Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Nr. 447/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 447/2018

Miðvikudaginn 23. janúar 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 17. desember 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 22. maí 2018 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2017.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi, dags. 22. maí 2018, var kæranda tilkynnt um að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2017 hafi leitt í ljós ofgreiðslu að fjárhæð X kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 17. desember 2018. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. desember 2018, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hann að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í málinu. Með tölvupósti 4. janúar 2019 bárust skýringar frá kæranda. Með tölvupósti úrskurðarnefndar velferðarmála 10. janúar 2018 óskaði úrskurðarnefnd eftir frekari skýringum frá kæranda og barst tölvupóstur frá kæranda 11. janúar 2018.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að meðhöndlun Tryggingastofnunar á greiðslum úr lífeyrissjóði við endurreikning og uppgjör ársins 2017 verði endurskoðuð.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi fengið innheimtubréf frá sýslumanni um endurgreiðslu bóta sem hann hafi fengið samkvæmt ákvörðun úrskurðarnefndar velferðarmála. Kærandi hafi X fengið eingreiðslu frá lífeyrissjóði fyrir tímabilið X til X.

Kærandi hafi verið launalaus vegna veikinda frá árinu X en hann hafi ekki fengið örorkulífeyri fyrr en X. Fjárhagsstaða fjölskyldu hans sé mjög erfið og frá og með september 2018 sé dreginn af honum peningur.

Árið X hafi verið kæranda erfitt, hann hafi farið í skurðaðgerð vegna [...], hafi lést mikið og það hafi tekið hann nokkra mánuði að jafna sig og þess vegna hafi hann ekki getað sinnt þessu máli. Þess sé krafist að farið sé yfir mál hans og athugað hvort þetta sé sanngjarnt og rétt.

Í tölvupósti kæranda frá 4. janúar 2019 segir að hann hafi fengið þær upplýsingar frá Tryggingastofnun að kærufrestur vegna ákvörðunar stofnunarinnar hafi liðið þann 15. nóvember 2018 og vísar kærandi þar í meðfylgjandi afrit af tölvupóstsamskiptum við stofnunina frá 18. ágúst 2018.

Kærandi ítrekar það sem áður hafði komið fram um veikindi hans á árinu X. Fjölskylduaðstæður kæranda séu þær að þau hjónin séu með X börn og eitt þeirra sé með greiningu sem þurfi mjög mikinn stuðning. Eiginkona hans vinni X% vinnu og engir ættingjar séu búsettir nálægt þeim og því séu þau alltaf með börnin sín og fái engan frídag. Ákvörðun Tryggingastofnunar þýði að hann þurfi að borga til baka örorkubætur, sem hann hafi fengið í eingreiðslu í X fyrir tímabil frá árinu X, sem hann hafi fengið í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í kærumáli nr. 396/2017.

Að lokum segi í tölvupóstinum að framangreint sé ástæða þess að kærandi hafi ekki sent kæru fyrr en 15. nóvember. Þá tilgreinir kærandi að hann geti komið með vottorð frá lækni ef þörf krefji.

Í tölvupósti kæranda frá 11. janúar 2019 segir að um hafi verið að ræða mörg atriði sem hafi komið upp á og ítrekar kærandi það sem komið hafði fram í fyrri tölvupósti hans um veikindi hans og mikla erfiðleika í fjölskyldulífinu.

III.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. maí 2018, um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2017. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort Tryggingastofnun sé heimilt að skerða greiðslur kæranda vegna eingreiðslu frá lífeyrissjóði.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.

Samkvæmt gögnum málsins liðu tæplega sjö mánuðir frá því að kærandi var upplýstur um kærða ákvörðun 22. maí 2018 þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 17. desember 2018. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar var því liðinn þegar kæran barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. desember 2018, var kæranda veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hann að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga gætu átt við í málinu. Með tölvupósti 4. janúar 2019 var greint frá því að hann hafi átt við veikindi að stríða á árinu X og að um erfiðar fjölskylduaðstæður væri að ræða. Þá segir að kærandi hafi lagt fram kæru 15. nóvember. Úrskurðarnefnd velferðarmála óskaði nánari upplýsinga frá kæranda í tölvupósti 10. janúar 2019 um þessa tilteknu dagsetningu sem hann hafði minnst á í fyrri tölvupósti en ekki barst frekari skýring á þessari dagsetningu.

Fyrir liggur að í ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 22. maí 2018 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og tímalengd kærufrests. Varðandi tímalengd kærufrests kom fram í ákvörðuninni að heimilt væri að kæra ákvörðun stofnunarinnar innan þriggja mánaða frá lokum andmælafrests sem var tilgreindur 15. ágúst 2018. Ljóst er að upplýsingar Tryggingastofnunar um tímalengd kærufrests eru ekki í samræmi við 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar og 5. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála, enda skal kæra til úrskurðarnefndar borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila er tilkynnt um ákvörðun samkvæmt framangreindum lagaákvæðum.

Hjá úrskurðarnefnd velferðarmála liggur fyrir rafræn kæra frá kæranda móttekin 17. desember 2018. Kærandi byggir á því að hann hafi kært ákvörðun Tryggingastofnunar 15. nóvember 2018 en hefur ekkert útskýrt þá fullyrðingu nánar, þrátt fyrir beiðni úrskurðarnefndar þar um. Úrskurðarnefndin telur ljóst af gögnum málsins að kæra hafi ekki borist fyrr en 17. desember 2018.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að kærandi hafi mátt ráða af kæruleiðbeiningum Tryggingastofnunar að kærufrestur væri til 15. nóvember 2018. Einnig liggur fyrir að kærandi sendi Tryggingastofnun tölvupóst 18. ágúst 2018 þar sem hann spurðist fyrir um kærufrest umræddrar ákvörðunar stofnunarinnar og fékk aftur þær leiðbeiningar með tölvupósti 23. ágúst 2018 að kærufrestur væri þrír mánuðir frá lokum andmælafrests. Þrátt fyrir að afsakanlegt geti talist að kæra hafi ekki borist innan lögboðins kærufrests sökum rangra leiðbeininga stofnunarinnar þá afsakar framangreint ekki að kæran hafi borist eftir 15. nóvember 2018. Einnig eru veikindi kæranda og fjölskylduaðstæður hans að mati úrskurðarnefndar ekki þess eðlis að afsakanlegt verði talið að kæra hafi borist eftir 15. nóvember 2018, enda bendir ekkert til þess að kærandi hafi ekki verið fær um að kæra ákvörðun Tryggingastofnunar sökum þeirra.

Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin ekki afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr. Þá verður ekki heldur séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 37/1993.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur rétt að benda kæranda á að í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags er kveðið á um heimild Tryggingastofnunar til að fella niður endurkröfu ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Kærandi geti því kannað hjá stofnuninni hvort hann kunni að eiga rétt á niðurfellingu á grundvelli framangreinds ákvæðis.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta