Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 528/2022-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 528/2022

Miðvikudaginn 15. febrúar 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 4. nóvember 2022, kærði B lögfræðingur, fyrir hönd A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 10. ágúst 2022 um að synja umsókn kæranda um uppbót vegna reksturs bifreiðar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um uppbót vegna reksturs bifreiðar frá 15. janúar 2020 með umsókn 14. janúar 2022. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. janúar 2022, var umsókn kæranda um uppbót vegna reksturs bifreiðar synjað á þeim grundvelli að kærandi væri ekki skráður eigandi bifreiðar. Með umsókn 24. mars 2022 sótti kærandi á ný um uppbót til reksturs bifreiðar frá 24. mars 2020. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 10. ágúst 2022, var umsókn kæranda um uppbót vegna reksturs bifreiðar synjað með þeim rökum að hvorki hún né maki hennar væri skráður eigandi bifreiðarinnar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 4. nóvember 2022. Með bréfi, dags. 30. nóvember 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 15. desember 2022, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. desember 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda 9. janúar 2023 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. janúar 2023. Frekari efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er greint frá því að kærandi sé með E sjúkdóm og hafi verið greind með F syndrome eftir áverka á hné. Vegna sjúkdómanna hafi átt sér stað mikil vöðvarýrnun og skert hreyfigeta sem hafi leitt til þess að kærandi hafi notað hækjur í þrjú ár og hjólastól í vaxandi mæli. Kærandi hafi verið lengi í endurhæfingu sem hafi borið lítinn sem engan árangur og hafi verið með örorkumat frá 1. júní 2022. Kærandi geti ekki nýtt sér almenningssamgöngur og þurfi því eigin bíl til þess að komast leiða sinna. Hreyfihömlun sé staðfest í læknisvottorðum um hreyfihömlun vegna bifreiða, dags. 13. janúar 2022 og 10. febrúar 2022.

Kærandi hafi sótt um uppbót vegna reksturs bifreiðar, tvö ár afturvirkt, þann 14. janúar 2022 og hafi verið synjað um uppbótina 28. janúar 2022 á þeim forsendum að hún væri ekki skráður eigandi bifreiðarinnar samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu. Þann 24. mars 2022 hafi kærandi sótt aftur um uppbót vegna reksturs bifreiðar, tvö ár afturvirkt, og verið synjað um uppbótina 4. ágúst 2022 á þeim forsendum að bifreið sem væri í kaupleigu yrði að vera skráð á umsækjanda eða maka hans en samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu væri kærandi ekki skráður eigandi bifreiðarinnar og samkvæmt innsendum gögnum væri ekki um að ræða bifreið í kaupleigu. Þann 10. ágúst 2022 hafi kæranda aftur borist synjun um uppbót vegna reksturs bifreiðar og þá á þeim forsendum að kærandi eða maki hans væri ekki skráður eigandi bifreiðar samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu.

Í fyrrgreindum umsóknum sé hakað við „sæki um uppbót vegna reksturs bifreiðar“, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Meðal fylgigagna með fyrrgreindum umsóknum hafi verið afrit af leigusamningum kæranda og C allt aftur til desember ársins 2018. Samkvæmt upplýsingum frá C, feli langtíma-/vetrarleiga bifreiðar það í sér að vera þægilegur, sveigjanlegur og umfram allt skynsamlegur kostur þegar komi að rekstri bifreiða. Langtímaleiga bifreiðar sé því rekstrarleiga bifreiðar. Óumdeilt sé að kærandi sé hreyfihömluð og ekki sé deilt um hvort hún uppfylli skilyrði hreyfihömlunar samkvæmt 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Skilyrði fyrir uppbót vegna reksturs bifreiðar séu meðal annars þau að bifreið sé í rekstrarleigu, sbr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð og 5. gr. reglugerðar nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Kærandi hafi sannanlega verið með bifreið í rekstrarleigu.

Í lögum um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, sé fjallað um bætur vegna félagslegrar aðstoðar, meðal annars uppbót vegna reksturs bifreiða að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Í 1. mgr. 10. gr. laganna segi að heimilt sé að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Í 2. mgr. 10. gr. laganna segi að sama gildi um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkulífeyrisþegi og örorkustyrkþegar. Samhljóða ákvæði sé að finna í 5. gr. reglugerðar nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða en sú reglugerð sé sett með stoð í 10. gr. laga um félagslega aðstoð, með síðari breytingum. Þar sé fjallað um félagslegar bætur, meðal annars greiðslur vegna bifreiðakostnaðar, og segi í 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða að hinn hreyfihamlaði eða maki hans verði að vera skráður eigandi bifreiðarinnar en þó sé heimilt að greiða uppbót ef greiðsluþegi hafi bifreiðina á rekstrarleigu hjá viðurkenndum aðila.

Framangreindar reglur um stuðning og aðstoð við fatlað fólk séu af hálfu löggjafans og stjórnvalda útfærsla á því ákvæði 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar um að öllum, sem þess þurfi, skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.

Í synjunum Tryggingastofnunar sé vísað til 10. gr. laga um félagslega aðstoð og 10. gr. reglugerðar nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Kærandi hafi ekki sótt um uppbót eða styrk vegna bifreiðakaupa.

Í umsókn vegna bifreiðamála sé hægt að haka við „sæki um uppbót vegna reksturs bifreiðar“, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 905/2021, og „sæki um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa“, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 905/2021. Í báðum umsóknum kæranda merki hún við „sæki um uppbót vegna reksturs bifreiðar“, sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Kærandi hafi sótt um uppbót vegna reksturs bifreiðar, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 og 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 905/2021, sbr. umsóknir, dags. 14. janúar 2022 og 24. mars 2022.

Í fyrrgreindum synjunum Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn um uppbót vegna reksturs bifreiðar megi draga þá ályktun að Tryggingastofnun hafi hvorki kynnt sér umsóknir kæranda né fylgigögn þeirra og þar af leiðandi ekki verið nægjanlega upplýst áður en ákvörðun hafi verið tekin um að synja kæranda um uppbótina sem brjóti gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Ákvörðun um greiðslu uppbótar vegna reksturs bifreiðar sé stjórnvaldsákvörðun í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og við undirbúning slíkrar ákvörðunar þurfi stjórnvöld að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin á því, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Í 38. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé sérstaklega hnykkt á rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins og þar tekið fram að stofnunin skuli sjá til þess að öll nauðsynleg gögn og upplýsingar liggi fyrir. Ekki verði séð að þau gögn og upplýsingar sem Tryggingastofnun hafi haft, eða hafi láðst að afla, við rannsókn málsins hafi varpað ljósi á tilgang og efni umsóknar. Þá geti stjórnvöld ekki komist hjá því að rannsaka mál á viðhlítandi hátt með því að beita sönnunarreglum í stað rannsóknar. Í athugasemd við 10. gr. í frumvarpi til stjórnsýslulaga segi um þær kröfur um rannsókn máls hjá stjórnvöldum sem leiði af 10. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 38. gr. laga um almannatryggingar: „Því til finnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verður almennt að gera til stjórnvalds um að það gangi úr skugga um að upplýsingar, sem búa að baki ákvörðun, séu sannar og réttar.“

Þá sé vert að taka það fram að kærandi, sem sé enskumælandi en hafi búið á Íslandi síðustu ár, fái öll bréf frá Tryggingastofnun rituð á íslensku sem brjóti gegn 11. gr. og 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæranda sé þar með mismunað við úrlausn máls síns á grundvelli þjóðernis.

Ákvarðanir stjórnvalda verði að eiga sér stoð í lögum. Að auki feli heimildarregla lögmætisreglunnar það í sér að ákvarðanir stjórnvalda skuli eiga sér heimild í lögum, það er Alþingi verði að hafa veitt stjórnvöldum heimild með lögum til þess að taka ákvarðanir. Starfsskilyrði stjórnvalda beri það með sér að það hvíli ákveðin ábyrgð á stjórnvöldum gagnvart Alþingi og eigi það bæði við um félagsmálaráðuneytið og Tryggingastofnun ríkisins. Mat stjórnvalda á því hvaða lagasjónarmið ákvörðun skuli byggð á sé ekki frjálst að öllu leyti, heldur sé það bundið af almennum efnisreglum stjórnsýsluréttarins, svo sem jafnræðisreglunni og meðalhófsreglunni svo og öðrum efnisreglum, lögfestum og ólögfestum. Að baki sérhverri stjórnvaldsákvörðun verði einnig að búa málefnaleg sjónarmið og stjórnvöldum beri að gæta málefnalegra sjónarmiða við meðferð opinbers valds.

Umsókn kæranda sé skýr og Tryggingastofnun hafi verið í lófa lagið að leita til kæranda ef einhver vafi léki á efni umsóknarinnar. Tryggingastofnun hafi tekið ákvörðun um að synja kæranda um uppbót vegna reksturs bifreiðar, þrátt fyrir að skilyrði fyrir uppbótinni væru uppfyllt. Að öllu framangreindu virtu verði úrskurðarnefnd velferðarmála að snúa ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins við.

Í athugasemdum kæranda, dags. 9. janúar 2023, ítrekar kærandi að hún hafi sótt um uppbót vegna reksturs bifreiðar, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.

Hvergi í reglugerðinni sé skilgreint hvaða leiga falli undir það að teljast til [rekstrarleigu]. Kærandi spyrji hvort það sé einungis kaupleiga. Tryggingastofnun ríkisins hefði verið í lófa lagið að fara eftir leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og upplýsa og leiðbeina kæranda betur um hvað félli þar undir. Rekstrarleiga á bíl sé í samstarfi við fjármögnunarfyrirtæki. Leigutaki beri ábyrgð á bifreiðagjöldum og eldsneyti á samningstímanum og beri einnig að tryggja bílinn í ábyrgðar- og kaskótryggingu. Hann beri ábyrgð á tjóni sem ekki falli undir tryggingarverndina. Með rekstrarleigu á bílum sé allur þjónustukostnaður, fjármagnskostnaður, afskriftir og endursöluáhætta innifalin í mánaðarlegri greiðslu. Með kaupleigu sé bíllinn leigður af fjármögnunarfélagi sem kaupi bílinn en leigutaki færi samt bílinn til eignar. Í lok samningstíma eignist leigutaki bílinn með því að greiða lokagreiðslu sem ákveðin sé í upphafi og bílnum sé þá afsalað til leigutaka. Það sé því augljóst að rekstrarleiga og kaupleiga sé algjörlega svart og hvítt.

Kærandi hafi ekki sótt um greiðslur vegna uppbótar eða styrks vegna bifreiðakaupa, sbr. 10. gr. reglugerðarinnar. Kærandi fái ekki séð hvernig umsókn hennar um greiðslur vegna uppbótar á rekstri bifreiðar sé bundin þeim skilyrðum að hún þurfi að lokum að eignast hana, sbr. greinargerð Tryggingastofnunar. Kærandi myndi gjarnan vilja fá frekari upplýsingar þar um og þá hvar lagastoðin liggi.

Í lögum nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, sé fjallað um bætur vegna félagslegrar aðstoðar, meðal annars uppbót vegna reksturs bifreiða að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 segi að heimilt sé að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Í 2. mgr. sömu greinar segi að sama gildi um rekstur bifreiðar, eigi í hlut elli- eða örorkulífeyrisþegi og örorkustyrkþegar. Lagagreinin sé skýr og taki ekki fram þau skilyrði að uppbót vegna reksturs bifreiðar verði að fela það í sér að greiðsluþegi þurfi að endingu að eignast bifreiðina. 

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé afgreiðsla á umsókn um uppbót vegna reksturs bifreiðar samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Sama gildi um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkustyrkþegar, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar.

Í 5. gr. reglugerðar nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða sé að finna ákvæði um uppbót vegna reksturs bifreiðar. Fram komi í 1. mgr. 5. gr. að heimilt sé að greiða hreyfihömluðum elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót til að mæta kostnaði við rekstur bifreiðar. Enn fremur komi fram í 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 905/2021 að skilyrði sé að greiðsluþega sé nauðsyn að hafa bifreið vegna hreyfihömlunar og skuli sýnt fram á að hann geti ekki komist af án uppbótarinnar.

Í 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 905/2021 sé ákvæðið útfært frekar. Þar komi fram að skilyrði sé að hinn hreyfihamlaði eða maki hans sé skráður eigandi bifreiðarinnar. Þó sé heimilt ef greiðsluþegi hafi bifreiðina á rekstrarleigu hjá viðurkenndum aðila að greiða uppbót.

Í 4. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 905/2021 komi fram að hinn hreyfihamlaði eða maki hans skuli vera skráður eigandi bifreiðarinnar. Bifreið sem sé í kaupleigu geti fallið undir þau ákvæði reglugerðarinnar sem geri að skilyrði að bifreið skuli vera í eigu umsækjanda eða maka hans eða hún skráð á umsækjanda eða maka hans.

Kærandi hafi sótt um uppbót samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 905/2021 vegna reksturs bifreiðar með umsókn, dags. 14. janúar 2022, á Mínum síðum Tryggingastofnunar ríkisins og aftur með umsókn, dags. 24. mars 2022. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 10. ágúst 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókninni hefði verið synjað á grundvelli þess að samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu hafi kærandi ekki uppfyllt það skilyrði að vera skráður eigandi bifreiðarinnar og þar með hafi Tryggingastofnun synjað kæranda um uppbót til reksturs bifreiðar.

Þann 17. ágúst 2022 hafi kærandi síðan sent inn til Tryggingastofnunar kaupsamning og afsal vegna ökutækjaviðskipta bifreiðarinnar D sem undirritað hafi verið rafrænt. Þar komi fram að kærandi kaupi áðurnefnda bifreið og sé kaupdagur skráður X. ágúst 2022.

Með bréfi Tryggingastofnunar til kæranda, dags. 22. september 2022, hafi umsókn vegna uppbótar á rekstri bifreiðar aftur verið tekin til meðferðar í ljósi nýrra ganga. Í bréfi Tryggingastofnunar komi meðal annars fram að hreyfihömlun kæranda hafi verið metin á grundvelli fyrirliggjandi læknisvottorðs og forsendur séu uppfylltar til að fá uppbót vegna reksturs bifreiðar. Gildistími hreyfihömlunarmats sé síðan ákvarðaður frá 1. júní 2022 til 31. desember 2022 og greiðslutímabilið frá 1. september 2022 til 30. desember 2022. Greiðslur hafi síðan hafist á uppbótinni til kæranda frá 1. september 2022.

Með umsókn kæranda um uppbót vegna reksturs bifreiðar hafi verið farið fram á greiðslur aftur í tímann, eða frá 24. mars 2020, og með umsókninni hafi fylgt bílaleigusamningar frá bílaleigunni C vegna bifreiðanna G, H, I og J. Um sé að ræða skammtímaleigu á umræddum bifreiðum og bifreiðarnar hafi verið skráðar á viðkomandi bílaleigu en ekki á kæranda. Ekki sé heldur um kaupleigu að ræða, sbr. ákvæði í 4. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Í ákvæðinu komi fram að bifreið sem sé í kaupleigu geti fallið undir þau ákvæði reglugerðarinnar sem geri að skilyrði að bifreið skuli vera í eigu umsækjanda eða maka hans eða hún skráð á umsækjanda eða maka hans. Vetrarleiga á bifreið á bílaleigu falli ekki þar undir og sé heldur ekki rekstrarleiga í þeirri merkingu er komi fram í 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 905/2021, sbr. 4. mgr. 10. gr. sömu reglugerðar.

Kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði um að vera skráður eigandi fyrir bifreið fyrr en X. ágúst 2022, sbr. upplýsingar frá Samgöngustofu þar um. Greiðslur vegna reksturs á bifreið hafi síðan verið afgreiddar frá Tryggingastofnun og hafi fyrsti greiðsludagur verið ákvarðaður 1. september 2022, sbr. ákvæði í 1. mgr. 53. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007. Það ákvæði kveði á um að bætur skuli reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar efir að bótaréttur sé fyrir hendi.

Þótt kæra þessi fjalli eingöngu um synjun á uppbót vegna reksturs bifreiðar þá vilji Tryggingastofnun koma því á framfæri að kærandi hafi fengið greiddan styrk til kaupa á bifreið að upphæð 1.440.000 kr. í ágúst 2022.

Í málinu sé ekki deilt um að kærandi sé hreyfihömluð. Kærandi hafi hins vegar ekki uppfyllt skilyrði reglugerðarinnar um að vera skráður eigandi bifreiðar fyrr en við kaup á bifreiðinni D þann X. ágúst 2022 samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu.

Uppbót vegna reksturs bifreiðar sé veitt samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð og 5. gr. reglugerðar nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.

Í 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar komi fram að skilyrði sé að hinn hreyfihamlaði eða maki hans sé skráður eigandi bifreiðarinnar. Þó sé heimilt að greiða uppbót ef greiðsluþegi hafi bifreiðina á rekstrarleigu hjá viðurkenndum aðila. Hér sé ekki átt við skammtímaleigu hjá bílaleigum eins og kærandi haldi fram heldur sé hér um að ræða kaupleigu sem geri það að skilyrði að bifreið skuli vera í eigu umsækjanda eða maka hans.

Skammtímaleiga á bílaleigu sé ekki kaupleiga sem endi með því að kærandi verði skráður eigandi bifreiðar við leigulok. Margir skammtímaleigusamningar frá C bílaleigu hafi fylgt með kæru þessari þar sem kærandi hafði leigt tímabundið nokkrar bifreiðar en hafi hins vegar aldrei verið skráð sem eigandi bifreiðar við leigulok og þar af leiðandi ekki um kaupleigu að ræða eins og kveðið sé á um í 4. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 905/2021.

Með bréfi frá Tryggingastofnun, dags. 22. september 2022, hafi kæranda síðan verið tilkynnt að afgreiðsla á umsókn hafi aftur verið tekin til meðferðar og forsendur væru uppfylltar til að fá uppbót vegna reksturs bifreiðar. Greiðslutímabilið hafi svo verið ákvarðað frá 1. september 2022 til 30. desember 2022. Kærandi hafi nú þegar fengið greiðslur á uppbót vegna reksturs bifreiðar frá 1. september 2022 að telja.

Tryggingastofnun hafi farið ítarlega yfir mál kæranda. Stofnunin telji að miðað við fyrirliggjandi gögn sé ljóst að afgreiðsla málsins hafi að fullu og öllu verið í samræmi við almannatryggingalög, lög um félagslega aðstoð og reglugerð nr. 905/2021.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um uppbót vegna reksturs bifreiðar fyrir tímabilið 23. mars 2020 til 31. ágúst 2022.

Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar/styrks til kaupa á bifreið og uppbót vegna reksturs bifreiða er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, en þar segir meðal annars svo:

„Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

Sama gildir um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkulífeyrisþegi og örorkustyrkþegar.“

Með stoð í 3. málsl. 3. mgr. nefndrar 10. gr. hefur ráðherra sett reglugerð nr. 905/2021 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.

Í 5. gr. reglugerðarinnar er fjallað um uppbót vegna reksturs bifreiðar og hljóðar 1. mgr. ákvæðisins svo:

„Heimilt er að greiða hreyfihömluðum elli- eða örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót til að mæta kostnaði við rekstur bifreiðar. Sama gildir um endurhæfingarlífeyrisþega samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Skilyrði er að greiðsluþega sé nauðsyn að hafa bifreið vegna hreyfihömlunar og skal sýnt fram á að hann geti ekki komist af án uppbótarinnar.“

Í 2. mgr. ákvæðisins segir svo:

„Skilyrði er að hinn hreyfihamlaði eða maki hans sé skráður eigandi bifreiðarinnar. Þó er heimilt að greiða uppbót ef greiðsluþegi hefur bifreiðina á rekstrarleigu hjá viðurkenndum aðila.“

Samkvæmt 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda ákvæði laga um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Þá segir í 2. málsl. 13. gr. laga um félagslega aðstoð að beita skuli V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laganna. Í 1. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar kemur fram að réttur til bóta stofnist frá og með þeim degi er umsækjandi teljist uppfylla skilyrði til bótanna og bætur skuli reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur sé fyrir hendi. Í 4. mgr. 53. gr. kemur fram að bætur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berst umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta.

Í málinu er ekki deilt um að kærandi sé hreyfihömluð. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi hafi uppfyllt skilyrði 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar um að hafa bíl á rekstrarleigu hjá viðurkenndum aðila á tímabilinu 23. mars 2020 til 31. ágúst 2022 og eigi þar af leiðandi rétt til uppbótar vegna reksturs bifreiðar á því tímabili. Í málinu liggur fyrir að kærandi festi kaup á bifreið þann X. ágúst 2022 og fékk greiðslur vegna reksturs bifreiðarinnar frá 1. september 2022. Í málinu liggja fyrir fjórir samningar, annars vegar þrír vetrarleigusamningar og hins vegar einn langtímaleigusamningur sem kærandi gerði við C á tímabilinu 11. desember 2019 til 19. ágúst 2022.

Af hinni kærðu ákvörðun verður ráðið að Tryggingastofnun hafi synjað kæranda um uppbót vegna reksturs bifreiðar þegar af þeirri ástæðu að hún væri ekki skráður eigandi bifreiðar. Í greinargerð Tryggingastofnunar eru færð frekari rök fyrir synjuninni. Þar er meðal annars tekið fram að heimild 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 905/2021 um greiðslu uppbótar vegna reksturs bifreiðar á rekstrarleigu eigi við um kaupleigu. Vísar stofnunin hvað það varðar til 4. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar en þar segir að bifreið í kaupleigu geti fallið undir þau ákvæði reglugerðarinnar sem gera að skilyrði að bifreið skuli vera í eigu umsækjanda eða maka hans eða hún skráð á umsækjanda eða maka hans. Það sé því skilyrði að bifreið sé í eigu umsækjanda eða maka hans. Úrskurðarnefndin fellst ekki á framangreinda túlkun Tryggingastofnunar, enda eru hugtökin rekstrarleiga og kaupleiga aðgreind í reglugerðinni. Kemur því ekki til álita að leggja hugtökin rekstrarleiga og kaupleiga saman að jöfnu heldur verður að líta svo á að um sé að ræða ólíkar undanþágureglur frá þeirri meginreglu í 1. málsl. 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar að hinn hreyfihamlaði eða maki hans sé skráður eigandi bifreiðarinnar.

Þá telur úrskurðarnefndin rétt að benda á að í reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða, sem felld var á brott með núgildandi reglugerð, voru hugtökin einnig aðgreind. Í 5. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 170/2009 sagði að bifreið sem væri í rekstrarleigu hjá viðurkenndu fjármálafyrirtæki til langs tíma eða í kaupleigu gæti fallið undir þau ákvæði reglugerðarinnar sem geri að skilyrði að bifreið skuli vera í eigu umsækjanda eða maka hans eða hún skráð á umsækjanda eða maka hans. Í 4. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar kom fram að áður en uppbótin væri greidd skyldu lagðar fram upplýsingar um eignarhald bifreiðar. Skilyrði væri að hinn hreyfihamlaði eða maki hans væri skráður eigandi bifreiðarinnar eða hefði bifreiðina í rekstrarleigu til langs tíma. Úrskurðarnefndin bendir á að skilyrðið um að hafa bíl á rekstrarleigu til langs tíma var afnumið með reglugerð nr. 905/2021.

Að framangreindu virtu telur úrskurðarnefndin því að Tryggingastofnun hafi ekki verið heimilt að synja kæranda um uppbót vegna reksturs bifreiðar á þeim grundvelli að hún hafi ekki verið skráður eigandi bifreiðar.

Synjun Tryggingastofnunar á umsókn kæranda um uppbót vegna reksturs bifreiðar er því felld úr gildi. Málinu er heimvísað til nýrrar meðferðar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um uppbót vegna reksturs bifreiðar, er felld úr gildi. Málinu er heimvísað til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta