Þarna, í X2016, geri kærandi sér fyrst grein fyrir því að ástandið muni ekki lagast. Hún fari þá að leita réttar síns og tilkynni slysið í framhaldi af því til Sjúkratrygginga Íslands.

Kærandi eigi vissulega fyrri sögu um einkenni frá baki, hálsi, öxl og dofa. Aftur á móti hafi tjónþoli aldrei verið á sterkum verkjalyfjum fyrr en eftir slysið X 2012.

Kærandi telji það vera í verkahring matslæknis að meta hverjar séu afleiðingar slyssins og hverjar ekki. Hún eigi margar komur til lækna eftir slysið og sé þá alltaf talað um afleiðingar slyssins X 2012. Þar af leiðandi telji hún að skilyrði séu til staðar til að víkja frá tilkynningarfresti þágildandi 28. gr. laga um almannatryggingar.

III.  Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að við úrlausn málsins hafi verið litið til ákvæða IV. kafla laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sem voru í gildi á þeim tíma sem slysið átti sér stað.  Í þágildandi 28. gr. laganna komi fram að þegar slys beri að höndum sem ætla megi að sé bótaskylt skuli atvinnurekandi eða hinn tryggði tafarlaust senda tilkynningu um slysið á því formi sem Sjúkratryggingar Íslands skipi fyrir um. Ef sá sem hafi átt að tilkynna slys hafi vanrækt það skuli það eigi vera því til fyrirstöðu að sá sem fyrir slysi varð eða eftirlátnir vandamenn hans geti gert kröfu til bóta ef það sé gert áður en ár sé liðið frá því að slysið bar að höndum. Heimilt sé þó að greiða bætur þótt liðið sé ár frá því að slys bar að höndum ef atvik séu svo ljós að drátturinn torveldi ekki gagnaöflun um atriði er máli skipti. Það skilyrði sé sett að fyrir liggi læknisfræðilegt mat á orsakasambandi, þ.e. að sýnt sé fram á orsakasamband á milli slyssins og heilsutjóns hins slasaða.

Samkvæmt tilkynningu hafi slysið orðið þann X 2012, en það hafi ekki verið tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands fyrr en 15. maí 2017 og hafi eins árs tilkynningarfrestur þágildandi 28. gr. laga um almannatryggingar því verið liðinn. Aðeins verði vikið frá tilkynningarfresti laganna ef sýnt sé fram á orsakasamband á milli slyssins og heilsutjóns hins slasaða. Í hinni kærðu ákvörðun komi fram að skilyrði þágildandi 28. gr. laga um almannatryggingar hafi ekki verið uppfyllt þar sem ekki hafi verið sýnt fram á með ótvíræðum hætti að einkenni kæranda mætti rekja til slyssins X 2012. Þar af leiðandi hafi orsakatengsl á milli slyssins og heilsutjóns verið óljós og hafi það verið niðurstaða stofnunarinnar að ekki væri skilyrði til að víkja frá tilkynningarfresti þágildandi 28. gr. laganna.

Samkvæmt lögregluskýrslu, dags. X 2012, hafi kærandi keyrt utan í kantstein og misst í kjölfarið stjórn á bifreið sem hafi endað á vegriði. Skráð hafi verið að kærandi hafi stífnað í hálsi og baki og því leitað á slysadeild C þar sem hún var skoðuð. Þar hafi kærandi verið greind með tognun í hálsi og höfuðverk eftir höfuðhögg. Þegar kærandi hafi leitað til lögreglunnar hafi hún stífnað enn frekar og verið komin með höfuðverk og verk niður í hægri handlegg. Kærandi hafi næst leitað til læknis X 2012 vegna einkenna í tengslum við slysið. Skráð hafi verið að kærandi hafi verið með einkenni frá spjaldlið hægra megin frá því um vorið, þ.e. áður en hún hafi lent í hinu tilkynnta slysi. Þá hafi einnig eftirfarandi verið skráð: „Lenti í því að fá hnykk á hálsinn í X þegar hún keyrði á brúarhandrið og snérist bíllinn hennar við það. Nú einnig vaxandi verkir í hálsi aftanverðum og niður í brjóstbak sem leiðir fram í rifbein bil á síðum.“ Kærandi hafi leitað til læknis í X 2013 vegna vaxandi bakverkja og hafi hún óskað eftir myndrannsóknum. Niðurstaða segulómskoðunar, dags. X 2013, hafi sýnt að kærandi væri með lítið brjósklos í lendarhrygg. Kærandi hafi fengið tilvísun fyrir áframhaldandi meðferð hjá sjúkraþjálfara í X 2013. Skráð hafi verið að kærandi hafi leitað til lækna vegna bakverkja í X2014 og síðan í X 2016, en þá hafi verið ritað: „Lengi verið viðkvæm í brjóstbaki og upp í háls. Einnig verkir neðst í mjóbaki og spjaldhrygg. Fór í sjúkraþjálfun 2013 sem gerði heilmikið gagn. Nú aftur slæm.“ Kærandi hafi því fengið tilvísun til sjúkraþjálfara.

Hvað varði fyrra heilsufar kæranda sé ljóst að hún hafi verið með fyrri sögu um stoðkerfisvandamál. Samkvæmt nótu heimilislæknis, dags. X 2004, hafi kærandi verið með vaxandi verki í baki og skráð var að hún hafi hætt í [...] vegna verkja. Sama ár hafi kærandi slasast í D þar sem hún hafi fengið högg á hægri öxl og hafi að mati lækna líklegast tognað í axlarhyrnulið. Kærandi hafi næst leitað til læknis vegna stoðkerfisvandamála í byrjun X 2005 vegna bakverkja neðarlega hægra megin í baki. Kærandi hafi svo leitað aftur til heimilislæknis þremur mánuðum síðar vegna stirðleika í hægri öxlinni og fengið beiðni um sjúkraþjálfun. Í lok X 2011 hafi kærandi leitað til læknis vegna slæmra verkja í hálsi sem hafi truflað svefn hjá henni. Skráð hafi verið að hún hafi skyndilega fengið dofa í andlit sem hafi gengið til baka og að hún hafi verið með dofa í litlafingri og baugfingri.  Hún hafi fengið tilvísun til sjúkraþjálfara í framhaldinu. Þá hafi kærandi leitað til læknis í X 2012 vegna bakverkja sem hafi leitt niður í læri.

Að mati Sjúkratrygginga Íslands hafi ekki verið sýnt fram á með ótvíræðum hætti að einkenni frá baki megi rekja til slyssins X 2012. Þar af leiðandi hafi orsakatengsl á milli slyssins og heilsutjóns kæranda verið óljós og því ekki talin skilyrði fyrir hendi til að víkja frá tilkynningarfresti þágildandi 28. gr. laga um almannatryggingar. Í ljósi framangreinds hafi ekki verið talið heimilt að verða við umsókn kæranda um greiðslu bóta úr slysatryggingum almannatrygginga og málið því ekki skoðað frekar efnislega.

Í ljósi fyrri sögu kæranda um bakverki til margra ára sé að mati Sjúkratrygginga Íslands ekki unnt að staðreyna orsakatengsl á milli núverandi einkenna kæranda og slyssins X 2012.

Í kæru komi fram að kærandi eigi margar komur til lækna eftir slysið og sé þá allaf talað um afleiðingar slyssins X 2012. Eftir yfirferð á gögnum málsins geti Sjúkratryggingar Íslands ekki tekið undir þessa fullyrðingu í kæru. Samkvæmt ítarlegri yfirferð E, heimilislæknis á F, yfir sjúkraskrá kæranda, dags. 30. september 2017, séu skráðar fjórar komur vegna stoðkerfisvandamála eftir umrætt slys, þ.e. X 2012, X 2013, X2014 og X 2016. Aðeins sé minnst á slysið í komu X 201[2]. Þá hafi kærandi samkvæmt gögnum málsins leitað tvisvar á C eftir slysið, X 2013 og X 2017, en aðeins sé minnst á slysið í komu í X 2013.

Þá bendi Sjúkratryggingar Íslands á að í áðurnefndri yfirferð á sjúkrasögu kæranda hjá F, dags. 30. september 2017, hafi eftirfarandi verið skráð af heimilislækni hennar: „Það er því ljóst eftir yfirferð á sjúkraskrá hennar að hún hefur haft tilhneigingu til bakverkja og verkja í hægri öxl löngu áður en slysið í X 2012. Hinsvegar er það ljóst að hennar verkjavandi hefur haldið áfram eftir slysið og erfitt er að meta hvort tengsl séu þar á milli vegna fyrri sögu um verki.“

Skilyrði laga um almannatryggingar fyrir því að heimilt sé að greiða bætur þótt ár sé liðið frá því að slys bar að höndum þegar það er tilkynnt eru samkvæmt framansögðu ekki uppfyllt að mati Sjúkratrygginga Íslands. Beri því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands á umsókn kæranda um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga vegna slyss sem hún varð fyrir X 2012.

Við úrlausn málsins ber að leggja til grundvallar gildandi rétt á þeim tíma sem slysið átti sér stað. Í X 2012 voru ákvæði um slysatryggingar í IV. kafla laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. nú lög nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga. Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 27. gr. laganna taka slysatryggingar til slysa við vinnu, iðnnám, björgunarstörf, hvers konar íþróttaæfingar, íþróttasýningar, íþróttakeppni eða heimilisstörf, enda sé hinn slasaði tryggður samkvæmt ákvæðum 29. eða 30. gr. Í 2. málsl. sömu greinar segir að með slysi sé átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem valdi meiðslum á líkama hins tryggða og gerist án vilja hans.

Í þágildandi 1. mgr. 28. gr. laganna segir að þegar slys beri að höndum, sem ætla megi að sé bótaskylt samkvæmt lögunum, skuli atvinnurekandi eða hinn tryggði, sé ekki um atvinnurekanda að ræða, tafarlaust senda tilkynningu um slysið í því formi sem sjúkratryggingastofnunin skipi fyrir um til lögreglustjóra eða umboðsmanns hans. Þá segir í 2. mgr. 28. gr. að sé vanrækt að tilkynna um slys sé hægt að gera kröfu til bóta ef það sé gert áður en ár sé liðið frá því að slysið bar að höndum. Heimilt sé þó að greiða bætur þótt liðið sé ár frá því að slysið bar að höndum ef atvik séu svo ljós að drátturinn torveldi ekki gagnaöflun um atriði sem máli skipti. Einnig segir að ráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðisins.

Með stoð í þágildandi 2. mgr. 28. gr. laganna, sbr. nú 2. mgr. 6. gr. laga nr. 45/2015, hefur verið sett reglugerð nr. 356/2005 um tilkynningarfrest slysa. Ákvæði 3. gr. reglugerðarinnar hljóðar svo:

„Skilyrði þess að fallið sé frá kröfu um að slys sé tilkynnt innan tilkynningarfrests er að fyrir liggi öll nauðsynleg gögn sem varpað geta ljósi á málið, þar með talið gögn frá þeim lækni sem sá slasaða fyrst eftir slys eða þeirri sjúkrastofnun sem hann leitaði fyrst til, svo og gögn um fyrra heilsufar slasaða. Jafnframt er skilyrði að fyrir liggi læknisfræðilegt mat á orsakasambandi, þ.e. að unnt sé að meta orsakasamband slyssins og heilsutjóns slasaða.“

Þann 15. maí 2017 barst Sjúkratryggingum Íslands tilkynning um slys kæranda og voru þá liðin meira en fjögur ár frá því að það átti sér stað. Frestur til að tilkynna slysið var þá liðinn samkvæmt þágildandi 1. málsl. 2. mgr. 28. gr. laga um almannatryggingar. Stofnunin synjaði bótaskyldu í málinu á þeirri forsendu að skilyrði undantekningarákvæðis 2. málsl. 2. mgr. 28. gr. laganna væru ekki uppfyllt. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt, að nánar tilteknum skilyrðum uppfylltum, að greiða bætur þótt liðið sé meira en ár frá slysi. Undantekningarákvæðið ber að skýra þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Skilyrði þess að vikið sé frá ársfrestinum er að ljóst sé að orsakasamband sé á milli slyss og þess áverka sem sótt er um bætur fyrir, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 356/2005.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur á það sjálfstætt mat hvort bótaskylda vegna slyss kæranda telst vera fyrir hendi og metur það á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægileg.

Fyrir liggur læknisvottorð E, dags. 30. september 2017, sem ritað var að beiðni umboðsmanns kæranda. Í vottorðinu koma fram læknisfræðilegar upplýsingar í tengslum við slys kæranda X 2012. Þar er rakin eftirfarandi nóta G læknis frá slysdegi:

„A er X ára stúlka sem varð fyrir óhappi í dag. Var að aka á bílnum sínum niður H þegar hún keyrir utan í kantstein, missir stjórn á bíl og keyrir á brúarhandrið. Fær talsvert högg. Heldur að hún hafi verið í belti en er ekki viss.

Brotna ekki rúður í bílnum en þó er hann talsvert skemmdur. Hún segist hafa slegið höfði utan í hlið á bíl og fengið talsverðan slink á hálsinn. Neitar ógleði, uppköstum eða því að hafa misst meðvitund í kjölfarið á þessu. Þó í talsvert miklu sjokki.

Skoðun:

Við skoðun er að sjá stúlku, ekki bráðveikindalega sem kemur gangandi inn. Er greinilega í talsverðu uppnámi eftir þetta og grætur.

Höfuð og háls: Talsverður roði í andliti og tár á hvarmi en engin merki um mar, opna skurði eða aðra áverka. Ekki með þreifieymsli yfir höfðinu sjálfu. Við þreifingu á hálsi er hún ekki aum yfir hryggtindum. Er aðeins stíf yfir paravertibral vöðvum bæði hægra megin og vinstra megin.

Skoðun á hreyfingum er hún með eðlilegar aktívar hreyfingar bæði við að snúa höfði til hægri og vinstri og extendera og flectera í hálsliðum. Fær ekki eymsli við passíva hreyfingu á höfði heldur.

Skoðun á pupillum er eðlileg og augnhreyfingar eðlilegar.

Gróf taugaskoðun án athugasemda. Ekki brottfallseinkenni í handleggjum. Kraftar í lagi í handleggjum og fingrum.

Kvartar ekki um eymsli annarsstaðar við skoðun.

Álit:

Tognun í hálsi og höfuðverkur eftir höfuðhögg. Ekki merki um heilahristing.

Fræði hana um höfuðhögg og hálstognanir og það að hún muni líklegast verða versnandi í kvöld og jafnvel næstu 2 dagana meðan hún er að stífna upp. Fær almennar ráðleggingar um verkjalyf, Parasetamól og Ibufen og að vera í sambandi við sinn lækni eftir 2-3 vikur ef hún er ekki skánandi, þá með tilliti til þess að fá hugsanlega aðstoð sjúkraþjálfara í framhaldinu.“

Í læknisvottorðinu kemur jafnframt fram að kærandi hafi fyrst leitað til E X 2012 vegna einkenna í tengslum við slysið. E hafi svo ritað eftirfarandi nótu í sjúkraskrá kæranda:

„Verið með einkenni frá sacroliliac svæði hæ megin frá því í X. Fær mikla þreytuverki. Ekki klínískur grunur um taugarótareinkenni. Mest spurning um festumein. Lenti í því að fá hnykk á hálsinn í X þegar hún keyrði á brúarhandrið og snérist bíll hennar við það. Nú einnig vaxandi verkir í hálsi aftanverðum og niður í brjóstbak sem leiðir fram í rifbein bil á síðum.“

Í vottorðinu kemur að kærandi hafi komið aftur til E í X 2013 þar sem hún hafi verið slæm af bakverkjum. Kærandi hafi svo farið í segulómskoðun X 2013 og niðurstaða skoðunarinnar hafi verið sú að hún væri með lítið brjósklos í lendarhrygg. E hafi skrifað tilvísun til sjúkraþjálfara í X 2013. Eftir það hafi kærandi leitað til læknis vegna bakverkja í X 2014 og X 2016. Þá liggur fyrir læknisvottorð I, dags. 8. ágúst 2017, þar sem meðal annars segir um kæranda:

„X ára kona, msu brjósklos í mjóbaki, kemur vegna verkja í hæ handlegg, sem hún segir frá hæ öxl til hæ handar, sem hófust í dag. Ekkert trauma.

skoðun

ekki bráðveikindaleg

hæ öxl/handleggur: eðlilegt ROM um öxl án verkja

¾ gripstyrkur hæ megin, 4/4 gripstyrkur vi megin

lítiilega minnkað skyn hæ megin vs vi

álit/plan

hugsanlegt brjósklos í hálsi sem er áður óþekkt, hefur verið að taka einhver bólgueyðandi lyf og veikari verkjalyf heimafyrir, án mikils árangurs, skrifa út gabapentin, endurkoma ef ekki batnandi til frekari uppvinnslu“

Varðandi heilsufar kæranda fyrir slysið er rakið í læknisvottorði E að hún hafi fyrst leitað til læknis vegna bakverkja í X 2004. Álit læknis hafi verið að um tognun væri að ræða, líklega í axlarhyrnulið. Þá kemur fram að kærandi hafi leitað til læknis vegna stoðkerfisverkja í X 2005 og aftur þremur mánuðum eftir það. Samkvæmt sjúkraskrá eigi hún engar komur aftur til læknis vegna stoðkerfisvanda fyrr en í X 2011, en þar hafi læknir ritað:

„X ára stúlka búinn að vera með slæman verk í hálsi í einhvern tíma hefu verið versnandi núna og truflað svefn hjá henni. Hún fékk skyndilegan dofa í andlit um daginn hitti þá J sem vísaði henni á K taugalækni, þessi dofi er gengin til baka en hún er með dof í litla og baugfingri samsvarandi dermadomi C8“.

Næsta koma kæranda vegna stoðkerfiseinkenna hafi verið í X 2012. Þar sé meðal annars skráð af lækni:

„Verkur í baki í 1 dag, byrjaði ekki eftir e-ð ákveðið. situr í vinnunni allan daginn. Verst þegar stendur upp úr stól og byltir sér í rúmi. Fannst það kannski leiða aðeins út í anterior læri bilat, en ekki stöðugt.“

Að lokum segir í læknisvottorði E:

„Það er því ljóst eftir yfirferð á sjúkraskrá hennar að hún hefur haft tilhneigingu til bakverkja og verkja í hægri öxl löngu áður en slysið í X 2012 átti sér stað. Hinsvegar er það ljóst að hennar verkjavandi hefur haldið áfram eftir slysið og erfitt að meta hvort tengsl séu þar á milli vegna fyrri sögu um verki.“

Í matsgerð L læknis og M læknis, dags. 20. mars 2018, var varanlegur miski samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af völdum slyssins metinn 4 stig og varanleg örorka samkvæmt 5. gr. laganna metin 4%. Í samantekt og áliti matsgerðarinnar segir:

„A er með fyrri sögu um stoðkerfiseinkenni bæði frá baki og hálsi. Rétt fyrir slysið þ.e. í X 2012 leitaði hún til heilsugæslulæknis vegna verkja í baki. Hún var þá með eymsli í baki og leiddi það út í framanverð læri beggja vegna.

A lendir í umferðarslysi þegar hún keyrir utan í vegrið X 2012. Við fyrstu skoðun á slysadeild er lýst tognun á hálsi en engum einkennum er lýst frá mjóbaki. Við fyrstu skoðun heimilislæknis X 2012 er því lýst að hún hafi verið með einkenni frá spjaldliðasvæði hægra megin frá því í X 2012. Einnig kemur fram að hún hafi fengið hnykk í hálsinn í X þegar hún keyrði á brúarhandrið. Því er lýst að hún hafi fengið hnykk á hálsinn og hafi vaxandi verki í hálsi aftanverðum niður í brjóstbak. Hér eru mjóbakseinkenni ekki tengd við umferðarslysið X 2012.

Næsta læknisskoðun er í X 2013. Þá er því lýst að hún hafi verið slæm af bakverkjum.

Með tilliti til þess að hér er um að ræða fyrri sögu bæði frá hálsi og baki og baksögu skömmu fyrir slysið verður vart talið að núverandi mjóbakseinkenni og einkenni frá hægri spjaldliðasvæði sé að rekja til slyssins X 2012. Gert er ráð fyrir því að hálseinkenni hafi versnað og eru varanlegar afleiðingar slyssins metnar m.t.t. þessa.“

Að framangreindu virtu er ljóst að fyrir slysið X 2012 hafði kærandi lengi átt við vandamál í baki að stríða. Samkvæmt læknisvottorði E leitaði kærandi til læknis á slysdegi og aftur einum og hálfum mánuði síðar. Eftir það leitaði hún aftur til læknis í fjögur skipti á tímabilinu frá X 2013 til X 2016 vegna bakverkja og stoðkerfisvandamála, en af gögnum málsins er óljóst hvort það hafi verið í tengslum við slys kæranda eða ekki. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er ekki um sértæk einkenni af völdum slyss að ræða, enda hafði kærandi fyrri sögu um verki frá stoðkerfi. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar að ekki sé ljóst að slys kæranda X 2012 hafi verið orsök þeirra einkenna sem rakin eru í læknisvottorði I, dags. 8. ágúst 2017. Í ljósi þess að ekki liggur fyrir orsakasamband á milli slyss kæranda og þeirra einkenna sem hún býr við í dag, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 356/2005, er að mati nefndarinnar ekki heimilt að beita undantekningarreglu þágildandi 2. málsl. 2. mgr. 28. gr. laga um almannatryggingar til að falla frá meginreglu 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr. 28. gr. laganna um að tilkynna skuli tafarlaust um slys og í síðasta lagi innan árs frá slysi.

Með hliðsjón af framangreindu er synjun Sjúkratrygginga Íslands á umsókn kæranda um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja umsókn A, um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta