Mál nr. 670/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 670/2024
Miðvikudaginn 12. febrúar 2025
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.
Með rafrænni kæru, móttekinni 11. nóvember 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 29. október 2024 að synja umsókn um uppbót á lífeyri.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um uppbót á lífeyri frá 1. október 2024 með rafrænni umsókn 27. september 2024. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 29. október 2024, var umsókn kæranda synjað á þeim forsendum að tekjur væru yfir viðmiðunarmörkum. Undir rekstri málsins tók Tryggingastofnun nýja ákvörðun út frá breyttri tekjuáætlun. Með ákvörðun, dags. 2. desember 2024, var kæranda synjað á ný um uppbót á lífeyri á sömu forsendum og áður.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 11. nóvember 2024. Með bréfi, dags. 26. nóvember 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 29. nóvember 2024, fór stofnunin fram á frávísun málsins. Úrskurðarnefndin óskaði eftir afstöðu kæranda til frávísunarkröfu með bréfi, dags. 4. desember 2024. Með bréfi, dags. 19. desember 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir efnislegri greinargerð frá Tryggingastofnun ríkisins. Með bréfi, dags. 27. desember 2024, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. janúar 2025. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru er farið fram á endurskoðun ákvörðunar um synjun á umsókn um uppbót á lífeyri. Kærandi greinir frá því að tekjur hennar á mánuði séu 220.633 kr. frá Lífeyrissjóði verslunarmanna, 6.020 kr. frá Birtu lífeyrissjóði og 72.473 kr. frá Tryggingastofnun.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærðar séu synjanir stofnunarinnar um greiðslu uppbótar á lífeyri vegna lyfjakostnaðar, dags. 29. október og 2. desember 2024. Kærandi hafi kært framangreinda ákvörðun, dags. 29. október 2024, en hún hafi í millitíðinni lagt fram nýja tekjuáætlun. Tryggingastofnun hafi því tekið nýja stjórnvaldsákvörðun út frá breyttum forsendum sbr. bréf, dags. 2. desember 2024, og sé sú ákvörðun einnig kærð.
Í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð segi að heimilt sé að greiða lífeyrisþega uppbót á lífeyri vegna kostnaðar sem ekki fáist greiddur eða bættur með öðrum hætti ef sýnt þyki að hann geti ekki framfleytt sér án þess. Við mat á því hvort lífeyrisþegi geti framfleytt sér án uppbótar skuli taka tillit til eigna og tekna. Kostnaður sem komi til álita í þessu sambandi sé einkum umönnunarkostnaður, sem heimilishjálp eða aðrir opinberir aðilar greiði ekki, sjúkra- eða lyfjakostnaður og kostnaður vegna kaupa á heyrnartæki sem sjúkratryggingar greiði ekki, rafmagnskostnaður vegna súrefnissíunotkunar, húsaleigukostnaður sem falli utan húsaleigubóta og dvalarkostnaðar á dvalarheimilum, stofnunum svo og sambýlum og áfangastöðum sem hafi fengið starfsleyfi frá ráðuneyti eða reki sambærilega starfsemi.
Í 3. mgr. 9. gr. laganna segi að til tekna samkvæmt ákvæði þessu teljist allar skattskyldar tekjur, þar á meðal bætur almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, sem og erlendar tekjur sem ekki séu taldar fram hér á landi.
Í 11. gr. reglugerðar nr. 1200/2018 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, með síðari breytingum, sé fjallað um tekju- og eignamörk. Þar segi að uppbætur á lífeyri skuli aldrei greiddar til lífeyrisþega sem eigi eignir í peningum eða verðbréfum yfir 4.000.000 kr. eða hafi heildartekjur yfir 3.762.270 kr. á ári.
Málavextir séu þeir að með bréfum Tryggingastofnunar, dags. 29. október og 2. desember 2024, hafi kæranda verið synjað um greiðslu uppbótar á lífeyri vegna lyfjakostnaðar á þeim forsendum að tekjur hafi verið yfir viðmiðunarmörkum.
Kærandi hafi kært ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 29. október 2024, með kæru, dags. 11. nóvember 2024, sem hafi meðal annars verið byggð á forsendum tekjuáætlunar, dags. 29. október 2024. Í millitíðinni hafi kærandi skilað inn nýrri tekjuáætlun, dags. 12. nóvember 2024. Tryggingastofnun hafi því tekið nýja stjórnvaldsákvörðun út frá breyttum forsendum, sbr. bréf, dags. 2. desember 2024, þar sem kæranda hafi verið synjað um greiðslu uppbótar á lífeyri vegna lyfjakostnaðar, þar sem tekjur hennar hafi enn verið yfir viðmiðunarmörkum.
Samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 1200/2018 sé ekki heimilt að greiða uppbót á lífeyri til einstaklings ef heildartekjur hans séu hærri en 3.762.270 kr. á ári eða 313.523 kr. á mánuði. Til tekna teljist allar skattskyldar tekjur, þar á meðal bætur almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, sem og erlendar tekjur sem ekki séu taldar fram hér á landi.
Samkvæmt tekjuáætlun kæranda, dags. 14. október 2024, hafi hún áætlað 7.000.000 kr. í tekjur frá lífeyrissjóðum yfir árið. Kærandi hafi gert breytingar á tekjuáætlun, dags. 11. nóvember 2024, og hafi þá áætlað samtals 6.374.004 kr. í tekjur frá lífeyrissjóðum yfir árið. Framangreindar upphæðir séu báðar yfir viðmiðunarmörkum sem fram komi í reglugerð nr. 1200/2018. Þá beri að tilgreina að samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá Skattsins séu tekjur fyrir árið 2024 samtals 7.064.535 kr.
Í ljósi framangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðsla á umsókn kæranda, þ.e. að synja umsókn um uppbót á lífeyri, sé rétt miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu. Út frá reglugerð nr. 1200/2018 hafi Tryggingastofnun ekki heimild til að greiða kæranda uppbót á lífeyri vegna lyfjakostnaðar og því hafi henni verið synjað.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um uppbót á lífeyri vegna lyfjakostnaðar.
Í 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, segir:
„Heimilt er að greiða lífeyrisþega uppbót á lífeyri vegna kostnaðar sem ekki fæst greiddur eða bættur með öðrum hætti ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án þess. Við mat á því hvort lífeyrisþegi geti framfleytt sér án uppbótar skal taka tillit til eigna og tekna. Kostnaður sem kemur til álita í þessu sambandi er einkum umönnunarkostnaður, sem heimilishjálp eða aðrir opinberir aðilar greiða ekki, sjúkra- eða lyfjakostnaður og kostnaður vegna kaupa á heyrnartæki sem sjúkratryggingar greiða ekki, rafmagnskostnaður vegna súrefnissíunotkunar, húsaleigukostnaður sem fellur utan húsaleigubóta og dvalarkostnaðar á dvalarheimilum, stofnunum svo og sambýlum og áfangastöðum sem fengið hafa starfsleyfi frá ráðuneyti eða reka sambærilega starfsemi.
[…]
Til tekna samkvæmt ákvæði þessu teljast allar skattskyldar tekjur, þar á meðal bætur almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, sem og erlendar tekjur sem ekki eru taldar fram hér á landi. Eingreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga skal þó ekki telja til tekna lífeyrisþega.
[…]
Tryggingastofnun ríkisins metur þörf samkvæmt ákvæði þessu.
Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðis þessa, m.a. um tekju- og eignamörk.“
Reglugerð um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri nr. 1200/2018, með síðari breytingum, var sett með stoð í 6. mgr. 9. gr., sbr. 2. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð. Um tekju- og eignamörk segir í 11. gr. reglugerðarinnar að uppbætur á lífeyri skuli aldrei greiddar til lífeyrisþega sem eigi eignir í peningum eða verðbréfum yfir 4.000.000 kr. eða hafi heildartekjur yfir 3.762.270 kr. á ári.
Eins og áður hefur komið fram segir í 6. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð að ráðherra skuli með reglugerð meðal annars kveða nánar á um tekju- og eignamörk. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að í framangreindu ákvæði felist skýr heimild til handa ráðherra til að tilgreina tekjuviðmið umsækjanda um uppbót á lífeyri sem Tryggingastofnun þurfi að fylgja við mat á umsóknum um greiðslu uppbóta á lífeyri.
Í máli þessu snýst ágreiningurinn um synjun Tryggingastofnunar um uppbót á lífeyri sökum tekna. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá vegna ársins 2024 fékk kærandi 7.064.535 kr. í tekjur fyrstu ellefu mánuði ársins. Kærandi uppfyllir þar af leiðandi ekki tekjuskilyrði 11. gr. framangreindrar reglugerðar til að fá greidda umbeðna uppbót á lífeyri vegna ársins 2024, enda voru tekjur hennar töluvert umfram 3.762.270 kr. á því ári.
Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af gögnum málsins að kærandi uppfyllti ekki skilyrði fyrir greiðslu uppbótar á lífeyri á árinu 2024 sökum tekna.
Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um uppbót á lífeyri vegna lyfjakostnaðar á árinu 2024.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A, um uppbót á lífeyri vegna ársins 2024, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir